16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

1. mál, fjárlög 1976

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að ræða almennt um fjárlagafrv. þó að ég muni minnast á einstaka þætti þess, heldur fyrst og fremst til að ræða um það mikla tjón sem varð vegna fárviðris á Suðureyri við Súgandafjörð um síðustu helgi, því að mér sýnist ljóst að athuguðu máli að hér þurfi fjárveitingavaldið að koma til og bæta það tjón. Ég veit að þm. allir hafa fylgst með þessu. Tugmilljónatjón varð þar nóttina 13.–14. þ. m. Tvær bryggjur, sem notaðar hafa verið til löndunar úr trillum, gersamlega eyðilögðust. Ný þekja á hafnargarði lyftist um 20–30 cm og er sprungin og illa farin. Allt laust, eins og dælur og fleira, skúrar og annað sem á hafnarbakkanum stóð, er horfið út í veður og vind. Auk þess er líklegt að renna sú, sem liggur inn í höfnina og nauðsynleg er til þess að togari staðarins komist þangað, hafi fyllst að einhverju leyti með efni, sem hafrót hefur rutt þar til, og þurfi að lagfæra það.

Auk þessa tjóns á hafnarmannvirkjum hefur orðið mjög mikið tjón á vegi út í svonefndan Staðardal, þannig að hann mun vart fær, og hefur grafist þar undan vatnsleiðslu. Vegur þessi er að nokkru leyti sprengdur inn í berg og að nokkru leyti hlaðinn með grjóti fram í sjó. Og þá er ótalið mikið tjón sem varð á persónulegum eignum manna og eignum sveitarfélagsins, m. a. stórri áhaldageymslu.

Í athugun er hvernig megi bæta þetta, og menn litu að sjálfsögðu fyrst til Viðlagatryggingarinnar okkar nýju, en í ljós kemur að þar er svo um hnútana búið að ekki er bætt tjón sem verður vegna roks, en þetta mun falla undir það. Að öllum líkindum mun Bjargráðasjóður verða að hlaupa eitthvað undir bagga, en þar er lítið fjármagn og takmarkað hvað hann getur gert. Ég þykist einnig viss um að Byggðasjóður muni vera reiðubúinn til þess að aðstoða við að bæta tjón það sem orðið hefur á mannvirkjum sem ég lýsti áðan, en hins vegar sýnist mér ljóst að ríkissjóður eða einhver sjóður ríkisins verður að hlaupa undir bagga í sambandi við hin opinberu mannvirki, eins og höfnina og veginn. Sérstaklega er tjón það, sem orðið hefur á höfninni, ákaflega illt. Togarinn kemst ekki þangað inn til löndunar og verður að liggja úti við Brjót sem er alllangt í burtu. Er mikið óhagræði sem þessu fylgir. Að sjálfsögðu eru slíkum stað allar bjargir bannaðar ef hafnarmannvirkin eru ekki í sæmilegu lagi.

Nú er hins vegar svo ástatt með Hafnabótasjóð, að þar er enginn eyrir til og mér er tjáð að nauðsynlegt muni reynast að útvega sjóðnum lánsfé ef hann á að geta bætt það tjón sem hér um ræðir,

Ég hef ekki öruggar tölur að sjálfsögðu um þetta tjón. Hafa verið kvaddir til matsmenn sem munu skoða það í heild sinni, og einnig hefur verið haft samband við vita- og hafnamálastjóra, sem að sjálfsögðu er skylt að senda þangað hið fyrsta mann á staðinn og meta þetta tjón og gera sér grein fyrir hvernig það verður bætt. Einnig hefur verið haft samband við vegamálaskrifstofuna og er þegar maður frá henni búinn að koma á staðinn. Með tilliti til þessa leyfi ég mér að flytja brtt. við 6. gr. frv. til fjárl., heimildagr. Það er brtt. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1976. Við 6. gr. bætist nýr liður, svo hljóðandi:

„Ríkissjóði er heimilt að tryggja Hafnabótasjóði fé með lántöku til þess að bæta tjón það sem varð vegna fárviðris á hafnarmannvirkjum á Suðureyri við Súgandafjörð 13.–14. des. s. l.

