16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

1. mál, fjárlög 1976

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns færa samnefndarmönnum mínum í fjvn. bestu þakkir fyrir ánægjuleg persónuleg samskipti og þá sérstaklega formanni n. sem eins og jafnan fyrr hefur sýnt okkur minnihlutamönnum heilindi og drengskap í samskiptum.

Þótt ég hafi ýmislegt við nefndarstörfin að athuga og framgang mála, þá er hér við hina ágætustu menn að eiga. Í fyrra kom þing ekki saman fyrr en í lok október, og ég gat þess við lok 2. umr. þá að ég teldi einsýnt enda þótt þing kæmi saman á venjulegum tíma, í kringum 10. okt., þá þyrfti fjvn. að hefja störf varðandi einstök atriði fjárlagafrv. ekki síðar en um einum mánuði áður en þing hæfist. Með því að ljúka fyrir þing viðtölum við forsvarsmenn ríkisstofnana og jafnvel sveitarstjórnarmenn ætti að vera unnt eftir að þing kæmi saman að fá meiri tíma til þess að n. gæti raunverulega rætt innbyrðis einstakar umsóknir og beiðnir. Þá væri hægt að gefa sér meiri tíma til ákvarðanatöku.

Í fyrra, þegar Alþ. hóf störf þremur víkum síðar en venjulega, var viðhöfð þessi tilhögun um störf nefndarinnar, undirnefnd vann þá í nokkurn tíma. Án efa bjargaði sú tilhögun miklu, þótt á skorti að tíminn eftir að þing kom saman væri nógu vel notaður. Sú vannýting á tíma svo og skortur á skipulagningu starfa olli þá ringulreið í störfum n. og allar afgreiðslur fóru fram í írafári og óðagoti í lokin. Ég held að eftir þá niðurstöðu hafi flestum verið ljóst að á þessu hausti yrði að standa þannig að málum að láta undirnefnd hefja móttökur helst mánuði áður en þing hæfist, á þeim tíma geta einstakir liðir fjárlagafrv. legið fyrir, og jafnframt þyrfti að skipuleggja starfið á þingtímanum betur en áður.

Niðurstaðan nú varð sú að störf undirnefndar varðandi sjálft fjárlagafrv. hófust ekki fyrr en einni viku áður en þing var sett, svo að að því var takmarkað gagn, og það sem þó var verra og afdrifaríkara, tíminn eftir að þing hófst hefur verið síst betur notaður en í fyrra.

Þegar 2. umr. um fjárlagafrv. dróst í fyrra til 16. des. og afgreiðsla lenti í nær algjörri ringulreið, þá mátti bera því við að þing kom þá saman nær þrem víkum síðar en venjulegt var. En nú þegar 2. umr. fjárlaga fer fram sama mánaðardag og í fyrra, sem er hinn allra síðasti dagur til 2. umr. sem getur komið til greina ef afgreiðsla fjárlaga á að fara fram fyrir jól, þá er engu slíku til að dreifa. Hér má því um kenna að undirnefnd var ekki látin hefja störf svo fljótt sem afgreiðsla núverandi stjórnarflokka á fjárlagafrv. nú og í fyrra hefur rækilega sýnt að er þeim algjörlega óhjákvæmilegt ef ekki á að lenda í vandræðum með afgreiðsluna. Og þá má einnig því um kenna, að nú eins og í fyrra hefur tíminn eftir að þing hófst ekki verið notaður sem skyldi. Held ég þó að ég geti fullyrt að ekki hafi staðið á fulltrúum stjórnarandstöðunnar að gera sitt til þess að reyna að tryggja sem eðlilegastan framgang málsins. Við höfum engan áhuga á að þæfa mál eða tefja á neinu hátt. það er eins og jafnan fyrr, ég þekki ekki annað í 12 ára störfum í fjvn. en að minni hluti, hverjir sem skipa hann hverju sinni, hafi jafnan fullan hug á því að n. í heild skili af sér störfum á sem greiðastan hátt. En meiri hl. hlýtur jafnan að ráða ferðinni.

Það er okkur í minni hl. síður en svo fagnaðarefni þegar menn vakna upp við það í n. að tíminn er liðinn án þess að málefnin hafi verið raunverulega rædd innbyrðis, og þá er ekki um annað að gera en að rusla afgreiðslum af á algjörum handahlaupum. Það að 2. umr. fer fram í dag kemur því ekki til af því að störf nefndarinnar séu raunverulega komin á það stig, að 2. umr. geti með góðu móti farið fram nú, heldur blasir sú staðreynd skýrust við og fyrir henni verður að beygja sig, að dagurinn í dag er sá síðasti sem kemur til greina ef ljúka á afgreiðslu fyrir jól. N. hefur hrakist upp að vegg og ekki um annað að gera en tina út þau erindi sem meiri hl. vill afgreiða, en láta hin liggja, lítt eða flest alls ekki skoðuð eða rædd. Er þó svo seint að verið, miðað við að þingi eigi að fresta 19. des., að einungis 2 starfsdagar verða fyrir nefndina milli 2. og 3. umr., og það er áreiðanlega algjört einsdæmi í sögu Alþ. Sök sér væri þetta ef málin hefðu að mestu verið afgr. við 2. umr. og lítið biði 3. umr., en því er nú ekki að heilsa, síður en svo. Að jafnaði hafa verið 5–6 starfsdagar milli 2. og 3. umr. og þá tíðum lokið afgreiðslu við 2. umr. í miklu ríkara mæli en nú.

