20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

119. mál, tollskrá o.fl.

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 247, gerði ég ekki ráð fyrir að gefa út sérstakt nál. af minni hálfu, heldur gera grein fyrir afstöðu minni til málsins við þessa umr.

Meginafstaða mín er sú að styðja þá hugmynd, sem fram kom af hálfu okkar alþb.-manna við afgreiðslu þessa máls í Ed. og kemur þar fram á þskj. 210 sem Ragnar Arnalds undirritar, en það er sú afstaða að eðlilegast hefði verið að fresta nú þeim tollalækkunum, sem gert er ráð fyrir að gera samkv. þessu frv. og snerta sérstaklega EFTA-samkomulagið og samkomulagið við Efnahagsbandalagið, en leita hins vegar eftir því að fá lengdan þann aðlögunartíma sem það samkomulag gerir ráð fyrir. Það hefur verið um það rætt nú að undanförnu, að það væri full ástæða til þess að fara fram á lengingu aðlögunartímans fyrir okkar iðnað, og við teljum að það hefði verið rétt að gera það og fresta þar með nú að láta þessar tollalækkanir koma til framkvæmda. Hins vegar teljum við rétt að samþykkja þær tollalækkanir, sem felast í þessu frv. og snerta sérstaklega íslenskan iðnað, þ. e. a. s. lækkun á ýmsum vélum sem iðnaðurinn notar, lækkun á ýmsum tollum á vélum sem iðnaðurinn notar og eins lækkun tolla á hráefnum til iðnaðarins. Þetta hefðum við talið að hefði verið eðlilegasta leiðin eins og sakir standa. En mér þykir sýnt eftir þá afgreiðslu, sem þessi hugmynd hefur fengið í Ed., að það er gagnslítið að vera að flytja till. um hana hér á nýjan leik. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hér á Alþ. fallast ekki á þessa meðferð og ætla sér að samþykkja frv. í öllum meginatriðum í þeim búningi sem það kom frá Ed.

Um afstöðu mína til málsins að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel að ýmis atkvæði í þessu frv. stefni í rétta átt og séu allþýðingarmikil eins og komið er. Þar á ég fyrst og fremst við lækkun á tollum á vélum iðnaðarins og hráefni til iðnaðarins, þannig að stuðlað sé að því að gera okkar iðnað samkeppnisfærari en hann er nú við innfluttar iðnaðarvörur. Ég tel einnig að það heimildarákvæði, sem er að finna í þessu frv. um að fjmrh. geti endurgreitt iðnaðinum tolla sem greiddir hafa verið og snerta iðnaðarframleiðsluna, — ég tel það heimildarákvæði mjög þýðingarmikið, ef vel er staðið að framkvæmdinni á því atriði. En eins og kunnugt er verður íslensker iðnaður að borga toll af ýmsum þáttum sinnar vöruframleiðslu, og til þess að hann geti staðið í rauninni jafnfætis í samkeppninni við innfluttar iðnaðarvörur þarf að vera til heimild til að endurgreiða innlendum iðnaði þá tolla sem hann hefur óumdeilanlega greitt af þeim þáttum framleiðslunnar sem varða samkeppnisaðstöðuna hverju sinni. Þetta atriði er einnig til bóta að mínum dómi frá því sem verið hefur.

Meginatriði frv. er eigi að síður tollalækkunin til samræmis við EFTA-samkomulagið og samkomulagið við Efnahagsbandalagið. Það er gert ráð fyrir því í grg. með frv. að tollalækkanir í þessu skyni lækki tolla á innfluttum iðnaðarvörum frá þeim löndum, sem þarna er um að ræða, sem nemur 460 millj. kr. á næsta ári, að áætlað er. Þetta er langsamlega stærsta breytingin sem felst í frv., og hún er auðvitað ekki til stuðnings íslenskum iðnaði, heldur þvert á móti til þess að gera honum enn þá erfiðara fyrir en verið hefur. Á móti því á hins vegar að koma, eins og ég sagði, að tollar á vélum til iðnaðarframleiðslu og tollar á rekstrarvörum iðnaðarins eiga að lækka samkv. grg. frv. sem nemur í kringum 260 millj. kr. á næsta ári. Eftir þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í Ed., gæti hér orðið um nokkru meiri tollalækkun að ræða, en eigi að síður er greinilegt að tollalækkunin á innfluttum iðnaðarvörum frá EFTA-löndum og löndum Efnahagsbandalagsins verður allmiklu fyrirferðarmeiri en í hinu tilvikinu.

