17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. 1. minni hl. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Á þskj. 193 hef ég skilað nál. sem er e. t. v. rétt að fara yfir fyrst.

Ég get þó ekki stillt mig um að víkja að því að varðandi þetta mál allt, þá ekki síður við skoðun þess í nefnd, eru hér viðhöfð mjög gróf vinnubrögð á allan máta. Ég hlýt að mótmæla þeim vinnubrögðum harðlega. Ég man að vísu stutt, en ég man ekki önnur eins vinnubrögð varðandi svona mál, varðandi mál sem — eins og ég tók fram hér við 1. umr. — hefur hingað til verið, að því er talið er, áhugamál allra og menn hafa reynt þó í flestum tilfellum að standa saman um nú á síðari árum um ákveðin skref fram á við. Flumbruháttur og fálm eru væg orð þetta varðandi, og það kom glögglega fram á þeim nefndarfundi sem við héldum í gær og hafði nú litið upp úr sér.

Ég veit að hæstv. ráðh. er hér ekki sjálfrátt með öllu, og þá á ég ekki við að hann viti ekki hvað hann er að gera, heldur hefur hann ekki með öllu ráðið hér um gang mála. Hann hefur um of skamma hríð verið við störf nú á ný eftir veikindi sín til þess að honum verði hér um kennt að öllu. Ég er alveg sannfærður um að hin vestfirska harka hans hefði án efa komið sér vel s. l. víkur þegar stjórnarflokkarnir hafa verið að kasta þessu máli á milli sín og hnakkrífast um þessa eða hina leiðina, Framsókn af gömlum vana auðvitað alltaf hina leiðin, og hann hefði án efa getað rekið jafnvel þá framsóknarmenn til betri vinnubragða, svo að þetta frv. hefði séð dagsins ljós það tímanlega að við hefðum a. m. k. getað kynnt okkur það og borið saman tölur þær t. d. sem við vorum fyrst í dag að fá viðhlítandi skýringar á og þó varla. Manni finnst einhvern veginn að það hafi verið meiningin að við fengjum sem allra minnstan botn í þetta allt saman.

Endurskoðunarnefndin, sem hér er vikið að í frv. og sagt að hafi verið skipuð í okt. undir forustu formanns tryggingaráðs, er sérkapítuli að mínu viti. Ég hélt hreinlega og ég trúi því enn þá að hæstv. ráðh. hafi hugsað sér að sú nefnd ætti ekki einungis að vinna að endurskoðun þeirri, sem er fyrirhuguð á næsta ári, heldur væru þingflokkarnir, þ. e. a. s. þm. stjórnarandstöðunnar, þarna að fá tækifæri til þess að fylgjast eitthvað með þeim breytingum sem fyrirhugaðar væru í þessu efni. Ég hef sem sagt haldið þetta. Ef þetta hefur aldrei verið ætlunin, þá hef ég alveg misskilið þetta. Sú nefnd hefur sem sagt aldrei átt að athuga þetta frv. því að hún fékk auðvitað aldrei neitt af því að sjá. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið vilji hæstv. ráðh. Þannig var þetta a. m. k. flutt inn í minn þingflokk og ég hygg í aðra þingflokka einnig að þeir fulltrúar, sem við völdum, mundu fá þarna eitthvert tækifæri til þess að líta á þær till. sem núna yrðu gerðar til breytinga, ekki síður en þær breytingar sem fyrirhugaðar eru í allsherjarendurskoðuninni á næsta ári. En kannske er hér ekki um neinn misskilning að ræða, heldur ásetning, hreinlega beinan vilja til þess að stjórnarandstaðan fengi blátt áfram engan tíma til þess að kynna sér eða fjalla um þetta mál. Það er auðvitað um sumt þægilegt fyrir hæstv. ríkisstj., og nægilega sterk er hún til að knýja fram mál sem tekur kúvendingu frá degi til dags í meðförum stjórnarliðsins, en er svo fleygt fram í lokin í spánnýju formi sem m. a. brýtur að mestu leyti í bága við upphaflegar yfirlýsingar í fjárlagafrv. sem lutu að hreinum niðurskurði þessa liðar. Og það er raunar eina jákvæða atriðið að alger niðurskurður varð þó ekki um þessa 2 milljarða, enda hefðu afleiðingar þess orðið hinar hrikalegustu. En ég hygg að það hafi verið allt fram á síðustu stundu mikill og sterkur vilji fyrir því í báðum flokkum að framkvæma þennan niðurskurð þó að hinir jákvæðari og skárri menn þar hafi þó orðið ofan á, og ég vænti þess að þar hafi hæstv. ráðh. lagt sitt lóð á vogarskálina þeim megin sem betur var hugsað.

