17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

119. mál, tollskrá o.fl.

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kem hér upp í ræðustól aftur, eru hin furðulegu viðbrögð form. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., sem ég á sæti í líka, Halldórs Ásgrímssonar, þegar ég minnti hann á að bréf það frá fjmrn., sem hann vitnaði hér í, en vildi þó ekki lesa, hefði ekki borist mér þrátt fyrir það að ég hefði óskað eftir því við hann sem formann, eins og gert er almennt við formenn n., að ég fengi afrit af því. Ég er ekki vanur því að fá vanstillt svör og vera vísað á möppur sem ég veit tæplega hvar eru geymdar í fórum formanns n. eða n. almennt. Mér þætti vænt um að það kæmi ekki fyrir aftur. Ég mun leita upplýsinga á skrifstofu Alþ. um það, hvort möppurnar liggi frammi fyrir þm. einhvers staðar og þeim beri sjálfum að útvega sér þau gögn sem berast form. n. ef þeir þurfa á þeim að halda.

Ég ætla að taka ráðleggingum hv. þm. og leggja fram brtt. við frv. sem hér liggur frammi. Hún er samhljóða till. minni um breyt. á lögum um tollskrá o. fl., nr. 6 1974. Það þarf að vísu að breyta titli till., þannig að það verði brtt. við það frv. sem hér liggur frammi og hljóðar svo: „Aftan við almennar reglur um túlkun tollskrárákvæða í 1. gr. laganna komi nýr töluliður, svo hljóðandi:

5. Ekki skal beita samtollun við tollafgreiðslu vöru úr tollvörugeymslum, heldur skal farið eftir tollskrárnúmerum, flokkist vara undir sérstakt tollskrárnúmer.“

Í grg. segir svo:

„Sérstaða tollafgreiðslu úr tollvörugeymslum er öllum ljós sem til þekkja.

Úr tollvörugeymslu getur innflytjandi tekið tiltölulega lítið magn úr stórum sendingum, eftir því sem markaður og eftirspurn krefst hverju sinni, og er þá óeðlilegt að greiða hærri toll en ákvæði viðkomandi tollskrárnúmers segja til um, eingöngu vegna þess að hlutir í öðrum og hærri tollflokkum voru einnig í hinni sömu vörusendingu frá útlöndum, sem ekki verða notaðir í sambandi við þá vöru, sem út er tekin þegar vara sú er seld. Við samtollun, sem í eðli sínu veldur verðhækkun, skapast misræmi í verðlagi eftir því, hvernig vörusendingum er háttað, en það er oft ekki á valdi innflytjenda að ráða því. Stór fyrirtæki vilja komast hjá því að setja smásendingar á mörg farmskjöl.

Rétt er að leggja áherslu á að tollvörugeymslum og viðskiptamönnum þeirra er mikið kappsmál að fá gerða á framkvæmd tollafgreiðslu þá breytingu sem frv. felur í sér. Má vísa m. a. til eftirfarandi stjórnarsamþykktar í Tollvörugeymslunni hf. í Reykjavík, sem gerð var á stjórnarfundi 7. nóv. 1974:

„Stjórnarfundur í Tollvörugeymslunni hf., haldinn fimmtudaginn 7. nóv. 1974, telur að brýna nauðsyn beri til að breytt verði framkvæmd á samtollun þess varnings, sem fer í tollvörugeymslur félagsins, vegna sérstöðu tollafgreiðslu þaðan. Sé nauðsyn lagabreytingar í þessu sambandi samþ. stjórnin að vinna að því að svo verði gert “

Tilraunir stjórnar Tollvörugeymslunnar hf. til að fá fram breyt. í framangreinda átt hafa ekki borið árangur og því er frv. þetta borið fram.“

Það lá sem sagt óafgreitt erindi frá Tollvörugeymslunni hf. í fjmrn. í tvö ár. Ég vil taka það hér fram, að það er í fullu samstarfi og í samræmi við óskir allra þeirra sem eru í samtökum innflytjenda og stjórnum þeirra líka, að gefnu tilefni sem hv. frsm. fjh.- og viðskn. gaf mér í símtali í gær og ég hef kynnt mér betur nú.

Ég vil þá, herra forseti, leyfa mér að leggja fram þessa till. og óska eftir því að hún verði tekin til meðferðar við afgreiðslu þessa frv. sem hér liggur fyrir til umr.