Till. þessi er of seint fram komin og að auki skrifleg, og verð ég að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða til þess að hún megi koma fyrir. Ég hef í þessa till. aðeins tekið heimild til þess að bæta tjón það sem höfnin hefur orðið fyrir, vegna þess að ég tel að finna megi aðra sjóði, aðra aðila sem hlaupa muni undir bagga við bætur á öðru tjóni, þ. e. a. s. Vegagerðina í sambandi við veginn og Byggðasjóð og aðra sjóði í landinu í sambandi við persónulegar eignir. Auk þess hygg ég að þær séu að öllum líkindum fremur sæmilega tryggðar en höfnin, sem ég þykist viss um að er svo ekki.

Ég vil gjarnan geta þess, að ég mun draga þessa till. til baka til 3. umr., því að ég þykist viss um að hv. fjvn. mun líta á þetta mál af velvilja. Ég legg þessa till. fyrst og fremst fram til þess að minna á þetta mál og tryggja að það verði skoðað fyrir 3. umr.

Ég vil jafnframt leyfa mér að segja örfá orð um fáein atriði fjárlagafrv.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. frsm. fjvn. og komið er fram hjá hæstv. fjmrh. og raunar fleirum, að mjög nauðsynlegt er að sýna aðhald í afgreiðslu fjárlagafrv. að þessu sinni. Ég tek hins vegar ekki undir það sem gjarnan er kallað á götuhornum, að fjárlagaafgreiðsla síðasta Alþ. hafi verið mjög óábyrg og sökin sé fyrst og fremst Alþingis. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel ekki óeðlilegt þótt fjárlagafrv. hækki um 5–6% í meðferð Alþ. Það er satt að segja ekki mikið svigrúm fyrir alþm. þótt slík hækkun verði, og ég vil vekja athygli á því að síðasta fjárlagafrv. breyttist öllu fremur vegna ýmiss konar endurmats á alls konar áætlunum og kostnaðarliðum sem þar komu fram, og ég get einnig vakið athygli á því að frv. fór ekki síður úr skorðum vegna nauðsynlegra efnahagsráðstafana sem fylgdu í kjölfarið, eftir að frv. var samþ., eins og lækkun skatta, sem kostaði ríkissjóðinn 2 milljarða, og auknar niðurgreiðslur sem námu 600 þús., ef ég man rétt. Einnig mætti nefna gengisfellingu sem kostaði ríkissjóð mikið fé.

Mér sýnist að meðferð fjárlagafrv. nú sé að ýmsu leyti dálítið varhugaverð, þótt ég taki undir það að afgreiða ber fjárlög hallalaus. Mér sýnist, að efnahagsástand í okkar landi sé slíkt að ekki megi þar taka áhættu af fjárlögum sem afgreidd eru með halla, og undirstrika það því enn, að í þessu sambandi þarf að gæta aðhalds. Hins vegar má tryggja hallalaus fjárlög á tvo vegu: annars vegar með því að skera svo niður að útgjöld verði ekki meiri en tekjur og hins vegar með því að auka tekjur þannig að tekjur yrði nægilegar til þess að standa undir nauðsynlegum útgjöldum.

Ég held að nú beri að fara þessar báðar leiðir. Ég vil alls ekki útiloka þá leið að auka tekjur ríkissjóðs jafnvel með auknum sköttum og öðrum álögum til þess að mæta ýmsum nauðsynjaútgjöldum sem ríkisvaldið hefur tekið á sínar herðar á undanförnum árum og illt og erfitt er að hlaupa frá. Ég óttast einnig að við afgreiðslu á sumum liðum fjárlaga sé tjaldað til einnar nætur og þar eigi eftir að koma í ljós erfiðleikar á fjárlagaárinu sem ekki verða þá brúaðir á annan máta en með einhverjum bráðabirgðaúrræðum, með útvegun fjármagns eftir öðrum leiðum, og sýnist mér þá sparnaðurinn til lítils og afgreiðsla á slíkum málum raunar óraunhæf ef þessi verður reyndin. Ég ætla aðeins að nefna 2–3 liði sem ég þekki einna gerst.

