16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1217 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

1. mál, fjárlög 1976

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til fjárlaga fyrir árið 1976 hefur fjvn. haft til athugunar allt frá byrjun þessa þings og rætt málið á samtals 38 fundum sínum. Þó er þess að geta að nokkru fyrir þingtímann átti undirnefnd fjvn. með sér nokkra fundi þar sem hún m. a. ræddi sérstaklega við forstöðumenn ríkisstofnana um fjármagnsþörf þeirra og annað er rekstur umræddra ríkisstofnanna varðar.

Við athugun á fjárlagafrv, hefur n. að öðru leyti haft sömu vinnubrögð sem áður, þ. e. skipt með sér verkum til athugunar á vissum málaflokkum frv. og þá sérstaklega þeim málaflokkum sem falla undir verklegar framkvæmdir, svo sem nýbyggingar skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og hafnarframkvæmdir. Þá hefur n. notið góðrar samvinnu og aðstoðar hagsýslustjóra og starfsmanna fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og hefur það komið n. að ómetanlegu gagni við afgreiðslu málsins.

Þá vil ég síðast, en ekki síst þakka meðnm. mínum öllum fyrir ánægjulegt samstarf í nefndinni. Gildir þar einu máli um stjórnarandstæðinga sem samherja, því að allir hafa jafnan verið reiðubúnir til að leggja sig fram til að auðvelda nefndarstörfin við hin erfiðu skilyrði sem nú eru vissulega fyrir hendi. Fyrir þá góðu samvinnu vil ég sérstaklega þakka.

Enda þótt fjvn. hafi ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins og skili því tveim nál., þá er það svo að brtt. á þskj. 169 flytur n. sameiginlega, en minni hl. tekur fram, eins og fram kemur í nál., að hann hefur óbundnar hendur um afstöðu til einstakra tillagna sem fram kunna að verða bornar og áskilur sér einnig rétt til að flytja frekari brtt.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjvn. er óhætt að fullyrða að fjárlagagerðin fyrir árið 1976 fer fram við óvenjulegar aðstæður í þjóðarbúskapnum. Meiri og sneggri efnahagsáföll hafa dunið yfir þjóðina en dæmi eru til um áður allt frá þeim tíma er lýðveldið var stofnað. Benda má á að á erfiðleikaárunum 1967–68, þegar saman fór aflabrestur og stórfellt verðfall sjávarafurða, minnkuðu þjóðartekjur á mann á milli ára um 8%, en nú er gert ráð fyrir 9% lækkun þjóðartekna á mann á yfirstandandi ári og á árinu 1974 var ekki um neina aukningu þjóðartekna á mann að ræða frá fyrra ári, en í spá Þjóðhagsstofnunar fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir að enn verði um minnkun að ræða sem nemi a. m. k. 1%.

Sú spá, sem nú liggur fyrir og ég hef nú lýst, er því að þriðja árið í röð er um raunverulega minnkun þjóðartekna að ræða. Afleiðing þessa er að sjálfsögðu stórfelld skerðing viðskiptakjara eða yfir 30% á skömmum tíma, þ. e. a. s. gífurleg hækkun á verðlagi innfluttra nauðsynja í erlendri mynt samtímis verulegri lækkun á útflutningsverðlagi á íslenskum afurðum, og á vissum þáttum sjávarútvegsframleiðslunnar hefur verið um sölutregðu að ræða eða þá að útflytjendur hafa orðið að sætta sig við óhagstætt markaðsverð. Þessi áföll þjóðarbúsins hafa átt drýgstan þáttinn í því að verulegur viðskiptahalli í utanríkisversluninni hefur átt sér stað á undanförnum missirum og gjaldeyrisvarasjóðurinn er ekki lengur fyrir hendi.

Vegna ástandsins í afkomu atvinnuveganna varð ekki hjá því komist bæði árið 1974 og 1975 að gripa til gengisbreytinga til að koma í veg fyrir stöðvun fiskiskipaflotans og forða frá atvinnuleysi og draga um leið úr þeirri óhóflegu eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri sem jafnan er fyrir hendi þegar röng gengisskráning á sér stað.

