15.12.1975
Efri deild: 28. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

121. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. að við höfum rétt náð að lesa yfir þetta frv. og tæplega það og getum þess vegna ekki tekið afstöðu til þess í nánum efnisatriðum. Ég verð nú að segja það, að það er þó þakkarvert að fá þetta frv. fram í dag, miðað við að fá það fram á miðvikudaginn, því að það er þó örlítið meiri tími sem gefst til þess að líta á það, þó að ég hljóti að mótmæla því hvað þetta frv. er síðla fram komið.

Hér er um viðkvæm mál að ræða, allsherjarlöggjöf þar sem stöðug sókn hefur verið fram á við og allir flokkar hafa tekið í þátt á einhverjum tíma og verið í raun, skulum við segja, áhugamál allra að sem lengst mætti ná á þeirri samhjálparbraut sem okkar tryggingalöggjöf byggir á. Það var þegar ljóst við framlagningu fjárlaganna nú í haust að á þessu yrði nú nokkur breyting. Þá var boðuð skerðing á framlögum til almannatrygginganna og þá þegar var lýst yfir andstöðu Alþb. við þá skerðingu. Síðan er nokkur tími liðinn, og við vitum að þetta mál hefur verið allnáið til umfjöllunar í báðum stjórnarflokkunum. Þar hefur svo sannarlega verið margra leiða leitað og óánægju og ósamkomulag hefur verið mikið, svo að ekki sé meira sagt. Við höfum fengið fréttir af ýmsum tillögum sem fram hafa komið varðandi þessi skerðingarákvæði og úrslitin úr þessu öllu saman liggja nú fyrir okkur og sýnilega er hlaupið til þess í snarhasti, miðað við þann aðallið sem þetta frv. felur í sér.

Ég hef sem sagt rétt aðeins lesið þetta yfir. Það er þó þakkarvert einnig að mér sýnist frv. sjálft vera töluvert einfalt og liggja allljóst fyrir hvað gera á. Það á sem sagt varðandi þá, sem leita sér sérfræðiaðstoðar, og þá, sem þurfa á lyfjum að halda, að bæta á þá um 480 millj. kr. Það er rétt að taka undir það sem hæstv. ráðh. kom inn á varðandi þá sem þarna sleppa alveg, og er þakkarvert að þeir skuli áfram sleppa, engin skerðing verða á kjörum þeirra sem þjást af langvarandi sjúkdómum eða illlæknanlegum. Engu að síður er það þó einkennandi að það skuli vera til þessara aðila leitað, sjúklinga sem þurfa þó oft á miklum lyfjum að halda þrátt fyrir það að þeir séu ekki í hópi þeirra sem þarna eru undanskildir —- og á sérfræðiþjónustunni einnig. Sannleikurinn er auðvitað sá, að álögur eru fullkomlega nægar á fólki í dag þó að þessu sé ekki á það bætt í þessu formi.

Ég get út af fyrir sig fagnað því ef hæstv. ráðh. ætlar að sjá svo til að sparnaður í tryggingakerfinu, þ. e. a. s. í framkvæmd þess, geti orðið um 100 millj., eins og mér skildist áðan. Mér skilst þá helst að eigi að fara fram — ja, maður gæti ímyndað sé einhvers konar endurskoðun á Tryggingastofnun ríkisins og þar yrði gerð einhver hreingerning, en þó getur vel verið að þarna sé um eitthvað annað að ræða sem maður fær þá síðar upplýst. Hins vegar er greinilegt að aðallausnin, sem er farið út í til þess að fullnægja nú öllu réttlæti varðandi ákvæði fjárlagafrv. í haust og til þess að þóknast nú hæstv. fjmrh. um minnkandi ríkisumsvif, — sú lausn, sem þar hefur verið hlaupið til, hefur áreiðanlega fundist nú á allra síðustu dögum, hygg ég. Hún hefur kannske verið til umræðu áður, en hún hefur farið mjög hljótt því að við höfum ekkert heyrt um þessa patentlausn sem nú er upp fundin varðandi þessi mál. Ég verð að segja það að mér þykir þessi lausn við fyrstu yfirsýn heldur brosleg, þ. e. a. s. það er hlaupið frá því að láta ríkið greiða þennan hluta, en sveitarfélögin eiga að gera það í gegnum álagningu á sama fólkið og ríkið hefði annars þurft að leita til. Þetta er sem sagt álagning á almenning í öðru formi, breytir engu um álögur á fólk vitanlega og er eingöngu til þess að koma rós í hnappagat hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. um leið, að nú sé hann að vinna eitt stórafrekið enn í því að minnka ríkisumsvif. Það er greinilegt að þetta hlýtur að vera ein ástæðan beinlínis til þess, því að mér lýst svo á að það verði vart um það að ræða að þetta breyti miklu um það aukna aðhald sem hæstv. ráðh. vék að, og reyndar stendur ekkert í frv. um þetta. Mér líst ekki heldur á innheimtuna gagnvart sveitarfélögunum, og mér hefur skilist það einhvern veginn að þau væru ekki allt of fús til þessa og til skamms tíma — það er þá alveg nýlega breytt — þá held ég að sveitarfélögin hafi verið uppi með kröfur um að losna við sjúkratryggingarnar að fullu og öllu. Það er þá misskilningur hjá mér ef svo er ekki. Og það væri fróðlegt að vita hver væru viðbrögð sveitarfélaganna eða hvaða samráð hefði verið haft við samtök sveitarfélaganna hér um. Það fæst e. t. v. upplýst hér á eftir eða þá í nefnd væntanlega, og er þá sjálfsagt í góðum tengslum og góðu samræmi við frv., sem við eigum nú alltaf von á líka hérna, um nýja verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem kannske sér dagsins ljós og kannske ekki, eins og hæstv. ráðh. orðaði það í morgun. Við eigum þá eftir að sjá hversu vel það samrýmist því frv., ef það þá sér dagsins ljós nú fyrir jól.

