18.12.1976
Efri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

136. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að segja margt, en ég lít svo á að í fyrri hluta brtt. okkar komi fram nægilega greinilega að það eigi að jafna kostnaðarbreytingunni, þannig að í reglugerð megi ákveða að taka af einum og láta til hins. Það er ekki óalgengt að jafna á þann hátt, og ég álít að það sé hægt. En hér er hvort eð er um jöfnun að ræða. Hins vegar er þessi kostnaðaráhætta og fjármunaáhætta ekki eins mikil og menn vilja vera láta. Það kom fram hjá sérfræðingunum í morgun að þetta gæti verið frá 1–3%, og úr því að brtt. okkar er búin að tryggja það að þetta verði bætt og það innan þriggja mánaða, þá er það betra ástand en er hjá daggjaldanefndinni núna, því ég held að það sé alveg augljóst mál að fjöldi sjúkrahúsa í landinu er í sífelldum örðugleikum með rekstrarfé vegna þess að þeir, vegna verðbólgu, verða að hækka kostnað sinn mánaðarlega, en fá svo jöfnunardaggjöld seint og síðar meir og eru þess vegna mjög lengi að ná upp tapinu og miklu lengur en hér um ræðir, þegar þetta á að gerast á þriggja mánaða fresti. Ég harma það auðvitað að við skulum aðeins hafa einn dag til að ræða þetta mikla mál hér, vegna þess að ég held að hér sé án áhættu fyrir nokkurn verið að gera tilraun til stórkostlegs sparnaðar, því ef sparnaður verður, þá er hér ekki um nokkrar þúsundir að ræða eða nokkrar milljónir, þá getur verið um tugi eða hundruð milljóna að ræða, því að við vitum að sjúkrahúsin okkar kosta okkur nokkra milljarða á ári og náist árangur, þá held ég að þessi tilraun sé vel þess verð.

Það er eitt, sem ég held að sé augljóst, að þó að við frestuðum þessu nú og létum rannsaka það á árinu 1977 og tækjum svo upp þetta fyrirkomulag á árinu 1978, þá held ég að við fengjum ekki málið eins vel undirbúið og ef við erum búin að prófa þetta í reynd í eitt ár, því reynslan verður best þarna eins og oft áður. Og ég sé ekki að við séum að valda fjárhagsáhættu fyrir nokkurt sjúkrasamlag í landinu. En við höfum aftur á móti möguleika á því að hér geti orðið um verulegan sparnað og hagkvæmni að ræða.

Það dæmi, sem hv. þm. hafa komið með hér sem hafa talað um misnotkun á rúmum, það er kannske ekki fjarri lagi að slíkt geti skeð. Hins vegar getur oft verið tilgangur með því að láta menn liggja og undirbúa rannsókn eða skurðaðgerð með því að taka þá inn fyrir helgi. Það er ekki endilega gert til þess að fá daggjaldið. Það er hugsanlegt að það sé, en það er oft nauðsynlegt að menn séu úthvíldir og búnir að liggja í rólegheitum í 1–2 daga áður en farið er að gera rannsóknir á þeim, þannig að ég er ekki viss um þetta. Hitt er svo annað mál, að ég vil ekki fullyrða að það geti ekki skeð. En eitt er víst, að ef þetta heppnast, að fá meiri hagkvæmni með því að hafa ákveðin daggjöld, eins og var hér áður, þá er betur farið en heima setið. Það má hins vegar geta þess, að við erum ekki einir um það að baksa við þungan sjúkrahúskostnað. Þetta er svo í öllum okkar nágrannalöndum, og ég held að við séum langt fyrir neðan þá í daggjöldum.

Þetta á sínar orsakir: bætta tækni, meiri möguleika til lækninga og ekki síst meira langlífi. Það er talið að hver maður, sem kominn er yfir sextugt, þurfi á fjórum sinnum meiri læknishjálp og sjúkrahúsvist að halda heldur en sá sem er milli tvítugs og fertugs. Þetta þýðir auðvitað að okkar sjúkrahúslegudagar hljóta að verða miklu fleiri þegar við erum með hækkandi hlutfallstölu af fullorðnu fólki. En þrátt fyrir það er hér verið að reyna leið sem ég held að geti borið nokkurn árangur.