12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

105. mál, söluskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. gerði ég grein fyrir afstöðu okkar til þess, en ég tel rétt að ítreka það aðeins við 2. umr., eftir að málið er búið að fá meðferð í nefnd.

Eins og hér hefur komið fram er um að ræða tvenns konar breytingu frá gildandi lögum og reglum, og meginefni þessa frv. er að ríkissjóður fái sem tekjur andvirði tveggja söluskattsstiga sem áður hafa runnið til Viðlagasjóðs. Þetta er meginefnið, og ég hef lýst því yfir að þessu erum við andvígir. Við teljum að það væri réttara, ekki síst undir þeim kringumstæðum sem nú ríkja, að fella þetta algjörlega niður og nota tækifærið sem gefst til þess að auka tekjur ríkissjóðs með öðrum og skynsamlegri hætti. Hér hefur fyrst og fremst verið bent á eina leið, að vísu fleiri en fyrst og fremst eina, þ. e. að breyta tekjuskattslögum þannig að þeir þúsund aðilar í þjóðfélaginu, sem hingað til hafa ekki greitt til samfélagsins, en ættu svo sannarlega að gera það, yrðu nú til þess skyldaðir.

Þetta er sem sagt meginefni þessa frv., en auk þess er hér um að ræða aukningu á hlutdeild sveitarfélaga í söluskattsstigunum, og því hef ég lýst yfir að við værum sammála. Í grg. frv. er gert ráð fyrir því að síðar komi annað eða önnur frv. sem fela í sér breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það verður að teljast furðulegt og ég fyrir mitt leyti vil harðlega átelja það að slík frv. skuli ekki vera fram komin enn ef það er á annað borð meining hæstv. ríkisstj. að afgreiða slík mál hér fyrir jólahlé. Það verður að teljast furðulegt að lagafrv. sem afgreiða á fyrir jólahlé sem er eftir u. þ. b. viku, skuli ekki enn vera farin að sjást.

Ég vil taka það fram varðandi síðari málsgr. 1. gr. að við munum greiða atkv. með henni. Það hefur komið fram ósk um að 1. gr. yrði borin upp í tvennu lagi og við munum að sjálfsögðu greiða atkv. með síðari málsgr. þeirrar gr. Ég vil ítreka það, sem ég sagði við 1. umr., að aukin hlutdeild sveitarfélaga í söluskattsstigunum er nauðsyn, þó að engin verkefni eigi þar að fylgja sem á að taka af ríkissjóði yfir til sveitarfélaga. Fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu er nú svo háttað og hefur verið um nokkurn tíma að þar er nauðsyn að gera á úrbætur. Og sú aukning, sem þarna er um að ræða er að því er menn telja nú um 600 millj. kr., en fer sífellt lækkandi, a. m. k. frá því að fjárlagafrv. var lagt fram hér á Alþ. Þá var hún áætluð allt upp í 754 millj. Þessarar tekjuaukningar er þörf hjá sveitarfélögunum þó að engum verkefnum verði á þau bætt frá því sem nú er.

Ég vil sem sagt ítreka það, að við erum andvígir meginefni þessa frv. og munum greiða atkv. gegn því að þessi 2 söluskattsstig, sem runnið hafa til Viðlagasjóðs, renni nú til ríkissjóðs, en við munum greiða atkvæði með hinum þætti málsins, sem er um að auka hlutdeild sveitarfélaga í söluskatti.