Ég veit auðvitað mætavel að þessi endurskoðunarnefnd, eins og segir í frv., á að vinna áfram og ljúka starfi á næsta ári. En það breytir engu um þá skoðun í mínum þingflokki — ekki bara mína skoðun, heldur í mínum þingflokki yfirleitt og ég hef kynnt mér það líka í öðrum stjórnarandstöðuflokkum — að þessi nefnd hefði átt að fá eitthvert ráðrúm til að sjá till. og kynna þær a. m. k. lítillega í þingflokkunum áður en þeim var fleygt hér á borð.

Í nál. því, sem ég hef lagt hér fram, bendi ég fyrst á að þetta frv. er lagt fram á síðustu dögum þingsins fyrir jólaleyfi svo að borin von er að náin skoðun fáist á efnisþáttum þess og réttmæti þeirra. Frv. hefur heldur nær enga athugun fengið í nefnd og nær væri kannske að segja enga athugun og engar nýjar upplýsingar fengist af hálfu þeirra sem um frv. fjölluðu, sem mér skildist þó að hefði verið ráðuneytisstjórinn, því að ekki græddi ég mikið á því sem hann sagði á fundinum í gær, því miður, og er hann þó hinn skýrasti maður og ágætasti við að tala yfirleitt.

Hér er um að ræða frv., eins og ég sagði, til að standa við yfirlýsingar í fjárlagafrv. um niðurskurð almannatrygginga til að minnka ríkisumsvif. Það er athyglisvert hverjir eru sérstaklega valdir til þess að taka þessa skerðingu á sig, þ. e. það fólk sem sérstaklega þarf á sérfræðiþjónustu að halda eða beinlínis notar mikið af lyfjum að læknisráði án þess að vera haldið þeim sjúkdómum sem upp eru taldir í frv. eða aths. við frv., þ. e. a. s. það fólk sem losnar undan gjaldskyldu af þessu tagi. Og það er þó þakkarvert, eins og ég tók fram í upphafi, að það skyldi þó ekki vera látið neitt bitna á því fólki. Hér er um að ræða 480 millj. kr. eða sem svarar yfir 2000 kr. á hvert mannsbarn í landinu eða 10 000 kr. rúmum á 5 manna fjölskyldu, svo að augljóst er að hér eru þungar álögur lagðar á þá sem mest þurfa á lyfjum og sérfræðiaðstoð að halda. Hér er um að ræða skref aftur á bak sem brýtur í bága við meginhugsunina að baki almannatryggingalaga, og gegn þessu ber því að snúast.

Í sambandi við þennan lyfjakostnað verkar hann kannske ekki sérstaklega alvarlega miðað við þær krónutölur sem verið er að benda á í frv. um hækkanir, þ. e. a. s. úr 300 í 600, úr 250 í 600 og annað því um líkt, úr 200 í 300, úr 400 í 600, þegar menn líta orðið allar þessar tölur smáum augum. Satt er það. En sannleikurinn er bara sá að þessi liður kemur svo misjafnt niður á fólki og harðast kemur hann auðvitað niður á þeim sem síst skyldi, og það fer ekki milli mála að hér er um visst ranglæti að ræða. Ég minnti áðan á meðaltalið, en ég skal líka taka persónulega kunnugt dæmi sem ég fór yfir alveg sérstaklega og reiknaði út eftir bestu getu. Þar er um að ræða aldraða konu, að vísu með tekjutryggingu, það skal tekið fram. Ég sé á öllu að lyfin ein munu hækka hjá þessari öldruðu konu um eða yfir 20 þú s. kr. á ári. Það liggur alveg ljóst fyrir miðað við þá meðhöndlun sem hún hefur hjá sínum læknum. Það fer ekkert á milli mála. Auk þess gengst þessi kona alltaf öðru hverju undir sérstaka rannsókn, og ég þori ekki að segja um það hvað mikil sú hækkun verður, en hún verður einnig mjög veruleg. Þetta er aðeins til að sýna dæmi um það hvað þetta getur komið þungt niður, og ég er auðvitað sannfærður um að hér er ekki um neitt einstakt dæmi að ræða eða neitt sérstaklega þungbært dæmi sem ég er hér með þótt svo vel vilji til að ég hafi getað séð á þessum stutta tíma hvað þessi kostnaður kemur til með að hækka.

