17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

119. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að þetta frv. um tollskrá kemur fyrst og fremst fram vegna þess samkomulags sem hefur verið gert við EFTA og Efnahagsbandalagið. Í sínum tíma, þegar við gengum í EFTA, þá var Framsfl, mótfallinn þeirri inngöngu með þeim rökum að á því stigi málsins væri iðnaðurinn ekki undir það búinn að við gengjum í EFTA, en hins vegar var flokkurinn alls ekki á móti því að það yrði ella gert. Ég held að við höfum ekki staðið nægilega vel við bakið á iðnaðinum eftir að við gengum í EFTA og ekki eins vel og forustumenn iðnaðarins höfðu gert sér vonir um, enda kemur það glögglega fram í áliti þeirra sem hér hefur komið fram.

Varðandi ummæli hv. þm. Ragnars Arnalds og eins og kemur fram í ákvæði til bráðabirgða sem hann leggur til að verði samþ., þar sem segir: „Lækkanir á tollum, sem stafa af aðild Íslands að EFTA og EBE, koma ekki til framkvæmda að svo stöddu,“ taldi ég ástæðu til þess vegna mikilvægis þessa máls að gera mér grein fyrir hvort það væri rétt að þetta mál mætti bíða í einn eða tvo mánuði fram á næsta ár, hvort það væri svo að það væri í lagi og tollalækkanir kæmu ekki til framkvæmda. Ráðuneytisstjóri viðskrn. sagði að það væri af og frá að væri hægt að koma því við að tollalækkanirnar kæmu ekki til framkvæmda, ef menn á annað borð ætluðu sér að standa með einhverri reisn við þá samninga sem menn höfðu gert. Þetta kom glögglega fram 1973 þegar frv. um tollskrá var þá lagt fram. Og það vill svo til að í síðustu tvö skipti, sem tollskrá hefur verið lögð fram, hefur hún í bæði skiptin verið lögð fram 10. des., en nú var hún lögð fram 9. des., þannig að vinnubrögðin varðandi tollskrá hafa verið mjög svipuð, þó að ég sé ekki að mæla því bót hversu seint þetta frv. er fram komið. Þá var það mjög vel kannað, sagði ráðuneytisstjóri viðskrn., hvort það væri unnt, vegna þess að síðasta frv. sem var lagt fram um tollskrá, 1973, var ekki samþ. og náði ekki fram að ganga fyrr en komið var fram á næsta ár. Þáv. ríkisstj. taldi ekki fært að hætta við tollalækkunina, og þáv. viðskrh., hv. þm. Lúðvík Jósepsson sendi ekki þetta skeyti sem hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um að væri auðvelt að senda. Ég vil einnig vilna í umr. um þessi mál, en þá mælti hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson, á þessa leið : „Eins og hv. þm. vita lækka tollar á innfluttum iðnvarningi sjálfkrafa núna um næstu áramót, og ég tel að það væri ákaflega alvarlegt mál ef íslenskuiðnaður yrði að búa við það að vera með óbreytta tolla á sínum aðföngum í — ja, við skulum segja tvo mánuði þar á eftir.“ Við afgreiðslu þessa máls þá kom það skýrt fram að þáv. ráðh. og þáv. ríkisstj. töldu ekki fært að fresta því að tollalækkanirnar kæmu til framkvæmda. Ég vil aðeins láta þess getið hér vegna þess að ég taldi ástæðu til að kanna forsögu þessa máls, því það hefði vissulega getað verið freistandi að fá meiri tíma til að athuga ýmis mál ef þetta hefði reynst svo.

