16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

1. mál, fjárlög 1976

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það væri vissulega ærin ástæða til þess að fjalla nokkuð um afgreiðslu fjárlagafrv. almennt, því að ég hygg að sú afgreiðsla sé með þeim eindæmum nú, að það verði ekki fundið neitt sem í samjöfnuð við það kemst. Það er 2. umr. um fjárl. sem nú fer fram, og það er vitað mál að ætlunin er að 3. umr. fari fram ekki síðar en á föstudag. og þá sjá menn hvaða tími er til stefnu til þess að rækja þá skyldu Alþ. að fjalla um fjárl. milli 2. og 3. umr. eins og þó hefur verið leitast við að gera allar þær götur sem ég þekki til og hef kynnst störfum Alþ. Það verður heldur lítill tími til slíks miðað við þann tíma sem þessum umr. er ætlaður. Nú hefði e. t. v. mátt segja að þörfin á slíkum tíma milli umr. hefði verið minni ef svo væri að undirbúningurinn undir 2. umr. væri með þeim hætti að hann væri með sérstökum ágætum. En því hefur nú verið lýst hér af öðrum og þá alveg sérstaklega af hv. 11. landsk. að það er langur vegur frá því að svo sé. Sá undirbúningur virðist, eins og kom fram í ræðum fulltrúa minni hl. í fjvn., fyrst og fremst hafa verið með þeim hætti að það hefur verið hlustað á hina ýmsu embættismenn sem hafa komið og borið fram sín mál, enda þótt stjórnarherrarnir hafi verið ráðnir í því að hafa álit þeirra og till. að engu, og þess vegna hafi ekki þótt ástæða til að gefa fjvn. tækifæri til þess að fjalla um þessi álit og till. á eðlilegan og venjulegan hátt. En þar sem þessu efni hafa þegar verið gerð mjög góð skil af fulltrúum minni hl. í fjvn. og alveg sérstaklega í hinni mjög glöggu ræðu hv. 11. landsk. þm., sem rakti þessi vinnubrögð öli, mun ég sleppa því.

Hér hafa ekki verið margir ráðh. við þessa umr. Hæstv. fjmrh. hefur að vísu verið hér í salnum í dag og hlýtt á mál manna, en aðrir ráðh. hafa ekki sést, þar til loksins nú að ég sé að hæstv. menntmrh. er hingað kominn og býð ég hann velkominn til starfa á Alþ. í dag. Þá eru komnir hingað tveir ráðh. til starfa og á því vil ég vekja sérstaka athygli.

Það er satt að segja, að mig langar til þess þar sem hæstv. menntmrh. er nú hingað kominn, að vekja með nokkrum orðum athygli á því að mér þykir svo nú við afgreiðslu fjárl. sem eitt og annað, sem ég átti von á frá hans hendi, skorti á a. m. k. nú við 2. umr. fjárl., og ég vil gjarnan leita fregna um það hvers er að vænta í sambandi við nokkur þau mál á sviði menntamála sem ég ber sérstaklega fyrir brjósti.

Hæstv. menntmrh., sá væni og velviljaði maður, hefur alveg sérstaklega lagt áherslu á nokkra málaflokka í sambandi við menntamálin sem hann, að því er mér hefur skilist, ætlaði að leggja ríka áherslu á að fá framgengt og fá ráðna bót á. Ég ætla aðeins að nefna hér, til þess að lengja ekki mál mitt allt of mikið, tvö mikilvæg atriði í sambandi við menntamálin. Ég verð að víkja að því, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum í sambandi við þessi tvö atriði sem ég ætla sérstaklega að nefna, og vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort ekki sé neinna úrbóta að vænta nú í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.

