17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1003)

119. mál, tollskrá o.fl.

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu frsm. 1. minni hl. er það frv., sem hér liggur fyrir til l. um tollskrá o. fl., í beinu samræmi við ákvæði gildandi milliríkjasamnings milli Íslands og Fríverslunarbandalagsins og Efnahagsbandalagsins sem gera ráð fyrir að svokallaðri tollvernd, sem íslensk iðnfyrirtæki hafa notið, verði lokið í ársbyrjun 1980.

Í þjóðfélagi eins og okkar, þar sem tolltekjur hins opinbera eru jafnþýðingarmikill stofn í tekjuöflun ríkisins, hlýtur að vera mikill vandi á höndum þegar lagt er út í það að semja ný lög um tollskrá. Mér hefur verið tjáð af mönnum, sem þar eiga að hafa þekkingu á, að svo sé háttað hjá okkur íslendingum að tollgjaldatekjur af aðfluttum vörum nemi um fimmtungi allra ríkistekna, en sambærilegar tölur á Norðurlöndunum séu miklum mun lægri, og hef ég heyrt talað um 1–2%. Þegar við svo að hinu leytinu lítum á þarfir hins sameiginlega sjóðs þjóðarinnar, ríkissjóðs, þá held ég að við þm. getum allir verið sammála um að þar er oft úr vöndu að ráða. Kannske er slík staða aldrei ljósari þm. heldur en einmitt nú þessa dagana, þegar eiginlega má svo að orði komast að hv. fjvn.- menn verði helst að fara í felur og að húsbaki til þess að vera ekki umsetnir af þm. og tel ég mig sjálfan þar ekki neina undantekningu, þar sem megintilgangurinn er að reyna að fá eitthvað úr hinni sameiginlegu köku. Margt af þessu eru ákaflega nauðsynlegir hlutir.

En á sama tíma og meginorka þm, hefur farið í það nú undanfarna daga að reyna að toga út úr þessum sameiginlega sjóði þjóðarinnar, þá erum við í öðru horni að fjalla um frv. til l. um nýja tollskrá o. fl., og þar kveður við allt annan tón. Þar viljum við lækka og jafnvel helst, afnema með öllu tolla af margvíslegum varningi sem hingað til hefur fært hinum sameiginlega sjóði milljónatekjur. Þetta er það mikla, sígilda vandamál sem við er að etja á hverjum tíma.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að við erum allir sammála um það, að við viljum búa sem best að okkar unga iðnaði, þeim mikla vaxtarsprota sem er að verða í íslensku þjóðfélagi, til þess að gera honum kleift að gegna því mikilvæga hlutverki, sem hann verður að gegna í framtíðinni. En samt sem áður held ég að sú staðreynd blasi við okkur sem ábyrgum aðilum, að okkur er skorinn þröngur stakkur um það hve langt við getum gengið að skera niður tekjustofna ríkissjóðs.

Ég er ekki gamall í hettunni sem þm., en það litla sem ég hef setið á þingi og kynnst þingstörfum, þá finnst mér það vera í sívaxandi mæli að flutt eru frv. sem í framkvæmdinni hljóta að valda ekki tugmilljóna, heldur hundruð milljóna útgjöldum fyrir sameiginlegan sjóð þjóðarinnar. Ég vil aðeins sem dæmi nefna tvö atriði sem sveima hér yfir vötnunum: frv. um fullorðinsfræðsluna og frv. í sambandi við öll dagvistunarheimilin. Ýmislegt fleira er á ferðinni. Allt eru þetta óskir um atriði sem sjálfsagt eru mjög nauðsynleg og þarfleg. En þau hafa bara það við sig að þau kosta stórkostlegt fjármagn.

