18.12.1976
Efri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

136. mál, almannatryggingar

Þetta frv. er í fjórum greinum, 1. gr. hljóðar svo:

„Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er samkvæmt 40. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum, sem ríkið rekur og 45. gr. nær ekki til, eins lengi og nauðsyn krefur, ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.“

2. gr. hljóðar svo:

„Daggjöld sjúkrahúsa, annarra en ríkisspítalanna, svo og daggjöld hjúkrunarheimila og annarra stofnana, sem 42. gr. tekur til, ásamt gjaldskrám sömu stofnana vegna utansjúkrahússjúklinga skulu ákveðin af 5 manna nefnd, daggjaldanefnd.“

3. gr. er svo:

„Af kostnaði vegna sjúkrasamlaga greiðir ríkissjóður 85%, en sveitarsjóðir 15%. Framlagi sveitarsjóða skal Tryggingastofnun ríkisins jafna niður á sveitarfélög samlagssvæðisins í réttu hlutfalli við fjölda íbúa 16 ára og eldri miðað við síðasta manntal.“

4. gr. leggjum við svo til að orðist svona: „Þegar uppgjör sjúkrasamlaga fyrir árið 1977 liggur fyrir, skal Tryggingastofnun ríkisins kanna, hver breyting hefur orðið á útgjöldum hvers sjúkrasamlags vegna þessara laga, og gera till. um hvernig jafna megi þá kostnaðarbreytingu. Frá gildistöku laganna áætlar Tryggingastofnun ríkisins útgjöld sjúkrasamlaga þeirra vegna og greiðir ársfjórðungslega inn á reikning þeirra samlaga, er fyrir útgjöldum verða, jafnháa upphæð og hinni áætluðu útgjaldaaukningu nemur. Með reglugerð skal kveða nánar á um tilfærslu fjármuna.“

Með þessu viljum við tryggja það að þau sjúkrasamlög, sem kynnu að verða fyrir barðinu á þessari tilfærslu ríkissjúkrahúsanna beint yfir á ríkið, verði ekki fyrir skakkaföllum, og það er okkar álit að með þessu sé algjörlega tryggt að þau lendi ekki í fjármagnsskorti, enda þótt svo hafi litið út við fyrstu sýn og áður en þessi brtt. varð til að það gæti liðið alllangur tími frá því að þau yrðu að reiða af hendi fjármagn og þar til jöfnunarkostnaðurinn yrði greiddur út.

Nú kann að verða nokkuð erfitt að finna út við hvaða daggjöld eigi að miða. En þótt það sé ekki beint tekið fram í þessari brtt., þá lítum við svo á að það verði daggjaldanefnd ríkisins sem útbúi meðaldaggjald og að eftir þessu meðaldaggjaldi sé reiknað út hver sé hlutur hvers sjúkrasamlags.

Í þessu frv. er einnig ákvæði til bráðabirgða sem er varðandi álag á gjaldstofn útsvara. Það hljóðar svo, 1. liður:

„Á árinu 1977 skal álagningaraðili útsvara leggja á. en innheimtumenn ríkissjóðs innheimta 1% álag á gjaldstofn útsvara. Skal ríkissjóði staðið skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu mánaðarlega. Eigi skal leggja gjald þetta á þá sem ekki er gert að greiða útsvar.“

Hér er um verulega breytingu frá núgildandi ákvæði að ræða, — ákvæði sem olli nokkrum deilum og reyndar mikilli óánægju. En nú eftir að innheimtan hefur verið falin ríkissjóði og einnig eftir að það er tryggt að ekki sé lagt sjúkragjald á aðra en þá sem gert er að greiða útsvar, þá teljum við að nokkurn veginn verði vel við unað.

2. liður bráðabirgðaákvæðanna hljóðar svo: „Við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlag ríkissjóðs til sjúkrasamlaga samkvæmt 49. gr. skal tekið tillit til þess gjalds, sem um ræðir í 1. tölulið, til hlutfallslegrar lækkunar á framlagi ríkissjóðs.“

Við leggjum svo til að 3. liðurinn bætist við síkvæði til bráðabirgða og hljóði svo:

„Lög þessi skal endurskoða fyrir árslok 1978.“ Með þessum breytingum, sem við leggjum til, er það okkar till. að frv. verði samþykkt.