Hæstv. menntmrh. lýsti því með mjög eftirminnilegum hætti svo sem einu ári áður en hann tók við því virðulega embætti sem hann gegnir nú hversu erfitt það er í sambandi við ágæt mál að koma þeim í gegnum kerfið, eins og það er stundum kallað. Ég man ekki eftir öllu meira málandi lýsingu á því hvernig góð mát festast stundum í kerfinu, verða þar rígföst og nást þaðan annaðhvort seint eða jafnvel ekki, sum nást þaðan kannske limlest eftir dúk og disk, en önnur kafna þar algjörlega. Þessi saga sem hæstv. ráðh. lýsti hér á Alþ. fyrir svo sem tveimur árum, hefur mér varla liðið úr minni og þess vegna þætti mér það heldur ömurlegt hlutskipti ef svo færi að þau mál sum, sem hæstv. menntmrh. ber sérstaklega fyrir brjósti, verða rígföst í kerfinu eða kafna þar algjörlega. Ég vænti þess nú að hann sýni þrótt sinn með þeim hætti að rífa þessa málaflokka upp úr kerfinu þannig að þeir kafni þar ekki algjörlega.

Snemma á þessu þingi, svo að segja í byrjun þings, lagði hæstv. menntmrh. fram á Alþ. frv. til l. um almenningsbókasöfn. Þetta mál hefur verið nokkuð lengi á döfinni. Ég hygg að ég muni það rétt, að fyrrv. menntmrh. Gylfi Þ. Gíslason lét undirbúa löggjöf um það efni. Síðan var sú löggjöf endurskoðuð í tíð fyrrv. menntmrh. Magnúsar T. Ólafssonar, og það frv., sem þá hlaut sína endurskoðun, hefur nú legið fyrir Alþ. í tvö skipti, ef ég man rétt, og þetta er í þriðja sinn sem þetta mjög svo nauðsynlega og mikilvæga frv. hefur séð dagsins ljós og er til umfjöllunar hér á þingi. Þetta frv., ef að lögum verður, er mikilsverð bót frá því ástandi sem hér hefur ríkt nú um skeið í sambandi við stuðning bæði ríkisins og sveitarfélaga við þessa mikilvægu starfsemi, almenningsbókasöfnin. Það er að vísu galli á frv. að skv. því á það ekki að taka gildi að fullu fyrr en eftir þrjú ár. Það á að taka þrjú ár að því er tekur til fjárveitinganna, en þrátt fyrir það er hér um mikilsvert mál að ræða. Enginn held ég að hafi lýst því öllu greinilegar í fáum orðum heldur en hæstv. núv. menntmrh., hversu mikilsverð almenningsbókasöfnin eru og hversu mikil nauðsyn er að styðja þau. Nú er vakin athygli á því, það gerði alveg sérstaklega hv. 9. þm. Reykv., að þegar þetta fjárlagafrv. var lagt fram í haust, þá var ekkert tillit á neinn hátt tekið til þess stjfrv. um almenningsbókasöfn. Þetta gat átt sínar eðlilegu skýringar og þá helst þær, að hæstv. menntmrh. ætlaði sér að vinna að því með oddi og egg að koma almenningsbókasafnsmálinu fram fyrir jól, sem mjög auðvelt hefði verið, ef sæmilega hefði verið að hlutunum staðið, þar sem þetta var í þriðja sinn sem tiltölulega einfalt frv. var hér til umfjöllunar á Alþ. En ekkert hefur verið gert í þessum málum, engin viðleitni í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna nú. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Er ætlunin að láta enn eitt ár líða á þann veg að ekkert verði gert í þessu efni?

Annað dæmi vil ég aðeins nefna í sambandi við mál á áhugamálasviði mínu og hæstv. núv. menntmrh. Ég hef við ýmis tækifæri leitast við að leggja áherslu á nauðsyn stóraukinnar verkmenntunar í þessu landi og reynt að benda á það, hvernig hún hefur legið eftir þegar skólakerfið nú á hinum síðustu tímum hefur verið byggt upp að ýmsu leyti töluvert myndarlega. Hæstv. menntmrh. hefur alveg sérstaklega rætt um þetta og lagt áherslu á nauðsyn þess að verulega miklu meiri fjármunum verði varið til verkmenntunar en gert hefur verið til þess að ekki hallist svo átakanlega á í þessu sambandi eins og gerir nú og gert hefur í seinni tíð. Það er því miður ekki að sjá að neitt eigi að gera í þessum efnum, því að þar virðist fremur enn halla á verkmenntunina heldur en áður. Það er um að ræða ýmist sömu upphæðirnar í krónutölu eða jafnvel lægri fjárupphæðir í krónutölu heldur en áður sem verja á til verkmenntunar, og tel ég það illa farið.