Þessi efnahagsáföll og ráðstafanir gegn þeim hafa óhjákvæmilega bitnað hart á afkomu ríkissjóðs. Dregið hefur verulega úr innflutningi, sérstaklega á hátollavöru, m. a. bifreiðum, sem haft hefur í för með sér hlutfallslega lækkun tekna ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum. Afleiðing þessa er síðan sú, að mikill greiðsluhalli hefur orðið hjá ríkissjóði bæði árin 1974 og 1975 og það þrátt fyrir margvíslegar ráðstafanir sem gerðar hafa verið til þess að draga úr eða koma í veg fyrir umræddan halla. Má í því sambandi benda á aukna tekjuöflun sem átti sér stað á yfirstandandi ári með álagningu á sérstöku 12% vörugjaldi og enn fremur með þeim niðurskurði á fjárlögum sem framkvæmdur var. Í samráði við fjvn. var tekin ákvörðun um allt að 2000 millj. kr. niðurskurð. Fjmrn. hefur nú látið í té yfirlit um þessa framkvæmd.

Ég hygg að flestir hv. þm. geti verið sammála um að eins og nú er komið í íslenskum efnahagsmálum þá beri brýna nauðsyn til þess að ná sem allra fyrst jöfnuði í ríkisbúskapnum, en til þess að svo megi verða verður að leggja ríka áherslu á að draga svo sem verða má úr ríkisútgjöldum, sem varða opinberan rekstur, og fjárfestingu, sem ekki er í beinu sambandi eða stuðlar að aukinni framleiðslu. Slík stefna er nú þjóðarnauðsyn.

Í dag ríkir meiri óvissa um efnahag þjóðarinnar en oftast áður. Til þess liggja margar ástæður og ef til vill ekki síst sú óvissa sem blasir við um vertíðaraflann og þá sérstaklega með tilliti til hinnar nýútgefnu skýrslu fiskifræðinganna hvað viðkemur verðmætasta fiskstofninum, þorskinum. Ef til þess kemur að draga verður verulega úr sókn íslenska fiskiskipaflotans er einsýnt að enn skapast vandamál sem íslenska þjóðin á eftir að takast á við.

Það er þetta alvarlega ástand, sem ég hef nú rakið í stórum dráttum, sem sett hefur svip sinn á gerð þess fjárlagafrv. sem hér er til umr. Sama máli gegnir einnig um störf fjvn. Í fjárlagafrv. er fylgt þeirri stefnu að draga stórlega úr áformum ráðuneyta og ríkisstofnana um rekstrarútgjöld og minnka magn fjárfestingar á vegum hins opinbera, þegar frá eru skilin orkumál, en þau eiga eins og kunnugt er í stjórnarsamningnum að hafa forgang.

Meiri hl. fjvn. hefur haldið fast við þessa stefnu í afstöðu sinni við afgreiðslu málsins í n. Kemur þetta m. a. fram í því að fjárveitingar til stærstu líða fjárfestingar í landinu eru ekki hækkaðar í brtt. n., en slíkt ætla ég að sé einsdæmi þótt leitað sé langt til baka. Þessi aðhaldsstefna fjvn. kemur einnig fram í því, að n. hefur ekki séð sér fært að taka upp nema örfáar brtt. til hækkunar nú við 2. umr., en það skal þó tekið fram að nú bíða óvenjumörg atriði enn hjá n. nánari athugunar, en koma þá til afgreiðslu við 3. umr. málsins. Meðal þeirra málaflokka, sem enn bíða endanlegrar afgreiðslu hjá n., eru framlag til leiklistarskóla, til jöfnunar námsaðstöðu, ferjubryggna, sjóvarnargarða, Framleiðslueftirlits sjávarafurða, kaupa og rekstrar skips til landhelgisgæslu, Byggingarsjóðs verkamanna og til almannatrygginga og starfsliðs ríkisspítala, löggæslu, Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Biður afgreiðsla þessara málaflokka til 3. umr.

