16.12.1975
Sameinað þing: 34. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

1. mál, fjárlög 1976

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Frsm. minni hl. fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, hefur gert svo skýra grein fyrir afstöðu okkar alþb.-manna að ég sé ekki ástæðu til að ræða fjárlagafrv. að þessu sinni efnislega að neinu marki. Hann hefur einnig flett svo rækilega ofan af furðulegri óstjórn ríkisstj. í fjármálum og efnahagsmálum að varla verður um bætt.

Aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum hafa orðið þess valdandi að verðbólga hefur verið meiri hér á landi en nokkru sinni fyrr eða yfir 50% á ársgrundvelli. Þrátt fyrir gífurlega aukna skattlagningu á almenning í landinu hefur ríkissjóður verið rekinn með stórkostlegum halla þrátt fyrir samdrátt í framkvæmdum, en á sama tíma eru fyrirtæki landsins undanþegin tekjuskatti. Viðskiptahallinn við útlönd er meiri en nokkru sinni fyrr, og stórauknar lántökur erlendis slá öll fyrri met margfaldlega og lánin notuð til taumlauss innflutnings, hrein eyðslulán til hagsbóta fyrir innflytjendur og braskara. Síðustu sparnaðarráðstafanir ríkisstj. eru t. d. þær, að til þess að leysa lokafjárþörf norðfirðinga vegna snjóflóða er byrðinni velt af ríkinu yfir á Vestmannaeyjadeild Viðlagasjóðs sem er verr stödd en tóm. Hátt á annað þús. millj. er tekið af þeim sem leita þurfa læknis, kaupa lyf, og er það hörmulegt dæmi um það af hverjum ríkið vill taka peningana, í stað þess að taka þá af þeim sem græða sitt fé af viðskiptum. Sérstaklega vill ríkið spara til félagslegra framkvæmda, t. d. til hafnargerða á landsbyggðinni, skólabygginga, heilsugæslustöðva, og auk þess á að færa sveitarfélögum upphæð til að sinna verkefnum sem þriðjungi hærri upphæð þarf til að leysa. Svona mætti vissulega lengur telja. En ljóst er að til afgreiðslu fjárlaga er ætlaður allt of stuttur tími, fjölmörg verkefni eru eftir, auk þess sem flaustrið er slíkt að ekkert bendir til annars en frv., ef að lögum verður, verði eitt ómerkilegt pappírsgagn áður en langur tími er liðinn.

Nú skyldu menn ætla að ég úr stjórnarandstöðunni væri hér kominn til þess að flytja margar till. til breyt. á fjárlagafrv. til hækkunar. En svo er ekki. Ég hef við þessa umr. kosið að flytja 5 litlar, en sjálfsagðar brtt., og það sem meira er, þær eru að því leyti óvenjulegar að þær eru til sparnaðar, allar til lækkunar. Ef menn meina eitthvað með sparnaðartalinu, en hafa það ekki einungis í nösunum, þá gætu þeir auðveldlega samþ. þessar 5 litlu till.

Það er þessum till. sameiginlegt að þær fjalla allar um utanríkismál, en till. af öðru tagi mun ég líklega bera fram við 3. umr. Um till. er í sjálfu sér ekki mikið að segja, þær skýra sig sjálfar þótt stuttar séu, en alls mundu sparast við samþykkt þeirra 120 millj. kr.

Um fyrstu till. er það að segja, að nú er það ljóst öllum landslýð að hið svokallaða „varnarlið“ er ekki hér til þess að verja íslendinga, ekki einu sinni fyrir ofbeldisárás innan 3 mílna landhelgi sem viðurkennd er af öllum þjóðum heims, nema ef vera skyldi af Heimdalli og ráðh. og SÍS. Þess vegna hefur varnarmáladeild ekkert að gera og ber að leggja hana niður. Ef við þurfum að hafa samband við svokallað „varnarlið“ fyrir NATO á Íslandi dugar til þess einn skrifstofumaður í utanrrn., allt annað er sóun.