Ég held að hv. þm. hljóti að vera ljóst að svona getur afgreiðsla fjárlaga ekki gengið til og þau vinnubrögð, sem viðhöfð voru í fyrra, má ekki gera að reglu, eins og afgreiðslumátinn nú bendir til þess að hætta sé á. Mestöllum tíma n. hefur verið varið til þess að hlýða á fulltrúa ríkisstofnana, sveitarstjórna og hinna margvíslegustu samtaka, en í þeim viðtölum er venjan sú, fyrr og nú, að fjvn.-menn skiptast ekki á skoðunum um erindin, heldur hlusta á skýringar þeirra sem koma til n., spyrja sjálfir, en svara engu um afgreiðslu beiðnanna á því stigi. Eins og ég hef margoft bent á, gætu þessi viðtöl flest farið fram áður en þing kemur saman og n. notað þeim mun meiri tíma — eða réttara sagt einhvern tíma til skoðanaskipta um erindi og um ýmsa þætti fjárlagaafgreiðslunnar. Í þessi viðtöl hefur mestur tíminn farið eftir að þing hófst og sá tími þó reynst til lítils notaður, því að ljóst er að meiri hl. n. hefur frá upphafi verið staðráðinn í því að hafa svo til öll þessi erindi að engu. En tíminn hefur liðið og veigamestu málin verið lítt eða ekki rædd og verða að bíða þeirra tveggja starfsdaga sem n. hefur milli 2. og 3. umr. og þó samhliða öðrum þingstörfum. Ég nefni t. d. tekjuáætlun frv. sem hefur að vísu aðeins verið sýnd. Lánsfjáráætlunin, þar með talin málefni Rafmagnsveitna ríkisins, hefur enn ekki séð dagsins ljós 16. des. Ég nefni einnig málefni Pósts og síma, fjárfestingar í flugmálum, málefni Lánasjóðs námsmanna, jöfnun námskostnaðar eftir búsetu. Og þá má nefna hugmyndir um breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, málefni ríkisspítalanna, en fyrir liggja beiðnir um starfsmannaaukningu, m. a. við nýjar deildir, og beiðnir um bráðnauðsynleg tækjakaup. Ekkert af þessu hefur verið rætt innan n. Og enn má nefna að samkv. fyrirhuguðum fjárveitingum í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að stöðva með öllu framkvæmdir við byggingu geðdeildar við Landsspítalann, en það vandamál hefur enga afgreiðslu hlotið. Um öll þessi mál og mikinn fjölda erinda frá ríkisstofnunum, sveitarfélögum og félagasamtökum og einstaklingum á fjvn. eftir að fjalla og taka ákvarðanir um á tveim dögum. Á þessum síðustu dögum þingsins rignir svo lagafrv., en allur tíminn frá 10. okt. hefur liðið án þess að bólað hafi á þessum málum. Þau koma nú fyrst þegar afgreiðsla fjárlaga er komin í eindaga.

Frv., sem hefðu átt að fylgja fjárlagafrv., frv. um lagabreytingar sem gengið er út frá í fjárlagafrv., eru að koma fram allra síðustu dagana, þótt í þeim séu engar þær upplýsingar sem gátu ekki legið fyrir þegar við upphaf þinghalds. Ég nefni sem dæmi frv. um heimild til skerðingar lögbundinna framlaga ríkissjóðs. Í frv. felst engin upptalning þeirra sjóða eða aðila sem skerðingin getur tekið til eða áætluð heildarupphæð sem felst í 5% niðurskurði framlaga ríkissjóðs. Þetta frv. hefði þess vegna getað fylgt fjárlagafrv., en í grg. þess felst ekkert annað en tilvísun í grg. fjárlagafrv. Í fjárlagafrv. er á hinn bóginn vísað til þessa væntanlega frv.

Þessi vinnubrögð eru óvirðing við Alþ. og þeim til háðungar sem að þeim standa. Sama er að segja um frv. um heimild til lánsfjáröflunar. Í grg. þess felast engar upplýsingar, og fyrir fjvn. hafa 16. des. engar upplýsingar verið lagðar fram um þennan veigamikla þátt fjárlagaafgreiðslunnar. Ég hef nú verið æðilengi í fjvn. og man vissulega mörg dæmi þess að fjárlagaafgreiðsla hafi ekki farið fram með þeim hætti sem menn hefðu kosið, oft séð hann æðisvartan í þeim efnum, einkum þegar svo hefur staðið á að gripið hefur verið til gengislækkunar eða annarra stóraðgerða í efnahagsmálum þegar fjvn. hefur verið í miðjum klíðum við afgreiðslu fjárlagafrv. En ég held að ég muni naumast eftir slíkri tímaþröng við afgreiðslu og nú og annarri eins málamyndaafgreiðslu, og er þó ekkert sérstakt sem hefur komið upp í störfum n. síðan hún hóf störf sem beinlínis hefði þurft að tefja þau, svo sem eins og efnahagsráðstafanir sem stórraska öllu sem unnið hefur verið að við fjárlagaafgreiðsluna. Það var helst í fyrra að lokaspretturinn var eitthvað í líkingu við þau vinnubrögð sem eru viðhöfð núna, og þó held ég að keyri um þverbak að þessu sinni.

Það er margt með eindæmum nú. Það hefur t. d. verið venja að í upphafi starfs fjvn. hefur verið aflað þeirra erinda úr ráðuneytum sem þangað hafa borist tímanlega fyrir gerð fjárlaga, en ekki fengið inni í frv. Þessi erindi hafa jafnan verið lesin og kynnt fjvn. Að þessu sinni var bunkinn lagður fyrir nefndina 12. des., rúmum tveimur mánuðum eftir að þing kom saman, og þá greint í örfáum orðum frá því hvað um væri beðið. Öll fyrirhöfn þessara aðila til að skýra sitt mál og færa fyrir því rök er til einskis gagnvart fjvn. Þessi erindi koma ekki á borð n. fyrr en tímahrakið er orðið slíkt að enginn tími gefst til þess að líta á þessi mál og kynna sér rökstuðning með þeim. Með þessum vinnubrögðum er að sjálfsögðu verið að óvirða bæði fjvn.-menn og viðkomandi aðila. En þessir aðilar, sem hafa borið fram sín mál við viðkomandi rn. í tíma, í vor eða í sumar, eiga að sjálfsögðu rétt á því að fái umsóknir þeirra ekki úrlausn við gerð fjárlagafrv. komi erindi þeirra á borð fjvn.-manna til skoðunar a. m. k. til jafns við erindi þeirra sem ekki láta í sér heyra fyrr en eftir og stundum löngu eftir að fjvn. hefur hafið störf.