Þá hafa n. nú sem jafnan áður undir afgreiðslu fjárlagafrv. borist fjölmörg erindi frá stofnunum, einstaklingum og samtökum sem flest hafa falið í sér beiðni um fjárhagslegan stuðning eða fyrirgreiðslu svo og leiðréttingar sem valda hækkunum á útgjöldum fjárlagafrv. N. hefur reynt eftir föngum að kynna sér þessi erindi, en hefur að þessu sinni einungis getað sinnt fáum þeirra, eins og ég hef áður að vikið. N. er að sjálfsögðu ljóst að í fjölmörgum tilfellum hefur orðið að synja fjárbeiðnum til málefna sem vissulega verðskulda fjárhagslegan stuðning hins opinbera, en verða því miður að bíða betri tíma.

Þá vil ég geta þess að nú hin síðari ár hefur það farið mikið í vöxt að sendinefndir utan af landsbyggðinni og forsvarsmenn sveitarfélaga óska eftir að fá sérstaka fundi með n. til að fylgja eftir beiðnum sínum um fjárveitingar til hinna ýmsu framkvæmda sem ríkissjóður stendur undir að meira eða minna leyti. Fjvn. hefur undantekningarlaust orðið við þessum tilmælum sveitarstjórnarmanna og auk þess margra einstaklinga sem erindi hafa átt við n., en allt þetta er mjög tímafrekt.

Svo sem kunnugt er og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. um fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að sveitarfélög fengju nú stærri skerf af söluskatti en áður eða sem næmi 600 millj. kr. Þar á móti skyldu koma ákveðin verkefni sem millifærðust frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaganna og þá fjármögnuð af þeim. Um þennan þátt fjárlagafrv. hefur því myndast biðstaða. Hafa samningar staðið yfir á milli aðila um hvaða málaflokkar það væru sem sæta skyldu umræddri fjármagnsmillifærslu. Mér skilst að samningar um þessi mál hafi nú a. m. k. að mestu leyti tekist, og mun n. hafa það samkomulag til viðmiðunar þegar hún gengur endanlega frá frv.

Það, sem mér er tjáð að samist hafi um í þessum efnum, er að sveitarfélögin taki að sér í fyrsta lagi viðhald skóla, en sá þáttur er metinn á 220 millj., rekstur dagvistunarheimila sem er metinn á 120 millj., elliheimili, þau eru metin á 60 millj., almenningsbókasöfn 20 millj., heimilishjálp 27 millj., vinnumiðlun um 5 millj., orlof húsmæðra 8 millj. og akstur skólabarna 30 millj., eða þetta samtals 490 millj. kr. Þá er eftir mismunur sem svarar 110 millj. kr. Sé hins vegar miðað við tölur fjárlagafrv. er hér um meiri mismun að ræða, þar sem fjárveitingar til sömu málaflokka eru í fjárlagafrv. áætlaðar nokkru lægri en talið er að í samkomulaginu felist.

Eins og áður hefur komið fram fór fram á yfirstandandi ári endurskoðun á starfsmannahaldi ríkisins og ríkisstofnana með það fyrir augum að kannað sé hvort um starfsmenn sé að ræða, sem ekki hefur verið heimiluð ráðning á af hendi réttra aðila.

Eins og hv. þm. er kunnugt um hefur nú verið gefin út starfsmannaskrá yfir alla starfsmenn í opinberri þjónustu. Kemur þar í ljós að í kerfinu eru um 100 manns sem engin heimild var fyrir hendi að ráðnir yrðu til hinna umræddu starfa. Allir þessir 100 eru stjörnumerktir í skránni og til að standa undir kostnaði af launum þeirra er ekki ein króna í fjárlagafrv.

