15.12.1975
Neðri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

119. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð er þess efnis að 1% af fob.-verði útfluttra sjávarafurða, annarra en þeirra sem koma frá hvalveiðum, selveiðum og hrognkelsaveiðum, gangi til Fiskveiðasjóðs, og skal gjald þetta reiknað á sama hátt og annað útflutningsgjald af sömu vörum. Þetta er framhald af því sem hefur verið innheimt skv. lögum frá 25. apríl 1973, en þá var þetta gjald tímabundið, sem sagt frá 1. júlí 1973 til 31. des. 1975. Þá er jafnframt til viðbótar þessu gjaldi lagt til að framlag til Fiskveiðasjóðs frá ríkissjóði verði jafnhátt því árlega, þykir rétt að þetta fylgist að. Miðað við þær kvaðir sem á Fiskveiðasjóði hvíla, einkum vegna erlendra skulda vegna þeirra skipakaupa sem átt hafa sér stað ú undanförnum árum og eiga sér stað enn, er fjárþörf Fiskveiðasjóðs á næsta ári talin vera um 1480 millj. vegna erlendra skipakaupa. Þetta eru skuldbindingar sem Fiskveiðasjóður verður að standa við og eins er áætlað að lánsþörf vegna tækja og viðgerða muni verða um 500 millj. og skuldbindingar sjóðsins vegna innlendu skipasmiðanna er áætlað að muni nema allt að 1804 millj. kr. Eftir eru svo vinnslustöðvarnar, en í áætlun á s. l. ári var reiknað með í milljarði til þeirra, svo að fjárþörfin verður vafalaust, þó að einhver niðurskurður verði gerður, liðlega 4 milljarðar. Talan til erlendra skipakaupa er útreiknuð og sú skuldbinding liggur fyrir. Innlenda skipasmiði má kannske lækka eitthvað frá upprunalegri áætlun, en verður sennilega mjög nálægt þessari upphæð, þannig að aðalútgjöld eða lán Fiskveiðasjóðs eru til þessara tveggja hluta.

Nú er sjóðakerfi sjávarútvegsins í endurskoðun. Þeirri endurskoðun er ekki lokið, en mjög langt komið. Þykir því ekki fært að fella niður innheimtu á útflutningsgjaldinu. Hins vegar verður það tekið til athugunar með heildarendurskoðun sjóðakerfisins fyrir augum og sömuleiðis verður þá að taka ákvörðun um mótframlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs.

En til þess að gera langt mál stutt, þá er breyt. með þessu frv. sú ein að innheimta 1% útflutningsgjald eins og verið hefur og framlag ríkissjóðs verði enn fremur í gildi þangað til heildarendurskoðun sjóðakerfisins lýkur. En þessar skuldbindingar hvíla á Fiskveiðasjóði, og ég fæ engan veginn séð að það sé með einu pennastriki hægt að taka jafnþýðingarmikinn tekjustofn frá sjóðnum eins og sumir menn í hagsmunasamtökum útvegsmanna hafa lagt til.

Forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. sjútvn.