16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

1. mál, fjárlög 1976

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess, að mér þykir leitt að hæstv. menntmrh. er ekki á þingfundinum, en við því get ég að sjálfsögðu ekkert gert. Þegar hæstv. menntmrh. talaði í útvarpsumr. í haust sagði hann þjóðinni að margt væri sýslað í menntmrn., og efa ég sannarlega ekki að þar er unnið að mörgum merkilegum málefnum. Hins vegar er hæstv. ráðh. sjálfur kunnari fyrir annað en stórræði í menntamálum. Það er, að ég hygg, fljótgert að telja upp þau mál sem hann er orðinn kunnur fyrir síðan hann varð menntmrh. Í fyrsta lagi er hann minnisstæður mönnum fyrir að koma rétt kjörnu útvarpsráði frá til þess að koma að nýju útvarpsráði sem hafði réttan pólitískan lit. Í öðru lagi er þessi hæstv. ráðh. minnisstæður mönnum fyrir að leggja blessun sína yfir að útvarpinu var lokað fyrir verkalýðshreyfingunni og henni þannig meinað að koma skoðunum sínum á framfæri í landhelgismálinu. Og loks má upp telja stórfelldan niðurskurð á öllum sviðum menningar mennta og lista. Í sumar var ákveðið að fækka kennslustundum í grunnskóla og átti sá niðurskurður að gefa 52 millj. kr. Hæstv. menntmrh. lét það hins vegar gott heita að fjmrn. ákvæði þennan niðurskurð og hvar hann skyldi koma niður. Það þýðir í reynd, að fjmrn. er farið að skipa námsskrá í skólum. Það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir til umr., ber með sér stórfelldan niðurskurð á öllum helstu menntamálum, og þau mál, sem hæstv. ráðh. lætur ekki skera niður, gefur hann hreinlega frá sér, eins og frv. það um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem hér liggur fyrir, ber með sér. Ég fæ ekki séð annað, þegar ég lít yfir feril hæstv. menntmrh., en menntamálastefna hans sé sambland af geðleysi og gerræði og það er slæmur kokteill.

Í útvarpsumr. nefndi hæstv. menntmrh. að meðal hinna mörgu merku málefna, sem hann ætlaði að sinna, væri efling verkkennslu, og skildist manni að nú ætti að koma veruleg hreyfing á það mál. Vissulega var það fagnaðarefni, því að margir hafa knúið á um úrbætur í þeim efnum, enda viðurkennt að það sé eitt brýnasta verkefnið fram undan í menntamálum þjóðarinnar. Þar er undirbúningur nokkuð á veg kominn. En ef litið er á þau fjárframlög, sem ætluð eru til iðnfræðslu og verknámskennslu í þessu fjárlagafrv., virðist helst sem hæstv. menntmrh. líti á eflingu verkkennslu í landinn sem dútl eitt.

Nú eru senn 10 ár síðan lögum um iðnfræðslu var breytt með það fyrir augum að efla skyldi verknámsfræðslu í skólunum. Sú stofnun, sem lengst allra hefur barist fyrir bættri iðnmenntun í landinu, er Iðnskólinn í Reykjavík. Forustumenn skólans hafa á undanförnum árum verið að breyta skipulagi hans áfanga eftir áfanga til þess að skólinn geti orðið raunverulegur verknámsskóli, þ. e. a. s. fært verknámið inn í skólann. Um þessa stefnu í verknámskennslu eru allir sammála. En til þess þarf vitaskuld búnað og tæki og það þarf engan að undra þótt slíkt kosti nokkurt fé. Hér er raunverulega um að ræða nýsköpun í skólamálum. Hér er verið að byggja upp frá grunni. Að þessu stefnir Iðnskólinn í Reykjavík. En ég fullyrði að þetta verk muni stöðvast ef skólinn fær ekki meira fjármagn en honum er ætlað á fjárl. fyrir næsta ár. Honum eru ætlaðar 9.5 millj. til fjárfestingar í tækjum og byggingum, en áætlun skólans sjálfs er 50 millj.

Það sýnir hug núv. ríkisstj. til iðnmenntunar í landinn, að til stofnkostnaðar allra iðnskóla í landinu skuli vera áætlaðar aðeins 32 millj. kr. enda þótt fyrir liggi að Iðnskólinn í Reykjavík einn þurfi 50 millj. Þetta segir sína sögu. Af þessum 50 millj. telur Iðnskólinn að 23 millj. ættu að renna til tækjakaupa, 15 millj. til að ljúka öðrum áfanga byggingarinnar og 12 millj. til byrjunarframkvæmda á lóð skólans við Bergþórugötu, en sú bygging er samþ. og áætlun er gerð.

