18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

112. mál, landhelgismál

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mun verða fáorður enda þótt ég geti ekki lofað því að hafa alveg eins fá orð um málið og hv. frsm. meiri hl. En ástæðurnar til þess, að ég tel mig geta verið fáorðan um nál. minni hl. utanrmn., eru tvær: Í fyrsta lagi sú, að þetta mál er þrautrætt og var rætt nú síðast við þær umr. um þessa till. sem útvarpað var fyrir fáum dögum. En í öðru lagi sé ég ekki ástæðu til að vera margorður um till. vegna þess að það hefur verið svo í sambandi við þetta mál, að enda þótt spurt hafi verið um ýmsa hluti og óskað upplýsinga frá hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarliðum, þá hefur litlar upplýsingar verið þar að fá og stundum lítið annað en vífilengjur, því miður, og ég á alveg eins von á því að svo verði nú, enda þótt ástæða sé vissulega til að spyrja ýmissa spurninga og ekki síst eftir þær síðustu fréttir sem borist hafa erlendis frá af gangi þessara mála.

Það er ýmislegt undarlegt sem haft er eftir stjórnarliðum í sambandi við þær samningaviðræður og samningaumleitanir sem fram hafa farið um þetta mál. Það er m. a. haft eftir formanni utanrmn. að ekki komi til mála að semja við Efnahagsbandalag Evrópu til skamms tíma. Daginn eftir er síðan í sama blaði og skýrði frá þessu haft viðtal við hæstv. sjútvrh. og þar er sagt að ekki komi til mála að semja til langs tíma.

Óneitanlega væri fróðlegt að spyrja frétta af þeim samningaviðræðum sem fram hafa farið í Brüssel síðustu daga. Þær hafa staðið í tvo daga og frá því hefur nú verið skýrt að þær haldi áfram að einhverju leyti næstu daga þó að samninga- eða viðræðufundirnir hafi verið minnkaðar eitthvað og samningamönnum fækkað. Frá Brüssel berast þær fréttir, samkvæmt því sem sagt var í ríkisútvarpinn í gærkvöld, og þær eru þar hafðar eftir formanni íslensku samninganefndarinnar, Tómasi Tómassyni sendiherra, að nú hafi verið lögð fram drög að rammasamningi til langs tíma, eins og það er orðað, svo sem 10 ára. Og það hefur verið í þessum viðræðum rætt um þrennt: það hefur verið rætt um fiskvernd, rætt um stjórnun fiskveiða og um gagnkvæmar veiðiheimildir. Eins og ég sagði væri fróðlegt að spyrja frétta um þetta, en ég býst við samkvæmt reynslunni að eins geti farið og áður í sambandi við þetta mál, að svörin verði lítið annað en vífilengjur.

Ýmsir fylgismenn stjórnarflokkanna eru vissulega ekkert síður en aðrir landsmenn uggandi um þróun þessara mála og ég hygg að sá uggur nái inn í raðir þm. þessara flokka. Eins og nú horfir virðist og einsætt að eina ráðið til að koma í veg fyrir áframhaldandi samningabrölt hæstv. ríkisstj. sé að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir, og marka með því þá stefnu Alþ. að ekki sé um neitt að semja eins og nú standa sakir. Það og það eitt hygg ég að sé í samræmi við þjóðarviljann í þessu máli.

Það, sem meiri hl. utanrmn. leggur til, að vísa þessari till. til ríkisstj., tel ég vera fráleita afgreiðslu, að vísa málinu til þeirrar hæstv. ríkisstj. þar sem a. m. k. sumir ráðh. hafa verið svo víkum, ef ekki svo mánuðum skiptir á harðaspretti í leit að átyllum til þess að gera nýja samninga.

Þar sem hv. 4. þm. Reykv., formaður utanrmn. og formaður þingflokks Framsfl., virðist ekki ætla að nota þetta tækifæri til þess að lýsa heilindum samstarfsflokksins í málinu, skal ég taka af honum ómakið og vitna aðeins til þeirra orða sem hann hafði látið falla við útvarpsumr. á dögunum, en þar sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Því er ekki heldur að leyna að stundum virðist Sjálfstfl. hafa verið fúsari til samninga en samrýmst hefur sjónarmiðum Framsfl.“

Í tilefni þessara orða og fleiri orða, sem hrotið hafa af vörum hv. stjórnarliða, vil ég að lokum aðeins segja þetta: Að því er tekur til heilinda stjórnarflokkanna, jafnt í þessu máli sem öðrum fleiri, kynni ég að mega vitna til kvæðis Gríms Thomsens um þá Kálf Árnason og Svein Alfífuson, en þar er þetta upphaf:

„Trúa þeir hvor öðrum illa,

enda trúðu fáir báðum,

orðunum þeir ávallt stilla,

yfir köldum búaráðum,

tækifæris báðir bíða,

búnir ofan hinn að ríða.“

Þeir stjórnarþingmenn, sem af alvöru vilja koma í veg fyrir nýja fiskveiðisamninga, eiga þann einn kost góðan — og hann er í sjálfu sér ágætur — að samþykkja till. þá sem hér liggur fyrir svo sem minni hl. utanrmn. leggur til.