12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

89. mál, vörugjald

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta mál. Það er þó ástæða til fyrir mig að fara um það örfáum orðum, vegna þess að við eigum ekki fulltrúa í þeirri hv. nefnd sem um þetta mál hefur fjallað, fjh.- og viðskn. En ég vil láta það koma fram strax í upphafi að við munum greiða atkv. gegn þessu frv., staðfestingu þessara brbl.

Þetta gjald er, að því er ég hygg, einhver ranglátasti skattur — og er þá mikið sagt — sem lagður hefur verið á það fólk sem byggir hinar dreifðu byggðir þessa lands. Þó að menn séu að tala um 12% almennt vörugjald, þá hefur það verið svo í reynd, eins og hér hefur komið fram, að þetta hefur þýtt allt upp í 20 eða yfir 20% hækkun frá því sem áður var. Það, sem líka er slæmt í þessum efnum, er að ákvörðun um þessa gjaldtöku er með þeim hætti að það verður ekki annað sagt en hér hafi verið komið aftan að verkalýðshreyfingunni. Þetta gjald er á sett skömmu eftir að gengið var frá kjarasamningum á s. l. sumri og eins og einnig hefur komið fram er þetta gert án vitundar verkalýðshreyfingarinnar að einu eða neinu leyti. Að sjálfsögðu var þessu harðlega mótmælt, því að það lá fyrir þegar kjarasamningar voru gerðir og kannske miklu fyrr að ekki var um það að ræða að hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðar mundu framkvæma þann niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs á fjárlögum ársins 1975 sem þeir töldu þurfa til þess að með skikkanlegum hætti væri að þeim málum staðið. Það verður því að segjast að þessari skattlagningu var leynt af hálfu hæstv. ríkisstj. fram yfir þann tíma sem verkalýðshreyfing, vinnuveitendur og ríkisvaldið gengu frá málum á launamarkaðnum. Hér hefur því verið komið aftan að verkalýðshreyfingunni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu meira um þetta. Það er sem sagt ljóst að við munum greiða atkvæði gegn staðfestingu þessara brbl. En ég vil að síðustu aðeins varpa þeirri spurningu fram til hæstv. fjmrh. líklegast helst — eða einhvers ráðh. sem getur eða vill svara: Er það meiningin að þetta gjald, sem talað er um í fjárlagafrv. að eigi að falla niður, það falli niður um áramót, eða eru uppi hugmyndir um að það verði í einhverri mynd framlengt? Ég vildi gjarnan fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh., hverjum sem því vill svara, hvort það sé meiningin að þetta gjald falli niður um áramót.