Í brtt., sem meiri hl. leggur nú fram, er gert ráð fyrir 3 millj. kr. til ylræktarrannsókna. Ég vil þakka það. Mér sýnist að þar komi fram viðurkenning á því að þessar rannsóknir eigi að stunda og verkefnið sé þess virði. Staðreyndin er hins vegar sú, að þetta fjármagn hrekkur hvergi til. Það er, eins og stundum er sagt, hvergi nægilegt til þess að koma þessum rannsóknum yfir þröskuldinn. Svo vill til að þetta rannsóknarverkefni er samningsbundið við Sameinuðu þjóðirnar. Fyrir rúmum tveimur árum var með samþykki ríkisstj. gengið frá samningi við Tæknistofnun Sameinuðu þjóðanna um tækniaðstoð tíð okkar íslendinga sem nemur hátt í eina millj. dollara og gerir ráð fyrir verulegu mótframlagi af Íslands hálfu. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir mótframlagi sem nemur 14.7 millj. kr. á þremur árum: 1974, 1975 og 1976. Þessi starfsemi hófst á árinu 1974 og hefur staðið í tvö ár. Nokkur dráttur hefur orðið vegna þess að það fjármagn, sem við ætlum að leggja til þessari rannsókn, hefur ekki fengist. En það hefur ekki komið að verulegu tjóni því að aðstoð Sameinuðu þjóðanna hefur einnig dregist, og má segja að það hafi haldist í hendur.

Nú er hins vegar svo komið að sú aðstoð, sem Sameinuðu þjóðirnar lofa, er komin eða er að koma, og þá er okkur að sjálfsögðu mjög brýnt að standa við okker hlut. Til þessara rannsókna hafa runnið til þessa dags um 4 millj. Nú hefur kostnaðaráætlun verið endurskoðuð mjög ítarlega og kemur þá í ljós að á árinu 1.976 þarf að verja til þessara rannsókna samtals 8.8 millj. kr. Að öllum líkindum mun starfsemin dragast eitthvað yfir á árið 1977, en lítillega, en heildarkostnaðurinn mun, ég vil segja þótt einkennilegt sé, líklega ekki fara mikið fram úr þeirri upphæð sem samningsbundin var við Sameinuðu þjóðirnar. Hitt er svo annað mál að að mati þeirra, sem þessar rannsóknir stunda, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskólans í Hveragerði, eru þessar 8.8 millj. algert lágmark til þess að sinna megi þessum rannsóknum á næsta ári. Sótt var um fjármagn til þessara rannsókna, bæði af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og einnig af Rannsóknaráði ríkisins. Umsóknin var skorin niður hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins í 760 þús. kr., ég veit ekki af hverju þær voru skildar þar eftir, og hjá Rannsóknaráði ríkisins um um það bil 3 millj. Nú er gert ráð fyrir að bæta þetta með samtals 3 millj., en eftir því sem okkur sýnist að vandlega athuguðu máli, siðast í morgun, þá verður þessum málum alls ekki sinnt nema með öðrum 3 millj. til viðbótar, þ. e. a. s. 6 millj. samtals, og er þá reiknað með því að skrapa saman allt það fjármagn sem er fyrir hendi til athugunar á nýtingu náttúruauðæfa landsins. Fresta þarf þá athugunum eins og t. d. nýtingu á leir í Búðardal, sem ég hygg að sumum, eins og t. d. hæstv. forseta, muni ekki líka vel að heyra, og fresta öllum störfum lendgrunnsnefndar. Sumu er ekki hægt að fresta, eins og t. d. störfum n. sem vinnur að snjóflóðaathugunum og vinnur samkv. þáltill. sem hér var samþ. En með þessu móti sýnist þeim, sem að þessum rannsóknum vinna, að þó megi standa við okkar hluta af þessum samningi og halda þessari starfsemi áfram. Að öðrum kosti sýnist mér raunar um lítið annað að ræða en tilkynna Sameinuðu þjóðunum að við getum ekki staðið við okkar hluta af þessu verki, og það held ég að mönnum þætti nokkuð illt.

Ég ætla að nefna annan þátt, sem ég þekki einnig mjög vel. Það er Byggingarsjóður rannsóknastarfseminnar. Hann hefur í tekjur 20% af Happdrætti háskólans, sem er einkaleyfisgjald það sem happdrættið greiðir til ríkissjóðs. Hins vegar hefur byggingum á Keldnaholti. sem sjóðurinn stendur undir, verið flýtt með því að taka lán til þessara framkvæmda. Þessi lán eru vísitölutryggð, og nú er svo komið að tekjurnar hrökkva ekki til að greiða þessi lán þótt þau hafi staðið í allmörg ár, og sjóðurinn er kominn í 12.5 millj. kr. vanskil við Ríkisábyrgðasjóð og skuldin safnar 2% vöxtum á mánuði. Þetta er náttúrlega ekki góður búskapur, og ég held að það verði bara að horfast í augu við slíka staðreynd og greiða þessa vanskilaskuld. Ég held að það sé engum til góða að þetta renni úr einum vasa ríkissjóðs í hinn.

