15.12.1975
Neðri deild: 30. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

98. mál, lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég hef nú ekki mjög margar aths. fram að færa við ræðu hæstv. fjmrh., en það er þó ástæða til þess að víkja að örfáum atriðum.

Hann sagði að þetta hefði verið gert í stjórnartíð þeirrar ríkisstj., sem ég hafði verið stuðningsmaður að, og ég hefði ekki þá haft uppi andóf og viljað betri vinnubrögð. Það er að vísu ekki rétt hjá hæstv. fjmrh. En ég verð að segja það, að ég bjóst við meira af hæstv. fjmrh. þegar hann stýrir ferð heldur en óbreyttum — eins og menn oft tala um — óbreyttum þm. og þar að auki nýgræðingi á Alþ. Ég ætlast til meira af hv. þm. sem hafa langa reynslu að baki, ekki síst þegar þeir eru komnir í þá aðstöðu að geta í raun og veru ráðið um vinnubrögð og meðferð mála. Ég ætlast til þessa, en hæstv. fjmrh. virðist hafa verið annarrar skoðunar. Hann telur ekki að það hafi verið ástæða til fyrir sig að fara eftir þeirri gagnrýni sem hann sjálfur hafði uppi á vinnubrögð fyrrv. hæstv. ríkisstj. Hann vill sjálfur falla í þá sömu gröf, að segja annað um sama málefni í stjórn en stjórnarandstöðu og það er hans mál.

En út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við niðurskurðinn, þá heyrði ég ekki ræðu hv. þm. Benedikts Gröndals og minnist þess ekki að ég hafi verið með neinar sérstakar óskir um að fá að skera niður um 10 eða 15% þetta eða hitt. Ég sagði að það væri hugsanlegt ef slíkt lægi á borði að menn vildu gera greinarmun á hinum ýmsu útgjaldaliðum, hvað væri skorið niður um tiltekna prósentu, 10 eða 15% eða 5%, eða hvort á að skera bókstaflega allt saman um sömu prósentutölu. Menn geta orðið að gera upp á milli þess ef þeir standa frammi fyrir því.

Hæstv. fjmrh. sagði að hér væri aðeins um heimildaratriði að ræða — og það er rétt — málið kæmi síðan til fjvn. Það er freistandi að rifja upp þá niðurskurðarpólitík sem framkvæmd var undir handarjaðri hæstv. fjmrh. á s. l. sumri. Það var heimildarniðurskurður líka upp á 3500 millj. kr. Í framkvæmd var þessi niðurskurður með þeim hætti að hæstv. ríkisstj. gerði till. til fjvn. um niðurskurð upp á 2 milljarða kr. Meiri hl. hæstv. ríkisstj. í fjvn. fór að þessum óskum ráðh. um að skera niður um 2 milljarða kr. Þegar sá niðurskurður fór aftur til hæstv. ríkisstj. féllst hún ekki á þann óskalista sem hún sendi meiri hl. fjvn. til niðurskurðar sem þm. úr hinum ýmsu kjördæmum voru búnir að staðfesta og fallast á, en breyttu þessum niðurskurði í rúmlega 1 milljarð, þ. e. a. s. hæstv. ráðh., sem lögðu fram óskalistann um niðurskurð, féllust ekki á samþykkt hinna ýmsu þm. úr hinum ýmsu kjördæmum um niðurskurð á framkvæmdum í þeirra eigin kjördæmi. Þetta eru einhver mestu skrípavinnubrögð sem hugsast geta þegar slík meðferð mála á sér stað og það er slíkt sem þarf að koma í veg fyrir. Ég þykist vita að hæstv. fjmrh. ætli sér ekki að viðhafa slík vinnubrögð aftur gagnvart sínum stjórnarliðum, en ég held að það sé full ástæða til þess að skoða betur allar hugmyndir í sambandi við niðurskurð sem menn eru að tala um.

Ég ítreka það að frv. sem þetta sem ekki er að efni til meira, hefði ekki þurft að biða eftir því í tvo mánuði að koma til umr. hér á Alþ. Þetta hefði verið hægt að vera búið að afgreiða og snúa sér að þeim fjöldamörgu málum og málaflokkum sem eftir er að afgreiða í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Hvað sem hæstv. fjmrh. segir um vinnubrögð, þá held ég að tiltölulega margir hv. þm. séu sammála um það, að þó að oft hafi verið illa að málum staðið á undanförnum árum eða áratugum og vinnubrögðum almennt í sambandi við þinghaldið og ekki síst í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, þá held ég að keyri um þverbak nú. Það á vissulega eftir að koma fram í umr. um fjárlagafrv. hér við 2. umr. á morgun og ekki ástæða til að fara lengra út í það varðandi þetta frv. En eftir stendur sem sagt að það hlýtur að vera lágmarkskrafa hv. þm. að þeir fái um það upplýsingar hvaða frv. það eru eða lagabálkar sem á að skera niður um 5% og í öðru lagi hvaða tölur þar er um að ræða í heild. Það hlýtur að teljast eðlilegt að þm. fái um slíkt vitneskju. Eðlilegust vinnubrögð hefðu verið að upplýsingar um slíkt hefðu verið í þessu frv. fyrst hæstv. fjmrh. ætlar að láta þær upplýsingar í té á annað borð.

Ég skal ekki hafa fleiri orð hér um, en ég ítreka sem sagt að a. m. k. frá mínum bæjardyrum séð er hér ekki um skynsamleg vinnubrögð að ræða í sambandi við þessi mál.