17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

123. mál, verkefni sveitarfélaga

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það var áðan í umr. um þetta mál varpað fram fsp. varðandi verkefni á sviði menntamálanna sem hér er ráðgert að flytja að hluta yfir til sveitarfélaga. Það var spurt í sambandi við aksturskostnað skólabarna í ár hvað væri fyrirhugað að gera í sambandi við þann hala sem myndast hefur. Ég vil aðeins rifja það upp að þessi svokallaði hali er tilkominn vegna þess að almenna reglan í þessum viðskiptum er sú að greiða árið eftir hluta ríkissjóðs í kostnaði skólanna. Þetta hefur verið svo nokkuð lengi, og þetta veldur því að sveitarfélögin hafa þurft að fjármagna hluta ríkisins í skólakostnaði, hvort sem það hefur verið vegna aksturs eða annars, og standa straum af honum árið sem kostnaðurinn fellur á og yfirleitt nokkuð fram yfir áramótin, eða þangað til endanlegt uppgjör fyrir almanaksárið liggur fyrir. Þetta hefur verið meginreglan þó að stöku sinnum hafi einhver hluti verið greiddur fyrr. Ég vil vekja athygli á þessu. Og regla hefur einnig gilt um akstur skólabarna sem er tiltölulega nýtt fyrirkomulag, en þó orðið nokkurra ára gamalt. Ríkið hefur greitt 85%. En vegna þess að þessi kostnaður fellur einkum til í strjálbýlum og fámennum sveitarfélögum, þá hefur orðið mjög tilfinnanlegt fyrir þessi sveitarfélög að leggja þetta þannig út fyrirfram ásamt með öðrum hluta skólakostnaðarins sem annars er ætlaður ríkissjóði til greiðsluendanlega.

Þegar grunnskólalögin voru sett var gert ráð fyrir að á þessu yrði breyting að því er varðar aksturinn, að hann yrði greiddur mánaðarlega eftir á. Sú breyting hefur hins vegar ekki komist í framkvæmd. Það þarf vitanlega aukið fjármagn úr ríkissjóði þegar slík breyting á sér stað, því að það þarf að flýta greiðslunum raunverulega um eitt ár.

Það var spurt um það hér áðan, hvernig hugsað væri að taka á þessu máli. Ég vil láta koma fram hér að ég hef oft rætt um þetta við fjmrh., og það er áformað að lagfæra þetta — ekki allt í einu, en í áföngum. Er stefnt að því að mánaðarlegar greiðslur verði komnar á innan tveggja ára. Ég vil einnig upplýsa að það er áformað að hafist verði handa um þessar lagfæringar nú um þessi áramót.

Þá eru það fræðsluskrifstofurnar. Þær eru ekki inni í því frv. sem hér er til umr. Flestir eða allir liðir í frv. eru einnig inni á fjárlögum. Það, sem hér um ræðir varðandi fræðsluskrifstofurnar, er hluti heimaaðilans, landshlutasamtakanna. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þdm. að þegar grunnskólalögin voru afgreidd, þá var hér til meðferðar á hv. Alþ. frv. til -laga um landshlutasamtök sveitarfélaga, og það var reiknað með því við undirbúning grunnskólalöggjafarinnar að sú löggjöf yrði einnig afgreidd. Á þeim forsendum var það að landshlutasamtökunum var ætlað að leggja fram það fjármagn sem heimaaðilar þurfa samkv. lögum að leggja fram á móti ríkinu til stofnunar og rekstrar fræðsluskrifstofanna. Frv. um landshlutasamtökin var ekki afgreitt, og af því leiðir að landshlutasamtökin hafa raunverulega ekki fjárhagsgrundvöll á sama hátt og sveitarfélög sem hafa heimild til að afla sér tekna, eins og lög mæla fyrir um. Þess vegna er það enn óleyst viðfangsefni hvernig þetta heimaframlag verður reitt af höndum. Það er rétt, sem vikið var að áðan í umr., að þetta er ekki tekið inn í frv. Það verður hins vegar snúist við því þegar þing kemur saman aftur eftir áramótin að ganga frá þessum þætti málsins.

Þá er e. t. v. rétt að ég minnist á almenningsbókasöfnin sem þarna er gert ráð fyrir að færist yfir til sveitarfélaganna hvað snertir rekstur og stofnkostnað. Eins og allir hv. dm, vita, hafa greiðslur ríkissjóðs til almenningsbókasafns verið sáralitlar nú um allmörg ár. Rekstur hefur því verið í molum alls staðar annars staðar en þar sem sveitarstjórnir hafa tekið rögg á sig og sinnt þessum málum á myndarlegan hátt. Mér er kunnugt um nokkur sveitarfélög, sumpart þau stærstu, einnig önnur sveitarfélög sem hafa gert það myndarlega við sín bókasöfn að þau hafa lagt meira fram til bókasafna heldur en það frv., sem hér liggur fyrir um breytingu á bókasafnalögum, gerir ráð fyrir.

Ég held að það hafi verið hv. 7, landsk. þm. sem benti á að í þessu frv. er hvað bókasöfnin snertir og raunar fleiri þætti aðeins gert ráð fyrir tilfærslu fjármagns frá ríki til sveitarfélaga fyrir þeim fjárhæðum sem á falla á næsta ári. Það lætur nærri að það, sem bókasöfnum er ætlað, sé jafnt því sem ríkinu hefði verið gert að greiða ef frv. það, sem hér liggur fyrir, hefði orðið að lögum nú. Hins vegar vantaði allt framhald þarna, því að svo væri gert ráð fyrir hækkandi framlögum í þessu stjórnarfrv. og þannig kynni það að vera um fleiri þætti, að þeir hækkuðu þegar árin líða.

Út af þessari athugasemd vil ég aðeins benda á það, að með þessum verkefnatilflutningi er ekki séð fyrir tekjum sveitarstjórna um alla framtíð, hvorki í þessu máli né kannske í öðrum, þar geta orðið ýmsar sveiflur. En ég vil leggja áherslu á það að því er snertir almenningsbókasöfnin, að þar hefur alltaf verið gert ráð fyrir nokkuð jöfnum greiðslum miðað við fólksfjölda. Það liggur í hlutarins eðli að með þessari fyrirhuguðu verkefnatilfærslu geta komið til meiri og dýrari verkefni eftir því sem árin líða. Þetta er ósköp eðlilegt. Og sveitarfélögin verða auðvitað að fá tækifæri til þess að afla sér tekna til þess að standa undir þeim verkefnum, alveg eins og þau hafa gert til þessa dags við sívaxandi umsvif.

En hvað bókasöfnin áhrærir, þá vil ég að lokum segja það, að ég legg mikla áherslu á að eftir áramótin verði gengið frá því frv. sem hér liggur fyrir og ég hef lagt fram brtt. við til samræmis við þau áform sem nú eru uppí. Varðandi bókasöfnin er það höfuðatriði að ekki sitji við það sama ófremdarástand og þar hefur ríkt undanfarin allmörg ár.