17.12.1976
Efri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

136. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. eflaust muna, var gerð sú breyting í sambandi við fjárlagafrv. að ríkisspítalarnir eru færðir í A-hluta fjárlagafrv. úr B-hluta. Það leiðir af sér að það þarf að gera breytingu á lögum um almannatryggingar, þannig að nú er hugsað að ríkissjóður greiði beint til ríkisspítalanna samkv. fjárlögum kostnað við þá og þeir teknir út úr daggjaldakerfi sjúkrahúsanna. Hins vegar heldur daggjaldakerfi annarra sjúkrahúsa áfram óbreytt.

Margir þm. hafa látið í ljós áhyggjur yfir því að hér gæti skapast nokkurt misræmi á milli hinna einstöku sjúkrasamlaga í landinu. Því er talið eðlilegt að þegar uppgjör samlaga fyrir næsta ár, árið 1977, liggur fyrir skuli Tryggingastofnun ríkisins kanna hlutfallslegan kostnað hvers sjúkrasamlags af sjúkrahúsvist og gera till. um hvernig jafna megi þann kostnað milli einstakra sjúkrasamlaga. Hins vegar er nokkur trygging fyrir því varðandi rekstur sjúkrahúsa utan ríkisspítalakerfisins, að þar heldur áfram daggjaldanefnd sem tekur ákvarðanir um daggjöld sjúkrahúsanna og bætir þeim hallarekstur sem kann að verða og það oftar en einu sinni á ári, eftir því sem hún telur þurfa og að eðlilegt sé að gera, sem er nokkur trygging í þessum efnum.

Ég óskaði eftir því við aðstoðarforstjóra ríkisspítalanna að hann léti taka saman yfirlit um greiðslur hinna einstöku sjúkrasamlaga miðað við árið 1975 sem nú liggur fyrir, og það hefur hann gert. Ég vil benda hv. n. á það, þegar hún fær frv. til meðferðar, að óska eftir því að ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn. og aðstoðarforstjóri ríkisspítalanna, Davíð Gunnarsson, komi á fund n. til að skýra niðurstöður þessara athugana fyrir n. N. fær þá nokkra vitneskju um hvernig þetta hlutfall hefur verið á árinu 1975. Hins vegar ef mönnum finnst orðalag 4. gr. til þess að koma í veg fyrir misræmi ekki nógu ákveðið eða það sé of langt að bíða eftir yfirliti fyrir allt árið 1977, þá má taka upp eitthvert annað orðalag sem tryggir þarna meiri jöfnuð, ef menn óttast að slíkt eigi sér stað, og það er auðvitað alltaf fyrir hendi.

En höfuðefni þessa frv. er þó í ákvæðum til bráðabirgða, því að þar er lagt til að haldið verði áfram 1% álagi á gjaldstofn útsvara. Það er reiknað með að þessi gjaldstofn gefi um 1200 millj. samkv. fjárlagafrv., en sú breyt. er gerð nú frá því, sem er í gildi þetta árið, að innheimtumönnum ríkissjóðs er ætlað að innheimta þetta gjald og þeir eiga að standa ríkissjóði skil á fyrirframgreiðslu og hlutfallslegri innheimtu mánaðarlega. Einnig kemur fram í þessu ákvæði að eigi skuli leggja gjald þetta á þá sem ekki er gert að greiða útsvar, svo það er mjög skýrt og ákveðið að það geti ekki orðið um neitt annað að ræða en átt hefur sér stað á þessu ári. Að vísu voru gefin út brbl. í sumar til þess að gjöld ellilífeyrisþega og annarra með mjög lágar tryggingar féllu niður, en þó ekki að öllu leyti, og þarf því, þegar það mál kemur til umr. hér eftir jólafrí, að taka þar af öll tvímæli, því það var aldrei ætlun löggjafans að þetta fólk greiddi þetta gjald og því þarf að breyta þeim brbl. að mínum dómi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Þetta er frv. sem í raun og veru hefur legið fyrir að mundi verða flutt, sérstaklega í sambandi við þetta 1% álag á útsvörin, eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. En þessi breyting aftur á stöðu ríkisspítalanna í fjárlagafrv. gerir nauðsynlegt að þær breytingar séu gerðar sem 1.–4. gr. frv. mæla fyrir um.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.