21.10.1975
Sameinað þing: 5. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

11. mál, dagvistunarheimili

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða og ekki óeðlilegt að það komi upp nú á hinu blessaða kvennaári, þegar allt á að gera konum í vil. En ég hnaut ofurlítið um staðhæfingu hv. 5. landsk., Svövu Jakobsdóttur, þegar hún talaði um það stórátak sem vinstri stjórnin hefði gert í þessum málum. Sannleikurinn var sá, og það á vinstri stjórn þakkir skilið fyrir, að hún kom í gegn þessari löggjöf sem var á allan hátt þörf og eðlileg. En framkvæmd þessara laga var, eins og við munum öll sem fylgdumst með þessum málum, í mjög svo smáum stíl. Ég man ekki betur en fyrsta árið eftir að lögin tóku gildi væru veittar 4 millj. fyrir allt landið, á meðan Reykjavíkurborg ein varði um 60 millj. kr. til þessara þarfa.

Ég vil eindregið taka undir ummæli um þörf þessara stofnana. Reykjavíkurborg hefur hér riðið á vaðið eðlilega, því að hér hefur þörfin verið mest. En ég tók eftir því í skýrslu ráðh, að í æ vaxandi mæli sækja staðir úti á landi um þessa aðstoð. Þar er þörfin, að ég hygg, ekki síður brýn og full ástæða til að gera sér grein fyrir þörfum þeirra kvenna úti um land sem vinna að framleiðslustörfum og þurfa að vera daglangt burtu frá heimilum sínum og eru margar hverjar illa settar vegna skorts á barnagæslu.

Ég vil því heils hugar taka undir að aukið framtak á þessu sviði á fullan rétt á sér. Ég sé ekki að þessi fjárveiting í fjárlagafrv. sé í ósamræmi við frv. í heild. Það hafa minnkað fjárveitingar til opinberra framkvæmda, til barnaheimila sem annarra. Við hægjum á okkur í bili. En ég vil eindregið vona, að síðar, þegar við réttum úr kútnum efnahagslega, getum við gert betra og meira átak fyrir landið allt í þessum efnum.