Í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., komast menn, um leið og þeir hafa verið að lýsa óskum sínum á hvern hátt þeir vilji í sem víðtækustum mæli verða við tilmælum iðnaðarins um almenna tollalækkun og helst niðurfellingu tolla, — þá komast menn gjarnan þannig að orði að það verði að finna aðra tekjustofna. Rétt er það. Ef við getum ekki tamið okkur þá hugarfarsbreytingu að einhvern tíma verði hinar síauknu kröfur til hins sameiginlega sjóðs þjóðarinnar að stöðvast, þá hljóta auðvitað að fylgja till. eða einhver úrræði þingsins um að afla tekna á móti þeim gjöldum sem við á hverju tíma erum að samþ. En þá kemur bara spurningin upp í huga manns: Verður sú tekjuöflun, sem þá verður staðið að, nokkuð léttari á þessum atvinnuvegi sem við erum að bera fyrir brjósti — í þessu tilfelli iðnaðurinn — heldur en jafnvel það sem við erum að létta af honum með ákvæðum um lækkun tolla og aðflutningsgjalda? Svona hugleiðingar geta komið í kollinn á manni þegar farið er að kryfja þessi mál til mergjar. Á ræðum manna er helst að heyra að þar séum við allir sammála, hvar í flokki sem við stöndum, að til lengdar verði ekki búið við það búskaparlag hjá þjóðinni almennt að ríkissjóður verði rekinn með stórfelldum halla, svo að sú staðreynd blasir við að fyrir það, sem minnkað er að tekjum ríkissjóðs á þessum væng, verður að koma aukning einhvers staðar annars staðar frá.

Eins og gengið hefur verið frá þessu frv., sem hér er til umr., er að mínu mati að mörgu leyti kraftaverki líkast hvað þó hefur tekist að koma til móts við þarfir iðnaðarins, eins og ákveðið er í þessu frv., og áreiðanlega erum við sammála um það, enda kom það fram í viðræðum við fulltrúa iðnaðarmanna, iðnrekenda og þeirra aðila, sem hlut áttu að máli, að þetta væri spor í rétta átt.

Í sambandi við umr. um þetta mál hefur nokkuð verið blandað inn í þær umr., hugleiðingum um að það væri í okkar höndum að fresta því að tollalækkanir færu fram skv. ákvæðum samninganna við Fríverslunarbandalagið og Efnahagsbandalagið sem ráðgert er að verði núna um áramótin. Ég er ekki sammála þeim aðilum sem telja að það mundi vera nægilegt á gamlársdag eða fyrsta virkan dag á nýju ári að tilkynna hlutaðeigendum með símskeyti eða telex-boðum að við höfum ákveðið að fresta gildistöku ákvæða í samningi sem við höfum gert af fúsum og frjálsum vilja. Einhvern veginn hef ég þann metnað fyrir mína þjóð, að ég vil að svo sé staðið að samningum okkar litla lýðveldis út á við að staðið sé við þau frá orði til orðs. Ef við óskum breytinga og ef við teljum að við getum náð breytingum, þá verðum við að fara að því á réttan hátt, taka til þess eðlilegan tíma og vinna að því á þann veg sem sæmir frjálsbornum samningsaðila sem virðir undirskrift á ritaðri samningsgjörð. Ég hlýt því að vera sammála því sem komið hefur fram í n. þeirri sem fjallaði um þetta frv., fjh.- og viðskn. Ed., þar sem okkur var tjáð að hvað svo sem yrði um meðferð þessa frv., þá mundu tollalækkanirnar skv. ákvæðum samnings Íslands við Fríverslunarbandalagið og Efnahagsbandalagið ganga í gildi nú um áramótin, það yrði þá að bíða með lækkanir á aðflutningsgjöldum á efnivörum og öðrum tækjum og búnaði til iðnaðarins og annarra greina sem ráðgert er að lækkaðir verði tollar á skv. tollskrárfrv. sem hér liggur fyrir (StJ: Hefur ræðumaður lesið allt frv?) Ég tók eftir því að það hefur nokkuð komið til umr. og meira að segja, eins og skáldið sagði, það hefur verið bréfað. Í áliti 3. minni hl. er vitnað í bréfaskipti milli formanns Félags ísl. iðnrekenda og starfsmanns í rn. Ég verð að segja það sem mitt álit á þeim bréfaskiptum, að einhvern veginn finnst mér að þarna hljóti að hafa verið um að ræða einhver persónuleg minnisblaðaskipti eða persónuleg skoðanaskipti, því að þó ég sé ekki kunnugur stjórnsýslukerfi okkar, þá finnst mér ég þó vera það kunnugur að ég hef séð lítið af bréfum frá þessu opinbera stjórnkerfi sem byrja þannig: Kæri NN, og enda: Með bestu kveðjum. A. m. k. datt mér í hug undir þeim lestri að seint mundi það henda, að formaður t. a. m. Kröflunefndar fengi slíkar kveðjur frá fjmrn. í sambandi við samskiptin þar. Hvað um það, ég held að tilvísanir í slík bréfaskipti séu vægast sagt hæpnar og ég verð að lýsa undrun minni yfir því að þetta skuli komið á prent í þskj.