Annars vil ég láta það koma fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það er orðið augljóst mál að það er þörf á því að taka tollskrána til endurskoðunar út frá enn öðru sjónarmiði en því sem lagt hefur verið til grundvallar til þessa, þ. e. a. s. samkomulaginu, sem gert hefur verið við EFTA og Efnahagsbandalagið. Það er orðin brýn þörf á því að breyta mjög verulega í lækkunarátt ýmsum svonefndum fjáröflunartollum, því að það er ljóst að þar standa eftir mjög háir tollar á margvíslegum vörum sem verða ekki lengur taldar sem neinar munaðarvörur eða óþarfavörur, heldur jafnvel brýnar nauðsynjavörur. Tollalækkun á þeim vörum hefur sáralítil sem engin orðið á sama tíma sem tollar á svonefndum EFTA- og Efnahagsbandalagsvörum, þessum samkeppnisvörum, eru að verða mjög lágir eða hverfa með öllu. Ég vil nefna í þessu sambandi að enn er gert ráð fyrir því í frv., sem hér er til meðferðar, að tollur á svo til öllum heimilistækjum verði áfram í hæsta tollflokki eða þar um bil, það munn vera örfáir vöruflokkar sem eru í hærri tolli en sem nemur 80%. Þetta á ekki aðeins við um öll þau heimillstæki, sem talin eru sem rafmagnsheimilistæki, heldur einnig venjulegan borðbúnað, bolla, potta og pönnur og hvað það heitir nú. — allt þetta er í hæsta tollflokki og skagar þar mjög upp úr öðrum tollum, á sama tíma sem tollar á margvíslegum öðrum vörum, sem flokkast undir EFTA-vörur og Efnahagsbandalagsvörur, eru orðnir mjög lágir eða eru að hverfa með öllu. Við þetta verður ekki unað lengi, að tollamismunur sé svona geipilegur eins og þarna á sér stað og það á vöruflokki eins og þessum sem ég nefndi.

Það er líka augljóst, þegar bornir eru saman ýmsir liðir, ýmsar vörutegundir og tollur á þeim að þar er um sáralítið samræmi að ræða eins og nú er komið. Ég sagði að heimilistækin væru t. d. í einum hæsta tollflokki. Þó hef ég rekið mig á eina vörutegund sem virðist þó vera enn þá hættulegri en heimilistæki eða megi tolla hana enn þá hærra, en það eru eldspýtur, þær komast upp í 100%. Hins vegar er t. d. tollur á mekanískum söngfuglum ekki nema 50% og reyndar á stórskotaliðsvopnum ekki nema 60% og á mörgu öðru af því tagi. Hægt er að nefna fjöldamargar vörutegundir sem eru í miklu lægri tollflokki. Að vísu verður samanburður á venjulegum borðhníf og gaffli í 80% tollflokki og mekanísku söngfuglunum mjög athyglisverður. En svona dæmi er mörg að finna í þessari tollskrá.

Ég tel því að það sé orðið aðkallandi að endurskoða stefnuna í okkar tollamálum eins og nú er komið. Það leiðir beinlínis af því sem gert hefur verið í þessum efnum varðandi samkomulagið við EFTA og Efnahagsbandalagið. Og þá þarf að sjálfsögðu að taka ákvörðun um það, um leið og verulegar breytingar eru gerðar í þessum efnum, hvernig á að afla ríkissjóði tekna í staðinn fyrir það sem niður mundi falla, en það skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli.

