12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

97. mál, kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að fara að mæla gegn þessu frv., en ef ég man rétt er annað frv. hér einnig sem liggur fyrir, þ. e. um kaupstaðarréttindi handa Garðahreppi. Nú kann þetta að vera rétt stefna. En það var fjölgað nokkuð kaupstöðum á síðasta Alþ. og þess vegna vil ég aðeins beina því til þeirrar n., sem um þetta fjallar, hvort ekki sé ástæða til að fara að líta meira heildstætt á þessi mál heldur en að láta þetta ganga til með þessum hætti, að breytt sé allmörgum sveitarfélögum í kaupstaði á hverju ári. Bæjarfógetinn í Hafnarfirði og sýslumaðurinn í Kjósarsýslu verður orðinn bæjarfógeti í nokkuð mörgum kaupstöðum um það er lýkur, og hrepparnir í sýslunni, sem eftir sitja, verða orðnir býsna fáir.

Ég held að það sé full ástæða til þess að líta á þessi mál nokkuð almennt og hvort eigi ekki að setja einhver almenn mörk fyrir því hvenær hreppur á að öðlast kaupstaðarréttindi. Það dregur enginn í efa að báðir þeir hreppar, sem ég nefndi, eru að fólksfjölda til þannig settir að þeir jafnast á við marga kaupstaði sem fyrir eru og þess vegna á engan hátt neitt óeðlilegt þó að þeir vilji öðlast kaupstaðarréttindi. En það var aðeins þessi ábending, sem ég vildi koma á framfæri, að mér sýnist að með þessu geti verið stefnt í nokkurt óefni ef haldið er áfram á þessari braut, án þess að litið sé á málin í heild. Mér kæmi ekki á óvart þó að það kallaði innan tíðar á breytingu, að því er varðar sýsluskipunina, því að ég sé ekki betur en að sum sýslufélögin geti með þessu áframhaldi orðið lítt starfhæf. En eins og ég sagði, þá mega þessi orð mín ekki skoðast sem nein andmæli út af fyrir sig við þetta frv., heldur aðeins ábending um hvort ekki væri rétt að hafa aðra starfsaðferð við þetta en verið hefur. Það er ósköp eðlilegt að einstakir þm. verði við óskum um að flytja frv. um að þessi og þessi hreppurinn í þeirra kjördæmi verði kaupstaður, en ég sé ekki fyrir endann á þeirri þróun ef hún á að halda áfram án þess að menn athugi ofurlítið betur til hvers hún leiðir.