Herra forseti. Ég veit að tíminn er naumur hjá okkur hér og það er mikið annríki á Alþ. og þess vegna ekki hægt að tefja afgreiðslu þessa frv. með löngu máli. En þó er ýmislegt sem gefur tilefni til hugleiðinga í sambandi við almenna afgreiðslu þessa máls. Ég vil að lokum lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel mjög mikilvægt fyrir iðnaðinn í heild og fyrir alla aðra aðila, sem þetta mál snertir, að þetta frv. fái afgreiðslu nú áður en jólafrí þingsins hefst, að það geti orðið að lögum nú um áramót. Ég bendi á að seinast þegar tollskrá var samþ. tók hún ekki gildi fyrr en nokkrar vikur voru liðnar af því ári sem hún átti að taka gildi á, mig minnir tveir mánuðir. Sá tími, sem leið þangað til þessi nýja tollskrá tók gildi, olli miklum töfum, vangaveltum, erfiðleikum, kvörtunum og beiðnum, og sumu af því er ekki lokið enn þá. Þrátt fyrir það að margir annmarkar og agnúar séu á því frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, og mér er alveg ljóst að þeir eru mjög margir, ég viðurkenni það fúslega, — þá tel ég samt sem áður kostina við það að afgr. þetta frv. meiri og met meira að fá frv. í gegn.

Ég vil því lýsa fylgi mínu við frv. ásamt þeim brtt. sem fluttar hafa verið við það af 1. minni hl. Ég persónulega treysti mér ekki, eins og ástatt er um stöðu ríkissjóðs, að fylgja frekari brtt. um tollalækkanir, hversu sanngjarnar sem þær eru og hversu nauðsynlegar sem þær kunna að vera. Ég vil í þessu sambandi aðeins benda á, að ég held að það sé ástæða til þess að binda miklar vonir við 12. lið 3. gr., svokallaðrar heimildagr. í þessu frv. Með þeirri orðalagsbreytingu, sem gerð er till. um að verði á þessu ákvæði frv., held ég að opnist möguleikar til þess að leysa úr mörgum þeim annmörkum og agnúum sem vissulega eru á þessu frv. og við erum allir sammála um að þyrftu úrbóta við.

Ég skal svo fúslega undirstrika að það er aðkallandi verkefni náinnar framtíðar að finna leiðir út úr þeim vanda sem blasir við iðnaðinum og annarri framleiðslu og annarri starfsemi í landinu þegar þeirri tollvernd, sem þó helst enn, lýkur að fullu. Þar sem hér er um að ræða mál sem þm. almennt eru sammála um að sé aðkallandi að fái viðeigandi úrlausn, þá ætla ég að vera svo bjartsýnn að trúa því að það verði brugðið við af ábyrgð og festu af hálfu Alþ. að búa svo í haginn að við megum eftir atvikum vel við una. — Ég hef lokið máli mínu.