Auk þess vil ég geta þess sem hefur vakið mikla undrun manna á Keldnaholti, sérstaklega hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Þar er bygging, sem hefur orðið fyrir ákaflega miklu tjóni af vatnsskemmdum. Hún er byggð með þeim hætti að notað er ál og gler og þess háttar hlutir sem ekki er hægt að nota í íslensku veðurfari. En sú vitleysa var gerð þegar þessi bygging var reist fyrir 10 árum rúmum, þá var þetta talin lausn á okkar byggingarháttum. Niðurstaðan hefur orðið sú, að þarna hriplekur allt í minnstu veðrum, og þrátt fyrir alls konar smátilfæringar til að lagfæra þetta hefur það aldrei enst nema stutta stund vegna þeirrar miklu þenslu, sem er í slíkum álvegg, og þeirrar sveigju, sem hann hlýtur af stormálagi. Því hefur verið ákveðið að ekki sé um annað að ræða en gera meiri háttar lagfæringu og breytingu sem var áætluð s. l. vor að kosta 8 millj. kr. Menn kunna e. t. v. að segja: Hvers konar vitleysa er að leggja í slíka byggingarhætti? Ég get tekið undir það. En e. t. v. er svarið það, að við höfum þráast við í fjölmörg ár að veita fjármagn til rannsókna á nýjum byggingaraðferðum hér á landi og það er ákaflega lítið gert enn. Við byggjum hér úr nýjum efnum sem eru flutt inn erlendis frá, án þess að nokkuð sé athugað hvort það hentar íslenskum aðstæðum. Þó hefur Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins ár eftir ár bent á ákaflega mikið tjón sem íslenskur þjóðarbúskapur hefur orðið fyrir af þessum sökum. Við byggjum flöt þök og notum þar efni á sem hvergi hafa verið notuð við svipaðar aðstæður, og ég gæti lesið lista, sem kvöldið mundi ekki nægja til að ljúka, yfir þær sorglegu staðreyndir. Og þarna er aðeins eitt dæmi um það. Það gleyptu allir við þessu þegar það kom á markaðinn. Sem betur fer eru menn hættir að nota það nú að mestu eða a. m. k. nota það ekki á þann hátt sem var gert þá, álveggi og gler á milli.

En svo að menn heyri hvernig ástandið er, — það er ekki fallegt, — þá ætla ég að lesa úr stuttri skýrslu frá forstjóra stofnunarinnar.

„Húsið liggur allt undir skemmdum. Í vatnsveðrum flóir vatn um alla bygginguna og eyðileggur gólfin, hripar niður úr loftunum ofan á rannsóknartæki, skýrslur og rit. Í síðasta veðri voru skjöl á skrifborði mínu rennblaut. Má búast við því, ef ekki verður að gert, að gluggakarmar fari að losna, rúður að brotna frekar, en margar eru þegar ónýtar. Ef ekki verður hafist handa á næsta ári gæti tjónið skipt tugum millj. kr.“

Þetta er náttúrlega ljót lýsing, hún er alveg hroðaleg, og ég verð að segja fyrir mitt leyti, — ég hef komið þarna upp eftir og séð vatnssugurnar að verki, — að ég get bókstaflega ekki setið hér í þessu húsi án þess að láta hv. alþm. taka ábyrgð á því hvort svo eigi að fara sem forstjórinn lýsir og ég veit að er rétt. Þarna getur orðið tugmilljónatjón eða a. m. k. tugurinn fyllst. Ég vil því eindregið beina því til hv. fjvn. að hún skoði þetta mál. Hún hefur fengið þetta bréf frá forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Ég ætla enga brtt. að flytja nú. Ég ætla að bíða og sjá hvort ennin hreyfing verður á þessu máli fyrir 3. umr.

Ég vil svo nefna í örstuttu máli nokkra aðra liði sem ég hef sannarlega áhyggjur af. Ég hef áhyggjur af fjárveitingum til félagsstarfsemi eins og t. d. ungmennafélaganna. Þeirra þáttur er ákaflega mikilvægur fyrir uppeldi ungs fólks í þessu landi, en þau í gífurlegum fjárþrengingum núna. Ég vil eindregið skora á fjvn. að athuga þau mál af velvilja og ég vona að því megi treysta.