Ég nefndi við 2. umr. í fyrra að samskipti fjvn. og fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefðu verið minni þá en jafnan áður. Líka að þessu leyti hefur sótt í hið lakara horfið í vinnubrögðum við afgreiðslu fjárlaga. Þeir starfshættir að fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar sitji fundi í n. eru nú nánast úr sögunni. Það, sem var regla, er nú nánast undantekning, og tel ég það mjög miður, því að allt frá því að þessi stofnun var sett á laggirnar hafa fjvn.-menn metið mikils að hafa fulltrúa frá henni viðstaddan á fundum n. til upplýsinga og til aðstoðar við gagnaöflun. Nú virðist ætlun þeirra, sem ráða í fjmrn. og störfum fjvn., að halda þannig á málum að starfsemi fjárlaga- og hagsýslustofnunar verði nær alfarið tengd störfum meiri hl. fjvn. Það tel ég miður farið, en þannig hefur þróunin verið nú hin síðustu tvö haust. Ef til vill stafar þessi þróun af því að áður var fjvn. að jafnaði raunverulega til viðtals við aðila, sem á fund hennar leituðu, um að endurskoða einstaka líði frv. ef um leiðréttingu var að ræða eða óhjákvæmilega þörf. Þá var talið nauðsynlegt að fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem hafði unnið að ákvörðunum um upphæðir einstakra liða, væri við til að gefa upplýsingar bæði n. og þeim sem á fund hennar komu. Það, að fulltrúi frá fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur að þessu sinni ekki setið fundi n. nema í algjörum undantekningartilfellum, helgast sjálfsagt af því að meiri hl. hefur nú verið fyrir fram ráðinn í að ansa í engu óskum þeirra sem til n. hafa komið og því verið talinn bein tímasóun hjá fulltrúa fjárlaga- og hagsýslustofnunar að sitja fundinn. En fyrst þetta virðist hafa verið fyrir fram ráðið, eins og afgreiðsla frv. ber með sér, voru þá þessi viðtöl ekki jafnmikil tímasóun fyrir viðkomandi aðila og einnig fyrir n. sjálfa? Það er ekki laust við að ýmsum kunni að finnast það, þegar í ljós kemur hvernig þessum erindum er sinnt og á hinn bóginn hversu fáránlega lítill tími er skilinn eftir til að fjalla um og afgreiða öll stærstu málefnin. Í mörgum mjög veigamiklum málum hafa komið fram beiðnir sem óhjákvæmilegt er að fjalla rækilega um. Þar nefni ég málefni ríkisspítalanna, Lánasjóð ísl. námsmanna, jöfnun námskostnaðar, námsskrárgerð verknáms, en um þau mál og önnur, sem alls ekki hljóta afgreiðslu nú við 2. umr., mun ég ekki fjalla nú þar sem ekki er sýnt hvern framgang þau fá í fjvn.

Ég get ekki verið að ergja sjálfan mig og aðra á því að fjalla frekar um þá vankanta sem hafa verið á störfum n. í sambandi við afgreiðslu fjárlagafrv. En ég vænti þess fastlega að það óefni, sem nú er öllum augljóst að fjárlagaafgreiðslan er komin í, verði til þess að menn sjái að svo geti ekki lengur gengið til. Úr þessu verður að bæta við næstu fjárlagaafgreiðslu, um það ættu allir aðilar að geta verið sammála. Það er sama hverjir fara með stjórn og hverjir eru í stjórnarandstöðu hverju sinni, öllum ætti að vera kappsmál að störfin gangi sem greiðast og fari fram með þeim hætti að allir geti við unað, jafnt alþingismenn sem þeir aðilar sem leita með erindi sín til fjvn. vegna afgreiðslu fjárlaga. Að sjálfsögðu geta þeir aðilar ekki vænst þess að ætið sé unnt að afgreiða erindi þeirra á þann veg sem þeir helst kysu. En hver og einn slíkur aðili, sem ber fram erindi sitt í tíma, á rétt á því að mál hans nái til hvers fjvn.- manns og hljóti eðlilega skoðun og afgreiðslu í nefndinni.

Ég sagði áðan að ringulreið hefði ríkt við afgreiðslu fyrstu fjárlaga hæstv. ríkisstj. Það var þó enn lakara hversu fjarri öllum raunveruleika þau fjárlög voru sem þá voru samþ. og hversu afgreiðsla þeirra kallaði á þær ráðstafanir í efnahagsmálum sem kynntu svo rækilega undir verðlagshækkunum í landinu að á sama tíma og verulega dró úr verðhækkunum erlendis jókst verðbólga hér um fjórðung.

Það liggur fyrir að reikningsleg skekkja um 1200 millj. kr., sem var eitt dæmið um óvandaðan undirbúning að afgreiðslu fjárlaga í fyrra, olli því að fjárlög voru í reynd afgreidd með beinum reikningslegum halla sem nam um 1100 millj. kr. Og vegna ofáætlunar á tekjum og vegna hreinnar verðbólguræktunar ríkisstj. verður greiðsluhallinn í lok þessa árs líklega orðinn nær 4000 millj. kr. Í ljósi þessara staðreynda er hálfgerður holur hljómur í hátíðlegri yfirlýsingu hv. meiri hl. fjvn. í nál. um þá fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1975, en þar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hluti fjvn. vill hins vegar taka skýrt fram að hann telur með öllu óverjandi að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla.“

Sá greiðsluhalli nam samt á annan milljarð króna við afgreiðslu núgildandi fjárlaga.

Það kom fljótt í ljós, eins og ég rakti við 1. umr. um fjárlagafrv., að til þess að mæta risahækkunum á rekstrarliðum, m. a. 82.6% hækkun á liðnum öðrum rekstrargjöldum, hafði tekjuáætlunin verið þanin út fyrir allt raunsæi og óskhyggjan ein látin ráða. Ég benti á það við umr. um fjárlagafrv. í fyrra, að á svo tæpt vað væri teflt við afgreiðslu tekjuáætlunar að ríkisstj. hefði gefið sér forsendur sem væru í algjörri mótsögn við stefnu hennar á öðrum sviðum. Ráðstafanir, sem yllu kjaraskerðingu hjá öllum almenningi, gætu ekki leitt til þess að unnt væri að reikna með því neyslumagni sem miðað var við við áætlun tekjuhliðar sem byggðist að langmestu leyti á neyslusköttum. T. d. má geta þess, að til þess að geta reiknað með nægum tekjum til að standa undir útþenslu rekstrarliða var við það miðað að fluttar yrðu inn 70% fleiri bifreiðar en raunin verður á nú í ár. En hugmyndir ríkisstjórnarflokkanna um þessi fyrstu fjárlög þegar fjárlagafrv. var lagt fram og um raungildi þeirra og áhrif á þróun ríkisfjármála voru heldur betur í ósamræmi við þann veruleika sem síðar birtist. Óraunsæið var svo algjört að hæstv. forsrh. lýsti á þennan hátt í stefnuræðu 5. nóv. 1974, til hvers það fjárlagafrv. mundi leiða um jákvæða þróun í ríkisfjármálum — hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt ekki hafi tekist að marka djúp spor í fjármálastefnu ríkisins á þeim skamma tíma, sem gefist hefur til að móta fjárlagafrv., fellur það engu að síður inn í heildarramma efnahagsaðgerða ríkisstj. og mun stuðla að auknu efnahagsjafnvægi. Vinna gegn útþenslu ríkisbúskaparins og aðhaldssemi í opinberum framkvæmdum mun styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Í frv. er gert ráð fyrir að 250 millj. kr. af yfirdráttarskuld ríkissjóðs í Seðlabankanum verði greiddar á árinu 1975, en áætlað er að skuldin nemi 1000 millj. kr. nú um áramótin. Enn fremur er gert ráð fyrir 500 millj. kr. endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna fyrstu spariskírteinanna sem útgefin voru 1964. Þessar greiðslur létta bæði skuldabyrgðir ríkissjóðs og spyrna öfluglega gegn efnahagsþenslunni.“