En auðvitað þurfti meira til. Hér var ekki nema um 480 millj. að ræða. Og þótt alvarleg skekkja væri í fjárlagafrv. sem bjargaði ríkisstj. um nær 400 millj. eða eitthvað milli 300 og 400 millj. þegar allar leiðréttingar voru fram komnar ýmist til lækkunar eða hækkunar, þá þurfti niðurskurðurinn að vera 1667 millj. svo að endar næðu saman, „og hefur þó ekki fengist fullnægjandi skýring á þessari tölu,“ segir í nál. mínu sem ég skrifaði í gær. Síðan hefur sú skýring fengist á þessari tölu, þegar við erum búin að athuga þetta allt saman, að þarna sé innifalinn halli frá síðasta ári sem auðvitað kemur hvergi fram í þessu frv. og ekki var hægt að átta sig á.

3. gr. frv. fjallar um það að innheimta tekjur til sjúkratrygginga í gegnum sveitarfélögin með því að leggja 1% ofan á áætlaðan gjaldstofn útsvara. Þannig á auðvitað að fela nærri 1200 millj. sem ríkisstj. hyggst svo láta líta út sem minnkandi ríkisútgjöld þótt hér sé um það eitt að ræða að sveitarfélögin gerist ákveðinn innheimtuaðili fyrir ríkið.

Hæstv. ráðh. talaði hér um sparnað í gær þegar hann talaði fyrir frv., — fyrirgefið í fyrradag var það nú, það er best að gæta allrar sanngirni því að hér er hver dagurinn dýrmætur núna, — þegar hann talaði fyrir þessu frv. þá var hann að tala um sparnað, óskilgreindan að vísu, með strangara eftirliti og aðhaldi upp á 100 millj. Um þennan sparnað komu engar upplýsingar fram í nefnd, hvernig hann ætti að fást. Mér þótti það mjög leitt og ekki síður þegar einn hv. þm. Framsfl. upplýsti að þetta væru ekki neinar 100 millj., þetta væru 200 millj., og ég hef þá annaðhvort hlustað ranglega — ekki tekið nógu vel eftir hjá ráðh. Hann hefur kannske nefnt þessa tölu 100 millj., tvisvar og þannig komið 200 millj. sparnaður út. (Gripið fram í: Og hinn lagt það saman.) Já, hinn lagt það saman. Eða þá að sparnaðarbjartsýni framsóknarmanna er bara svona miklu meiri en hæstv. ráðh., sem líka kann vel að vera. Auðvitað fengust enn síður upplýsingar um þessar 200 millj. En það fæst væntanlega upplýst hér á eftir hvort við megum eiga von á því að ráðh. beiti sér fyrir 140 eða 200 millj. kr. sparnaði. 100 millj. eru þó peningar, a. m. k. í þessu efni, og ekki sama hvernig þeir eru fengnir eða með hvers konar sparnaði. Ég hefði helst viljað fá þennan sparnað skjalfestan, því að ég hygg að það verði gumað svolítið af honum og þá væri gott að fá hann skjalfestan og helst í frv. sjálfu, en því er auðvitað ekki til að dreifa. Ég vil ekki ætla ráðh. svo fljótt að hann sé bara þarna að lofa upp í ermina sína. Hann lumar áreiðanlega á einhverju sem hann ætlar að spara með einhverjum aðgerðum, en um þetta liggur hreinlega ekki neitt fyrir. Þetta eru óskilgreindar tölur með öllu og meðan þær eru þannig er býsna erfitt að trúa þeim. Okkur gengur nógu illa að trúa þeim tölum sem standa þó skjalfestar hjá hæstv. ríkisstj. Þær hafa ekki staðist það vel, þó að við förum nú ekki að leggja mikinn trúnað á þær sem eru bara mæltar af munni fram.

