12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

105. mál, söluskattur

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Á þskj. 163 geri ég grein fyrir afstöðu okkar alþb.-manna til þessa frv., auk þess hef ég gert það við 1. umr. þessa máls, en afstaða okkar er sú að við erum á móti frv. og leggjum til að það verði fellt. Ég þarf því í rauninni ekki að tala hér langt mál að þessu sinni.

Eins og þegar hefur komið fram í umræðum þá er aðalefni þessa frv. það að ríkissjóður ætlar nú að taka til sín þau 2 söluskattstig sem hafa nú um nokkurt skeið verið innheimt til Viðlagasjóðs. Hér er um það að ræða að ríkissjóður er að auka tekjur sínar miðað við ár um 2500 millj. kr. Það er skoðun okkar að nú hefði verið möguleiki á því að koma fram nokkurri verðlækkun sem hefði vissulega komið sér vel nú eins og mál standa, almennri verðhækkun sem hefði numið í kringum 2%, eða a. m. k. hefði verið hægt að nota þetta tækifæri til þess að hamla gegn hinni miklu verðbólgu sem alltaf er verið að ræða um. En það er ástæða til að vekja athygli á því að þegar möguleikar eru til að hamla gegn verðbólgunni virðist hæstv. ríkisstj. aldrei vera tilbúin til þess að taka þátt í slíkum ráðstöfunum, en hún talar býsna mikið um að verðbólgan sé of mikil og verði að koma í veg fyrir vöxt verðbólgunnar, a. m. k. við sérstakar aðstæður.

Það er enginn vafi á því að ríkissjóður hefði getað aflað sér nægilegra tekna fyrir rekstur sinn, eins og nú standa sakir, með öðrum hætti en þessum. Við höfum bent á að það er ekki eðlilegt að gera ráð fyrir að lækka innflutningstolla á vörum, aðallega iðnaðarvörum, frá Efnahagsbandalagslöndum sem nemur 800 millj. kr. á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., allra síst á meðan mál standa eins og þau standa nú þar sem Efnahagsbandalagslöndin standa ekki við þennan tollalækkunarsamning af sinni hálfu, en við höfum staðið við hann með því að lækka hingað til verulega tolla á vörum frá þeim. Ég tel ekki, eins og nú standa sakir, ástæðu til að framkvæma þessa tollalækkun. Á þennan hátt gæti ríkissjóður sparað sér í kringum 800 millj. kr. Auk þess er svo það, að eins og hér hefur margsinnts verið bent á eru möguleikar á því að breyta tekjuskattslögum þannig að ýmsir þeir aðilar, sem nú sleppa gjörsamlega við að greiða tekjuskatt, greiði eðlilegan hluta tekjuskatts af sinni hálfu. Það er hægt að koma fram slíkum breytingum og væri vitanlega alveg sjálfsagt við núverandi aðstæður, eftir því sem þörf ríkisins er á auknum tekjum. Auk þessa kæmi svo vissulega til greina ýmiss konar sparnaður í ríkisrekstrinum í heild. Það er því skoðun okkar að nú hefði átt að nota tækifærið og lækka söluskattsinnheimtuna um 2 stig og hamla þannig nokkuð gegn hækkandi verðlagi, enda hefði það vissulega komið sér vel í sambandi við þau miklu vandamál sem fram undan eru varðandi lausn kjaramála sem nú eru á næsta leiti.

Það hefur verið á það minnst að í þessu frv. er einnig að finna ákvæði um að hlutdeild sveitarfélaganna í landinu í söluskattstekjunum er aukin nokkuð frá því sem verið hefur, eða samkv. áætlun um 600 millj. kr. á ári. Við alþb.-menn erum samþykkir þessu atriði sem stefnumáli. En vegna þess að það er líka gert ráð fyrir að í kjölfar þessarar samþykktar komi að leggja á sveitarfélögin ný útgjöld, umfram það sem áður var, sem nemur þessari sömu fjárhæð, þá skiptir þetta ekki miklu máli. Ég hygg að mjög margir sveitarstjórnarmenn væru fullt eins ánægðir með að vera án þessa hluta af söluskattinum og slyppu þá líka við að taka á sig þau nýju útgjöld sem er verið að ræða um að leggja á sveitarfélögin. Sem sagt, hér er ekki um mikilvægt atriði að ræða nema ætlunin væri að auka við tekjur sveitarfélaganna af söluskattinum án þess að ætla að leggja á þau sérstakar nýjar útgjaldakvaðir.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Afstaða okkar alþb.-manna eru sú að við erum á móti frv. í heild, en verði síðari málsgr. 1. gr. frv. borin upp sér, munum við greiða atkvæði með síðari málsgr. 1. gr., því að við erum ekki á móti því ákvæði sem þar er að finna út af fyrir sig.