17.12.1975
Efri deild: 31. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingar á nokkrum lögum vegna verkefna sveitarfélaga og kostnaðar við þau. Í fjárlagafrv. er, eins og hv. þm. er kunnugt, gert ráð fyrir slíkri tilfærslu, og er þetta frv. flutt í framhaldi af því.

Eins og kunnugt er, þá eru það allmörg verkefni sem sveitarfélög og ríkissjóður hafa sameiginlega á einn eða annan veg, m. a. þannig að kostnaður skiptist þar að einhverju leyti milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Hér er gert ráð fyrir að færa nokkur slík útgjöld frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaganna, en á móti kemur það að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær aukna hlutdeild í söluskatti. Sú aukna hlutdeild er í því fólgin, að í stað þess að nú fær Jöfnunarsjóður 8% af 13 söluskattsstigum, þá á hann að fá 8% af 18 söluskattsstigum. Sú áætlun, sem liggur fyrir um tekjur af þessu, er að með þessum hætti fái Jöfnunarsjóður um 520 millj. kr. á næsta ári eftir þeim áætlunum sem nú liggja fyrir um söluskattinn. Af þessari upphæð munu um 12% ganga til sérstakra verkefna samkvæmt lögum, svo sem framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga, framlag til Sambands ísl. sveitarfélaga, greiðslur í sambandi við Innheimtustofnun sveitarfélaga o. fl., þannig að það verði þá um 458 millj. sem komi til þeirra verkefna sem talin eru í þessu frv.

Í 1. gr. frv. er fjallað um heimilishjálp í viðlögum. Þau lög eru frá 1952, en í 7. gr. þeirra segir: „Ríkissjóður endurgreiðir 1/3 hluta af halla þeim sem sveitarsjóðir og sýslusjóðir kunna að verða fyrir af starfsemi heimilishjálpar.“ — Það er lagt til í 1. gr. frv. að þessi gr. í lögunum um heimilishjálp falli niður, þannig að sveitarsjóðir annist þennan kostnað.

II. kafli fjallar um vinnumiðlun. Í 8. gr. þeirra laga segir að kostnaður vegna vinnumiðlunar samkv. lögum þessum greiðist að 2/3 hlutum úr hlutaðeigandi sveitarsjóði og að 1/3 hluta úr ríkissjóði. Hér er gert ráð fyrir að sveitarsjóður greiði þennan kostnað vegna vinnumiðlunar að fullu.

III. kafli fjallar um orlof húsmæðra, en þar segir svo í 5. gr. gildandi laga að ríkissjóður greiði árlega upphæð sem svarar minnst 1550 kr. fyrir hverja húsmóður í landinu og sveitarfélög greiða eigi minna en 50% á móti framlagi ríkissjóðs. Í stað þessara ákvæða komi, eins og í 3. gr. segir: „Sveitarsjóður greiðir árlega upphæð sem svarar minnst 1550 kr. fyrir hverja húsmóður á landinu.“ Önnur breyting samkv. 4. gr. er svo í beinu framhaldi af þessu.

IV. kafli frv. fjallar um dvalarheimili aldraðra. Segir í 7. gr. gildandi laga frá 1973 um þau mál: „Nú byggir sveitarfélag dvalarheimili eða hefur rekstur þess samkvæmt lögum þessum og skal þá ríkissjóður greiða 1/3 hluta kostnaðar við bygginguna og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“ Enn fremur: „Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, er ríkissjóði heimilt að greiða allt að 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar.“ Í stað þessa ákvæðis er lagt til í 5. .gr. þessa frv. að þessi 7. gr., sem ég las úr lögunum frá 1973, orðist þannig: „Ef aðrir aðilar en sveitarfélög byggja eða hefja rekstur dvalarheimilis, er sveitarsjóði heimilt að greiða allt að 1/3 hluta kostnaðar við byggingu og kaup nauðsynlegra tækja og búnaðar: Um leið fellur þá niður ákvæðið varðandi dvalarheimili, sem sveitarfélögin sjálf byggja, að þar skuli ríkissjóður greiða 1/3 hluta, þannig að þessi kostnaður falli þá á sveitarfélögin.