Ég vil lítillega í beinu framhaldi af þessu, sem ég hef nú sagt, lesa það bréf sem hv. frsm. ætlaði ekki að lesa nema að sérstöku gefnu tilefni. Ég hugsa að hann hafi ekki lesið það upp vegna þess að hann gerir sér engan veginn ljóst hvernig tollvörugeymslur vinna, og hann gerir sér ekki heldur ljóst að í þessu bréfi eru missagnir og hreinlega rangt með farið af þeim sem semja umsögn rn., og skal ég koma að því jafnóðum og ég les bréfið. En bréfið er dags. 30. nóv. og hljóðar svo:

„Rn. hefur borist til umsagnar frv. til l. um breyt. á lögum nr. 6/1974, um tollskrá o. fl., 75. mál, sem Albert Guðmundsson alþm. hefur flutt. Vegna þessa vill rn. upplýsa að allar götur síðan 1963, að Brüssel-tollskráin svonefnda var innleidd í tollskrárlög hérlendis, hefur sú stefna verið ríkjandi í löggjöf að byggja á henni í hvívetna.“ Ég held að hver einasti innflytjandi geti staðfest það, að það hefur ekki verið byggt á Brüssel-skránni síðan 1963 í hvívetna. Ég efast um að svo sé gert enn í dag. Ég held áfram lestrinum: „Með þeim hætti njótum við óskipts ávinnings af því starfi sem fram fer á vegum tollasamvinnu ráðsins í Brüssel og með tollyfirvöldum nágrannaríkja að því er varðar tollflokkun vara, ekki síst nýrra vara sem eru algengar, eins og vöruþróun er ör í alþjóðlegum viðskiptum.“

Síðan heldur áfram: „Frv. það, sem hér um ræðir, gengur þvert á þessa stefnu þar eð því er ætlað að breyta grundvallartúlkun á reglum Brüssel-tollskrárinnar sem eru alþjóðlegar, þær hinar sömu fyrir tugi landa.“ Ekki getur það nú verið alþjóðlegt ef það er bara fyrir tugi landa. Ég vil biðja hv. frsm. fjh.- og viðskn., Halldór Ásgrímsson, að benda mér á hvar í Brüssel-skránni er minnst á tollvörugeymslur — bara hvar er minnst á þær. Tollvörugeymslur eru allt annað en það sem talað er um í Brüssel-skránni. Síðan heldur áfram: „Með slíkri breytingu væri veigamiklum ávinningi hinnar alþjóðlegu tollskrárfyrirmyndar varpað fyrir róða.

Að auki skal tekið fram, að það var ein meginforsendan við stofnun tollvörugeymslu hér á landi, að vörur, sem þangað færu, lytu að öllu leyti sömu reglum um tollun og vörur sem hljóta venjulega tollmeðferð, að öðru leyti en tók til frestunar tollafgreiðslu, sbr. 50. gr. laga nr. 59/1969, um tollheimtu og tolleftirlit, og 23. gr. laga nr. 47/1960, um tollvörugeymslur.“

Það var meginforsenda fyrir stofnun tollvörugeymslunnar og það er eina forsendan fyrir rekstri tollvörugeymslunnar að þar er ekki sama meðhöndlun á vörum við tollafgreiðslu og er um vörur almennt frá skipafélögunum. Þó að pappírsvinnan sé í stórum dráttum sú sama, þá er hún allt, allt önnur í framkvæmd heldur en venjuleg tollafgreiðsla. Ráðuneytisstjórinn veit kannske ekki um það, en það er hann sem skrifaði undir þetta bréf, ef ég man rétt, Jón Sigurðsson. Vörur, sem koma í tollvörugeymslur, hljóta þá fyrstu tollmeðferð að þær eru teknar úr flutningapakkningum og raðað í hillur eins og í venjulegum vörulager verslana. Síðan eru þær ekki tollafgreiddar á venjulegan hátt með því að greiða toll af því partíi, sem kallað er, sem kemur á sömu farmskrá og er ekki heimilt að skipta. Tollafgreiðslan fer þannig fram að það er greitt hlutfallslega af hverjum vörureikningi í tolli, það sem tekið er út hverju sinni, og eftir stendur hlutfallslega það sem ekki er búið að greiða af. Síðan er það gert upp þegar síðasta varan á vörureikningi er tekin út, og þá á 100% úttekt að koma heim við 100% greiðslu. Það er engan veginn sambærilegt við venjulega tollmeðferð, svo þetta er rangt með farið hjá ráðuneytisstjóranum.