Ég skal svo aðeins víkja með nokkrum orðum að þeim brtt. við fjárlagafrv. sem ég flyt. Þær eru á þskj. 179, þrjár brtt., og ein sem ég flyt ásamt öðrum er á þskj. 182.

Fyrsta brtt., sem ég flyt, er fyrsta till. á þskj. 179 um hækkað framlag til Menningarsjóðs. Ástæðan til þess, að ég flyt þessa hækkunartill. um að í staðinn fyrir 12 654 000 kr. komi 18 millj. kr. er einkum sú, að ég og þeir menn, sem með Menningarsjóð hafa að gera nú, þ. e. a. s. menntamálaráð og framkvæmdarstjóri Menningarsjóðs, þessir menn allir líta þannig á að Alþ. hafi tekið á sig alveg sérstaka skyldu í sambandi við þennan sjóð, þegar lögum um sjóðinn var breytt síðast og annar aðaltekjustofn hans var afnuminn og færður til ríkisins, en í staðinn átti að koma sérstakt framlag á fjárlögum. Í stuttu máli sagt er þetta þannig vaxið, að árið 1968 skipaði þáv. menntmrh. menn í n. til þess að athuga fjármál og fjárhagsgrundvöll Menningarsjóðs. Í þessari n. sátu hinir ágætustu menn: Guðlaugur Þorvaldsson prófessor, nú háskólarektor, Gísli Blöndal hagsýslustjóri og Vilhjálmur Þ. Gíslason þáv. formaður menntamálaráðs. Þessi n. skilaði skýrslu sinni og áliti eftir tiltölulega skamman tíma. Niðurstöður komu raunar ekki fram fyrr en nokkru síðar, en árið 1970 er flutt frv. um breytingu á lögunum um Menningarsjóð og menntamálaráð, þar sem annar aðaltekjustofn hans, þ. e. a. s. sektir fyrir áfengislagabrot, skal afnuminn algjörlega og það af ýmsum ástæðum og þó sérstaklega tveimur: annars vegar hafði þessi fjárstofn verið svo breytilegur og óviss að það gat valdið sérstökum vandræðum og hins vegar töldu margir og þó ekki síst þeir, sem með þennan sjóð höfðu að gera og stjórnuðu honum, að þessi tekjustofu væri heldur hvimleiður og æskilegt væri þess vegna að koma málunum öðruvísi fyrir.

Sem sagt, með lögum um breyt. á lögum um Menningarsjóð og menntamálaráð, sem samþ. voru á Alþ. í marsmánuði 1971, er þessi annar aðaltekjustofn Menningarsjóðs afnuminn og ríkið tekur þessar tekjur í sínar hendur, þ. e. allar sektir fyrir áfengislagabrot, þ. á m. fyrir upptækt áfengi og annað slíkt. En í staðinn er gert um það beint samkomulag við ríkisstj. og Alþ. að upp skuli tekin á fjárlögum ákveðin fjárupphæð árlega sem ekki skyldi vera hlutfallslega minni hverju sinni en meðaltal þessara sekta fyrir áfengislagabrot hafði verið næstu árin á undan. En sannleikurinn er sá, að það er aðeins fyrsta árið eða fyrstu tvö árin eftir að þessi breyting er gerð sem segja má að Alþ. og ríkisstj. standi við þetta ákveðna fyrirheit sem gefið var þegar þessi breyting var gerð. Síðan hefur farið þannig að þessi fjárhæð hefur ýmist staðið nokkurn veginn óbreytt að krónutölu eða jafnvel verið lækkuð milli ára. Og nú er þannig komið að heildartekjur Menningarsjóðs á næsta ári eru áætlaðar í fjárlagafrv. 12 millj. 650 þús. kr. Þar af mun vera áætlað að annar aðaltekjustofninn, sem áður var og enn er, þ. e. a. s. ákveðið gjald af aðgöngumiðum, aðallega aðgöngumiðum kvikmyndahúsa, gefi 10 millj. og nokkur hundruð þús., en þá er hið raunverulega framlag ríkissjóðs rétt um eða rúmar 2 millj. kr. Það mun þá vera í krónutölu svipuð upphæð og tekjustofninn, sem af Menningarsjóði var tekinn í ársbyrjun 1971, gaf árin 1969 og 1970, En það er tiltölulega auðvelt að reikna það út, að það væri ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að þessi tekjustofn gæfi nú 6–7 millj. kr. Ég tel að í þessu efni verði að athuga það, að þarna var í rauninni gert ákveðið samkomulag, og til staðfestingar því vil ég lesa það sem hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sagði um málið þegar það var til umr. í Ed. Alþ. 19. mars 1971, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem í þessu frv. felst“, — frv. voru þrjú þó að aðalefni kæmi fram í frv. um breytingar á Menningarsjóði. — „Það sem í þessu frv. felst, er það að gerð er breyting á tekjuöflun Menningarsjóðs. Eins og kunnugt er, eru þau ákvæði í gildandi lögum að hluti af tekjum Menningarsjóðs er fólginn í sektum fyrir áfengislagabrot og tekjum af áfengi sem gert er upptækt. Í þessu frv. felst það að framvegis skuli tekjur af áfengislagabrotum og upptæku áfengi renna í ríkissjóð, en hins vegar gert ráð fyrir því að framvegis verði tekin á fjárlög upphæð sem sé ekki minni en sú sem Menningarsjóður ella mundi hafa haft af þessum sökum.“

