17.12.1975
Efri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að þetta frv. er fram komið, um það að olíustyrkurinn skuli halda áfram, sérstaklega til einstaklinga. Hér er um mikla nauðsyn að ræða vegna jöfnunar sakir búsetu og aðstöðu manna.

Það er staðreynd, að víða hafa byggjendur nýbygginga fengið rafhitun í sín hús, en þar sem ég þekki til a. m. k. hefur verið ógerlegt að fá rafhitun í eldri hús. Ég tel hins vegar, miðað við síðustu olíuverðshækkun, að það sé mjög hæpið að styrkurinn geti staðið óbreyttur, og ég hlýt að treysta á að hann verði hækkaður nokkuð, ekki síst vegna þess að framlögin til Orkusjóðs hækka sjálfkrafa vegna þeirra mörgu sem út falla vegna hitaveituframkvæmdanna. Ég veit af eigin raun hvílíkur kostnaðarliður þetta er og skal taka hreinlega persónulegt dæmi um íbúð mína austur á landi sem er að vísu allgömul. Samkv. nýjasta verðlagi kostar það um 220 þús. kr. að hita hana, en þar dragast frá um 65 þús. kr. í olíustyrk. Og það gerir það til míns heimilis og er há tala af því að um fjölmennt heimili er að ræða. En eftir standa á milli 150 og 160 þús. engu að síður. Það má því enginn ætla að hér sé ofgert, þó að hér sé talað um óbreyttan styrk.

Ég skal fúslega játa, eins og ég gerði reyndar líka í fyrra við umr. um þetta mál, góðan tilgang að baki framlaginu til Orkusjóðs. Ég sé samt ekki fram á beinlínis að það komi okkur austfirðingum t. d. til góða í nánustu framtíð. Hins vegar miðað við afkomu einstaklinga almennt í dag, verri lífskjör almennings og um leið hækkaðan hitakostnað, sem bæði er þegar duninn yfir og á án efa eftir að verða enn tilfinnanlegri, þá held ég að ég telji hlutföllin röng, okkur á köldu svæðunum í óhag, þ. e. a. s. að uppbæturnar hefðu þurft á hvern íbúa að hækka nokkuð, og þó að hlutfallið eða framlagið til Orkusjóðs sé allra góðra gjalda vert, þá sé það engu að síður of hátt. Ég tel sem sagt að styrkurinn þurfi að hækka verulega nú miðað við aðstæður allar. Ég held að það hafi verið svo upphaflega þegar þetta gjald var lagt á til að jafna hér aðstöðu, að þá hafi það verið fyrst og fremst meining þeirra laga að þeir ættu að njóta sem í dag gjalda þennan síhækkandi olíuskatt.

Ég hef flutt hér í d. frv. um að fella skólana á köldu svæðunum ekki inn í þetta beinlínis, heldur að einhvern veginn verði jafnað það hlutfall sem í dag er milli skóla á köldum svæðum og heitum. Ég minntist á það í framsögu fyrir því frv., að vissulega kæmi til greina að þessi sjóður, sem hér er um að ræða, tæki einhvern þátt í þessu. Ég held að það ætti að skoðast jafnhliða þessu að einhverju leyti, þó að ég hafi talið aðra leið heppilegri sem ég benti á í því frv. Ég vildi gjarnan skora á hæstv. ráðh. og þá hv. nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, að færa upphæðina til hækkunar. Ég veit að ég mæli þar fyrir munn þess fólks sem býr við síhækkandi kostnað af þessum sökum og á enn von á hækkun og þykir ekki of vel við sig gert. Á frv., sem hér var lagt fram í fyrra varð nokkur breyt. í hækkunarátt í meðferð nefndar, og ég treysti enn á að svo verði, en mun að öðrum kosti flytja um það brtt. ef þörf krefur. En þó að það sé ekki á þessu stigi, þá vildi ég gjarnan fá nánari vitneskju um ráðstöfun þess fjár, sem samkvæmt C-lið í 2. gr. laganna frá 28. febr. í fyrra fór þá til Orkusjóðs — nákvæma skilgreiningu helst á því í hvaða verkefni þetta hafi farið, hverju þetta framlag hafi flýtt. Ég óska eftir því að það komi a. m. k. fram í nefnd og við t!áum að sjá það. Þarna var um dágóða upphæð að ræða. Alveg sérstaklega vildi ég vita hve stór upphæð af þessu framlagi hafi farið til þess landshluta sem minnsta von á í lausn hitunarvandamálanna.