Ég vil einnig vekja athygli á hlutum eins og t. d. flóabátunum og sjúkrafluginu sem í þessu fjárlagafrv. fær ekki einu sinni krónuhækkun, heldur 5% lækkun. Þó vitum við mætavel að flestir þessara báta verða ekki reknir út árið. Það er alveg útilokað mál. Það vita allir. Allur kostnaður við rekstur þeirra hefur hækkað um 40–50%, og það er alveg ljóst að á miðju ári hljóta þessir bátar að koma til ríkissjóðs og leita eftir aðstoð, og þá verður að ákveða hvort eigi að leggja niður þennan rekstur eða útvega fjármagn eftir öðrum leiðum, sem er ekkert betra en að gera ráð fyrir því nú á fjárlögum og raunar miklu verra. Ég hef skoðað vandlega reikninga eins slíks báts sem sinnir mjög mikilvægri þjónustu um Djúpið og reyndar viðar vestur á fjörðum. Þeir hafa farið í gegnum endurskoðun, þessir reikningar, hjá Skipaútgerð ríkisins og eru fullkomlega viðurkenndir þar. Það getur vel verið að spara megi einhvers staðar nokkrar krónur, og ég veit að það er reynt. En ég get ekki komið auga á neina liði sem þar ríða baggamuninn.

Ég get einnig bent á hin litlu flugfélög, sem sinna ómetanlegri þjónustu víða úti um landið, svo mikilli að fæstir, sem ekki þekkja til af eigin raun, gera sér grein fyrir því, — flugfélög sem flytja sjúklinga á milli staða þegar allt er lokað eða lækna á milli staða. T. d. var ég að tala nú síðast í kvöld við flugmann af Vestfjörðum sem var að koma í dag frá flugi með lækni frá Ísafirði. Þessir aðilar hafa notið styrkja af sjúkraflugframlagi. Það hækkar ekkert, en rekstrarkostnaður þessara litlu flugfélaga hefur hækkað mjög mikið. Mér er kunnugt um að þessi maður, flugmaður á Vestfjörðum, hefur ekki getað tekið úr rekstri nægilegt fé til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða í ár. Og það er alveg ljóst að hann hættir upp úr áramótunum ef engin breyting verður. Það getur ekki hjá því farið. Maðurinn getur ekki haldið þannig áfram að safna skuldum, ef hann fengi að safna skuldum. Þannig mun verða um fleiri, nema þá náttúrlega þá stóru, eins og Flugleiðir og aðra sem hafa hlotið ríkisábyrgð sem nemur 120 þús. kr. á hvern íbúa í landinu. Þarna er dálítið ójafnt skipt.

Fleira gæti ég nefnt. En ég ætla að láta þetta nægja. Ég nefni þetta fyrst og fremst til þess að vara við svona meðferð á þessum málum. Ég held, eins og ég segi, að menn verði þá bara að gera það upp við sig strax hvort þessir þættir eiga niður að leggjast.

Ég vil þakka eina till. sem fram er komin frá meiri hl. Það er fjármagn til áframhaldandi athugunar á súrnun andrúmslofts. Þetta er mjög merk athugun og gerð í nánu sambandi og samráði við nágrannaþjóðir okkar. Lögð var mikil áhersla á að henni mætti halda áfram. Hún hefur fengið hljómgrunn hjá fjvn. og það vil ég þakka.

Ég geri mér grein fyrir því, að vandinn er ákaflega mikill og okkur er brýn skylda á herðum að ganga vandlega frá fjárlagafrv., draga eins og mest má vera úr þenslunni. Þó vil ég leggja áherslu á það, eins og allir þm. sem ég hef heyrt hafa lýst yfir, að tryggja að samdráttur sá leiði ekki til atvinnuleysis. Við þurfum að reyna að rata hinn gullna meðalveg. Ég veit, að hann er vandrataður, og ég fyrir mitt leyti vil standa að heilbrigðri afgreiðslu fjárl. Ég endurtek að það er þó nauðsynlegt að afgreiða fjárl. af fullri ábyrgð, en einnig er nauðsynlegt að sýna ábyrgð með tilliti til hinna ýmsu rekstrarþátta.

Forseti. Ég leyfi mér að leggja fram þessa till.