18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

112. mál, landhelgismál

Frsm. meiri hl. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. virðist ekki hafa hlustað á það sem ég sagði hér áðan, því ég vísaði til röksemda stuðningsmanna stjórnarinnar og þess, sem fram kom í fyrri umr., varðandi það að vísa þessari till. til ríkisstj. En ég vil láta það koma hér fram til viðbótar við það sem sagt hefur verið í þessu máli, bæði í fyrri umr. og þessari, að það er auðvitað algjörlega ótímabært að ræða hvort semja á til langs eða skamms tíma fyrr en fyrir liggur hvort á að semja yfirleitt nokkuð og þá hvenær. Á að semja á næsta ári eða þar næsta eða 1979 eða 1980? Það er margt, sem þarf að vega og meta áður en kveðið er upp um það hvort það á að semja yfirleitt eða ekki. Það er því ótímabært og hreinn útúrsnúningur að vera að tala um samninga til langs eða skamms tíma. Það er full ástæða að vísa þessu máli til ríkisstj. með vísan til þess, hversu vel ríkisstj. og stjórnarfi. hafa haldið á þessu máli frá því að fiskveiðimílurnar voru færðar út í 200. En það er e. t. v. með þetta eins og fleira, að stjórnarandstæðingar eru skotheldir bæði fyrir rökum málinu til stuðnings og þeim staðreyndum, hversu mikill og glæsilegur árangur hefur náðst í sambandi við útfærsluna í 200 sjómílur. En það er að sjálfsögðu hægt að stilla málum þannig upp og segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Það hentar örugglega í stjórnmálum.

En varðandi heilindi í samstarfi stuðningsflokka ríkisstj. í þessu máli og tilvitnun í Alþýðublaðið, sem kom fram hjá hv. þm. Gils Guðmundssyni, 3. þm. Reykn. og Benedikt Gröndal, 2. landsk. þm., þá vil ég leyfa mér að segja það, að það, sem þeir sögðu, er tekið út úr samhengi og reynt að snúa út úr því sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson sagði í sinni ræðu. Það, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson átti við, það voru deilurnar um þessi mál árið 1961. Hann var ekki að tala um afstöðu flokkanna til nýafstaðinnar deilu við breta, það kom alveg greinilega fram í ræðu hv. þm. En það er aftur annað mál, ef menn hlusta ekki á nema það sem þeir vilja heyra, þá tala þeir og haga sér samkvæmt því. Það er háttur sumra manna líka að hlusta aldrei á röksemdir og snúa út úr öllu sér í hag.

Ég vil lýsa því hér yfir fyrir hönd þess flokks sem ég er fulltrúi fyrir — (Gripið fram í: Fyrir hönd Framsóknar?) Framsfl. svarar fyrir sig. Ég vil lýsa því yfir að þessir flokkar hafa verið samstígir í öllu er lýtur að 200 mílna fiskveiðilögsögunni frá því að sú ákvörðun var tekin og sett inn í stjórnarsáttmálann 1974, að fært skyldi út, enda er árangurinn í samræmi við það. Ef þessir flokkar hefðu ekki verið samtaka með þeim hætti sem raun bar vitni um hefði sá sigur ekki unnist sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir í dag. Þess vegna er það alrangt og útúrsnúningur að segja að sjálfstæðismenn hafi verið fúsari til samninga en framsóknarmenn. Báðir flokkar héldu vel á þessum málum og hvorugur var fús til samninga. Aðalatriðið var að tryggja viðurkenningu okkar yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Við tryggðum það með samningum, og það er meira en sagt verður um vinstri stjórnina á sínum tíma í 50 mílna útfærslunni, því hún skilaði því máli í óreiðu.