15.12.1975
Efri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

121. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. þetta frv. um breyt. á lögum um almannatryggingar gerir ráð fyrir því að breyta nokkuð greiðslum til sérfræðinga á þann veg, að þær hækki úr 300 kr. í 600 kr., og greiðslu samlagsmanna á lyfjakostnaði á þann hátt, að lyf samkv. lyfjaverðskrá I verði 300 kr. í stað 200 kr. sem nú er og lyf samkv. lyfjaverðskrá H fari í 600 kr. í staðinn fyrir 400 kr. eins og nú er. Þá er enn fremur lagt til að greiðslur fyrir röntgengreiningu og geislameðferð samkv. gjaldskrá, sem daggjaldanefnd setur, hækki í 600 kr. fyrir hverja röntgengreiningu og jafnframt að ráðh. er með reglugerð heimilt að breyta greiðslum samlagsmanna samkv. þessari kr. svo og að ákveða með reglugerð hámark eininga lyfjaávísana. Að vísu er heimilt fyrir ráðh. að breyta greiðslu samlagsmanna með reglugerð, en ekki er ákvæði í lögum um að hægt sé að ákveða með reglugerð hámark lyfjaávísana.

Þetta teljum við rétt að gera, því að fengin reynsla sýnir að skammtarnir, sem læknir setur á lyfseðil, geta orðið óeðlilega stórir, og auðvitað eftir því sem samlagsmaður greiðir hærri upphæð, þá vaknar kannske frekar sú viðleitni að auka magn á hverjum lyfseðli. En það höfum við séð og sennilega þekkjum allir, hve mikið hleðst upp af meðulum hjá fólki sem það notar ekki vegna þess að oft er ríflega tekið til, og svo verða þessi lyf ónýt með tíð og tíma.

Það er 1. gr. frv. sem gerir ráð fyrir þessum hækkunum á lyfjaverði og röntgengreiningu og greiðslum til sérfræðinga.

Í 2. gr. er sú breyting að framlög sveitarfélaga skuli greiðast til sjúkrasamlags mánaðarlega miðað við fjárhagsáætlun, en er í gildandi lögum ársfjórðungslega.

3. gr., sem er nú raunverulega aðalefni þessa frv., er á þá teið að á árinu 1976 skuli sveitarfélög innheimta 1% álag á gjaldstofn útsvara og skuli þau standa sjúkrasamlögum skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu þess mánaðarlega, þannig að ekkert sveitarfélag eigi að greiða meira en það innheimtir hverju sinni. Við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlag ríkissjóðs til sjúkrasamlaga samkv. 49. gr. skal taka tillit til þessa framlags til hlutfallslegrar lækkunar á framlagi ríkissjóðs. Það þykir ekki fært að setja inn í 49. gr. laganna ákveðinn hundraðshluta af hækkun sveitarfélags í sjúkratryggingunum vegna þess að þá gæti orðið þar eitthvert bil á milli þess sem er í raunveruleikanum, þannig að sum sveitarfélög þyrftu þá að greiða meira en þessi gjaldstofn leyfir eða þá önnur minna, svo að rétt er talið að halda þeim hlutföllum sem eru í gildandi lögum, þ. e. 90%, sem er ríkisgreiðslan, og 10%, sem er greiðsla sveitarfélaga, og við það bætist þetta, enda mun þetta ekki gilda nema á árinu 1976.

Almannatryggingalöggjöfin er í endurskoðun. Þar hefur verið unnið mjög mikið starf af hálfu þess manns sem tók að sér endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar, Guðjóns Hansens, tryggingafræðings, og nú þegar hefur hafið störf sú nefnd sem allir þingflokkarnir eiga fulltrúa í og að því á að stefna að þessari endurskoðun verði lokið fyrir næsta haust þannig að ný löggjöf taki þá gildi.

Samkv. þessu er ekki gerð till. um neinar breyt. á lífeyristryggingunum. Þær halda áfram á þessu ári óbreyttar. Það, sem kom til greina að gera, var að auka á einhvern hátt framlag þeirra sem þurfa að liggja á sjúkrahúsum, að þeir greiði það beint til sjúkrahúsanna að einhverju leyti, eða að leggja persónugjöld á íbúa landsins, skattþegnana, eða þá að fara þessa leið, að gefa sveitarfélögunum heimild til þess að hækka útsvarsgjaldstofninn um 1%. Að þessu máli mjög vandlega athuguðu var talið, að eðlilegast væri að leggja þessi útgjöld á menn eftir tekjum, en ekki í formi nefskatts eða greiðslu þeirra sem eru á sjúkrahúsum.

Þó að þetta frv. verði samþykkt, þá er ekki því að leyna að það gerir ráð fyrir nýjum útgjöldum á samlagsmeðlimi upp á 480 millj. kr. 100 millj. kr. er talið að hægt sé að spara í framkvæmt tryggingakerfisins á árinu 1976, og þá hefur verið reiknað með að spara mætti það í framkvæmdinni nokkurn veginn jafnt á lífeyristryggingum og sjúkratryggingum.