Ég legg þó sérstaka áherslu á nauðsyn þess að skólinn fái nauðsynleg framlög til tækjakaupa. Hér er t. d. um að ræða tækjakaup til bifvélavirkjadeildar og grafísku iðngreinanna. Húsnæði er til fyrir bifvélavirkjadeild, en í það húsnæði vantar tækin og ef þau fást ekki er hætta á að áætlun um það nám stöðvist og skólinn geti ekki veitt þeim nemendum, sem nú eru byrjaðir námið, áframhaldandi verknámskennslu. Hætt er því við að uppbygging þeirrar deildar muni stöðvast. Tækjakaup til grafísku iðngreinanna eru nauðsynleg vegna þeirrar tæknibyltingar sem átt hefur sér stað í prentlistinni, þar sem er offsetprentunin. Segir sig sjálft að skólinn verður að geta boðið nemendum sínum þá kennslu sem er í samræmi við nútímaaðferðir.

Þá er till. í fjárlagafrv. til rekstrargjalda Iðnskólans í Reykjavík algjörlega óraunhæf. Þar er gert ráð fyrir 646 þús. kr., en áætlað er að viðhald fasteigna, eingöngu sá liður, verði tæpar 1 millj. Þetta stenst því engan veginn og alveg augljóst að skólinn kemst í þau vandræði sem verður að leysa, ef ekki nú, þá síðar. Forustumenn skólans telja að skólinn þurfi 9 millj. 333 þús. kr. til rekstrargjalda og er sérstök þörf á eflingu bókasafns skólans. Það er einn þátturinn í þeirri breytingu á kennsluháttum sem unnið er að, en alger endurskipulagning skólabókasafnsins hófst í byrjun skólaársins 1974–1975 með það fyrir augum að miða bóka- og gagnaval algerlega við þær iðngreinar sem kenndar eru við skólann. Hér er því um að ræða sérfræðibókasafn sem nauðsynlegt er til kennslunnar og örðugt að ganga að slíkum bókum í öðrum söfnum. Ég tel mig hafa gert mjög hógværa till. með hliðsjón af raunverulegri fjárþörf skólans. Ef till. mínar verða samþ. væri hægt að koma í veg fyrir að uppbygging Iðnskólans stöðvaðist eða svo gott sem.

Á þskj. 182 hef ég lagt til að Iðnskólanum í Reykjavík verði veittar 30 millj. kr. til stofnkostnaðar og 4 millj. til annarra rekstrargjalda en launagreiðslna.

Þá er á sama þskj. till. um hækkun til Öskjuhlíðarskóla, sem er skóli fyrir þroskahömluð börn. Ég flyt þá till. ásamt hv. þm. Helga F. Seljan. Ríkið tók við þessum skóla af Reykjavíkurborg og skólinn, sem áður var ætlaður vangefnum nemendum úr Reykjavík einvörðungu, verður nú skóli fyrir allt landið. Í skólanum eru nú flest börnin úr Reykjavík, en líklega um 25 börn utan af landi. Þarna hefur verið gert ráð fyrir 200 nemenda skóla: en þar eru í vetur 115 nemendur. Þessir 85 nemendur, sem eftir eru, er reiknað með að komi utan af landi þar sem ekki er möguleiki á að veita þeim þá aðhlynningu, sem þeir þurfa, og þá kennslu, sem er nauðsynlegt að þeir fái. Engir möguleikar eru á að taka þá inn í skólann fyrr en annar áfangi hefur verið reistur, en vitað er um fjölda barna í öllum landsfjórðungum sem þurfa á þessari hjálp að halda, en komast ekki inn. Til að reisa þennan annan áfanga eru ætlaðar í fjárlagafrv. 4 millj. 760 þús., en ljóst er að það kemur að litlu gagni og hætta er á stöðvum í ár ef framlag hækkar ekki. Við gerum því till. um að framlag þetta hækki upp í 20 millj. kr.

Þriðja brtt. mín varðar hækkun á framlagi til Arnarholts, og legg ég til að framlagið hækki um 17 millj. kr. eða úr 20 millj. upp í 37 millj. Svo sem kunnugt er er Arnarholt rekið sem útibú frá geðdeild Borgarspítalans og aðallega ætlað langtímasjúklingum. Þar eru húsakynni mjög léleg, enda alls ekkí ætluð sjúklingum í upphafi, heldur reist sem útihús þegar áður var bú í Arnarholti. Ekki þarf mörgum orðum um að fara hve brýnt er að lokið verði við þá byggingu sem nú er að rísa. Ætlunin er að smíði hússins verði lokið á miðju næsta ári. Ef svo á að verða er ljóst að ekki má skera niður hluta ríkisins til byggingarinnar. Borgarstjóri Reykjavíkur gerir svofellda grein fyrir þessu máli í bréfi til þm. Reykjavíkur, með leyfi hæstv. forseta :