Þegar þessi orð eru skoðuð í ljósi þeirrar reynslu sem nú liggur fyrir í árslok, greiðsluhalli ríkissjóðs um 4000 millj. kr. og skuldasöfnun meiri en nokkru sinni hefur áður þekkst, þá getur spurningin ekki verið nema um það eitt, hvort þessi orð voru mælt af algjörum barnaskap og fullkomnu óraunsæi eða í blekkingarskyni.

Það var ekki langt liðið á árið þegar spilaborg fjárlagaafgreiðslunnar var hrunin og byrjað var að fálma eftir nýjum og nýjum úrræðum allt árið á enda. Og kom þó allt fyrir ekki, þar sem hæstv. fjmrh. stendur ekki upp úr skuldasúpunni í árslok.

Þegar horfst var í augu við það að innflutningsmagn og innflutningsneysla hafði verið stórlega ofreiknuð var gripið til aðgerða í því skyni að láta hverja einingu seldra vara skila meiru í ríkissjóð. Gengið var fellt 15. febr., verð áfengis og tóbaks hækkað og innflutningsgjald af bifreiðum hækkað. En enn hafði verið vanreiknað og heimild var gefin út með sérstökum lögum til þess að skera niður útgjöld ríkissjóðs. Þrátt fyrir hátíðleg loforð stjórnarsinna, þ. á m. hæstv. forsrh., um að rekstrarútgjöld yrðu skorin niður að krónutölu ekki síður en framkvæmdaliðir varð raunin sú, að nær eingöngu var um að ræða niðurskurð brýnustu verklegra framkvæmda og framlaga til sjóða. Lagt var á flugvallargjald og lántökuheimildir stórhækkaðar. Enn var vanreiknað. Og í júní var áfengis- og tóbaksverð hækkað að nýju og nú um 30% og hafði þá hækkað um 50–60% á fjórum mánuðum. Ekki dugði þetta. Enn var hæstv. fjmrh. að sökkva í skuldafenið og enn var fálmað eftir nýjum bjarghring, og 16. júlí var tekjuskattslækkun, sem samið hafði verið um við verkalýðshreyfinguna, hirt aftur og meira en það með álagningu sérstaks 12% vörugjalds sem átti að færa ríkissjóði 1850 millj. kr. það sem eftir lifði ársins og jafna alla reikninga, svo að ríkissjóður stæði á sléttu um áramót. En enn hafði hæstv. fjmrh. brugðist bogalistin, það vantaði mikið á að þetta stæðist. Þrátt fyrir 2000 millj. kr. niðurskurð, fyrst og fremst á framkvæmdaliðum, má reikna með mjög verulegum greiðsluhalla eða jafnvel allt að 4 milljörðum kr.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1976, sem lagt var fram í okt., er á bls. 164 gert ráð fyrir að greiðsluhallinn muni á þessu ári nema um 770 millj. kr. Nú er ljóst, þremur mánuðum síðar, að hann verði um 5 sinnum hærri. Hafa ytri aðstæður þó fremur verið að batna á þessu tímabili síðan fjárlagafrv. var lagt fram. Þetta misræmi ásamt fjárlagaafgreiðslunni í fyrra og öllum þeim fálmkenndu ráðstöfunum, sem fylgdu í kjölfarið mánuð eftir mánuð, án meiri árangurs en reynslan ber vitni um, allt þetta staðfestir þá ríkjandi skoðun almennings, að þeim, sem beri ábyrgð á fjármálum ríkisins, virðist með öllu fyrirmunað að grynna nokkuð á því sem þeir eiga að fjalla um. Það er ekki að undra að í ritinu Úr þjóðarbúskapnum frá 28. nóv. s. l. segi á bls. 7, með leyfi hæstv. forseta:

„Útgjöld ríkissjóðs hafa þannig til þessa aukist meira en tekjur, gagnstætt því sem að var stefnt í fjárlögum og fjárlagaaðgerðum ársins.“

Já, það er ekki heldur að undra að hæstv. viðskrh., sem Morgunblaðið titlar nú orðið forsrh., — hann er það sjálfsagt í huga margra ánægðra sjálfstæðismanna, segði í ræðu 1. okt. s. l., með leyfi hæstv. forseta, og mæðutónninn heyrist í gegnum orðin sem standa á síðum Morgunblaðsins og Tímans sem birtu ræðuna, — hæstv. viðskrh. sagði:

„Hræddur er ég um, að umtalsverður halli verði á ríkissjóði í ár.“

Ég veit ekki hvort hæstv. viðskrh. — ég læt þann titil duga — hefur hér haft í huga þann 770 millj. kr. halla sem spáð var í fjárlagafrv. sem birt var 10 dögum eftir að hann hélt ræðuna eða hvort hann hefur verið eitthvað raunsærri og upplýstari um stöðuna en hæstv. fjmrh. Hæstv. viðskrh. ræddi verðbólguna og benti á að hún yrði 48% hér á landi á þessu ári, á sama tíma í Sviss og Austurríki 8%, í Svíþjóð 11%, í Noregi 12%, í Finnlandi 18% og jafnvel í Portúgal ekki nema 20%. Og síðan sagði hæstv. viðskrh., með leyfi hæstv. forseta.