Flestir munu vera þeirrar skoðunar að hér sé um meira vandamál að ræða en svo að allt þetta starfslið verði strikað út með einu pennastriki. Hefur því verið um það rætt í fjvn. að ekki verði komist hjá því við 3. umr. að setja inn fjárupphæð til að mæta a. m. k. hluta af þeim launakostnaði sem hér er um að ræða. N. verður síðar, eftir áramót, með aðstoð hagsýslustofnunar að meta hvaða viðbótarstarfsmannafjöldi það er sem ekki verður komist hjá að ráða í störf á ný.

Eins og fram kemur í aths. við fjárlagafrv. hafa allt frá árinu 1963 að frumkvæði fjmrn. verið samdar árlegar framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir vegna þeirra ríkisframkvæmda sem fjármagnaðar eru með lánsfé. Í áratug voru þessar áætlanir lagðar fram sérstaklega og yfirleitt eftir að nokkrir mánuðir voru liðnir af árinu sem um var fjallað hverju sinni. Á þessu varð breyting haustið 1973 er framkvæmda- og fjáröflunaráætlun þessi fyrir árið 1974 var sameinuð fjárlögum.

Þessar áætlanir hata allt til þessa eingöngu náð til lánsfjáröflunar til helstu opinberra framkvæmda, en ekki annarrar lánastarfsemi. Nú er hins vegar sú lánsfjáráætlun, sem lögð verður fram fyrir árið 1976, látin ná til allrar lánastarfseminnar.

Brtt. fjvn. um tekjubálk fjárlagafrv. bíða til 3. umr. eins og venjulega. Þó skal tekið fram að upphafleg tekjuáætlun fjárlagafrv. var í aðalatriðum miðuð við kauplag og verðlag eins og það var í októbermánuði s. l., til samræmis við áætlunargrundvöll gjaldahliðar frv. Meginforsenda um magnbreytingar veltustærða á árinu 1976 var sú, að almenn þjóðarútgjöld yrðu sem næst óbreytt að magni frá því sem spáð var fyrir árið í ár.

Tekjuáætlun frv. hefur nú verið endurskoðuð með tilliti til betri vitneskju um líðandi ár, auk þess sem Þjóðhagsstofnunin miðar nú við verðlag og kauplag í desember.

Forsendur um magnbreytingar og veltustærða telur stofnunin að séu óbreyttar frá því sem er í frv., enda séu þær í aðalatriðum svipaðar og áður var upplýst. Þjóðhagsstofnunin er sem sagt að leggja síðustu hönd á spá sína sem varðar tekjubálk frv., og verður gerð grein fyrir endanlegri niðurstöðu þar um við 3. umr. málsins.

Ég mun þá víkja með nokkrum orðum að þeim brtt. sem fjvn. flytur á þskj. 169. Kemur þar fyrst brtt. við Raunvísindastofnun háskólans þar sem laun hækka vegna sérfræðings í reiknistofu um 665 þús. kr. sem eru hálf laun sérfræðings, en tekjur lækka um 7 millj. kr., en það er vegna þess að tekjur voru upphaflega áætlaðar í frv. með tilliti til að keypt yrði ný tölva. Frá því var hins vegar horfið og af því leiðir umrædd tekjulækkun.

Við stofnun Árna Magnússonar eru tvær brtt. sem fela í sér að laun hækka um 500 þús. kr., en liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður lækkar um sömu upphæð. Er gert ráð fyrir að ráðinn verði að stofnuninni ljósmyndari, ungur maður sem numið hefur sérstaklega ljósmyndun handrita. Það er talið skylda íslendinga að geta látið fræðimönnum og vísindastofnunum í té ljósmyndir af handritum þeim sem við fáum frá Danmörku, að sjálfsögðu gegn hæfilegri þóknun. Slík þjónusta er nú veitt af sambærilegum stofnunum víðs vegar um heim.