„Samningur milli ríkis og borgar um byggingu annars áfanga við sjúkrahúsið í Arnarholti gerði ráð fyrir kostnaðarhluta ríkissjóðs samtals 66 millj. kr. og skyldu 12 millj. kr. koma til greiðslu á árinu 1976, þó með fyrirvara um að samningsaðilar mundu stuðla að því að framlög ríkissjóðs frá og með árinu 1975 hækkuðu í samræmi við raunverulega hækkun kostnaðar við bygginguna. Kostnaðaráætlun var miðuð við byggingarvísítölu 689 stig, en nú er vísitalan 1986 stig. Þykir einnig sýnt að kostnaðaráætlunin muni hækka verulega, þannig að hlutur ríkissjóðs, þ. e. a. s. 85% frá 1. jan. 1974, en 60% af áður áföllnum kostnaði, verður væntanlega um 127.5 millj. kr. miðað við núverandi verðlag. Til þess að eftirstöðvar af framlagi ríkissjóðs verði að fullu greiddar á árinu 1978, eins og samningurinn gerir ráð fyrir, þyrfti því árleg fjárveiting 1976–1978 að ákveðast um 37 millj. kr.“

Ég hef í samræmi við þetta, eins og ég áður sagði, gert till. um að framlagið til Arnarholts hækki um 17 millj., úr 20 upp í 37 millj.

Í fjórða lagi legg ég til að framlag til Jafnlaunaráðs verði hækkað úr 530 þús. í 1400 þús. kr. Jafnlaunaráð var sett á stofn 1973 en hefur í rauninni ekki enn fengið þá starfsaðstöðu sem það þarf á að halda til að geta fullnægt því hlutverki sem því er ætlað að gegna skv. lögum. Málin, sem Jafnlaunaráði berast, eru mjög tímafrek, og það var raunar vitað þegar lögin voru sett að ráðið þyrfti að hafa fastan starfsmann. Mér er kunnugt um að ráðið hefur farið þess á leit við félmrh. að það fái bæði starfsmann og fastan samastað. Sú hækkun, sem ég legg til, er fyrst og fremst ætluð til þessara nota. Þá vil ég minna á að ráðinu eru ætluð fleiri verkefni skv. lögum en að sinna einstökum málum. Því er m. a. ætlað að takast á hendur rannsóknir er varða launamisrétti en ráðið hefur hingað til ekki getað annað slíkum verkefnum sakir fjárskorts, en ráðsmenn ent nú með áætlun um visst verkefni, og því er mjög brýnt að framlag til Jafnlaunaráðs verði hækkað. Á þessu ári hefur ráðið til ráðstöfunar 634 þús. kr. Framlag í fjárlagafrv. þessa árs er hins vegar aðeins 590 þús. kr. Til þess að halda raungildi hefði framlag til næsta árs þurft að vera tæplega 900 þús. og ekki nema eðlilegt að það hækki meira en rétt til að halda raungildi sínu.

Að síðustu, herra forseti, hef ég lagt til að Kvennasögusafn Íslands fái fjárveitingu frá Alþ. að upphæð 500 þús. kr. Kvennasögusafn Íslands er heimildarsafn til sögu íslenskra kvenna. Það var stofnað 1. jan. 1975 og á sér hliðstæðu í nágrannalöndunum og er tilgangur sá að stuðla að því að rannsaka sögu kvenna. Sums staðar á Norðurlöndum er þetta orðinn sjálfsagður þáttur í háskólabókasöfnum eða þjóðarbókhlöðum og er ýmist í sérstökum deildum eða á hendi sérstaks bókavarðar. T. d. í Svíþjóð og Danmörku er þessi starfsemi kostuð af opinberu fé. Þetta er þáttur í hinni nýju kvennahreyfingu og mikilvægur þáttur í því sem sumir hafa nefnt vitundarvakningu. Tilgangurinn er kannske fyrst og fremst sá að færa sagnfræðina í rétt horf, fylla í þær eyður sem sagnfræðingar og mannkynsfræðarar hafa vanrækt og þar með viðurkenna að kvenfólk eigi sér sögu og hafi komið við sögu. Kvennasögusafn Íslands er sjálfseignarstofnun. Þetta er framtak þriggja kvenna: Önnu Sigurðardóttur, Elsu Míu Einarsdóttur og Svanlaugar Baldursdóttur, sem hafa allar til að bera þá þekkingu og þann dugnað sem þarf til að stofna og reka slíkt safn, en safnið er rekið í heimahúsi og bókakaup og önnur starfsemi, sem safninu tilheyrir, er vissulega kostnaðarsöm. En ég vil geta þess, að margir sækja safnið heim, m. a. námsmenn við Háskóla Íslands sem leitað hafa til safnsins vegna náms síns. Ég tel, að safnið hafi þegar á þessu fyrsta ári sannað gildi sitt, og legg til. að því verði veittar 500 þús. kr. til rekstrar.