Ég sem sagt harma það hvað þetta frv. er síðla fram komið, og ég lýsi yfir þegar í upphafi algjörri andstöðu míns flokks við þetta frv. Ég treysti hins vegar á það — og veit að þar er hv. form. heilbr.- og trn. manna líklegastur til að fara að óskum manna — að nefndin, sem fær þetta mál til umfjöllunar, fái þann mesta mögulega tíma til athugunar á frv. sem hægt er að fá. Það hefur verið boðaður fundur á morgun í þessari nefnd, og ég vænti þess a. m. k. eindregið að þessu máli verði ekki hespað af á þeim fundi, þó að e. t.v. sé ekki um annað að gera en að feta í fótspor áreiðanlega töluvert margra stjórnarsinna og taka bara af skarið. Þeir sem sagt eru búnir að segja já við því sem þeir eru ábyggilega ekki mjög hrifnir af sumir hverjir. En við hins vegar hljótum að segja hreint nei við þessum aðförum.

Mig langar til þess aðeins að varpa hér fram hvort það hafi ekki komið til greina í sambandi við þessa tilfærslu frá ríkinu til sveitarfélaganna, eins og þarna er farið fram á, að hækka framlög atvinnurekenda til þessa kerfis, skattleysingjanna okkar víðfrægu. Það mætti svona varpa þeirri spurningu fram nú við þessa umræðu.

Ég skal ekki hafa miklu fleiri orð hér um. Ég fæ tækifæri til þess að fjalla um þetta mál í nefnd og gera svo nánar grein fyrir skoðun minni á þessu máli öllu þegar það kemur aftur frá nefndinni. En ég hlýt að harma og mótmæla því hvernig þetta mál er til komið. Ég get aðeins huggað mig við það, — það er lítil huggun í því reyndar, — en ég get huggað mig við það að mörgum stjórnarsinnanum er ekki mjög rótt innanbrjósts núna út af þessu máli. Þeir hafa verið að velta þessu máli fyrir sér og hnakkrifist um þetta mál fram og til baka eins og við vitum og áreiðanlega ganga margir sárnauðugir til þessa leiks að lokum. En það er auðvitað hæpin huggun í þessu máli og þá sérstaklega þegar allur sá mikli sparnaður, sem þarna átti að fara fram, öll þessi stórkostlega minnkandi ríkisumsvif lýsa sér í beinni tilfærslu að mestu leyti í þá átt að sveitarfélögin taki að sér að rukka inn sömu peninga og ríkið áður gerði, og svo að hinu leytinu að bæta á sjúklinga ýmsa, sem þurfa á mikilli lyfjanotkun, mikilli sérfræðiþjónustu að halda án þess að vera undanþegnir þessum kostnaði, — bæta á þá þessum ótöldu millj. sem þeir þurfa með þessu frv. Allt þetta gerir það að verkum að ég hlýt að lýsa yfir andstöðu við frv.