V. kafli fjallar um breyt. á lögum um grunnskóla og er aðallega um viðhaldskostnað skóla. Í 79. gr. laga um grunnskóla frá 1974 segir: „Ríkissjóður greiðir viðhaldskostnað húsa, viðhald! og endurnýjun tækja og búnaðar“ o. s. frv. Í stað þessa ákvæðis kemur samkv. 6. gr. þessa frv.: „Viðhaldskostnaður húsa og lóða, viðhald og endurnýjun tækja og búnaðar greiðist af sveitarfélögunum.“ — Þá er einnig í þessari 79. gr. ákvæði um stofnbúnað skólabókasafns og endurnýjun bókakosts. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að óbreytt sé ákvæðið um stofnkostnað skólabókasafns, sem ríkissjóður greiðir að hálfu á móti sveitarfélögunum, en viðhald og endurnýjun bókasafna greiði sveitarsjóðir. Aðrar breytingar í þessum V. kafla frv. eru afleiðing af þessum breytingum.

VI. kafli fjallar um hlutdeild í byggingu og rekstri dagvistunarheimila. — Í frv. er prentvilla, það er vitnað þar í l. nr. 29 21. apríl 1963, á að vera 1973. — Hér er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að sveitarfélögin taki að sér rekstrarkostnað þessara stofnana. Í 8. gr. gildandi laga segir: „Af rekstrarkostnaði greiði ríkið til dagheimila og skóladagheimila allt að 30% og til leikskóla allt að 20%.“ og síðan eru nánari ákvæði í 8. og 9. gr. gildandi laga um þessi atriði. Þessar tvær greinar eru felldar niður samkv. frv. og er aðalefni þessa VI. kafla því að sveitarfélögin taki að fullu að sér rekstur dagvistunarheimila.

Þá er VII. kafli frv. um almenningsbókasöfn. Í 4. gr. gildandi laga um þau mál segir: „Skulu söfnin njóta aukastyrks úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun í fjárlögum.“ Gert er ráð fyrir í þessu frv. að þetta ákvæði falli niður. Þá er í 6. gr. gildandi laga um þetta efni sagt: „Bæir og sýslur skulu sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði, enda njóta þau til húsabóta styrks úr ríkissjóði, og sömu aðilar skulu ásamt ríkissjóði leggja söfnunum rekstrarfé samkv. lögum þessum.“ — Í stað þessa komi það ákvæði sem er í 13. gr. þessa frv.: „Bæir og sýslur skulu sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og leggja söfnunum rekstrarfé samkv. lögum þessum“ — m. ö. o. þátttaka ríkissjóðs þar með felld niður. Aðrar breytingar á þessum lögum eru í samræmi við þetta.

Í aths. við frv. er gerð grein fyrir því hverjir eru þeir fjárlagaliðir og hversu háir sem snerta þessi 7 atriði sem ég hef hér rakið, þ. e. a. s. hvað er ætlað til þeirra í fjárlagafrv. Þær upphæðir hafa síðan verið endurmetnar til nokkurrar hækkunar, eins og greint er í grg.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er stórmúl. Er það, sem þetta frv. fjallar um, einn þáttur þess og snertir fyrst og fremst kostnaðarliði sem þannig yrðu fluttir frá ríkinu til sveitarfélaganna. Samband ísl. sveitarfélaga hefur um margra ára skeið haft með höndum athuganir á því hversu best væri fyrir komið verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og fyrir u. þ. b. tveimur árum birti Samband ísl. sveitar félaga ítarlega grg. um þessi mál og lauk henni með 100 tillögum, þar sem fjallað er um öll helstu atriði í þessu máli sem til greina koma. Að undanförnu hafa þessi mál verið til rækilegrar athugunar í félmrn. og þessar tillögur, sem Samband ísl. sveitarfélaga lagði fram á sínum tíma, skoðaðar og kannaðar nokkuð. Þessi mál snerta að sjálfsögðu mörg rn., og nú fyrir nokkru hefur Samband ísl. sveitarfélaga gert samþykkt um það á fulltrúaráðsfundi sínum að setja fram þá ósk að nú þegar verði skipuð samstarfsnefnd ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga sem hafi það verkefni að undirbúa fyrir reglulegt Alþ. 1976 tillögur um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég tel sjálfsagt að verða við þessari ábendingu og ósk Sambands ísl. sveitarfélaga um að skipa slíka samstarfsnefnd til að skoða þessi mál öll í heild og geri ráð fyrir því að slíkri nefnd verði komið á fót nú fyrir lok þessa árs.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.