20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

127. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og vil því gera í örstuttu máli grein fyrir þeirri afstöðu minni.

Eins og frv. er nú komið frá Ed. hef ég svo sem ekki miklar aths. að gera, en þó get ég ekki varist því að nefna að mér finnst 1. gr. bera vott um óþarfa afskiptasemi þingsins af stjórnvöldum sem eru fyllilega til þess bær að taka ákvarðanir án slíkra leiðbeininga sem hér eru gefnar. Mér sýnist þetta vera dæmi um afskipti ríkisins af málum sem aðrir eru fullfærir um að stjórna.

Hér er um að ræða bann við að leggja fasteignaskatt á fasteignir á meðan þær eru í tilteknu ástandi, en það bann gildir þó aðeins fyrir árið 1977, eins og frv. er nú orðið. Ég efast ekkert um heiðarlegan tilgang með flutningi þessa frv. að létta fasteignaskatti af þeim sem standa í húsbyggingum. Þess vegna finnst mér ekki alveg rétt það sem segir í aths. við frv., að það geti risið nokkur vafi um skyldu til greiðslu fasteignaskatta af húsum í byggingu eftir að nýtt fasteignamat hefur tekið gildi, eins og þarna segir. En ef það er vilji ríkisvaldsins að draga nokkuð úr skattbyrðinni, þá væri kannske eðlilegra að lækka eignarskattinn sem rennur til ríkisins. En mér finnst einhvern veginn að í þessu banni, sem kemur fram í 1. gr., felist viss tvískinnungur. Fyrst eru sveitarfélög skylduð til þess að leggja á fasteignaskatt, eins og ákvæðin eru í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, en síðan er þeim bannað að leggja hann á meðan fasteignir eða húsbyggingar eru í tilteknu ástandi. Hérna finnst mér vanta samræmi.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að sveitarstjórnir eigi að fá að ráða því hvort þær leggi fasteignaskatt á eða ekki, að sjálfsögðu að vissu marki þó. Alveg á sama hátt finnst mér að sveitarstjórn eigi að fá að ráða því hvort fasteignir í smíðum verði undanþegnar skattinum, og sveitarstjórn geti þá líka fengið að ráða því hvort skattfrelsi vari í einhvern lengri tíma en byggingartíma nemur, ef hún telur sig hafa ráð á því eða ef það er vilji fyrir hendi í viðkomandi sveitarstjórn að styðja við húsbyggjendur með þeim hætti. Í 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga er reyndar þessi heimild fyrir hendi, en í 4. mgr. 5. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er sveitarstjórn að undanþiggja nýjar íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum fasteignaskatti í allt að tvö ár eftir að afnot hefjast.“

Þarna er sem sagt rýmri heimild. En munurinn á þessari lagaheimild og frv., sem hér er til umr., er sá, að frv. gerir ráð fyrir að sveitarstjórn sé ekki heimilt að leggja þennan skatt á meðan bygging hefur ekki verið tekin til afnota eða er fullgerð. Mér finnst þess vegna að það væri eðlilegra að hafa þetta heimildarákvæði, en ekki skyldu, og ég mundi vilja hafa það raunar miklu viðtækara, en mér er ljóst að það er ekki tími til þess nú — eða kannske ekki rétti tíminn til þess að gera slíkar grundvallarbreytingar á tekjustofnalögunum, eins og þær að breyta skylduákvæðinu um álagningu fasteignaskatts í heimildarákvæði. Nú stendur yfir endurskoðun á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og slíkri endurskoðun fylgir að sjálfsögðu endurskoðun á tekjustofnalögunum, þannig að ég er því vissulega alveg sammála að það verði ekki farið að hreyfa við slíkum grundvallaratriðum núna og þess vegna geri ég enga till. um það.

Um 2. gr. frv. get ég verið fáorður. Hún er sjálfsögð og hún er nauðsynleg og í samræmi við ákvæði laga um skráningu og mat fasteigna sem sett voru á síðasta þingi, en þar var gert ráð fyrir að sú lagasetning hefði ekki áhrif til hækkunar á þeim sköttum eða gjaldskrám sem taka mið af fasteignamati.

Þessu vildi ég aðeins koma hér á framfæri. En þrátt fyrir þessar aths. mínar styð ég frv.