18.12.1976
Sameinað þing: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Ég skal verða við beiðni hæstv. forseta. Það eru aðeins örfá orð vegna þess sem hér hefur verið rætt.

Ég tók svo eftir, þegar hæstv. viðskrh. talaði hér vegna þessa máls fyrir nokkrum dögum, að hann léti að því liggja að hér væri í raun og veru ekkert búið að gera, þetta væru aðeins tilmæli eða tillögur eða hugmyndir Seðlahankans um það hvað gera skyldi.

Nú er það ljóst að seðlabankastjórn bauð til fagnaðar í tilefni af sjóðsstofnun vegna andvirðis af sölu hátíðarpeningsins. Hún bauð til mannfagnaðar í tilefni af sjóðsstofnun, og ég lít því svo á að í raun og veru sé þetta afgert og ákveðið mál. Ef þetta verður ekki gert, þá hefur farið fram þarna mannfagnaður sem ástæða hefði verið til að draga til baka, vegna þess að forsendan er brostin fyrir að bjóða til slíks mannfagnaðar ef ekkert verður af framkvæmd í þeim efnum sem verið er að bjóða til. Ef sem sagt ekkert verður af því að þessi sjóður verði stofnaður, þá verður að halda annan mannfagnað og lýsa því yfir að hér með sé hætt við tilgang þessa fyrri mannfagnaðar vegna þess að ekki hafi verið fallist á að gera það, sem gera átti.

Ég lít því svo á að hér sé í raun og veru e. t. v. eitt ljósasta dæmið um, að hér er ákvörðunarvaldið fyrir utan sali Alþ. Það er að vísu sagt; Þetta eru aðeins tillögur Seðlahankans til ríkisstj. sem síðan flytur málið inn á Alþ. — En í raun og veru er þetta afgert. Mér er sem ég sjái að það verði boðið til annarrar veislu þar sem verður afsakað að ekkert tillit hafi verið tekið til hugmynda Seðlabankans um sjóðsstofnunina í sambandi við andvirði þessara fjármuna.

Ég í sjálfu sér fagnaði því, ef það gerðist að ekki yrði farið að þessari till., þó það kostaði aðra veislu að bera það til baka, en held bara að það verði ekki svo. Hér er um að ræða eitt dæmið um að Seðlabankinn er orðinn ríki í ríkinu. Hann er orðinn yfir Alþ. í mörgum mjög veigamiklum ákvarðanatökum. Það er orðið svo, að meira að segja Seðlabankinn er farinn að taka afgerandi ákvarðanir án tillits til þess hvað Alþ. hugsanlega segir við þeim. Þetta er einn þátturinn og einn anginn af því sem er að gerast í æ ríkari mæli, að það er verið að draga ákvörðunarvaldið úr höndum Alþ., og því á að mótmæla sterklega. Það er komið nógu langt í þeim efnum, og það á a. m. k. að stemma stigu við því að gengið sé lengra.