17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar. N. varð ekki á einu máli um afgreiðslu frv. Eftir að hún hafði kallað til sín ráðuneytisstjóra heilbr: og trmn. og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga klofnaði hún um málið. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en séráliti mun skila Helgi F. Seljan og Bragi Sigurjónsson, en Albert Guðmundsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Frv. þetta felur ekki í sér nein veruleg nýmæli. Má segja að eina nýmælið í frv. sé það að ráðh. gefi út heimild til þess að takmarka hámark einingar lyfjaávísana, en annars er þetta að verulegu leyti breyting á tölum og má segja kannske mest vegna hinnar öru verðbólgu sem verið hefur í landinu á undanförnum árum.

Það er í fyrsta lagi talað um að hækka greiðslur sjúklinga fyrir lyf úr 200 kr. í 300 kr. og 400 kr. í 600 kr., eftir því um hvers konar gerð lyfja er að ræða. Greiðslur sjúklinga hafa lengst af farið fram hér með þeim hætti að sjúklingar hafa greitt hlutfallslega kostnaði allt frá því að borga ekki neitt, 25%, 50% eða 100%. Fyrir rúmum tveimur árum var þessu breytt á þann veg að ákveðið var að sjúklingar skyldu greiða fyrir hvern lyfseðil 200 kr. eða 300 kr. eftir því hvers kyns lyf var um að ræða. Síðan þetta gerðist hefur orðið mikil breyting á kostnaði og má segja að þessi breyting sé liður í að færa upphæðirnar til þess verðlags sem nú gildir. Í öðru lagi gildir hið sama um kostnað við röntgengreiningu og veru hjá sérfræðingi. Þar er einnig þáttur sjúklinga hækkaður. En mest er þó sú breyting að hlutfallstala sveitarfélaga, sem hefur verið 10% hingað til, breytist nú verulega, þ. e. a. s. á árinu 1916 skulu sveitarfélög innheimta 1% gjaldstofns álagðra útsvara og skulu standa sjúkrasamlögum skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu þess mánaðarlega.

Eftir að við höfðum rætt við framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga var okkur ljóst að sveitarfélögin eru mjög óánægð með þetta spor sem stigið er, ekki síst þegar litið er til þess að þau telja þetta beinlínis í öfuga átt við það sem þau höfðu ætlast til. Hins vegar ber að líta á það, að sveitarfélögin í landinu reka sjúkrahús eða stofnanir þar sem daggjöld eru greidd í svo ríkum mæli að það munu vera um 60% af öllum stofnunum sem daggjöld eru greidd til að legudagafjöldi, og þar sem þessi háttur, sjúkratryggingarnar, er sá þáttur sem er meginorsök fyrir því að þetta frv. er flutt, þá virðist ekki ósanngjarnt að þáttur sveitarfélaganna sé aukinn í þessum lið, einkum þá með tilliti til þess að þau fengju möguleika til aukinnar stjórnunar þar eð þetta er í raun og veru hæsti einstaki liður fjárlaga.

Heildarkostnaður við sjúkrasamlögin í landinu verður á árinu 1976 um 11 milljarðar 660 millj. kr. og hefur stórhækkað á undanförnum árum. Þar kemur ýmislegt til. Í fyrsta lagi hin mikla verðbólga, en einnig stöðugar umbætur á læknisþjónustu og hjúkrunaraðstöðu.

Í því sambandi man ég þá tíma þegar daggjald var 13 kr. á Landsspítalanum, og um svipað leyti munu laun verkamanna hafa verið um 1 kr. á klst. Síðan þetta var hafa daggjöld á Landsspítalanum þúsundfaldast, en laun verkamanna 300-faldast. Þetta byggist þó ekki á því að laun starfsfólks hafi hækkað svo mjög, heldur á hinu, að starfsmannafjöldi hefur aukist til stórra muna. Í því sambandi get ég getið þess, að um þetta leyti var ein kona sem vann að öllum rannsóknum á rannsóknastofu Landsspítalans, en nú munu þar vera a. m. k. yfir 20 starfsmenn að verki. Nú þetta veldur einnig því að gegnumstreymi gegnum spítalana hefur stóraukist með bættri aðstöðu til vinnu, og það hefur verið sagt af lærðum mönnum að til þess að fullnægja um 80% af því sem mögulegt væri að gera fyrir sjúklinga sem kæmu inn á spítala, þá þyrfti meðalkostnað á hverju almennu sjúkrahúsi, en ef ætti að fara upp í 90% af mögulegum aðgerðum og umönnun, þá u. þ. b. tvöfaldaðist kostnaðurinn — þetta kemur nokkuð heim við okkar reynslu — og þar að auki að hvert prósent, sem færi fram yfir það, kostaði stórfé.

Hér er því um það að ræða að á undanförnum árum hefur orðið stórkostleg hækkun á sjúkratryggingunum, og það er þess vegna sem þetta frv. er flutt, til þess að dreifa þeim kostnaði, og enn fremur að þeir aðilar, sem eru að nokkru leyti ábyrgir fyrir rekstri stofnananna, fái aukna hlutdeild í kostnaðinum, en fái til þess jafnframt ákveðinn tekjustofn sem gefur þeim möguleika á að standast þennan kostnað.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. þegar hann mælti fyrir þessu frv., eru þessi mál öll í heildarendurskoðun og kemur þá til álita hver háttur verður á hafður um hlutfallið ú milli ríkis og sveitarfélaganna í þessum efnum, en þessu ákvæði um 1% álag á útsvar er aðeins ætlað að verka árið 1976.

Um þetta mætti að sjálfsögðu fara mörgum orðum. Þetta eru viðkvæm mál og erfið. En eins og kemur fram í nál. 2. minni hl. heilbr.- og trn. er í sjálfu sér athugandi hvort ekki er sanngjarnt að þeir, sem þess þurfa, taki einhvern þátt í bæði læknismeðferð og meðalakostnaði, einkum þegar tillit er tekið til þess að stórir hópar sjúklinga, sem þurfa læknislyf að staðaldri eða um lengri tíma, njóta lyfjanna algjörlega ókeypis. En það er talið af mörgum að það mundi geta verið nokkurt aðhald að þátttaka sjúklinga væri nokkur í kostnaðinum. Með því að breyta þessu á þann veg, sem er orðinn, má ætla að hlutfallsþátttaka sjúklings í lyfjakostnaði fari a. m. k. upp í hið sama og var þegar 200 kr. gjaldið var sett á.