17.12.1976
Efri deild: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

119. mál, tollskrá o.fl.

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur eitt og annað komið í ljós sem vekur umhugsun um tollamál almennt. Ekki treysti ég mér til að gera því mikil skil, en vil þó taka fyrir eitt atriði sem fram hefur komið og ég held að hljóti að verða til að vekja þm. til umhugsunar um það að tollheimtu sem tekjuöflun fyrir ríkið þarf að taka til mikillar endurskoðunar fljótlega vegna þess mikla ósamræmis sem er á tollaðri vöru til landsins eftir því frá hvaða landi hún kemur. Ef það er ekki lengur sami tollur á vörunni hvort sem hún kemur frá Frakklandi eða Bandaríkjunum hljótum við annaðhvort að vera að stuðla að innflutningi frá öðru landinu umfram hitt eða þá að við erum að auka stórkostlega hættuna á því að kaupmenn eigi kost á því að taka hærri umboðslaun frá því landi þar sem tollflokkurinn er lægri. Þetta verða menn að taka með í reikninginn og þetta verða menn að skilja. Þarna er verið að setja upp kerfi sem er í sjálfu sér viðskiptalega séð ákaflega hættulegt. Og það er annað sem rétt er líka að hugleiða í þessu sambandi. Er t. d. hægt í dag að flytja vöru frá Bandaríkjunum til Þýskalands og flytja hana inn frá Þýskalandi með lægri tolli en hægt væri ef hún væri flutt beint frá Bandaríkjunum. Ég vil varpa þessari spurningu fram, vegna þess að ef það er hægt eftir því kerfi sem búið er að setja upp, þá er verið að setja upp kerfi sem ekki er hægt að verja. En í ljósi þess að við erum að afgreiða hér tollalög, sem ætlað er að styrkja íslenskan iðnað og lögð hefur verið mikil áhersla á að verði samþykkt, lýsi ég stuðningi mínum við þetta frv., en vil jafnframt vekja athygli á því, að ég held að bað verði að skipa nefnd til að endurskoða tollalögin almennt.