Um 2. brtt. mína er það að segja, að mér finnst sjálfsagt að hafa nokkra löggæslu af okkar hálfu á Keflavíkurflugvelli eins og á öðru íslensku landi, en þann kostnað, sem tiltekinn er í fjárlögum, álit ég óhóflegan. Þurfi vegna óþarfs og hættulegs „varnarliðs“ að hafa löggæsluna meiri ber liðinu að greiða það sem er umfram hæfilegan kostnað. Þess vegna legg ég til í 2. brtt. minni að kostnaður við ríkislögreglu á Keflavíkurflugvelli verði lækkaður um 30 millj.

Um þriðju till., sem er fólgin í því að allur kostnaður við sendiráðið í London verði felldur niður, er það að segja, að eftir innrás breta með ofbeldi á Ísland kemur að sjálfsögðu ekki til greina að halda stjórnmálasambandi við breta. Þess vegna er sendiráðið í Bretlandi óþarft og kostar þess vegna ekkert. Þessa till. mundi yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar samþykkja ef hún væri spurð. Þjóðin vill ekki hafa samband við þá sem ráðast með ofbeldi á fósturjörðina. — Ég vil leyfa mér að biðja hv. utanríkismálasérfræðing SÍS-flokksins að hafa þögn rétt á meðan ég er að ræða þessar till. Ég hélt það væri nægilegt verkefni fyrir þennan hv. þm. að reyna að halda utan um hæstv. ríkisstj. og sjá til þess að a. m. k. einn ráðh. sé hér viðstaddur. En meðan hv. þm. Geir Gunnarsson, aðalmálsvari minni hl. fjvn., talaði hér í dag var enginn ráðh. hér í ráðherrastólum og flestallir úr þingflokki Sjálfstfl. höfðu þá öðrum hnöppum að hneppa. (Gripið fram í: Þetta er hneyksli.) Já, það er hneyksli og það finnur meira að segja sjálf Framkvæmdastofnunin.

Um brtt. nr. 4, sem er efnislega um það að kostnaður við sendiráð Íslands í Brüssel verði felldur niður, er ósköp einfaldlega það að segja, að á meðan NATO-herskip hindra okkar flota og koma í veg fyrir eðlilega löggæslu á miðunum og stórskip NATO-þjóðar eru send hingað í þeim eina tilgangi að stórskemma varðskipin og koma þeim vegna eyðileggingar úr gæslunni, þá höfum við ekki mikið að gera í þeim selskap. Ríkisstjórnarflokkarnir kalla þessa menn enn vini sína. En þeir ættu, hæstv. ráðh., að gefa okkur öðrum þm. kost á og raunar þjóðinni allri að fá að sjá orðabókina sem þeir nota, þar sem m. a. orðið óvinur fyrir vinur og ófrelsi sama sem frelsi o. s. frv. Og kemur þá bók Orwells fljótt upp í huga. Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að vera í bandalagi við óvini sína, síst í hernaðarbandalagi. Þess vegna er sendiráðið í Brüssel ekki aðeins óþarft, heldur til hreinnar vanvirðu. Kostnaður þess vegna falli niður.

Um 5. till. er það að segja, að ekki getum við að hluta styrkt freigátur hennar hátignar og dráttarbáta dónans og idiótsins Hattersleys með beinu framlagi til NATO. Eru þessar fjárveitingar til árásarmannanna þess vegna sjálffallnar, þ. e. a. s. ef menn leyfa sér þann munað enn, sumir í stjórnarflokkunum hv., að nota heilbrigða skynsemi, ef til er.

Ég legg til að þessum brtt. verði að lokinni þessari umr. vísað aftur til fjvn., eins og reglan mun að gera, en auk þess vil ég eindregið mælast til þess við ágætan hæstv. forseta að hann sjái til þess, að vegna þess að till. mínar fjalla eingöngu um utanríkismál verði utanrmn. kölluð saman milli umr. og skili áliti um þær.