Mjög lík eða nánast sömu ummæli hefur hæstv. þáv. menntmrh. um málið í Nd. 24. mars 1971, og tel ég mig ekki þurfa að lesa þau. Vil ég vekja alveg sérstaklega athygli hæstv. menntmrh. á því, að þarna var gert samkomulag, og það er a. m. k. í ræðu hæstv. þáv. menntmrh. staðfest. Ég tel að með því að samþykkja þessa breytingu, taka af Menningarsjóði þennan tekjustofn og ætla honum ákveðið framlag á fjárlögum, þá hafi verið gert samkomulag sem Alþ. eigi ekki og megi ekki sóma síns vegna brjóta.

Ég hef flutt brtt. við þetta mál um það að í staðinn fyrir 12 millj. 654 þús. komi 18 millj. Ég mun taka þessa till. til baka til 3. umr. í trausti þess ekki síst að hæstv. menntmrh. beiti áhrifum sínum til þess að kippa hreinlega í lag því sem ég tel að þarna hafi aflaga farið. Ég tel mjög ólíklegt að Alþ. eða hæstv. ríkisstj. vilji ganga á bak þeirra orða sem gefin voru og Alþ. í rauninni samþ. með því að breyta lögunum um Menningarsjóð 1971.

Önnur till. mín á þskj. 179 er um allmikla hækkun á fjárframlögum ríkisins til almenningsbókasafna. Ég geri það að till. minni til bráðabirgða, meðan frv., sem nú liggur fyrir Alþ. um almenningsbókasöfn, er ekki orðið að lögum, að þessar upphæðir hækki nokkuð. Það er satt að segja næsta furðulegt að til allrar starfsemi almenningsbókasafna skuli ekki ætlað meira en, ef ég man rétt, samtals eitthvað 11 eða 12 millj. kr. í fjárlögum næsta árs til allra þeirra liða sem þar er um að ræða. Það eru bæði bæjar- og héraðsbókasöfn, sveitarbókasöfn, lestrarfélög, til bókasafna stofnana, og til húsabóta er hlægileg upphæð, nokkur hundruð þús. kr., til húsabóta safna á öllu landinu, og þar fram eftir götunum. Ég geri að till. minni að þessar upphæðir allar verði hækkaðar nokkuð, og er þó hér um að ræða allt of litlar og fátæklegar upphæðir ef miðað er við eðli máls og nauðsyn þeirrar starfsemi, mikilvægi þeirrar starfsemi sem hér er um að ræða.

