12.12.1975
Neðri deild: 29. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

97. mál, kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir með hæstv. dómsmrh. að það verði farið að athuga þessi mál heildstætt. Sannleikurinn er sá að ég held að það sé ástæða fyrir því, að svo margir hreppar hafa sótt um kaupstaðarréttindi, að það hefur ekkert gerst í endurskoðun á sveitarstjórnarlöggjöfinni. Og það er vissulega ástæða til að það verði gert. Ég held að eftir því sem fleiri hreppar, og þá stærstu hrepparnir í hverju sýslufélagi, segja sig úr dögum við sýslufélagið, ef svo má segja, og sækja um kaupstaðarréttindi, þá verði mönnum ljósara smátt og smátt að við búum við úrelta skipan í þessum efnum. Það er alveg ljóst að þegar sýslufélögin sitja eftir sem samtök minnstu hreppanna á hverju svæði verða þau ekki þess megnug að leysa neitt verulegt verkefni af hendi.

Það kann vel að vera nokkuð andkannalegt að sýslumaður í einu sýslufélagi sé jafnframt bæjarfógeti í svo og svo mörgum kaupstöðum. Þannig getur þetta orðið hér á Reykjanessvæðinu þegar bæjarfógetinn í Hafnarfirði verður sýslumaður í Kjósarsýslu og bæjarfógeti í þremur kaupstöðum ef frv. um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi verður að lögum. Á sama hátt verður sýslumaðurinn í Gullbringusýslu bæjarfógeti í þremur kaupstöðum, Keflavík, Grindavík og Njarðvík, ef frv. um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi verður að lögum. Þetta kann vel að vera andkannaleg skipan. En þá verður það eitt með öðru sem kallar á endurskoðun í þessum málum öllum.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að ræða spurninguna sem hv. þm. Friðjón Þórðarson varpaði hér fram, hvað hv. þm. vildu um þessi lögboðnu samtök sveitarfélaganna, sýslufélögin, hvort þeir vildu heldur landshlutasamtökin. Ég held að sú spurning sé alls ekki á dagskrá hér og sé ekki ástæðu til þess að ræða hana.