20.12.1976
Efri deild: 32. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

136. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Út af fyrir sig fagna ég þeirri yfirlýsingu sem hv. frsm. meiri hl. hefur haft hér frammi fyrir hönd hæstv. heilbr.- og trmrh. Sá liðurinn, sem spurt var um í umr. síðast þegar málið var til umr., er þó ljósari en áður. Eins og fram kemur í þessari yfirlýsingu er hugmyndin sú að færa frá þeim sjúkrasamlögum, sem kunna að hagnast á breytingunni, yfir til hinna, sem kunna að vera lakar settir, eða tapa á breytingunum. Eigi að síður eru eftir tveir liðirnir sem um var spurt og ekki fengust svör við: Hverjir eru líkur á að verði sitt hvorum megin í þessum dálki? Hverjir eru líklegastir til að tapa eða hafa grætt óeðlilega á undanförnum árum við það skipulag sem við höfum búið við, og hvað er hér um miklar fjárhæðir að ræða? Það var orðað af hv. frsm. meiri hl. um daginn að þetta gæti skipt tugum eða jafnvel hundruðum millj. Ég vona að ég hafi það nokkuð rétt eftir efnislega. Og það var það sem vafðist fyrir okkur. Er hér um að ræða tugi, hundruð þúsunda eða milljónahundruð? Þetta er ekki ljóst og því síður ljóst eftir viðtöl okkar í n. við þá embættismenn sem þar mættu til viðræðna. Þess vegna höfum við haldið okkur og höldum okkur enn við það að málið tapi út af fyrir sig ekki gildi sínu, þ. e. a. s. sú tilraun sem höfð er í frammi um sparnað á hinu umrædda sviði, meðan allt er óljóst um hverjar upphæðir er að ræða og hvaða aðilar eru líklegir til þess að geta miðlað þeim sem miður mega sín í þessum efnum.

Ég held mig því við frávísunartill., og ég hygg að við báðir flm. hennar höldum okkur fast við hana, til þess m. a. að fá skýrar í ljós fyrir alla hv. þdm. og þingheim hvaða aðila er hér um að ræða og hvaða fjárhæðir er hér um að ræða. Það er alls ekki út í bláinn að óska þess að fá nokkurra vikna frest til þess að geta farið gegnum þetta mál með þeim hætti sem því er samboðið. Ég tel það ósamboðið bæði Alþ. og málefninu sjálfu að ætla að hespa slíkt mál í gegn með jafnóljósum rökstuðningi og liggur fyrir í þessu máli nú.