12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

106. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Forseti. Í núgildandi lögum um Húsnæðismálastofnun er svo ákveðið að þóknun húsnæðismálastjórnar og laun framkvæmdastjóra greiðist úr ríkissjóði. Við undirbúning fjárlaga var ákveðið að leggja til að hér yrði gerð breyting á, þannig að Byggingarsjóður greiddi þessar umræddu þóknanir.

Efni þessa frv. er því það, að þóknun húsnæðismálastjórnar og laun framkvæmdastjóra greiðist úr Byggingarsjóði ríkisins. Ég ætla að það sé algengt um slíka sjóði að kostnaður sem þessi greiðist af þeim sjálfum.

Rétt er að taka fram að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir og byggt á því að þetta frv. nái fram að ganga. Frv. var lagt fyrir Ed. og náði þar samþykki. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og félmn.