„Þótt við íslendingar séum háðari innflutningi en þessar þjóðir, sýna þessar tölur að þessi þróun hjá okkur á aðeins að takmörkuðu leyti rætur að rekja til hækkunar á innflutningsverði. Þess vegna er hér að verulegu leyti um að ræða innlendar orsakir.“

Og í þessari ræðu benti hæstv. viðskrh. á sökudólginn í verðbólgumálunum, þann aðilann sem hann taldi fyrst og fremst bera ábyrgð á mestu óðaverðbólgu, sem þekkst hefur hér á landi, á þeim tíma þegar verðlag lækkaði erlendis. Hann benti á hæstv. fjmrh. og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi staða ríkissjóðs hefur átt sinn þátt í verðþenslunni. Ríkisfjármálin og málefni fjárfestingarlánasjóða eru undirrót of mikillar þenslu og eyðslu.“

Ég ætla ekki að þessu sinni að slást í hóp með hæstv. viðskrh. og álasa hæstv. fjmrh. frekar með því að reka hrakfallasöguna í fjármálum ríkisins, algjörlega mislukkaða fjárlagaáætlun, stórfelldan greiðsluhalla og skuldasöfnun hérlendis og erlendis undir hans stjórn. Það er víst nógu stór hluti landsmanna, sem það gerir. En það getur orðið hæstv. ráðh. til huggunar að þetta er reyndar ekki ýkjafjölmenn þjóð. Afgreiðsla fjárlaga í fyrra, hin gegndarlausa útþensla rekstrarliðanna, margþættar verðbólguaukandi ráðstafanir, svo sem gengislækkanir, vaxtahækkanir, söluskattshækkanir, álagning vörugjalds, — afleiðingarnar af öllu þessu eru nú að herða alvarlega að við gerð fjárlaga og takmarka svigrúm til fjárveitinga innan marka þeirra laga um skattheimtu sem nú gilda. Fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., sem var 5000 millj. kr. hærra en það fjárlagafrv., sem lagt var fram, var umsvifalaust hafnað og það skorið niður að honum fjarverandi. Nú á sýnilega ekki að láta honum taumana svo lausa eftir sem hingað til. Nú á að þjarma útgjöldunum niður með stórfelldri minnkun þeirra framkvæmda í landinu, sem varða allan almenning mestu, með niðurskurði á hafnarframkvæmdum, sjúkrahúsabyggingum, flugvallagerð, skólabyggingum, íþróttamannvirkjum og með niðurskurði á félagslegum réttindum. Rekstrarliðir þenjast út á sama tíma og engri stund er varið í störfum fjvn. til að huga að möguleikum á lækkun eða niðurskurði á rekstrarliðum.

Ég get nefnt sem dæmi að þegar neitað var um fjárframlag til eins framkvæmdaliðar sem ég hafði áhuga á, heilsugæslustöðvar í Gerðahreppi, þá bauðst ég til að benda á rekstrarlið sem skera mætti niður á móti, 3 millj. kr. til hagræðingarstarfsemi fyrir Kaupmannasamtökin. En það kom ekki til greina hjá meiri hl. að hrófla við þeim útgjöldum. Ég veit ekki hvers konar hagræðingarstarfsemi hér er um að ræða sem ríkið á að greiða fyrir kaupmenn. Það er e. t. v. hagræðing á skattframtölum. En hvað sem um það er, engum tíma má verja til að huga að lækkunum á rekstrarliðum. Og í tíð núv. ríkisstj. hefur með öllu verið lögð niður sú starfsemi sem undirnefnd fjvn. annaðist áður, bæði í tíð viðreisnarstjórnarinnar og vinstri stjórnarinnar. Hæstv. núv. fjmrh. er hinn fyrsti, síðan ég kom í fjvn., sem ekkert hefur þurft að ræða við undirnefnd fjvn. um slík mál. Sparnaður í ríkisútgjöldum skal nást með niðurskurði nauðsynlegustu framkvæmda, með skerðingu félagslegra réttinda eingöngu.

Við afgreiðslu fjárl. í fyrra voru útgjöld ríkissjóðs hækkuð um 60,5% eða um 45% meira, en almennar verðlagsbreytingar höfðu verið á undanfarandi ári. Liðurinn önnur rekstrargjöld hækkaði þó enn meira eða um 86.2%. Í fjárlagafrv. nú er gert ráð fyrir fimmtungshækkun til viðbótar öllum þessum stórfelldu hækkunum, sem samþ. voru í fyrra, og það gæti orðið nær fjórðungshækkun áður en afgreiðslu fjárlagafrv. lýkur, þannig að ljóst er að fjárl. verða tvöfalt hærri en fjárl. ársins 1974. Enn gildir sama stefnan og í fyrra. Rekstrarliðirnir hækka meira en heildarútgjöldin. Liðurinn önnur rekstrargjöld í A- og B-hluta á nú að hækka um 37% og vextir um 66%. Vextir hafa þá hækkað um 2400 millj. kr. frá fjárl. ársins 1974 og munu nema 4480 millj. kr. á næsta ári eða ríflega 40% hærri upphæð en varið verður á fjárl. til allra grunnskólabygginga, íþróttamannvirkja, byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, læknamiðstöðva og læknabústaða, til almennra hafnarframkvæmda og flugvallabygginga í landinu. 40% hærri upphæð er í vexti í A- og B-hluta fjárl. en nemur ríkisframlagi til allra þeirra framkvæmda sem ég nefndi. Þetta eru afleiðingarnar af óhóflegum lántökum ríkisins.

Verklegar framkvæmdir á fjárl. eru fjármagnaðar með lántökum í síauknum mæli. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að verklegar framkvæmdir í A- og B-hluta verði að 56.8% byggðar á lánsfé, og vaxtakostnaður eykst að sama skapi. Erlendar lántökur skv. fjárlagafrv. eru áætlaðar 12 sinnum hærri en þær voru í fjárlögum 1974. Þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar fjármálaspekinga ríkisstj. um að við séum löngu komnir að öllum endimörkum varðandi erlend lán er sífellt haldið áfram á sömu braut. Nú nýlega var tilkynnt um 7 milljarða kr. lántöku og skömmu seinna um annað stórlán hjá einhverjum olíufurstum. Allt er þetta gert til þess að geta viðhaldið stjórnleysinu í innflutningnum, en reiknað er með allt að 20 milljarða kr. viðskiptahalla á þessu ári og tekjur ríkissjóðs á næsta ári eru byggðar á því að við notum 14–16 milljarða kr. umfram það sem við öflum í erlendum gjaldeyri. Ef við gerum það ekki, þá sekkur hæstv. fjmrh. alveg og endanlega með ríkissjóð í skuldafenið hjá Seðlahankanum. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar 18. nóv. s. l. er skýrt og skorinort sagt að gera verði ráð fyrir mjög miklu innstreymi erlends lánsfjár á næsta ári. Möguleikar hæstv. fjmrh. til að hjara með sinn kassa á næsta ári verða að byggjast annaðhvort á nógu mikilli skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis eða náð og miskunn Seðlabankans, en hún hefur reyndar verið sem himinninn há á þessu ári. Blóðgjöfin verður sem sagt með sama hætti á næsta ári og þessu. En ekkert má gera til að skipuleggja og stjórna notkun gjaldeyrisins. Það gæti styggt einhvern þeirra innflutningsbraskara sem engan greiða tekjuskattinn. Ekkert má heldur gera til þess að hrófla við rekstrarliðunum. Liðurinn önnur rekstrargjöld hækkaði um 86.2% við síðustu fjárlagaafgreiðslu og um 37% nú.