Hækkun á framlagi ríkissjóðs til trygginganna hefur verið gífurleg á undanförnum árum, og þrátt fyrir þetta frv. er hækkunin á sjúkratryggingunum einum tæpir 4 milljarðar á milli áranna 1975 og 1976. Sjúkrarúmum fjölgar verulega og svo koma kauphækkanir. Þær koma mjög tilfinnanlega við þennan líð, því að talið er að í sjúkrahúsarekstrinum séu 70% launakostnaður, sem er auðvitað af eðlilegum orsökum mjög hátt hlutfall þar sem hér er um að ræða stofnanir sem eru reknar allan ársins hring og allan sólarhringinn og þess vegna er launakostnaður auðvitað mjög mikill í þessum rekstri.

Það má líka um það deila og á það benda að ríkissjóður hefði alveg eins getað bætt þessu á og hækkað fjárlögin sem þessu nemur. Við teljum aftur að það sé eðlilegt að framlag sveitarfélaganna eða þeirra þáttur í sjúkratryggingunum hækki frá því sem verið hefur. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna það að um 60% af sjúkrahúsum í landinu eru undir stjórn og í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila, en 40% eru aftur ríkisreknu sjúkrahúsin. Af þessum sökum er eðlilegt að auka hlutdeild sveitarfélaganna í sjúkrahúsarekstrinum. Ég fyrir mitt leyti tel brýna nauðsyn bera til þess, að breyta daggjaldareglunum, sem nú hafa verið í gildi um nokkurt árabil, á þann veg að taka upp fjárhagsáætlanir hjá öllum sjúkrahúsum — ekki eingöngu ríkisspítölum eins og nú er gert — og taka upp nokkurs konar norm og ákveða daggjöldin fyrir fram. Þá sé ég ekki annað mögulegt en að taka tillit til kauphækkana og umtalsverðra verðhækkana annarra á því tímabili sem þessi daggjöld eiga að gilda, en afnema með öllu að ríkissjóður greiði hallann af sjúkrahúsunum eftir á, eins og nú er, því að með þessu fyrirkomulagi eru öllum gefnar frjálsar hendur í þessum efnum, og þeir, sem sýna mestan sparnað og aðhald, segja sumir hverjir: Til hvers erum við að þessu þegar hallinn er greiddur eftir á og færður inn í sjúkratryggingarnar? — Þetta er auðvitað sjónarmið sem á fullan rétt á sér og yrði til þess að veita frekara aðhald, enda verðum við alls staðar að sýna aðhald í okkar þjóðarbúskap og þá auðvitað ekki síst í tryggingamálunum sem eru eins gífurlega stór útgjaldaliður ríkieins og raun ber vitni.

Hins vegar vil ég taka það fram, að það hefur aldrei hvarflað að mér að skerða ellilífeyri þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. En það segir ekki að það megi ekki endurskoða lífeyristryggingarnar mjög gaumgæfilega, t. d. hvað snertir menn sem halda fullu starfi til 70 ára aldurs. Það orkar mjög tvímælis hvort þeir eigi að fá ellilaun að auki með fullum launum, en hitt orkar ekki tvímælis, að tekjulausa fólkið og öryrkjarnir verða að fá tekjutryggingu og það má síst af öllu skerða tekjutrygginguna frá því sem hún er nú, heldur jafnvel að auka hana, enda hefur hún fullkomlega fylgt þeim verðbreytingum sem orðið hafa nú á síðasta ári og þessu ári.

Þessi mál eru auðvitað ekki til umræðu í sambandi við endurskoðun tryggingalöggjafarinnar, enda eiga þingflokkarnir þar allir sína fulltrúa eða koma til með að eiga sína fulltrúa sem fjalla um það mál. svo að ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. En í sambandi við frv. er hér ekki um aðra breytingu að ræða en á þessum lyfjaverðskrám. Hitt er óbreytt eftir sem áður, að sjúklingar, sem eru með lítt læknandi eða langvarandi sjúkdóma, eins og asmasjúklingar, glákusjúklingar, berklasjúklingar, flogaveikisjúklingar og hjartasjúklingar og sjúklingar með efnaskiptasjúkdóma, þeir fá sín lyf eftir sem áður ókeypis, og sama er um sjúklinga sem fá lyf ókeypis að ráði læknis, enda komi þar til samþykki trúnaðarmanns sjúkrasamlags, svo sem geðsjúklingar og Parkinsonssjúklingar og exemsjúklingar, það er allt saman óbreytt.

Mér er ljóst að það er ekki hægt fyrir þá þm., sem fengu þetta frv. nú fyrir nokkrum mínútum, að ræða það efnislega við 1. umr. málsins. Ég hefði fyrir mitt leyti kosið að vera fyrr á ferðinni með þetta frv., en vegna þess að dagurinn á morgun fer í fjárlagaumræður og þetta frv. þarf að fara í gegn áður en Alþ. fer í jólafrí, þá lagði ég á það áherslu að frv. kæmi hér í dag til 1. umr. og það yrði svo athugað í nefnd, og þeir þm., sem ekki þekkja til hlítar efni frv., hafa þá tækifæri til þess að ræða það frekar efnislega þegar það kemur frá nefnd.

Herra forseti. Ég vil leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og trn.