12.12.1975
Efri deild: 26. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

107. mál, snjóflóð á Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hygg að þm. öllum séu í fersku minni þeir voveiflegu atburðir sem urðu til þess að stofnað var til Viðlagasjóðs á sínum tíma. Og við munum sennilega allir, sem áttum sæti þá á Alþ., bæði þegar eldar komu upp í Heimaey og eins þegar snjóflóðin féllu yfir Neskaupsstað, vera minnugir þeirra yfirlýsinga sem þá voru gefnar um stuðning við fólkið og byggðarlög þess.

Ýmsir hafa nú, þegar þetta frv. kemur fram, dregið í efa að Viðlagasjóður, þ. e. a. s. Vestmannaeyjadeildin, væri fær um að taka við meira verkefni en henni var ætlað. Ég vil þess vegna fagna því að stofnað hefur verið til þess að gerð verði sérstök úttekt á stöðu Vestmannaeyja nú. Það liggur fyrir að bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur áætlað að bæjarsjóður þyrfti á sérstöku framlagi að halda sem hún metur 1000 millj. kr., og telur að mundi koma þeim að fullu gagni með því að skipta þeirri greiðslu á 4 ár. Ég reikna með því að bæjarstjórnin fari hér nokkuð nærri því að vita um ástandið. Eigi að síður er margt af því, sem þar kemur fram, byggt á lauslegum athugunum og þess vegna segi ég það og endurtek, að ég fagna því að í þessi mál skuli farið að nýju af sérstökum úttektarmönnum.

Ég vil einnig benda á það, að atvinnufyrirtækin á staðnum, frystihúsin, sem voru þar mjög vel rekin og vel stæð á sínum tíma, þegar eldarnir komu upp, hafa að sjálfsögðu hvergi nærri náð þeirri fótfestu sem þeim er nauðsynlegt að hafa í jafnumsvifamiklum athafnabæ og Vestmannaeyjar voru og eru orðnar þegar.Þau hafa átt í örðugleikum nú að undanförnu, miklum fjárhagsörðugleikum og sennilega öllu meiri en nokkurs staðar annars staðar. Margir voru farnir að vona að til þeirra erfiðleika mundi ekki koma, en reyndin er sú eftir þann rekstrartíma sem liðinn er frá því að menn fluttu út aftur, að vonir manna um stöðu þeirra hafa að nokkru brugðist. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega fagna því að hæstv. forsrh, hefur hér staðfest fyrri loforð og yfirlýsingar ríkisstj. í þessu efni, þó að ég fyrir mitt leyti hefði enga ástæðu til að ætla annað en að ríkisstj. væri ákveðin í því að standa við þær yfirlýsingar sem gefnar höfðu verið. Ég fagna því þó að þetta er rifjað upp og þetta er staðfest hér. Þó að við þm. þurfum ekki að efast um að við þetta verði staðið, þá eru þeir, sem fyrst og fremst þurfa að njóta þessara bóta, fólkið sem fyrir ósköpunum varð, sennilega öllu tortryggnara en áhorfandinn getur að öllum jafnaði skilið. Þess vegna þakka ég fyrir að þær yfirlýsingar hafa verið gefnar, og ég mun að sjálfsögðu styðja þetta frv.