20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson):

Herra forseti. N. fjallaði um frv. og leggur til að það verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Ed. Hér er um mjög veigalitlar breytingar að ræða, og eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. félmrh. er með þessari lagabreytingu raunar ekki verið að gera annað en að tryggja að álagning fasteignagjalda fyrir árið 1977 verði með sama hætti og hún var s. l. ár. En þessa breytingu þurfti að gera vegna laga um fasteignamat, þar sem gert er ráð fyrir því að þegar það kæmist á, þá yrði gjaldstofninn eða prósentan miðuð við hið ný ja fasteignamat, en vegna þess að það er mun hærra en sá framreikningur, sem í gildi hefur verið hingað til, þótti rétt að það yrðu ekki stór stökk á milli ára. Ég lít svo á að lagfæringar verði gerðar fyrir næsta ár aftur, þannig að við erum í raun og veru að taka hér skammtímaákvörðun.

Greinarnar eru tvær. Sú hin fyrri er um að byggingar, sem ekki er fulllokið við og ráðgert er að verði metnar á byggingarstigi eins og það er um hver og ein áramót, verði ekki metnar til álagningar fasteignaskatts. Í öðru lagi eru ákvæði til að viðhalda um eitt ár gildandi framreiknuðu álagi á gamla fasteignamatsstofninn.

Fleira held ég að ég hafi ekki um þetta að segja.