17.12.1975
Efri deild: 32. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

121. mál, almannatryggingar

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður og ekki tefja þessar umræður sem eru nú þegar orðnar æðilangar, en ég sá ástæðu til þess að víkja að örfáum atriðum sem fram komu í ræðu hv. 1. landsk. þm., Jóns Árm. Héðinssonar.

Ég hélt að það hefði komið sæmilega skýrt fram í minni ræðu og hið velvirðingar á því ef svo hefur ekki verið, að ég hef lýst mig fylgjandi þessu frv. með tilliti til þess að það sé bráðabirgðaráðstöfun og þessi mál séu í endurskoðun og að ég vænti að út úr þeirri endurskoðun komi niðurstaða sem veiti möguleika til þess að fara öðruvísi að. Ég lýsti því einnig yfir, að ég teldi heppilegast að fólk þyrfti ekki að greiða beint fyrir lyf eða læknishjálp. Hins vegar er þetta frv. engin breyting í því efni frá því sem áður hefur verið þó að tölurnar hafi hækkað. Það, sem ég er að tala um að væri æskilegast, væru breytingar. Hins vegar er tómt mál að tala um það að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis. Hún er alls ekki ókeypis. Hún kostar mikla peninga. Hún verður ekki ókeypis þó að fólk hætti að draga upp peninga úr vasa sínum. Það þarf að greiða engu að síður með einhverjum hætti og ég sé ekkert athugavert við það að sveitarfélögin taki þátt í þessu, þó að eitt sveitarfélag geti þurft meiri opinbera fyrirgreiðslu en annað vegna staðsetningar á landinu og þeirra möguleika sem það hefur til að afla eigin tekna. Annars held ég að við megum ekki hugsa þetta mál í allt of smáum einingum. Það er miklu eðlilegra að samtök einstakra landshluta komi upp skipulagi hjá sér, bæði á litlum og stórum sjúkrahúsum, og að þessi samtök séu síðan innbyrðis tengd og hafi sérstakt samráð við sjúkrahúsin í Reykjavík sem hljóta að verða best búin um langan aldur og þau einu sem hljóta að verða þannig um langan aldur.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. og ég taldi mig hafa komið inn á það sjálfan, að það eru ákveðnir þættir í heilbrigðisþjónustunni sem verður ekkert sparað á. Það er í fyrsta lagi mannafli og það er í öðru lagi tækjabúnaður og aðstaða. Þetta eru hlutir sem kosta mikla peninga og þeir munu halda áfram að gera það. Það þarf stöðugt að auka og endurnýja tæki. Ég get t. d. vakið athygli hv. þm. á því að það væri mjög áríðandi að fá tæki til landsins nú sem kostar 70 millj. kr. og hægt er að framkvæma með rannsóknir sem nú eru gerðar með allt öðrum tækjum og hafa nú í för með sér mjög mikla áhættu fyrir hvern þann sjúkling sem í gegnum þessar rannsóknir gengur. Með þessu nýja tæki verða allar þessar rannsóknir hættulausar, auk þess sem hér er um miklu nákvæmari rannsókn að ræða. Þessi tæki eru notuð í öllum þeim löndum sem við köllum menningarlönd og viljum helst miða okkur við. Þetta er aðeins dæmi um það, að stöðugt er þörf fjármuna til þessara þátta. En það, sem ég var að reyna að leggja áherslu á, er að ef við ætlum að spara, ef við ætlum að reyna að nýta vel mikla fjármuni, þá verðum við að koma upp starfsskipulagi sem gefur einhvern möguleika til þess að dýr mannskapur, tæki og aðstaða sé fyllilega og fullkomlega nýtt. Það er það sem horfir til mestra framfara á þessu sviði. Það hvarflar ekki að mér að fara að minnka heilbrigðisþjónustuna með nokkrum hætti. Það hvarflar ábyggilega ekki að nokkrum einasta manni hér inni, því skal ég aldrei trúa, engum einasta hv. alþm.

Ég sé ekki beina ástæðu til að svara því sérstaklega að ef heilbrigðisþjónusta verði óeðlilega dýr, þá þurfi að veita læknunum tiltal vegna þess að þeir láti undan kveinstöfum fólks. Þetta er dálítið sérstakt mál og ég mun ekki reyna að útskýra það, því að sá einn, sem umgengst mikið af sjúku fólki, skilur hver hin raunverulega aðstaða er. Þetta er ekki tölvukerfi. Þetta er þjónusta við mannlegar verur.

Að lokum sé ég ástæðu til þess að minnast á kostnað við tannlækningar. Ég er að vísu því máli fullkomlega ókunnugur, en það er sagt að hann hafi hrokkið upp úr öllu valdi. En það skyldi þó ekki vera að það, sem hafi gerst, sé einfaldlega að menn eru farnir að sjá tölurnar yfir kostnaðinn? Og það gæti vel verið að ef ýmislegt annað en læknisþjónusta væri greitt í gegnum samlag, hvaða nafni sem við vildum nefna það, að þá kæmi í ljós að ýmsir hlutir væru allmiklu dýrari en ástæða hefði verið til að halda eftir þeim upplýsingum sem menn hafa í höndum.

Ég þakka hv. þm. fyrir ábendingu um athugun á atvinnusjúkdómum í landinu. Ég er honum alveg sammála. Mér þykir leitt að geta ekki veitt honum nein svör við spurningu hans, en án efa eru margir sjúkdómar til komnir vegna atvinnu manna. En hitt get ég alveg fullvissað hv. alþm. um og á því berum við allir nokkra ábyrgð, að ef það er nokkuð, sem veldur sjúkdómum hjá fólki ú Íslandi í dag, þá er það fyrirbrigðið streita. Það eru margir þættir sem henni valda. Á suma þeirra gætum við haft veruleg áhrif eftir því hvernig við stöndum að málum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel mig hafa lýst afstöðu minni fyllilega og tel mig ekki hafa fengið ástæðu til þess að svara neinu frekar.