Þriðja brtt. mín við fjárlagafrv. er einnig á þskj. 179. Hún er um það að liðurinn Aðstoð við þróunarlöndin hækki um helming, þ. e. a. s. úr 12.5 millj. í 25 millj. kr. Það var á Alþ. árið 1971, sem samþ. var sérstök löggjöf um aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Þessi löggjöf, sem þá var samþ., var má segja árangur af þáltill. sem Ólafur Björnsson prófessor, þá alþm., flutti, ef ég man rétt, á Alþ. árið 1965 þar sem þessu máli er hreyft og það reifað á myndarlegan hátt. En árið 1971 tekur Alþ. loks rögg á sig og setur sérstaka löggjöf um þessa þróunaraðstoð sem allir alþm. virtust vera sammála um að væri sjálfsagt að veita, og það væri kannske rétt, töldu sumir hinna varfærnu, að byrja smátt. En markið var þó strax í upphafi sett nokkuð hátt og ákvæði tekið inn í lögin um það, að hverju skyldi stefnt í sambandi við aðstoð við þróunarlöndin. Samkv. lögunum frá 1971 skyldi komið á fót opinberri stofnun sem nefndist Aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Stjórn þessarar stofnunar er skipuð 5 áhugasömum og ágætum mönnum sem Alþ. kýs til 4 ára í senn. Formaður stjórnar þessarar stofnunar hefur frá upphafi, hygg ég, verið Ólafur Björnsson prófessor.

Nú er alveg nýlega komin út fróðleg skýrsla um störf þessarar stofnunar árin 1971–1975, og hefur henni nýlega verið útbýtt hér á Alþ. Þar er gerð grein fyrir störfum hinnar íslensku þróunarstofnunar og þar kemur fram, sem kunnugir vissu raunar áður, að um hefur verið að ræða að mestu samstarf við önnur Norðurlönd um nokkur tiltekin samnorræn verkefni, aðallega í tveim löndum Austur-Afríku, Tansaníu og Kenía. Nokkrir íslendingar hafa starfað að þróunarmálum í þessum löndum á vegum hinnar samnorrænu þróunarstofnunar. Um þetta allt er mjög greinagóðar upplýsingar að finna í þeirri skýrslu sem ég áður nefndi. Um það hefur verið rætt í stjórn hinnar íslensku þróunarstofnunar að taka upp samstarf við Norðurlönd um verkefni í fleiri þróunarlöndum. En vegna fjárskorts hefur það verið útilokað og er algjörlega útilokað að stofnunin geti tekið frekari þátt í þessu starfi nema aukin fjárframlög komi til. Það mun jafnvel, eftir því sem fram kemur í skýrslunni, vera mjög hæpið að nægilegt fé sé til hinnar takmörkuðu hlutdeildar Íslands í fyrrgreindu verkefni í Kenía og Tansaníu með þeirri fjárveitingu sem gert ráð fyrir á fjárlögum fyrir næsta ár.

Á bls. 27 og 28 í þessari skýrslu, sem ég hef nú nefnt, er fróðleg grg. um það, hvað Ísland hefur lagt til aðstoðar við þróunarlöndin á nokkrum undanförnum árum, þ. e. a. s. árin 1971–1976, samkv. fjárlagafrv. Þar er ekki aðeins tekið það sem Alþ. leggur til þessarar stjórnar þróunarstarfsins, heldur er einnig greint nákvæmlega frá því hvað Ísland hefur lagt af mörkum til þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem fjalla að meira eða minna leyti um málefni þróunarlandanna, þ. e. a. s. til Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, til Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar, til barnahjálparinnar og matvælaáætlunarinnar. Þessar upphæðir eru afar lágar sem Ísland hefur lagt til þessara starfa, og eins og n. segir, þessar upphæðir nema samtals á ári fáeinum millj. kr. Og n. segir: Það skal tekið fram að þessi framlög eru aðeins skylduframlög, þ. e. a. s. aldrei hefur Ísland veitt eina krónu til neinnar af þessum stofnunum, að því er virðist, þessi ár fram yfir það sem beinlínis var skylda þess ef það vildi eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum og þessum stofnunum þeirra, — ekki eyri þar fram yfir.