Bréfið heldur áfram: „Þessari meginreglu mundi frv. einnig raska ef að lögum yrði, þannig að verulegur munur yrði á tollun eftir því hvort varan færi um tollvörugeymslu eða ekki.“ Til skýringar kemur svo ráðuneytisstjórinn með dæmi. (Gripið fram í.) Ég get ekki með nokkru móti séð að það geti raskað einu eða öðru að vara, sem hefur ákveðið tollskrárnúmer, fari í það númer. Ég held að það raski miklu meiru, eins og við erum að reyna að fá skilning fyrir, að vara, sem á að tollflokkast í einn ákveðinn tollflokk, fari ekki í hann, heldur sé samtolluð í hæsta tolli af þeim vörutegundum sem settar eru í kassa samtímis, vegna þess að fyrirtæki erlendis eru flest hver óvön því að þurfa að senda í mörgum sendingum og með mörgum farmbréfum á mörgum vörureikningum það sem hægt er að koma í einn kassa og á einn vörureikning.

Síðan tekur ráðuneytisstjórinn dæmi í bréfi sínu, svo hljóðandi: „Í innfluttri vörusendingu eru 50 útvarpsviðtæki fyrir stereohljómflutning. Í þessari sömu sendingu eru einnig 100 hátalarar af þeirri gerð sem ætlað er til nota með viðtækjunum, tveir með hverju.“ Hvor tegund, viðtækin og hátalararnir, er færð sér til verðs á framlögðum reikningi sendanda. En segjum nú svo að hátalararnir hafi ekki verið 100, eins og þurfti með þessum 50 tækjum, ef þeir hefðu verið 200 og það er ekki hægt að nota nema 100 af þeim við þessi viðtæki, þá hefðu þessir 200 hátalarar allir verið tollaðir með viðtækinu, en hátalarar, sem voru kannske til hjá sama fyrirtæki á lager, voru í lægri tollflokki og þar af leiðandi ódýrari. Það er þetta sem við erum að tala um, þannig að dæmið sem ráðuneytisstjórinn tekur er ágætt fyrir mig til að nota einmitt sem rök á móti hans rökum.

Bréfið heldur áfram: „Augljóst er að hvorki viðtækið né hátalararnir verða notuð ein sér, en eru gerð til að mynda samstæður. Vörusvið XVI. flokks tollskrárinnar tekur til þessara vara, en með tilvísun til 3. athugasemdar þess flokks flokkast þær sem samstæður eins og það tækið sem gegnir höfuðhlutverkinu. Í almennri túlkun 3. b. við tollskrána er m. a. tekið fram að samsettar vörur skuli flokkaðar eftir því efni eða þeim hluta sem helst einkennir vöruna, enda verði slíku mati við komið.“ Nú er ráðuneytisstjórinn eingöngu að tala um samsettar vörur og það bara til þess að rugla okkur, þessa þm. sem eiga helst ekkert að skipta sér af hvað er rétt og hvað er rangt að þeirra mati. „Tæpast verður vefengt að samstæður þessar flokkast samkv. framangreindum reglum undir tollnr. 85.15.22 með 75% tolli og 18% vörugjaldi. Yrði brtt. að lögum mundu hátalararnir flokkast“ nú ætla ég að biðja hv. þm. að taka eftir: „Yrði brtt. að lögum mundu hátalararnir flokkast undir tollskrárnr. 85.14.00 með 40% tolli og 18% vörugjaldi.“ Það er einmitt þetta sem ég er að tala um. Ef þeir væru tollflokkaðir sér færu þeir í 40% toll með 18% vörugjaldi, en af því að þeir flokkast með tækjunum, eins og ráðuneytisstjórinn sjálfur segir þá fara þeir í 75% toll og 18% vörugjald og það munar um minna.

„Frv. gæti einnig leitt til ósamræmis á hinn veginn, þannig að tollur yrði hærri við afgreiðslu úr tollvörugeymslu en endranær. Sem dæmi má taka radarsamstæður sem við innflutning flokkast undir tollskrárnr. 85.15.31 með 4% tolli og án vörugjalds. Ef innflytjandi óskaði að flytja vörutegund þessa í tollvörugeymslu yrði hann að flokka einingar samstæðnanna eins og þær væru sérinnfluttar. Eftir þessu ættu hreyfilraflar, sem sjá samstæðunum fyrir orku, og loftnetsrafhreyflar að flokkast undir tollskrárnr. 85.01.69 með 35% tolli og 18% vörugjaldi.

Með þeim rökum, sem hér hafa verið talin, mælir rn. eindregið gegn því að umrætt frv. verði samþ.