Í sambandi við þessar 1187 millj. vorum við að reyna að fá það upplýst í nefnd hvernig sú tala væri fengin. Ég held að það hafi verið réttur skilningur hjá mér að trúlega væri þetta áætluð tala af því sem innheimtist, þ. e. a. s. spurningin um uppgjörið í árslok, hvort þá ætti að reikna af útsvörum, sem á hefðu verið lögð, eða útsvörum, sem innheimtanleg höfðu verið. Held ég að það hafi nú upplýst sæmilega að hér væri eingöngu um þessa prósentu af innheimtunni að ræða.

Það upplýstist einnig í nefnd, sem mér þótti líka út af fyrir sig ágætt, að það væri framkvæmdaatriði hjá sveitarfélögunum hvernig þau legðu á þetta gjald, þ. e. a. s. hvort þau settu þetta inn á útsvarsseðilinn sem hreina viðbót eða hvort þau settu þetta sér, svipað og viðlagasjóðsgjaldið var sett á sínum tíma. Það var yfirlýst af ráðuneytisstjóra að þetta væri framkvæmdaatriði. Þá vitum við það. Og það var upplýst af hv. þm. Albert Guðmundssyni í gær að auðvitað fara sveitarfélögin ekki að hnoða þessu inn í sína almennu útsvarsupphæð og taka á sig óþökk fyrir þessa innheimtu — vitanlega ekki — til þess eins að sleppa hæstv. ríkisstj. við óvinsældir af þessari innheimtu. Auðvitað hefur það verið ætlunin, auk þess hróss sem blöð Sjálfstfl. áttu svo að færa hæstv. fjmrh. fyrir snilli hans í því að minnka ríkisumsvifin, eins og ég hef komið að áður. Sveitarfélögin sem sagt munu án efa setja þetta sem sér lið, og þá sér fólk nú í gegnum þann skollaleik sem þarna hefur án efa átt að setja á svið. En með því að velja útsvarsleiðina er einmitt fyrir því séð að atvinnureksturinn er undanþeginn þessum álögum, en jafnframt leggjast álögurnar af auknum þunga á almenna útsvarsgreiðendur og ná auk þess til enn lægri tekna en annars hefði verið.

En það alvarlegasta í þessu, sérstaklega miðað við það frv. sem við vorum að ræða um rétt áðan, um verkefnaskipti ríkis og sveitarfélaga, — það langalvarlegasta, sem upplýstist á þessum stutta og heita fundi í gær í nefnd, var að um þessa leið var ekki minnsta samráð haft við þann aðila sem innheimtuna á að annast, þ. e. sveitarfélögin eða heildarsamtök þeirra, Samband ísl. sveitarfélaga. Framkvæmdastjóri þeirra samtaka lýsti frv. eins og kaldri gusu framan í sveitarfélögin á fundi í heilbr.- og trn., og hann sagði einnig að þessi aðferð bryti gersamlega í bága við yfirlýsta stefnu ríkisstj. um hreinni verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Framkoman við Samband ísl. sveitarfélaga einmitt núna, þegar verið er að fjalla um annað frv. þar sem verkefnaskipti þessara aðila eru á dagskrá, er auðvitað alveg furðulegt. Það virðist sem sagt ekkert samráð haft við Samband ísl. sveitarfélaga, — ekki þori ég auðvitað að segja það fyllilega þó að framkvæmdastjórinn hafi sagt það, e. t. v. hefur verið haft samráð við einhverja útvalda úr stjórninni sem eru nógu þægir til að taka við hverju sem er. Það kann vel að vera. En einhvern tíma hefðu stór orð verið látin falla um slíka framkomu af hálfu stjórnvalda. Ég man a. m. k. í stjórnarandstöðu Sjálfstfl. eftir mörgum fjálglegum ræðum þeirra um hvað eina sem á einhvern hátt snerti sveitarfélögin og ekki hafði að þeirra dómi verið nægilega rætt við þau og nægilegs samráðs gætt. Nú er um hvorugt að ræða, samráð fyrir eða eftir framlagningu frv.

Ég held það sé rétt að rifja upp helstu atriðin sem komu fram hjá framkvæmdastjóranum í gær á þessum nefndarfundi. Í fyrsta lagi þetta: ekkert samráð, engin samvinna. Þessu var skellt fram sem kaldri gusu.