Þá er næst brtt. við Rannsóknaráð ríkisins þar sem lagt er til að inn sé tekinn nýr liður: Ylræktarverkefni í Hveragerði að upphæð 3 millj. kr. Rannsóknaráð ríkisins gerði fyrir 2 árum frumathugun á hagkvæmni ylræktar í gróðurhúsasamstæðu með fyllstu nýtingu jarðhitans og raflýsingu. Slíkur atvinnurekstur virðist mjög álitlegur, og var því ákveðið að ráðast í sérstaka rannsókn á þeim þáttum sem óvissastir eru: hagkvæmni hámarkslýsingar og markaðsmálin. Leitað var til Sameinuðu þjóðanna um tækniaðstoð og fékkst aðstoð samtals að upphæð 8.1 millj. ísl. kr. Mótframlag Íslands var áætlað samtals 14 millj. 774 þús. kr., en þó var gert ráð fyrir að hægt mundi vera að komast af með minni upphæð. Það er með tilliti til þess að lagt er til að tekinn sé nú upp nýr líður í þessu skyni að upphæð 3 millj. kr.

Næst er brtt. við Byggingarsjóð rannsókna í þágu atvinnuveganna. Liðurinn hækkar um 3 millj. 862 þús. kr., en það er vegna vanáætlunar á vöxtum.

Til námsskrárgerðar á verknámsstigi hækkar fjárveiting um 3 millj. kr. og verður samtals 14 millj. 820 þús.

Til Tækniskóla Íslands hækkar gjaldfærður stofnkostnaður um 71/2 millj. og verður þá samtals 36 millj. — Næst er till. n. varðandi iðnskóla, að liðnum gjaldfærðum stofnkostnaði, að upphæð 32 millj. og 300 þús. kr., verði skipt á milli hinna ýmsu iðnskóla í landinu samkv. yfirlíti sem er á þskj. 169. — Til fiskvinnsluskóla hækkar liðurinn gjaldfærður stofnkostnaður um 2 millj. kr. og verður þá samtals 5.8 millj., en upphæð sú er sérstaklega ætluð til tækjakaupa fyrir skólann. — Lagt er til að liðurinn hússtjórnarskólar, gjaldfærður stofnkostnaður, sem er í frv. að upphæð 5.7 millj. kr., skiptist á milli tveggja hússtjórnarskóla, þannig að Laugarvatn fái 4.7 millj. og Laugar 1 millj. — Til Myndlista- og handíðaskólans hækkar fjárveiting um 500 þús. kr., verður samtals 1 millj. 327 þús. kr. og er sérstaklega ætluð til áhaldakaupa fyrir textíldeild skólans sem mikil nauðsyn er á að endurbæta.

Þá er næst lagt til að liðurinn viðhald við sjómannaskólahúsið hækki um 6.4 millj. kr. og verði samtals að upphæð 14 millj. kr. Hér er mikið verk að vinna við að koma þessu stóra skólahúsi í viðunandi ástand, þar sem viðhald skólans hefur um of verið vanrækt á undanförnum árum. Með þessari upphæð ætti að vera unnt að taka fyrir vissan þátt í viðhaldi skólans.

Næst koma till. n. um skiptingu á fjárveitingu til héraðsskóla, samtals að upphæð 120 millj. 650 þús. kr., en það er óbreytt fjárupphæð frá því sem er í fjárlagafrv. Um skiptingu á milli hinna einstöku héraðsskóla vísast til þess sem fram kemur á þskj. 169.

Þá er næst lagt til að inn sé tekinn nýr liður, Skálholtsskóli, fjárveiting að upphæð 5 millj. kr., framlag vegna stofnkostnaðar skólans.

Næst eru till. um framlög til byggingar grunnskóla og íbúða fyrir skólastjóra. Er lagt til að heildarfjárveiting hækki um 3 millj. 72 þús. kr. og verður því samtals 1 milljarður 22 millj. 236 þús. kr. Um skiptingu milli einstakra framkvæmda vísast til þess sem fram kemur í yfirlíti á þskj. 169.