Þarna er verið að tína til einhver rök í von um, að enginn kynni sér málið það vel að hann skilji það til hlítar. Það er ljót blekking, sem hér á sér stað. Ég ætla bara að benda mönnum á að að það er tollvörugeymsla í Reykjavík og hún er búin að vera eina tollvörugeymslan í landinu í nokkurn tíma, það er tollvörugeymsla á Akureyri, það er tollvörugeymsla komin í Keflavík, það er tollvörugeymsla að rísa á Austurlandi, þannig að með flutningi á þessari brtt., sem ég hef lagt fram nú í annað sinn, er ég að koma í veg fyrir mikinn vanda á öllum þessum stöðum. Það vona ég að hv. þm. gefi sér tíma til að kynna sér vel áður en þeir fella þessa till.

Ég ætla ekki að lengja miklu meira umr. um þetta mál. En ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki Alþ. vel fyrir að hafa útvegað mér kópíu af því bréfi, sem ég hafði vonast til að fá frá formanni fjh.- og viðskn. fyrir nokkrum dögum, með þeim hraða sem þeir gerðu.

Hv. formaður fjh.- og viðskn. vitnaði í Magnús Kjartansson þegar hann var ráðh. og stóð á sömu vegamótum hvað Efnahagsbandalagið snertir og sagði að það yrði alvarlegt fyrir íslenskan iðnað þyrfti hann að búa við sömu tolla í tvo mánuði. Þetta var haft eftir Magnúsi Kjartanssyni, þáv. iðnrh. Það er enginn að tala um það, ég hef aldrei heyrt hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, tala um það að iðnaðurinn ætti að búa við sömu tolla áfram ef ríkisstj. tilkynnti ekki gildistöku þessara tollabreytinga. Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. eindregin ósk um það frá forustumönnum iðnaðarins að hann nyti þeirra tollfríðinda, sem við gætum látið í té, strax frá áramótum þrátt fyrir frestunina. Það var ósk þeirra að frestunin kæmi. Það var það sem þeir fóru fram á. En það var ekki talað um að þeir hyggju við sömu tollakjör áfram hvað snertir niðurfellingu á þeim tollum sem við ráðum sjálfir við. (Gripið fram í: Er það ekki það sem við erum að samþykkja?) Við erum að samþykkja lítinn hluta af því sem farið er fram á. Ég er að reyna að betrumbæta það með till. Ef hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur ekki tekið eftir því, þá er rétt að hann heyri það nú.

Ég verð að viðurkenna það, að ég skil ekki alveg skýringar þær sem hv. 5. þm. Austurl. gaf á þessu 4000 millj. kr. tapi. Það getur verið að ég skilji það betur núna af því að hann er búinn að endurtaka það, að við séum að missa af þessum tekjum. En þá er mér alveg ómögulegt að skilja hvers vegna við gerum slíka samninga við aðrar þjóðir, ef það er fyrirsjáanlegt að við töpum 4000 millj. þegar komið er fram á árið 1978. Ég trúi því ekki. En það er búið að setja það hér að við töpum á samningum við erlendar þjóðir. Er þá virkilega ætlunin að viðhalda fjáröflunartollum endalaust og kannske hækka þá til að standa undir auknum töpum af milliríkjasamningi sem við gerðum? Þetta getur ekki verið, ég trúi því ekki. En ef svo er, ef það er fyrirsjáanlegt að við erum að ganga út í samninga sem við töpum á, finnst mér það hlægilegt. Mér finnst það hlægilegt vegna þess að ég mundi ekki gera það sem einstaklingur og stend því ekki að hví sem fulltrúi á Alþ. Þetta eru samningar sem eru gerðir. Ég skal kynna mér þá betur. Og þá er ég á móti þeim, ef það er fyrirsjáanlegt að við töpum á þeim, ef það verður til þess að við þurfum að gera aðrar ráðstafanir, hækka tolla eða viðhalda tollum til þess að standa undir þeim kostnaði sem er við að gera samninga við útlendinga. En þetta getur allt verið rétt, ég skal kynna mér það betur.

Það er margt í málflutningi félaga míns og vinar, 2. þm. Norðurl. e., sem ég hefði gjarnan viljað gera að umræðuefni og svara.

