18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

112. mál, landhelgismál

Eyjólfur K. Jónason:

Herra forseti. Ég hef ekki áður tekið til máls í umr. um landhelgismál nú á þessu þingi, þó að ærin tilefni hafi kannske verið til þess stundum, og hef ekki hugsað mér að lengja þær umr. sem hér fara fram. Satt að segja hafa mér fundist þessar umr. heldur ófrjóar og borið þess vitni að menn væru að reyna að búa sér til ágreining, að reyna að þyrla upp moldviðri. Ég held að sem betur fer séum við 60 alþm. íslendinga meira og minna sammála, kannske algjörlega sammála um hvernig að málum beri að standa. Ég held að í hjarta okkar allra séum við sannfærð um að það sé rétt að ræða við Efnahagsbandalagið úr því að fulltrúar þess óska viðræðna, heyra, hvað mennirnir hafa að segja, og taka síðan okkar afstöðu.

En tilefni þess, að ég kveð mér nú hljóðs, er að ég tel rétt og kannske skylt að upplýsa hér atvik frá liðnu sumri, — atvik sem gerðist úti í New York. Þrír sendimenn Efnahagsbandalagsins óskuðu þá viðræðna við íslensku sendinefndina hjá Sameinuðu þjóðunum. Þeir sögðust vilja ræða almennt um viðhorf okkar til hafréttarmála. Á þessum fundi mættu fulltrúar allra íslensku stjórnmálaflokkanna auk Hans G. Andersens og Más Elíssonar. Þegar umr. höfðu staðið í um það bil klukkutíma um gagnslitla hluti, þá var komið að því, sem auðvitað var erindið, að reyna að þreifa fyrir sér um það hver væri skoðun okkar á því að bretar fengju veiðiheimildir eftir 1. des., og það var Prescott sá breski, sem hingað hefur komið oftar en einu sinni og var okkur vinsamlegur í landhelgismálinu, eins og allir þekkja, sem upphóf þessa spurningu. Hans G. Andersen sagði að rétt væri að stjórnmálamenn svöruðu þessu og beindi spurningunni til mín. Ég afsakaði það við viðmælendur okkar, að við íslensku sendinefndarmennirnir töluðum saman augnablik á móðurmáli okkar, og spurði félaga mína, sem voru þeir hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, Gils Guðmundsson, Jón Árm. Héðinsson og Magnús T. Ólafsson, sem eru hér allir staddir og geta staðfest orð mín, — ég spurði þá að því hvort við værum ekki sammála um að svara því til að eftir 1. des. fengju bretar að mati okkar allra, fulltrúa allra íslensku stjórnmálaflokkanna, engar veiðiheimildir, þeir yrðu að hverfa héðan burt. Það væri nær að spyrja þá Efnahagsbandalagsmennina hvað við ættum að fá fyrir það aflamagn, sem þeir mega veiða á íslandsmiðum, áður en þeir spyrðu hvort þeir fengju eitthvað meira þegar við fengjum ekki neitt. Þá kom fram sú hugmynd frá öðrum en mér að við yrði bætt, að það eina, sem til greina kæmi, væru gagnkvæmar veiðiheimildir. Yfirlýsing efnislega á þennan veg var gefin í nafni okkar allra. Við sögðum að vísu: Við höfum ekki umboð flokka okkar. — En á þennan veg var yfirlýsingin gefin og það var ekki ég sem átti viðbótina, en það má liggja á milli hluta, ég samþ. hana og taldi sjálfsagt að við öll stæðum að því að tala við mennina á þessum grundvelli. Þetta tel ég. (Gripið fram í: Vill hv. þm. upplýsa hver það var?) Nei. Þetta, sem ég nú hef sagt, tel ég rétt og skylt að fram komi og þetta á þing og þjóð heimtingu á að vita. Ef einhver ber ábyrgð á því að taka upp þessar viðræður, ef ábyrgð skyldi kalla, þá eru það fulltrúar stjórnmálaflokkanna allra, þeir sem á Hafréttarráðstefnunni voru, og ég tel það þeim öllum til heiðurs og samstaða var algjör þar. Það bar ekki neitt á milli. Við stóðum þar saman og vorum allir að hugsa um hag íslensku þjóðarinnar og annað ekki, og það erum við enn að gera öllsömul.