17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að leggja hér fram nokkrar spurningar við hæstv. félmrh. og mun afstaða til þessa máls fara eftir því hvernig þeim verður svarað. Ég vil því biðja um að hann verði sóttur. (Forseti: Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að hæstv. ráðh. komi. Hann er í húsinu. Hann hlýtur að koma að vörmu spori.)

Ég vil segja það í upphafi míns máls að í grundvallaratriðum er ég hlynntur því að hreinni tekjuskiptingu verði komið á milli sveitarfélaga og ríkis. Mér sýnist að í því sambandi beri sérstaklega að hafa í huga að sá beri ábyrgð á fjármununum sem ákveður framkvæmdirnar. T. d. sýnist mér að mörgu leyti eðlilegt að sveitarfélögin annist viðhald skólahúsnæðis, enda hafi þau þá fjármagn til þeirra hluta. Ég hygg raunar að langtum víðar en gert er ráð fyrir í þessu frv. þyrfti að athuga slíka verkaskiptingu.

Á hitt vil ég þó minna, að ein af meginástæðum, ef ekki meginástæðan fyrir því að ríkisvaldið tekur að sér slík hlutverk eins og hér er um að ræða er að jafna á milli sterkra og veikra sveitarfálaga. Og það er ákaflega mikilvægt hlutverk þó að hv. 12. þm. Reykv. muni eflaust segja að það sé verið að seilast í vasa reykvíkinga. Það er rétt, en verið er að seilast í vasa langtum fleiri af þeim virðingarverðu hvötum að við viljum tryggja landsmönnum öllum svipaða þjónustu á sviði menntunar og á fjölmörgum öðrum sviðum. Þetta er ákaflega mikilvægt í mínum huga, og við allan flutning á verkefnum frá ríkisvaldi yfir til sveitarfélaga ber að hafa í huga að þetta raskist ekki um of. Ég óttast að þetta muni alltaf raskast eitthvað. Það er aldrei hægt að gera svo að öllum líki og fullur jöfnuður náist. En ég hygg þó að þetta sé það mikilvægt að það beri vandlega að skoða.

Því var það, er ég sá fyrstu drög að þessum flutningi sem hér um ræðir, að ég óskaði eftir því að fá samanburð á milli sveitarfélaga af mismunandi stærð og við mismunandi aðstæður, t. d. sveitarfélaga á borð við sveitarfélögin hér í kring og lítilla sjávarþorpa með 500–600 íbúa sem eru víða um landið, og lítilla sveitarfélaga í sveit þar sem aðstæður eru enn aðrar, og samanburð þar sem bygging þeirra mannvirkja, sem hér um ræðir, er misjafnlega langt á veg komin. Ég held, að við verðum að gera okkur fulla grein fyrir þessu, og ég hygg, að við slíkan flutning þurfi að gera ráðstafanir til þess að jafna þann ójöfnuð sem þannig kann að koma fram. Ég hef ekki enn fengið nein svör eða fremur má segja að ég hefi fengið ákaflega ófullkomin svör við þessum spurningum mínum. Ég hef heyrt samanburð á örfáum stöðum lesinn upp þar sem ég var á fundi. Síðan hefur frv. breyst og ég hef engan samanburð fengið eftir að það kom í það form sem það er í núna. Ég vil því spyrja hvort þessi samanburður hafi verið gerður og hvort hann muni liggja fyrir þegar n. fjallar um þetta mál sem mér skilst að sé í fyrramálið. Þetta er eitt meginatriðið sem ég vil fá upplýst.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í þeirri ályktun, sem fulltrúaráð sveitarfélaganna gerði um málið og hæstv. ráðh. vísaði til, voru dregin fram allmörg atriði, — 5 minnir mig, ég er því miður ekki með þetta við höndina, — sem sumir litu á sem skilyrði fyrir fylgi fulltrúaráðs sveitarfélaga við þetta frv. Hefur hæstv. ráðh, og hæstv. ríkisstj. tekið afstöðu til þessara skilyrða? Hver eru svör hæstv. ríkisstj. við þessum skilyrðum? Þar var t. d. eitt atriðið að farið var fram á að framlag úr Jöfnunarsjóði yrði ekki tekið upp í vanskil sveitarfélaga. Ég vil taka það fram að ég tel ákaflega erfitt að tryggja það að öllu leyti. Tel ég að Jöfnunarsjóður verði að standa þar að nokkru leyti að baki skuldbindingum sveitarfélaga. Hins vegar tel ég eðlilegt að það viðbótarframlag, sem hér um ræðir renni óskipt til sveitarfélaganna. Því aðeins mun þeim reynast kleift að annast þá þjónustu sem þeim er ætlað með þessum flutningi.

Þarna voru ýmis önnur skilyrði sem ég vildi einnig gjarnan að ráðh. upplýsti hver afstaða hans og ríkisstj. er til.

Ég vil einnig spyrja að því, hvort því framlagi, sem gert er ráð fyrir að renni til Jöfnunarsjóðs og þaðan til sveitarfélaga, verði skipt eftir höfðatölureglunni eingöngu — eða verður einhver möguleiki hjá Jöfnunarsjóði til þess að hlaupa undir bagga með þeim sveitarfélögum sem verr reynast sett eftir þennan flutning en áður var. Ég á þar ekki aðeins við möguleika til þess að gera það á næstu örfáum árum, heldur lengri tíma. Að sjálfsögðu er slíkur ójöfnuður ekki fyrirbrigði næstu ára. Þetta getur breyst frá ári til árs, og þarf að vera að mínu mati einhver möguleiki til þess að jafna metin.

Ég hef þannig ýmsar athugasemdir við þetta frv. fram að færa, og ég vil taka undir það, sem hér er komið fram. Ég á bágt með að skilja hvers vegna liggur svona mikið á þessu frv. Hér er raunar um engan sparnað að ræða. Þetta er smávægileg lækkun á fjárlagafrv. En fyrst og fremst er um tilflutning að ræða, skattlagning er hin sama eftir sem áður, það breytist ekkert þar.

Ég vil taka undir það, sem hæstv. ráðh, sagði um samstarfsnefnd sveitarfélaga og ríkisstj. um þetta mál. Ég fagna því, að sú n. verði skipuð strax um áramótin. Þetta tel ég eðlilegt og nauðsynlegt skref og tel rétt að henni sé jafnframt veittur takmarkaður tími, t. d. ætlað að skila áliti þannig að leggja megi fyrir næsta þing. Það hygg ég að yrði betur undirbúið frv. en það, sem hér liggur fyrir, og það hygg ég að yrði farsælla í þessu mjög mikilvæga máli.