Í 2. gr. laganna um aðstoð við þróunarlöndin frá 1971, þar sem verið er að skilgreina hlutverk stofnunarinnar, segir, með leyfi hæstv. forseta, að hlutverkið eigi m. a. að vera að „vinna á annan hátt að því að framlög íslendinga í þessu skyni nái sem fyrst því marki sem samþ. hefur verið á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þau nemi 1% af þjóðartekjum“. Í skýrslunni, sem ég hef nú alloft vitnað til, um aðstoð Íslands við þróunarlöndin, á bls. 28, er á það bent að framlag Íslands í þessu skyni í ár sé 1/20/00 — hálfur af þúsundi. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 er gert ráð fyrir 12.5 millj. í þessu skyni.

Hæstv. utanrrh., sem þetta mál heyrir undir, situr ekki á Alþ. þessa dagana, en ég get samt ekki látið hjá líða að segja að mér finnst hæstv. ráðh. ekki mikilþægur í sambandi við þessi mál. Vil ég aðeins á það benda til samanburðar, að dýrasta sendiráðið okkar sem við höldum uppi nú, — það er staðsett í Brüssel. það er sendiráð Íslands hjá NATO, — kostar rúmar 32 millj. á næsta ári, þ. e. a. s. það er nær því þreföld þróunarhjálpin. Það liggur við að ég blygðist mín fyrir að flytja svona litla till. sem ég geri um það að tvöfalda einungis þessa aðstoð, en það er þó hækkun úr 1/20/00 í 10/00. Ef við héldum þannig áfram að tvöfalda þessa aðstoð árlega á næstu árum, þá eygðum við það í fjarska að við næðum einhvern tíma markinu sem Alþ. setti sér árið 1971, þegar það var svo rausnarlegt að miða við það að Ísland stefndi að því að leggja til þessarar starfsemi 1% af þjóðartekjum íslendinga á hverju ári. Ég fer nú ekki fram á meira en þetta, að í staðinn fyrir 1/20/00 komi 10/00 til þessarar starfsemi á næsta ári, og blygðast mín raunar næstum því fyrir hvað þessi till. mín er lítilfjörleg.

Þá vil ég aðeins með nokkrum orðum minnast á till. sem ég flyt ásamt tveimur hv. alþm. öðrum, Helga F. Seljan og Ragnari Arnalds. Sú till. er á þskj. 182 og er um það að til allra iðnskóla á landinu verði veittar 75 millj. kr. í í staðinn fyrir 32 millj. 300 þús. kr., eins og svo virðist sem hæstv. menntmrh. ætli að láta duga til þessara óskabarna sinna, sem hann hefur oftar en einu sinni sagt að þyrftu vissulega að eflast og það stórlega. Ég vék að því áðan, hversu mikil þörf er í þessum efnum og hversu mjög hefur hallað á hina verklegu menntun í sambandi við þá endurnýjun skólakerfis okkar sem átt hefur sér stað að undanförnu og ég skal síst lasta, að svo miklu leyti sem hún er að komast í framkvæmd. En það gefur auga leið, að þegar um er að ræða á sjöunda milljarð króna til skólamála og af þeim peningum er samtals gert ráð fyrir um 136 millj. til iðnfræðslu á öllu landinu, þ. e. a. s. um 2% af heildarframlagi til skólamála, þá er eitthvað öfugt við þessa hluti. Þá er ekki um rétt og eðlileg hlutföll að ræða. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð, en ég vit ekki trúa því fyrr en ég má til, að hæstv. menntmrh. sætti sig við að þessi þáttur skólamálanna verði svo mjög fyrir borð borinn á næsta ári eins og út lítur fyrir ef þessi upphæð, sem þarna er um að ræða til iðnskólanna, hækkar ekki mjög verulega. Ég tel, að við, sem flytjum brtt. um þessa mjög takmörkuðu hækkun upp í 75 millj. kr. til iðnskóla, förum þar afar vægt í sakirnar, og fæ varla trúað því að hæstv. menntmrh. a. m. k. leggi okkur ekki lið til þess að fá þessa litlu leiðréttingu fram, jafnvel þó að óbyrlega blási nú um marga hluti hjá hæstv. ríkisstj.