Hv. þm. Albert Guðmundsson vék hér að frv. sem hann flutti, 75. mál þingsins, um breyt. á 1. um tollskrá o. fl., og hélt því fram að þetta frv. hefði fengið óréttmæta meðferð í fjh.- og viðskn. Strax og þetta frv. barst til n. var það sent fjmrn. til umsagnar, og ég skal viðurkenna að ég taldi að hér væri um slíkt mál að ræða að það ætti ekki að vera erfitt að afgreiða það, það væri ekki stórmál, og ég vænti þess að geta afgr. það á sem jákvæðastan hátt. Sú umsögn, sem sérfræðingar ríkisins í tollamálum semja, — ég ætla ekki að lesa hana hér upp, ég get gert það ef umr. verða meiri um þessa till., en þar segir m. a.: „Frv. það, sem hér um ræðir, gengur þvert á þessa stefnu, sem er lýst hér á undan, þar eð því er ætlað að breyta grundvallartúlkunarreglum Brüssel-tollskrárinnar sem eru alþjóðlegar: Og þar segir einnig: „Með slíkri breytingu væri veigamiklum ávinningi hinnar alþjóðlegu tollskrárfyrirmyndar varpað fyrir róða: Og í niðurlagi segir: „Með þeim rökum, sem hér eru talin, mælir rn. eindregið gegn því að umrætt frv. verði samþ.“ Það má vel vera að hv. þm. Albert Guðmundsson sé það vel heima í þessum málum að hann geti sagt sem svo, að sérfræðingar okkar í tollamálum, sem starfa við fjmrn., fari hér með algjörlega rangt mál. En það er skoðun mín að það sé ekki algjörlega hægt að hunsa þetta álit. Hins vegar hafði ég vonast til þess að okkur auðnaðist tími til að vinna meira í þessu máli, en það væri vissulega æskilegt að það hefði verið hægt að ljúka því nú þegar tollskráin kemur til afgreiðslu. En ef hv. þm. á erfitt með að sætta sig við þá meðferð sem málið hefur fengið í n., þá vil ég benda honum á að hann getur auðveldlega flutt hér skriflega brtt., sams konar brtt. við frv. sem hér liggur frammi, og þar með lagt það fyrir þd. að taka ákvörðun um það. Ég vil vinsamlegast benda honum á að gera það ef hann æskir þess að d. taki ákvörðun um þetta mál nú. Hins vegar get ég ekki á þessu stigi málsins mælt með því, að þessi breyt. verði samþ. En hann ætti auðveldlega að geta gert þetta ef hann óskar þess og ber það fram.

Það hefur verið nokkuð rætt hér um þann tekjumissi sem ríkissjóður verður fyrir af tollalækkunum næstu ára, og hv. þm. Albert Guðmundsson vildi gera fremur lítið úr honum. Það má vel vera að þetta verði ekki mikið vandamál, en það er alla vega vandamál sem menn þurfa að takast á við. Tekjumissir ríkissjóðs á næstu árum er skv. frv. 41/2–5 milljarðar á ársgrundvelli 1980, og það er a. m. k. ljóst að það verður að draga verulega úr gjöldum ríkissjóðs eða afla annarra tekna ef þetta verður svo. Menn geta ekki verið tvöfaldir í roðinu. Ef menn halda fram, þegar verið er að tala um tekjurnar annars vegar, að það verði að lækka þær, þá verða menn líka, þegar verið er að tala um útgjöldin, að geta bent á hvar skuli dregið saman í þeim efnum. Þess vegna get ég alls ekki fallist á að hér sé um lítilvægt mál að ræða. Ég get vel fallist á að það mætti ýmislegt mun betur fara í tollskránni. Og það er svo í flestum lögum sem gera ráð fyrir að afla tekna til ríkissjóðs, að þar eru ýmis atriði sem mættu mun betur fara.

Ég vil að síðustu aðeins víkja að málefnum iðnaðarins. Ég held að með þeim brtt., sem hér eru lagðar fram, sé allverulega komið til móts við óskir iðnaðarins um þau atriði sem alvarlegust eru. Hins vegar er mér ljóst að iðnaðurinn hlýtur að verða sú atvinnugrein sem verður að eflast mest á næstu árum, og það er nauðsynlegt að Alþ. taki á málefnum iðnaðarins af mikilli alvöru. En það verður hins vegar ekki gert aðeins með afgreiðslu tollskrár. Það verður því aðeins gert að t. d. nefnd frá opinberum aðilum og samtökum iðnaðarins komi saman og geri sameiginlegar till. og reyni að komast að niðurstöðu um hvað það sé helst sem þurfi að breyta í málefnum iðnaðarins. Ég held að það sé nauðsynlegt að ríkisstj. beiti sér fyrir því að slík samstarfsnefnd verði sett á fót, og ég vil eindregið mælast til þess við ríkisstj. að hún geri það, því það er vissulega ástæða til þess að vinna ötullega að þessum málum. Það eru ekki mörg ár til 1980, og þá verður tollverndin algjörlega fallin burt, þ. e. a. s. ef ekki fæst framlenging sem er sjálfsagt mál að kanna.