Til Myndlistarskólans í Reykjavík er lagt til að fjárveiting hækki um 360 þús. kr. og verður þá samtals 1200 þús.

Næst eru till. um hækkun fjárveitinga til leiklistarstarfsemi. Lagt er til að styrkur til Leikfélags Reykjavíkur hækki um 800 þús. kr. og styrkur til hinnar almennu leiklistarstarfsemi hækki um 1 millj. kr. og hluti Leikfélags Akureyrar úr þeirri upphæð verði hlutfallslega hinn sami og var af þessum fjárlagalið á yfirstandandi ári.

Til Tónlistarskóla Garðakaupstaðar er till. um 500 þús. kr. byggingarstyrk.

Þá er næst till. um hækkun fjárveitinga til Íþróttasjóðs vegna rekstrarstyrkja að upphæð 1 millj. 950 þús. kr., og til byggingar íþróttamannvirkja hækkar liðurinn um 292 þús. kr. Verða því gjöld samtals vegna þessa 94 millj. 842 þús. kr. Um skiptingu milli einstakra framkvæmda og styrkveitinga vísast til þess sem fram kemur á þskj. 169.

Þá kemur liður um æskulýðsmál. Lagt er til að fjárveitingar til Æskulýðsráðs lækki um 400 þús. kr., en inn komi nýr liður með sömu upphæð til Æskulýðssambands Íslands. Er þessi breyting gerð að höfðu samráði við báða aðila sem óskuðu eftir þeirri breytingu sem hér er lagt til að gerð verði. — Til Ólympíunefndar hækkar fjárveiting um 1 millj. og verður samtals 2 1/2 millj. kr.

Til sumarnámskeiða í Leirárskóla hækkar fjárveiting um 500 þús. — Til Sædýrasafnsins í Hafnarfirði vegna stofnkostnaðar er till. um 400 þús. kr. hækkun, þannig að fjárveiting verður þá samtals til stofnkostnaðar Sædýrasafnsins 2 millj. kr.

Þá er lagt til að fjárveiting til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hækki um 1 millj., en það er vegna verðtryggingar landgræðsluáætlunar. — Fjárveiting til Skógræktra ríkisins hækkar af sömu ástæðum um 7 millj. og 300 þús. kr. — Til Landgræðslu ríkisins hækkar framlag um 15 millj. og 900 þús. kr. sem greinist þannig að liðurinn rekstrargjöld hækkar um 21/2 millj. og gjaldfærður stofnkostnaður um 13 millj. og 400 þús. kr., þar af vegna verðtryggingarákvæða landgræðslu- og gróðurverndaráætlunar um 10 millj. og 900 þús. kr. — Til Landnáms ríkisins er lagt til að liðurinn til byggingar íbúðarhúsa hækki um 3 millj. kr. Hér er talið að sé um verulegan skuldahala að ræða, miðað við þær reglur sem landnámsstjórnin hefur sett.

Við embætti dýralæknis er lagt til að inn sé tekinn nýr liður um dýralæknabústaði, viðhald að upphæð 2 millj. kr.

Þá er á þskj. 169 till. fjvn. um skiptingu á fé til fyrirhleðslna, samtals að upphæð 23 millj. 944 þús. kr. Um skiptingu á milli einstakra verkefna vísast til þess sem fram kemur á þskj. Hér er um óbreytta heildarupphæð að ræða. Sama máli gegnir um skiptingu á fé til landþurrkunar.

Þá er lagt til að liðurinn Jarðræktar- og húsagerðasamþykktir hækki um 675 þús. kr. — Lagt er til að inn sé tekinn nýr líður til heykökuverksmiðju á Svalbarðsströnd, að upphæð 650 þús. kr.

Til Bændaskólans á Hvanneyri hækkar fjárveiting um 3 millj. vegna byggingar skólastjóraíbúðar. — Þá er till. um að launaliður við Bændaskólann á Hólum hækki um 1 millj. og 20 þús. kr. Er það vegna ráðningar á einum nýjum kennara sem skólinn á rétt á samkv. lögum.

