18.12.1976
Efri deild: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

100. mál, söluskattur

Helgi F Seljan:

Herra forseti. Það er kannske ekki miklu við að bæta það sem áður hefur komið hér fram í umr. um þetta mál, bæði nú og alveg sérstaklega í Nd., þar sem um þetta urðu mjög miklar umr. Ég er út af fyrir mig þakklátur fyrir þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. um það hver kostnaður væri nú fyrir þá sem hita upp hús sín með hitaveilu annars vegar og hins vegar þá sem eru með olíukyndingu. Að sjálfsögðu miðaði hv. frsm. við það verð sem hann vissi réttast. En í dag var okkur tilkynnt að hækkun hefði orðið á olíuverðinu til húsakyndingar um 1 kr. Sjálfsagt eiga einhverjar fleiri hækkanir þar eftir að koma, miðað við þær fréttir sem við fáum nú utan úr heimi, það kann vel að fara svo a. m. k. Hins vegar er gott að fá hér nokkurn grunn til að byggja á, þann grunn sem sýnir að þessi munur er sífellt að aukast í krónutölu.

Það má segja að í upphafi hafi ekki verið hægt að mæta þessu hlutfallslega nógu vel, vegna þess að verðsveiflan þá á olíunni var svo gífurleg. Ég legg á það sérstaka áherslu, og það hefur verið gert áður þegar við höfum fjallað um þetta mál og ákveðið þar með hver olíustyrkurinn ætti að vera á íbúa, að þá höfum við um leið fjallað um hvað aldrað fólk ætti að hafa til viðmiðunar við aðra, og hefur niðurstaðan orðið að aldrað fólk fengi einn og hálfan styrk á móti öðrum. Ég legg alveg sérstaklega áherslu á það, að þetta mun enn þá vera óbreytt, þó á því væri vissulega rík þörf að leiðrétta einmitt þetta. Ég held nefnilega að þegar þessi lög voru sett í upphafi, þá hafi ekki nægilega verið að gert, þá hafi menn ekki gert sér nægilega grein fyrir því hvað þessi byrði er einmitt þung á mörgu öldruðu fólki sem býr í dýru húsnæði. Þetta hefur svo oft verið tekið fram, að það er ekki ástæða til að fjölyrða um það nú. En með því að taka þetta þannig fyrir, eins og nú er gert, kippa þessu þannig út og við fáum ekki sérstaka afgreiðslu á þessu máli gagnvart þessu fólki, þá auðvitað verður erfiðara um vik að leiðrétta hlut þess.

En auðvitað vita allir til hvers þetta gjald var lagt á í upphafi. Það var lagt á beinlínis fyrir þá sem þurftu að mæta þeim gífurlega viðbótarkostnaði sem leiddi af hinni gífurlegu olíuverðhækkun. Nú hefur verið horfið frá því að mestu leyti, — ég segi að mestu leyti, — því að hluturinn fer æ dvínandi, nú 700 millj. á móti 1000 millj. sem fara í annað. Og þá er dálítið fróðlegt að vita með tilliti til jöfnunarinnar í hvað þetta annað fer. Jafnast það ekki nokkuð vel yfir þá sem búa á köldu svæðunum? Fáum við austfirðingar t. d. ekki af þessum 1000 millj. sem er varið til annars, alldrjúgan og góðan hlut? Það skyldi nú vera.

Ég sem sagt hefði ekkert á móti því, ef hér væri unnið skipulega að því að leysa vanda allra sem best með þeim meiri hluta olíusjóðsins sem nú er ráðstafað á annan veg. En tveir stærstu liðirnir, sem áætlað er að olíusjóðurinn fari í, hitaveituframkvæmdir og jarðhitaleit, eru um 700 millj. eða jafngildi þess sem fer til einstaklinganna. Þetta fer í raun og veru til örlítils hluta af fólkinu á köldu svæðunum. Og ég hygg að mér sé óhætt að fullyrða að hlutur okkar austfirðinga í þessum tveim stærstu liðum verði í kringum 10%, ef upplýsingar frá Orkustofnun eru réttar. Það er sá jöfnuður sem við eigum við að búa í þessum efnum þegar þessu gjaldi er varið á þann hátt sem raun ber vitni.

Aðrir liðir í þessu eru þess eðlis, að það er ekki gott að gera sér grein fyrir því. Við skulum þó vona að úr þeim 400 millj., sem þarna eru umfram, fái austfirðingar einhvern hlut. Ég verð þó að draga það stórlega í efa — skal ekki fara nánar út í það — að þeir fái neinn eðlilegan hlut út úr því. En meginmálið er þó það, að úr jafngildi olíusjóðsins í dag sem fer til einstaklinga, þ. e. a. s. 700 millj., fáum við, sem búum við lökustu aðstöðuna í þessum efnum, í okkar hlut innan við 10%. Það verður sem sagt borað við Urriðavatn, — við vonum að það verði ekki svikið og það fullkannað, — og síðan verða gerðar einhverjar minni háttar borunartilraunir eystra. Það þýðir að úr þessum tveimur meginliðum verður hlutur okkar innan við eða rétt um 10%.

Þetta vildi ég láta koma fram hér, vegna þess að ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga að einhverju af þessu fé sé varið til þess að koma á hitaveitu þar sem þess er kostur eða til að vinna að jarðhitaleit. En miðað við þann tilgang, sem þessi sjóður var upphaflega ætlaður til, er hart að þurfa að búa við það að einn landshluti verði svo gífurlega afskiptur sem raun ber vitni og við höfum nú fyrir framan okkur í lánsfjáráætlun ríkisstj. og þeim upphæðum, sem verða afgreiddar innan fárra klukkustunda e. t. v. í fjvn.