Það eru ýmsar skýringar á því að tolltekjur eru hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Það eru eðlilegar skýringar til á því og ég ætla ekki að eltast við það. En það, sem kom fram hjá honum, var eins konar prédikun, að þm. ættu að hætta að elta fjvn.- menn með fyrirgreiðslubeiðnir. Ég vil afbiðja mér þetta. Það verður að nafngreina þá þm. sem það gera. Ég hef ekki gert það og ég óska eftir því að hann nafngreini þá þm. sem haga sér þannig að fjvn.- menn þurfi að ganga í skugga til að láta helst ekki sjá sig af Félögum sínum. Það var það, sem hm. sagði. En nú, segir hann, kveður við allt annan tón, þegar um tolltekjur er að ræða. Þá á að taka frá ríkinu tekjur og ekkert á að koma í staðinn. En ég verð að segja það sem hv. þm. Jón Sólnes hefur heyrt mig segja áður: Á meðan stærstu samtök landsins, æskulýðssamtök landsins, sem hafa tugi þúsunda ungmenna innan sinna vébands, líklega um 50 þús., þ. e. Íþróttasamband Íslands, fær 26 millj. til að reka alla hreyfinguna, en viðgerð á Bessastöðum einum kosta 30 millj., þá getur ekki verið að okkur vanti peninga. Á meðan við getum hækkað Sinfóníuhljómsveitina úr 40 millj. upp í 60 millj. á einu ári, þá er gjörsamlega útilokað að það vanti svona mikla peninga. Á meðan við getum eytt þúsund milljónum til að kaupa nýja flugvél til landhelgisgæslu, en höfum ekki efni á að eyða meira en 300 millj. í allan öryggisbúnað á Íslandi fyrir íslenskt flug, þá getur ekki verið að við séum með heilbrigða fjármálapólitík eða að okkur vanti peninga. Og við erum að samþykkja hérna hækkandi gjöld á öllum sviðum.

Það er eitthvað, sem ekki er grundvallað hjá mér, í málflutningi félaga míns og vinar. Ég vil benda honum á það, að þó að ég eigi kannske eftir á þessu þingi og áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur að koma með brtt. til hækkunar við fjárlög, þá hef ég ekki gert það síðan ég kom á þing, þannig að ég frábið mér þennan málflutning og óska aftur að hann nafngreini þá þingmenn sem haga sér eins og hann tiltók. Hitt er annað mál og það er alveg rétt, að það er löngu tímabært að stöðva hinar síauknu kröfur um framlög. En þær koma annars staðar frá og héðan að sunnan.

Ég vil taka undir það, að þetta frv. og sú fyrirgreiðsla, sem í því er ráðgert að veita iðnaðinum, er spor í rétta átt. Það er alveg rétt. En það er langt frá því að mæta kröfum eða óskum iðnaðarmanna sem komu á fund fjh.- og viðskn. Þeir fóru ekki ánægðir af fundi frá okkur.

Ég veit ekki hvað menn meina með því, — ég er nú enn að vitna í ummæli vinar míns. 2. þm. Norðurl. e., — að frestun á gildistöku eða samþykkt á till. 5. þm. Norðurl. v. meiði eitthvert þjóðarstolt. Ég skil ekki að venjulegt samkomulag þjóða á milli geti flokkast undir þjóðarrembing, að fara fram á eitthvað við aðrar þjóðir sem við erum að semja við. Ef við viljum frestun, ef við höldum að það sé gott fyrir okkur, þá biðjum við um það, og það kemur ekki þjóðarstolti við. Það flokkast undir samkomulag milli frjálsborinna manna sem búa í tveimur eða fleiri löndum. Það hefur ekkert með þjóðarstolt eða rembing að gera. Það getur vel flokkast undir stjórnkænsku eða stjórnvisku. ef hægt er að ná slíkum samningum að þeir verði okkar iðnaði til hagshóta.

Ég vil líka leiðrétta það sem kom fram hjá sama hv. þm. Það kemur nú kannske úr hörðustu átt að ég fari að taka upp hanskann eða svara fyrir alþb.-menn. En Ragnar Arnalds, 5. þm. Norðurl. v., var fjarverandi þegar þessi ræða var haldin, og vegna þess að ég veit að hann fór með rétt mál og við viljum allir hafa það sem rétt reynist, þá voru þetta ekki persónuleg bréfaskipti á milli ráðuneytisstjóra viðskrn. og formanns Félags ísl. iðnrekenda, það er langt frá því. Ég skal viðurkenna að ég hafði það á tilfinningunni að eitt bréfið frá ráðuneytisstjóranum væri þess eðlis og þannig frá gengið að hann væri að reyna að koma því yfir í persónuleg bréfaskipti í staðinn fyrir embættisbréf, og það hefði hv. þm. átt að taka fram. En formaður Félags ísl. iðnrekenda hélt sig að þeim formum sem háttvísum manni ber, án þess að ég sé að bera upp á ráðuneytisstjórann að hann sé það ekki, það væri mikil ósanngirni.

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. En ég vona að þessi brtt. mín skapi ekki sömu vandamál og sú till. sem ég bar hér upp síðast, þegar ég gerði það við 3. umr., og fái þá meðferð sem hún á skilið og verði samþykkt.