Þá er einnig annað mjög mikilvægt atriði varðandi þessa tollalöggjöf sem oft hefur verið minnst á þegar tollskráin hefur verið til meðferðar á Alþ., en litlar breytingar verið gerðar á hverju sinni, en það er allt það sem snertir tollagreiðslu og tollmeðferð. Þar eru enn þá ríkjandi slík vinnubrögð að varla verður við unað. Það er slíkur stirðleiki í því að skipa málum á þann hátt eins og nútíminn yfirleitt krefst að það sætir í rauninni undrun manna að horfa á það. Ég tel t. d. að jafnsjálfsagt atriði eins og það er að liðka til um það að hægt sé að tollafgreiða hluti í fullu samræmi við ákvæði tollskrárinnar, þ. e. a. s. varðandi tollupphæð á hverri einstakri vörutegund, það verði heimilað í framkvæmd, þó um sé að ræða vörusendingu sem teljist blönduð, ef hægt er með fullu öryggi að leysa þessa sendingu upp í sínar eðlilegu einingar, eins og t. d. er mjög auðvelt að koma við í tollvöruafgreiðslu. Þá tel ég alveg sjálfsagt að tollafgreiða hina einstöku vöruhluti í samræmi við reglur tollskrárinnar, en standa ekki í sífellu í þeim stirðleikasporum, eins og gert hefur verið, að krefjast alltaf þess að öll sendingin sé tollafgreidd samkv. því sem hæst má fara með einstakan hluta sendingarinnar. Slíkt gamalt ákvæði átti við þegar ekki var hægt að koma við reglum um það að skipta upp vörusendingu. Þá varð gjarnan að beita slíku ákvæði. En deilur um þetta atriði hafa staðið í mörg ár. Það hefur ekki tekist enn þá að fá þarna hægt að skjóta þessu á frest öllu lengur.

Þá álít ég einnig að það verði að taka hér afstöðu til þess hvernig eigi að verða háttað almennt séð mismun á tollum á samskonar vörum sem fluttar eru til landsins, eftir því hvort vörurnar eru fluttar frá Efnahagsbandalagslöndum og EFTA-löndum eða frá öðrum löndum. Það er enginn vafi á því, að það eru margvíslegar hættur sem eru fólgnar í því að taka engan toll af tiltekinni vörutegund þegar hún er keypt frá Efnahagsbandalagslandi eða EFTA-landi, en taka hins vegar áfram 16–20% toll af sams konar vöru ef hún er t. d. keypt frá Bandaríkjunum eða Tékkóslóvakíu, svo að dæmi séu tekin. Þetta misræmi getur auðvitað leitt til þess að það beinlínis borgi sig fyrir innflytjanda að kaupa vöruna inn þaðan sem hún er dýrari í innkaupi og þannig verkar þetta ákvæði til þess að við eyðum gjaldeyri að óþörfu vegna óhagkvæmra innkaupa, vegna þessa tollamismunar, eða þá að til þess getur komið að þessi tollamismunur verði beinlínis notaður í verðlagningarmálum hér innanlands á óheiðarlegan hátt.

Atriði eins og þessi þarf að taka fyrir við endurskoðun á tollskránni. það er sem sagt varðandi fjáröflunartollana almennt séð og um alla framkvæmd á tollafgreiðslu og skipulag þeirra mála, það þarf einnig að taka til endurskoðunar og svo þessa mismunatolla sem eru í gildi hjá okkur. En eins og komið hefur fram, þá er í rauninni enginn tími á þeim stutta starfstíma, sem eftir er fram að jólum, til þess að fjalla til neinnar hlítar um þetta stórmál sem hér liggur fyrir. Því hef ég horfið að því ráði að flytja ekki brtt. við frv.

Ég mun ekki greiða atkv. gegn frv., því að ég tel að það feli í sér nokkrar leiðréttingar sem stefni í rétta átt, en hefði hins vegar talið miklu réttara að fresta málinu og fresta um nokkurt skeið framkvæmd á tollalækkun á svonefndum EFTA- og Efnahagsbandalagsvörum. Þetta er mín almenna afstaða til afgreiðslu þessa máls.