Lagt er til að inn sé tekinn nýr liður til sjóvinnunámskeiða, að upphæð 2.5 millj. kr. Á undanförnum árum hefur á vegum Fiskifélags Íslands verið efnt til sjóvinnunámskeiða úti um land, en nú er hins vegar gert ráð fyrir að sjóvinnukennsla verði í ríkari mæli tekin upp í gagnfræðaskólakerfinu. Samt sem áður eru ný lög um Sjóvinnuskóla Íslands frá 23. maí 1975, þar sem heimilt er að stofna farskóla í sjómennsku, og skal menntmrn. setja reglugerð um námskeið og kennslutíma, en Fiskifélag Íslands annast rekstur skólans. Er talið nauðsynlegt að þessu sinni að verja þeirri fjárupphæð, sem hér um ræðir, til þessa námskeiðahalds.

Þá er brtt. um að liðurinn önnur rekstrargjöld á skrifstofu Rannsóknastofnana atvinnuveganna hækki um 1 millj. 929 þús. kr., en þar er um augljósa vanáætlun að ræða.

Vegna fangelsis í Síðumúla er lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 1 millj. sem einnig er vegna vanáætlunar.

Næst er brtt. um hækkun fjárveitingar til Bifreiðaeftirlits ríkisins. Það er liðurinn önnur rekstrargjöld, að þau hækki um 3.6 millj. kr. Er það vegna hækkunar á kostnaði við húsnæði, ljós og hita, en stofnun þessi hefur nú tekið á leigu allstórt húsnæði að Bíldshöfða 8 hér í bæ.

Þá er lagt til að styrkur til Slysavarnafélags Íslands hækki um 1 millj. kr., en það er vegna aukins kostnaðar við tilkynningarskyldu fiskiskipa.

Þá er næst till. n. um skiptingu á fjárveitingum til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva, læknisbústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa, samtals að upphæð 795 millj. 625 þús. kr. Skal vísað til þess er fram kemur á þskj. 169 um skiptingu fjárveitinga á milli einstakra framkvæmda. Í þessari upphæð er liðurinn elliheimili að upphæð 50 millj. 790 þús. kr. En ákvörðun um, hvernig farið verður með þann lið, biður 3. umr., eins og ég hef áður að vikið.

Þessu næst eru till. nefndarinnar um styrktarfé, ýmis eftirlaun, embættismenn. Vísast um það til þess sem fram kemur á þskj. 169 um þá, sem falla niður af styrktarfjárskrá, og hina, sem við bætast.

Til hafnarmála leggur n. til að liðurinn hafnarmannvirki og lendingarbætur verði 675 millj. kr. og skiptist sú upphæð til einstakra hafnarmannvirkja eins og fram kemur á sérstökum lista á þskj. 169. Hér er um 9.6 millj. kr. lægri upphæð að ræða en er í frv., en við 3. umr. er gert ráð fyrir að fjárveitingar til ferjubryggna verði afgreiddar og mun þá þessi upphæð væntanlega verða fullnýtt.

Liðurinn flugmálastjórn hækkar í A-hluta fjárlagafrv. um 5 millj. 139 þús. kr. og verður þá 621 millj. 268 þús. kr. samtals. Í B-hluta frv. hækkar hins vegar liðurinn alþjóðlegt flugsamstarf um 15 millj. 139 þús. kr. Og liðurinn seldar vörur og þjónusta hækkar þar á móti um 10 millj. kr. Þegar gengið var frá fjárlagafrv. lágu ekki fyrir endanlegar tölur um greiðsluskyldu íslendinga hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni. Var þá byggt á bráðabirgðaáætlun, en endanlegar tölur liggja nú fyrir. Það er með tilliti til þessa sem talið er nauðsynlegt að gera þá breytingu sem hér er lagt til.