Í samtölum áður hefði þessu alveg verið öfugt farið. Þar hefðu sveitarfélögin óskað eftir að losna við framlög til sjúkratrygginga og fengið jafnvel góð orð þar um, m. a. vegna þess að þar var verið að vinna að og á að fara að vinna einmitt á næsta ári að margrómaðri hreinni verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Framkvæmdastjórinn benti á það, að sárafá sveitarfélög taka beinan þátt í rekstri sjúkrahúsa. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra hefur engin áhrif á hér til aðhalds, eins og rætt er um í aths. með frv. Og röksemdin í aths. við 3. gr., þar sem komið er inn á að auka aðhald í sjúkrahúsarekstri þeirra, þótti mér vel hrakin af framkvæmdastjóranum. Hann sagði að það væru ytri aðstæður og auðvitað sérstaklega verðbólguþróunin sem þar hefði komið til og valdið mestu um útþenslu útgjaldanna við sjúkrahúsin. Hann benti einnig á síauknar kröfur hins opinbera varðandi þennan rekstur, — ekki ónauðsynlegar kröfur, heldur kannske um margt eðlilegar, en það væri augljóst hve hið opinbera, heilbrigðisyfirvöldin í landinu með hæstv. heilbrrh. í broddi fylkingar, réði miklu meira um rekstrarkostnaðinn í heild heldur en sveitarfélögin. Hann benti einnig á að það væru ekki sveitarfélögin sem réðu daggjöldum sjúkrahúsanna.

Miðað við þessa tekjuliði sem þarna eiga að koma inn og þurfa auðvitað að koma inn sem jafnast á árinu, þá benti framkvæmdastjórinn á það hvernig útsvarsinnheimta væri mjög víða í sveitarfélögunum. Sums staðar væri t. d. innheimt um 50% af útsvörunum á 3–4 síðustu mánuðunum, einkum í minni hreppunum. Ég er ekki að segja að þetta hafi nein afgerandi áhrif, en þetta gæti vissulega verið slæmt fyrir framkvæmd þessara laga, þótt ekki væri það neitt afgerandi, en sýnir þó eina hlið þess.

Ég vil að síðustu ítreka það alveg sérstaklega hvaða leið er svo farin í þessu óráði hæstv. ríkisstj. við það að koma þessu frv. endilega fram, — þessi neyðarleið sem síðast var hlaupið til, þ. e. a. s. að útsvarsleiðin var valin. Það er greinilegt að hún er valin af ásettu ráði með sérstöku tilliti til eins, önnur rök fæ ég ekki fyrir því. Það er að atvinnureksturinn í landinu sé undanþeginn með öllu, almennir útsvarsgreiðendur beri þessar byrðar. Það er í góðu samræmi við annað. En þó tel ég það ekki vansalaust, ekki einu sinni hjá þessari hæstv. ríkisstj., að velja þá leið sem eingöngu bitnar á hinum almenna útsvarsgreiðanda. Og allt þetta, málsmeðferðin og málseðlið, stuðlar að eindreginni andstöðu minni við þetta frv.

Alþb. er andvígt hvoru tveggja: hinni sérstöku hækkun lyfja og sérfræðiþjónustu sem leggst sérstaklega þungt á einstakar persónur og sömuleiðis því nýja skattlagningarformi sem farið er inn á eftir krókaleiðum. Ég legg því til eindregið að frv. þetta verði fellt. En það mætti kannske til vara minnast á það, vegna þess að hér virðist vera um algera bráðabirgðalausn að ræða, hvort ekki væri rétt að 4. gr. orðaðist eitthvað á þá leið að lögin öðluðust gildi 1. jan. 1976 og gildistími þeirra væri til 31. des. 1976, þ. e. a. s. þá féllu þau hreinlega úr gildi. Það kemur kannske nægilega fram í frv. vegna þess að í 3. gr. segir svo: „á árinu 1976“ o. s. frv. Það kann að vera. En miðað við það t. d. sem hv. þm. Axel Jónsson kom hér inn á í gær, þá efast ég ekki um að hann mundi fagna því að það kæmi skýrt í ljós að þessi lög væru fallin úr gildi í árslok næsta árs.