17.12.1976
Efri deild: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

136. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég skal nú ekki svo síðla kvölds fara að taka upp neitt karp við hæstv. ráðh. um vinnubrögð hér, þó að ég hljóti að harma hraða afgreiðslu á máli, sem er þann veg farið eins og þessu, það þurfi að gera því betri skil en okkur er kostur nú á síðustu dögum fyrir jól. Ég hlýt að harma það sérstaklega vegna þess að hér er um viðkvæmt mál að ræða sem þarf að skoða mjög vel áður en teknar eru í því endanlegar ákvarðanir. Það má kannske segja að þetta frv. geri hvorki til né frá um það vegna þess, sem segir í 4. gr., að þar er í raun og veru allt hvað snertir efni 1.–4. gr. skilið eftir opið til ákvörðunar síðar meir. En engu að síður hefði auðvitað verið heppilegra, að fara hér öðruvísi að en gert hefur verið.

Fyrst er sem sagt einhverju slegið föstu í fjárlögum, sjálfsagt ekki út í bláinn, sjálfsagt m. a. í þá veru að skapa aðhald og sparnað hjá ríkisspítölunum. Ég reikna með því að sú hafi verið ástæðan, án þess að kanna, að því er manni virðist, þau vandamál sem þessari breytingu hljóta að verða samfara. Og núna, þegar þetta mál er komið að afgreiðslustigi fjárlaga, þá er rokið til og smíðað í snarhasti, að manni hefur skilist, frv. sem segir ekki mjög mikið um framtíðarlausn þessa máls eða kannske í raun og veru ekkert um framtíðarlausnina.

Ég vildi aðeins, vegna þess að ég fæ þetta mál til umfjöllunar í heilbr.- og trn., spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort sú endurskoðunarnefnd almannatrygginganna, sem nú starfar að þessum málum, hefur eitthvað komið nálægt þessu máli nú. Ég held hún hafi starfað nú þegar um tvö ár. Hefur hún fjallað um þetta frv. og lagt yfir það blessun sína? Í öðru lagi: Hefur tryggingaráð, sem í eðli sínu hlýtur að koma inn á þessi mál almennt og þó alveg sérstaklega framkvæmd þeirra, — hefur tryggingaráð um þetta frv. fjallað og tekið þar einhverja ákvörðun um eða hefur verið haft samráð við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins um samningu og framlagningu þessa frv.? Við þessu vildi ég gjarnan fá svör strax, því það er töluvert atriði varðandi það hverja telst eðlilegt að kalla til fundar við heilbr.- og trn., en þar hljóta þessir aðilar að vera sjálfsagðir til ráðlegginga fyrir okkur nm. Þar á ég við menn eins og formann tryggingaráðs og forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að við þessa breytingu, sem slegið er þannig fastri fyrir fram, áður en nokkur heildarkönnun á þessu máli eða hvernig eigi að leysa það fer fram, skapast gífurleg mismunun, eins og reyndar er komið inn á í athugasemdum, því svo segir í 6. aths. við lagafrv.: „Aðstaða landsmanna til að njóta ókeypis þjónustu á ríkissjúkrahúsunum er afar misjöfn. Rétt þykir að kannað verði nánar hve mikið þessi aðstöðumunur vegur í kostnaði sjúkrasamlaganna af sjúkrahúsvist, og að gerðar verði tillögur, sem stefna að jöfnuði, komi það í ljós að um verulega hagsmuni sé þarna að tefla.“

Á því er náttúrlega enginn vafi að það er. Ég held að það hefði verið eðlilegast að jafna þessum kostnaði, sem talað er um í 3. gr., á öll sveitarfélög í landinu, og ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort megi túlka 3. gr. á nokkurn hátt þannig að öll sveitarfélög í landinu muni greiða ákveðið gjald, ákveðinn hluta og síðan verði því jafnað niður á íbúana, eða hvort þetta eigi bara að gerast innan hvers samlagssvæðis, eins og mér skilst að það hljóti að vera, sem sagt að framlagi sveitarsjóða skuli Tryggingastofnun ríkisins jafna niður á sveitarfélög samlagssvæðisins, þannig að inn í þetta dæmi kemur Reykjavík vitanlega ekki til jöfnunar, en hún nýtur fyrst og fremst og í afgerandi mæli hlunnindanna af ríkisspítölunum.