Þá er næst brtt. sem felur í sér 280 þús. kr. fjárveitingu til rekstrar athugunarstöðvar á Rjúpnahæð í Reykjavík til að fylgjast með brennisteins- og sýrumagni í lofti og úrkomu. Gert er ráð fyrir að þessi rannsókn fari fram á vegum Veðurstofunnar. Hér er ekki um nýja starfsemi eða rannsókn að ræða frá byrjun, þar sem slík rannsókn hefur átt sér stað undanfarin 3 ár og er talin þar með komin af byrjunarstigi, en undir þeim kostnaði hefur Rannsóknaráð ríkisins staðið. Það sér sér hins vegar ekki fært að standa undir þessum kostnaði lengur. Er því talið rétt að verða við þeirri beiðni sem hér er farið fram á.

Þessu næst leggur fjvn. til að orðalagsbreyting eigi sér stað, að liðurinn 11 207 verði til þjálfunar og eftirmenntunar í rafiðnaði. Svo sem kunnugt er er fjárlagaliður með þessu sama nafni í fjárlögum yfirstandandi árs að upphæð 3.5 millj. kr. Þeirri fjárveitingu hefur verið ráðstafað til námskeiðahalds víðs vegar um landið, en námskeið þessi eru árangur af samstarfi rafiðnaðarmanna í Danmörku, byggð á rannsóknum og reynslu aðila vinnumarkaðarins. Alls hafa verið haldin hér á landi 14 námskeið sem rúmlega 190 manns hafa sótt, en til viðbótar er búið að ákveða 4 námskeið: á Akureyri, Selfossi, Keflavík og Reykjavík, þannig að heildartala þátttakenda verður um 240 manns. Þessi eftirmenntun rafiðnaðarmanna verður að teljast mjög nauðsynleg og þá sérstaklega með tilliti til nauðsynlegrar þjónustu við fiskiskipaflotann í sambandi við hina margbrotnu siglinga- og fiskleitartæki sem sjávarútvegurinn hefur tekið í þjónustu sína.

Þá er næst till. um að framlag til Iðnlánasjóðs hækki um 2.5 millj. og sömuleiðis lagt til að framlag til Iðnrekstrarsjóðs hækki um sömu upphæð, þannig að heildarfjárveiting til sjóðanna verði þá 50 millj. kr. til hvors.

Til kaupa á hlutafé í Iðnaðarbanka Íslands er lagt til að fjárveiting hækki um 800 þús. kr., en það er til þess að ríkissjóður kaupi sinn hluta af hlutafjáraukningu bankans.

Næst er brtt. n. um að inn verði tekinn nýr líður: hagræðingarverkefni skipasmíðastöðva, að upphæð 6 millj. kr. Hér er um að ræða framhald tækniaðstoðar sem hófst í okt. 1974 og miðar að því að auka samkeppnishæfni skipasmiðaiðnaðarins með nýjum vinnuaðferðum. Talið er að nú þegar hafi náðst verulegur árangur í þessum efnum og að náðst hafi allt að 15–20% framleiðniaukning við byggingu skipsskrokka með nýjum vinnuaðferðum. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að í þessu sambandi fari fram sérstök athugun á því hvernig gera megi skipaviðgerðarstöðvar hér á landi betur undir það búnar að sinna viðgerðarverkefnum fyrir togaraflota landsmanna sem vaxið hefur verulega á undanförnum árum, svo sem öllum er kunnugt.

Næst er lagt til að inn sé tekinn nýr liður undir nafninu iðnkynning, að upphæð 2.5 millj. kr.

Að lokum leggur n. til að fjárveiting til Hagstofu Íslands, undir liðnum Þjóðskráin, laun, hækki um 250 þús. kr., en þar er talið að hafi verið um vanáætlun að ræða.

Herra forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og greint frá þeim brtt. sem fjvn. leggur fram við þessa umr. málsins. Verði þessar brtt. samþ. hækkar gjaldabálkur fjárlagafrv. um 105 millj. 203 þús. kr.