Það má nefna nokkur dæmi hvernig innbyrðis breytingar hafa orðið í fjárl. síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum. Ég hef nefnt verklegar framkvæmdir, framlög ríkisins á móti sveitarfélögum til brýnustu verkefna í landinu. Þær eru markvisst skornar niður, en launakostnaður ríkisstj. hefur á hinn bóginn hækkað um 153.4% síðan 1974, Alþingis þó ekki nema um 37.3% og sérfræðileg aðstoð við þingflokkana ekki nema um 26.7%. Önnur rekstrargjöld hjá Háskóla Íslands hafa hækkað um 121.5%, en framlög til byggingarframkvæmda þar um 3.8%, önnur rekstrargjöld hjá lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli um 192%, kostnaður við fastanefnd Íslands hjá EFTA, laun og önnur rekstrargjöld, hefur hækkað um 275.8%, tillag til Alþjóðabarnahjálparsjóðsins hins vegar um 61%. Önnur rekstrargjöld hjá Veiðimálaskrifstofunni hafa hækkað um 168.4%. Önnur rekstrargjöld hjá bæjarfógetaembættinu í Neskaupstað hafa hækkað um 220.4% og hjá sex öðrum slíkum embættum yfir 150%. Framlögum til félagsstarfsemi og menningarmála hefur hins vegar ekki verið gert jafnhátt undir höfði á þessu tímabili. Framlag til Ungmennafélags Íslands hefur hækkað um 36.3%, framlag til æskulýðsráðs um 55.7%, til æskulýðsmála í heild um 40.7%, styrkur til útgáfustarfsemi um 21.8%, framlag til Félagsstofnunar stúdenta um 10.9%, framlag til Leikfélags Reykjavíkur um 36.3%, og er þá tekið tillit til þeirrar brtt., sem liggur hér frammi við 2. umr. Heiðurslaun, starfslaun og listamannalaun hafa á tveimur árum hækkað samtals um 32.2%.

Aðaleinkenni fjárlagafrv. bæði í fyrra og nú eru þau, að ríkisútgjöldin í heild eru hlutfallslega jafnmikil og áður miðað við þjóðarframleiðslu, um 29%, en vægi einstakra þátta í fjárl. breytist. Jákvæðustu þættirnir eru dregnir saman til þess að mæta útgjaldaaukanum sem hlýst af útþenslu rekstrarliðanna, en eins og hæstv. viðskrh. viðurkenndi í þeirri ræðu, sem ég gat um áðan, eru orsakir verðþenslunnar að verulegu leyti innlendar, þ. e. a. s. orsakirnar eru ekki síst sjálfar efnahagsráðstafanir ríkisstj.: gengislækkanir, vaxtahækkanir, söluskattshækkanir og álagning vörugjalds til að standa undir hækkun rekstrarliða á fjárl., en rekstrarliðirnir hafa hækkað langt umfram það sem almenn verðlagshækkun hefur gefið tilefni til.

Sjálfskaparvíti hæstv. ríkisstj., þ. e. a. s. verðbólguaukandi efnahagsráðstafanir og stjórnleysi í gjaldeyrismálum og ríkisfjármálum bitnar hart á þeim fjárveitingum sem miklu varða almenning hvarvetna í landinu. Víða úti á landsbyggðinni byggir fólk nú afkomu sína á afla nýrra skuttogara, en víða og víðast er við þann vanda að etja að hafnarmannvirki eru ekki fullnægjandi fyrir þessi skip. Þau fljóta ekki að bryggju og þau eru ekki nægilega varin í höfnum fyrir sjó og vindi. Að úrbótum í þessum efnum hefur verið unnið, og með fjögurra ára hafnaáætluninni, sem lögð var fram í vor, var stefnt að því að úr vanda hinna ýmsu hafna yrði bætt með skipulögðum framkvæmdum í ár og næstu þrjú ár. Eftir að fjárl. höfðu verið samþ. fyrir síðustu áramót voru framkvæmdir þó skornar verulega niður á þessu ári, og vegna erfiðleika ríkissjóðs, sem röng stjórnarstefna veldur, er nú enn hert að, og ríkisstjórnarflokkarnir grípa nú til þess óyndisúrræðis að skera enn verulega niður hafnarframkvæmdir að raungildi á næsta ári. Svo hart hefur verið gengið fram í þessum niðurskurði í ár og í áætlunum fyrir næsta ár, að til þess að hafnarframkvæmdir í árslok 1976 væru komnar jafnlangt áleiðis og hafnaáætlunin gerir ráð fyrir þyrfti nú að veita á fjárl. um 1300 millj. kr. til hafnarframkvæmda. Þess í stað fást ekki nema ríflega 500 millj. kr. til nýrra framkvæmda á næsta ári.

Í fjárveitingum til byggingar grunnskóla er við það miðað að enginn aðili, sem hefur á fyrri fjárl. hlotið fjárveitingu til undirbúnings, megi hefja framkvæmdir á næsta ári. Verður þá ekki um neinar nýjar framkvæmdir að ræða nema hjá þeim sem áður hafa fengið framkvæmdafjárveitingar án þess að hefjast handa vegna niðurskurðar í ár eða af öðrum orsökum.

Með þeim fjárveitingum, sem ætlaðar eru til íþróttamannvirkja á fjárl. 1976, verða þau mál strax á næsta ári komin í það horf að ríkið mun skulda sveitarfélögum og íþróttasamtökum um 70 millj. kr., en það er nálega jafnhár skuldahali og fyrrv. ríkisstj. tók við 1971 og nú er verið að ljúka greiðslum á skv. áætlun sem þá var gerð um framkvæmdir í íþróttamálum. Þegar þetta er haft í huga, að hverju er hér stefnt um stórfellda skuldasöfnun, einkum hjá sveitarfélögum í landinu, verður hálfgerður holhljómur í boðskap hæstv. ríkisstj. um að hún ætli að bæta hag sveitarsjóða með tilfærslum á tekjustofnum og verkefnum. Ég held að það sé ljóst, að einnig í því efni er ætlunin að hlunnfara sveitarfélögin.