Þegar hæstv. ráðh. vitnar í skýrsluna 1976, þá er það mjög merkilegt plagg og verður fróðlegt að sjá það. En þar inn í kemur þó eitt dæmi sem breytir þeirri mynd nokkuð, og það er að nú er einn af þeim spítölum, sem var einkaspítali, þ. e. a. s. Landakotsspítali, að verða ríkisspítali, og hann hlýtur þess vegna að skekkja þá mynd töluvert sem við fáum í þessari skýrslu frá 1975, þó að ég sé ekki að segja að það sé neitt afgerandi. (Gripið fram í.) Verður hann ekki rekinn sem ríkisspítali? Verður áfram sama fyrirkomulag á honum? (Gripið fram í.) Þá er því svarað.

Hæstv. ráðh. kom réttilega inn á það, að 4. greinin væri með því orðalagi að menn gætu illa sætt sig víð, og það tekið fram nú þegar. Eftir þessu getur þurft ærið lengi að bíða að þessari könnun verði lokið og síðan verði gerðar till. um hvernig jafna megi þennan kostnað milli einstakra sjúkrasamlaga. Ég held sem sagt að vinnubrögðin varðandi þetta atriði hafi verið röng. Það hefði fyrst átt að fara fram nákvæm könnun á þessu hjá endurskoðunarnefnd tryggingalaganna og tryggingaráði og síðan hafi átt að breyta þessu daggjaldakerfi eftir þá könnun og eftir það að menn voru farnir að sjá fyrir lausn málsins í heild. En um það tjáir ekki að tala nú, að því er virðist.

Ákvæðin til bráðabirgða eru vitanlega framlenging á því, sem hér var gert í fyrra, að vissu marki, þ. e. a. s. að álagningaraðili útsvara skal leggja á 1% álag á gjaldstofn útsvara, En vegna þess hvað sveitarstjórnarmenn hafa mótmælt þessu eindregið, þá er því hins vegar breytt á þann hátt að nú eiga innheimtumenn ríkissjóðs að innheimta þetta álag. Þá er auðvitað spurningin um það, eftir að þetta er komið svona: Hlýtur það þá ekki að vera sjálfsagt að þessi upphæð verði tekin inn í fjárlög? (Gripið fram í.) Maður skildi það greinilega að það var verið að taka þetta út úr í fyrra og leggja það þannig á til þess að þau sýndu ekki alveg eins mikla hækkun, að þarna væri um svolítinn feluleik að ræða. En eftir að þetta er komið í þennan farveg sem hér er gert ráð fyrir, þá hlýtur það næstum að vera sjálfgert að þessi upphæð verði tekin inn í fjárlög núna, og þarf það vitanlega að liggja fyrir áður en fjvn. skilar sínu áliti.

Ég tek það alveg skýrt fram að hér er ekki verið að deila um það hvort hafi átt að breyta til í sambandi við daggjaldakerfið, og ýmislegt til í sambandi við daggjaldakerfið, og ýmislegt í sambandi við rekstur ríkisspítalanna er sannarlega þess eðlis að það er full ástæða til að veita þar fullt aðhald sem er aðaltilgangurinn, að því er mér skilst, með þessu, að það er full ástæða til að veita þar fullt aðhald, sem er aðaltilgangurinn að því er mér skilst, með þessu, að reyna nú að hafa betri stjórn hér á. Ef það er misskilningur, þá biðst ég afsökunar á því, ef það er ekki aðaltilgangurinn. Það eru vinnubrögðin í þessu efni, að slá þessu fyrst föstu bara með einni ákvörðun í fjárlagagerð, en síðan að fara að athuga, hvernig þetta kemur út, og reyna að finna lausn á því vandamáli, sem þarna skapast, sem er algjörlega óþolandi fyrir okkur úti á landsbyggðinni sem njótum ekki þjónustu á ríkisspítölunum í eins ríkum mæli og reykvíkingar vitanlega gera. Ég held að hefði átt að fara þarna öðruvísi að, og ég hlýt að átelja þessi vinnubrögð. Ég mun reyna eftir föngum að afla mér upplýsinga í n. um á hvern hátt á að framkvæma þetta og hvernig 4. gr. gæti hugsanlega orðast á annan veg, en áskil mér allan rétt til þess að hafa óbundnar hendur um afstöðu til frv., svo opið sem mér sýnist það vera og óákveðið, einmitt af þeirri ástæðu að hér hefur ekki verið hugsað áður en framkvæmt var varðandi fjárlagagerðina núna.