Ég veit ekki hvort hið nýja frv. hæstv. ríkisstj. um breyt á l. um almannatryggingar á að teljast þáttur í því að efna fyrirheit stj. um aukið fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna, en það fellur a. m. k. undir loforðið um breytingar á verkefnasviði, þó að það gangi þvert gegn öllum óskum sveitarstjórnarmanna um breyt. á verkefnaskiptingu ríkisins og sveitarfélaganna, sérstaklega að því er varðar almannatryggingar. Þetta frv. er nokkuð eðlilegt framhald af þeirri ákvörðun ríkisstj., sem felst í fjárlagafrv., um að spara ríkinu útgjöld með því að hækka stórkostlega verð á landbúnaðarvörum, þeim vörum sem mestu skipta lífeyrisþega og barnafjölskyldur og aðra sem eyða mestum hluta launa sinna í brýnustu matvörur.

Nú telur hæstv. ríkisstj. sig þurfa að auka enn skattheimtuna af þegnunum í þjóðfélaginu, og hún velur ekki það ráð að auka skattheimtuna með hækkun áfengisverðs eða með hækkun verðs á einhverjum vörum sem teljast ekki til brýnustu neysluvara, og hún velur ekki það ráð að leggja sérstakan skatt á hátekjufólk. Nei, hæstv. ríkisstj. leggur 480 millj. kr. útgjaldaauka á þá eina sem þurfa að kaupa lyf eða leita læknis. Þessir aðilar eru að sjálfsögðu eftirsóknarverðari skattgreiðendur en þau hundruð fyrirtækja sem greiða engan eyri í tekjuskatt þótt þau velti þúsundum milljóna kr. Í öðru lagi leggur hæstv. ríkisstj. um 1200 millj. kr. nýjan skatt á alla útsvarsgreiðendur með 1% álagi á gjaldstofn útsvars. Með þessari aðferð tryggir hún að einungis einstaklingar greiða þennan skatt, og þar með er öruggt að eftirlætisbörn ríkisstjórnarflokkanna, gróðafélögin, sem engan tekjuskatt borga, þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessum skatti heldur, þar sem fyrirtæki greiða ekki útsvar skv. skattalögum. En klókindin eru enn þá meiri. Ríkissjóður vill ekki koma nærri þessari skattheimtu. Með því móti er hægt að lækka fjárlagatölur sem þessari upphæð nemur í útgjöldum almannatrygginga og sýna betri þróun í þeim efnum, útgjöldum á fjárl., en ella væri unnt. Þess vegna er sveitarfélögunum gert að innheimta þessa upphæð og skila henni inn í tryggingakerfið. Það á eftir að koma í ljós hvort sveitarfélögin telja þessar fyrirætlanir hæstv. ríkisstj., sem nú á að drífa í gegn á nokkrum dögum, vera efndir á fyrirheitunum um aukið fjárhagslegt sjálfræði sveitarfélaganna og um breytingu á verkefnaskiptingu í þágu sveitarfélaganna.

Með uppgjöf ríkisstjórnarflokkanna gagnvart því verkefni ríkisvaldsins, að tryggja uppbyggingu og þróun hvarvetna um landið í hinum ýmsu málefnum, sem fjárl. taka til. er verið að safna upp vanda sem stjórnarfl. ráða ekki við, m. a. vegna afleiðinga eigin verðbólgustefnu. Þau verkefni sem hæstv. ríkisstj. hefur gefist upp við að leysa í núgildandi fjárl. og nú við afgreiðslu nýrra fjárlaga, munu kalla á lausn af auknum þunga, og það er vissulega óskemmtilegt að sjá þann vanda hlaðast upp vegna fjárskorts ríkissjóðs, á sama tíma og rekstrarliðirnir hafa hækkað langt umfram verðlagshækkanir og sumir hverjir yfir 200% á síðustu tveimur árum.

Afgreiðsla fjárl. í fyrra og nú sýnir að stjórnarflokkarnir eru ekki færir um að leysa það verkefni, sem hvílir á hverri ríkisstj., að tryggja framgang brýnustu samfélagslegra framkvæmda hvarvetna um landið til þess að tryggja atvinnuöryggi, búsetumöguleika og sem jafnast stig þjónustu fyrir alla landsmenn, hvar sem þeir búa. Vegna rangrar stjórnarstefnu, verðbólguaukandi efnahagsráðstafana hefur verðbólgan þanið svo út almenna rekstrarliði á fjárl., jafnframt því sem einskis sparnaðar er gætt, að þessir þættir gleypi það fjármagn sem unnt er að afla með núgildandi lagasetningu um skattheimtu. Þótt ljóst sé að verulegur hluti stórgróðafyrirtækja í landinu greiði engan tekjuskatt vegna ákvæða í skattalögum um verndun gróðans, fást stjórnarflokkarnir ekki til að tryggja ríkissjóði það fé sem fengist með réttlátari skattalöggjöf gagnvart þessum gróðafyrirtækjum og dygði til að leysa þau brýnu verkefni, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafi gefist upp við að leysa bæði í fyrra og nú við afgreiðslu fjárlaga.

Við 1. umr. um fjárlagafrv. ræddi ég nokkuð tekjuáætlunina og þær hugmyndir sem stjórnarflokkarnir hafa um öflun tekna og aðferðir til þess að ná endum saman á fjárl. Ég rakti þá hvernig stjórnarflokkarnir ætla að láta launafólk kaupa sig með lækkun niðurgreiðslna um 1/4 undan vörugjaldinu, en því vörugjaldi skelltu stjórnarflokkarnir á til að taka til baka umsamda lækkun tekjuskatts og ríflega það, því var heitið við álagningu vörugjaldsins að það yrði aðeins í gildi til næstu áramóta. Vörugjaldinu var ætlað að jafna reikninga ríkissjóðs þegar enn einu sinni var farið að hallast alvarlega á merinni hjá hæstv. fjmrh., en þeir útreikningar voru jafnfjarri veruleikanum og jafnan fyrr á þeim bæ, að vörugjaldið dygði, það sýnir áætlaður halli á ríkisrekstrinum í árslok.

Ég hef ávallt haldið því fram, frá því að fjárlagafrv. var lagt fram, að hvað svo sem þar er ráðgert gæti svo farið að hæstv. ríkisstj. gripi samt sem áður til þess að halda áfram innheimtu vörugjaldsins að einhverju eða öllu leyti eða gripi til nýrrar skattheimtu eða frestaði tollalækkun, en til einhverra þessara ráða yrði gripið, annaðhvort við afgreiðslu fjárlaga eða eftir að þau hefðu verið afgr. Að líkindum er það svo við 2. umr. um fjárlagafrv. að tekjurammi fjárlagafrv. er í rauninni brostinn. Þau útgjöld, sem áætluð eru í frv., og þær hækkanir, sem stjórnarflokkarnir eru með á prjónunum, fara sennilega út fyrir ramma tekjuáætlunarinnar, miðað við þá endurskoðun á áætluðum tekjum, sem fulltrúi Þjóðhagsstofnunar gerði fjvn. grein fyrir á fundi s. l. föstudag. Ekkert liggur fyrir um hvernig brugðist verður við þessum nýja vanda. Ef að líkum lætur verða gróðaöflin áfram friðhelg, en fremur verður sælst til þess að framlengja vörugjaldið eða fresta tollalækkunum eða gripið verður til annarra hliðstæðra ráðstafana. En það væri eðlilegt að upplýsingar yrðu gefnar um þetta nú þegar við 2. umr.

Stjórnarstefnan hefur verið við það miðuð í fyrsta lagi að gróðaöflin í þjóðfélaginu hafi frjálsar hendur um ráðstöfun gjaldeyrisins í eiginhagsmunaskyni. Aðalvandinn í dag er hallinn á gjaldeyrisviðskiptum. Samt sem áður miðast allt við það að notkun gjaldeyrisins sé á engan hátt stjórnað, heldur skuli tekin milljarða gjaldeyrislán erlendis til þess að sóunin geti haldið áfram. Í öðru lagi hefur stjórnarstefnan verið við það miðuð að einkaaðilar hafi forgang til fjárfestingar og til vinnuafls í landinu og geti tryggt sér gróða af verðbólgunni. Í því skyni hafa m. a. fjárveitingar til verklegra framkvæmda í landinu verið skornar niður. Þetta er gömul og ný krafa íhaldsins sem Framsókn styður nú dyggilega. Í þriðja lagi hefur stjórnarstefnan verið við það miðuð að þeir, sem með þessum hætti geta náð til sín gróða, hafi sem mest frelsi undan skattgreiðslum til ríkisins í sameiginlegar þarfir landsmanna allra. Nýjustu ráðstafanir til fjáröflunar í almannatryggingakerfið staðfesta þessa stefnu. Þegar ríkisstj. kemst í þrot vegna stjórnarstefnunnar og ráðleysis í ríkisfjármálum telur slík hægri stjórn að sjálfsögðu ekki koma til greina að sækja fjármuni til þessara aðila. Þótt hundruð gróðafyrirtækja í Reykjavík, sem velta þúsundum millj. kr. á ári, greiði ekki eina krónu í tekjuskatt til ríkisins eru hægri stjórninni nærtækari önnur ráð en að skerða þann gróða og taka af honum í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Þegar svo er komið að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum og óstjórn í ríkisfjármálum þrengir verulega að við gerð fjárl, þar sem rekstrarliðirnir gleypa sífellt stærri hluta ríkisútgjaldanna, þá gripa stjórnarflokkarnir til dæmigerðra úrræða hægri flokka. Þeir skera niður framlög til nauðsynlegustu samfélagslegu framkvæmda, og þeir grípa til þess að skerða réttindi almennings hjá almannatryggingum. Þeir lækka niðurgreiðslur á brýnustu matvörum, en fyrirhuguð fjórðungshækkun á verði landbúnaðarafurða af þessum sökum bitnar sérstaklega hart á lífeyrisþegum og barnafjölskyldum og ýtir enn undir verðbólguþróunina í landinu.

Það hefur verið áherandi á undanförnum mánuðum hve harðar kröfur íhaldssamasta lið Sjálfstæðisfl. hefur gert til þess að þáttur ríkisins og sveitarfélaga í framkvæmdum og félagsmálum verði minnkaður. En minnkun þessa þáttar þýðir í senn frjálsari hendur einkafjármagnsins að ráðstafa fjármunum í þjóðfélaginu í enn ríkara mæli í gróðaskyni fyrir sig og um leið þýðir minnkun þessara þátta skerðingu félagslegra réttinda þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Þessi gróðaöfl fagna þeirri þróun sem nú á sér stað, bæði í fyrra og nú, við afgreiðslu fjárl. ríkisins. Sú þróun er í samræmi við þeirra stefnu og hagsmuni.

Það er ljóst hverjir halda um taumana þegar stefnan er ráðin, og krafa þessara aðila er sú, að þessar ráðstafanir séu ekki tímabundnar og helgist af erfiðri stöðu ríkissjóðs vegna efnahagsstefnu ríkisstj. og óhagstæðra ytri aðstæðna. Hér er sóst eftir varanlegri breytingu á uppbyggingu og félagslegri skipan í þjóðfélaginu.

Það fór ekki milli mála, þegar hæstv. núv. ríkisstj. var mynduð, hvaða öfl tryggðu þá stjórnarsamvinnu. Það voru þeir, sem standa lengst til hægri í hvorum flokki, sem beittu sér fyrir myndun ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., og stefna hennar er í anda þeirra sem mestan þátt áttu í því að mynda hana. Og þeir, sem það gerðu, miða engan veginn við að þau úrræði, sem hæstv. ríkisstj. hefur gripið til, að skera niður samfélagslegar framkvæmdir og félagsleg réttindi, verði einungis tímabundin úrræði, heldur varanleg stefna á meðan þessi ríkisstj. heldur völdum. Þeirra keppikefli er að minnka varanlega hlut ríkisin og annarra opinberra aðila í þjóðarbúskapnum. Þetta meginmark, þetta meginsjónarmið hafa Morgunblaðið og önnur málgögn mestu íhaldsmanna í Sjálfstfl. boðað kröftuglega undanfarið, og þeir eiga sína skoðanabræður innan valdakerfis Framsfl., þá aðila í Framsókn sem tryggðu myndun hægri stjórnarinnar. Fjárlagaafgreiðslan í fyrra og nú er upphaf þeirrar leiðar sem þessir aðilar vilja feta í þessu efni. Þessi stefnumörkun bitnar nú þegar alvarlega á alþýðu manna um allt land og hún mun gera það í vaxandi mæli við hverja fjárlagaafgreiðslu þessarar ríkisstj. Það er því eitt brýnast hagsmunamál almennings í landinu að fjárlagaafgreiðslur hennar verði ekki öllu fleiri.