21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

14. mál, innlend jarðefni til iðnaðarframleiðslu

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að endurflytja till. til þál. um rannsókn á notagildi innlendra jarðefna til iðnaðarframleiðslu. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara ítarlega rannsókn á því, hvaða jarðefni innlend eru helst nýtanleg til iðnaðarframleiðslu miðað við arðsemi, staðsetningu og notagildi.“

Till. sú, sem nú er endurflutt, varð ekki rædd á síðasta þingi. Var það vegna tímaskorts þar sem áliðið var þings þegar till. kom fram. En önnur till., sem ég flutti nokkru fyrr á síðasta þingi, um endurvinnsluiðnað, var samþykkt shlj. hér í hv. sameinuðu Alþingi. Má segja að sú till., sem nú er flutt og er til umr., sé skyld þeirri fyrri, þar sem gert er ráð fyrir í báðum till. að vinna úr efni sem til er í landinu.

Í kennslubókum er frá því sagt, að á Íslandi séu ekki verðmæt efni í jörðu sem geti borgað sig að vinna. Það er rétt, að hér hafa ekki fundist kol eða málmar að verulegu marki. En jarðefni eru eigi að síður mörg hér á landi sem líklegt er að séu verðmæt ef þau verða notuð á réttan hátt. Má m.a. nefna basalt, vikur, leir, perlustein, títanríkan sand, gjall, steinullarefni.

Sérstakar grastegundir vaxa hér er benta vel til plötugerðar og fleira sem nota má í stað timburs. Þau efni, sem hér eru talin, munu öll finnast á Suðvesturlandi í mjög ríkum mæli og mörg þeirra einnig í öðrum landshlutum. Líklegt má telja að markaður fengist erlendis fyrir hráefnið óunnið, en athuga ber, hvort vinnsla gæti orðið arðbær, áður en að því ráði yrði horfið að flytja út óunnið efni.

Víða erlendis, svo sem í Frakklandi, Þýskalandi og Tékkóslóvakíu, hefur basalt verið notað til sérstakrar og umfangsmikillar iðnaðarframleiðslu í nokkra áratugi. Nauðsynlegt er að rannsaka hvort hagstætt getur talist að vinna úr basalti þér á landi fyrir innlendan markað og til útflutnings. Reynslan hefur sýnt að margt er hægt að vinna úr basalti, og hefur sú vinnsla orðið að stóriðnaði í fyrrgreindum löndum. Tilraunir eru hafnar á vinnslu perlusteins. Gefa þær tilraunir góðar vonir og jákvæðan árangur, að menn vona.

Skal nú gerð nokkur grein fyrir ýmsum innlendum jarðefnum sem líklegt er talið að nothæf séu til iðnaðar. Má m.a. nefna vikur og gjall. Þessi efni eru öll til margs nýtileg, svo sem fylliefni í léttsteypu, fylliefni í málningu, slípiefni, t.d. til þess að slípa gler, síuefni margs konar og til plötuframleiðslu með mismunandi trefjum, svo að nokkuð sé nefnt. Þessi efni finnast í miklu magni víða á landinu.

Margt mætti segja um notkun vikurs og gjalls í landi þar sem ekki er skógur og allt timbur er innflutt, en sá innflutningur nemur um 2000 millj. kr. á árinu. Sennilegt má telja að með vinnslu þessara efna séu möguleikar fyrir fleiri en eitt meðalstórt íslenskt iðnfyrirtæki er hefði markað bæði hér innanlands og erlendis. Rétt er að taka fram, að eitt íslenskt fyrirtæki hefur fengist við útflutning á vikri frá Heklusvæðinu nokkur undanfarin ár. Ekki virðist vera framtíð í því að flytja efnið út úr landi óunnið á því verði sem fyrir það fæst. Ber vitanlega að stefna að því að vinna úr efninu hér á landi og flytja unna vöru á erlendan markað. Nokkur innlend fyrirtæki nota vikur og gjall í húshleðslusteina og milliveggjasteina. Endurbætur væru æskilegar á framleiðslu a.m.k. sumra þessara fyrirtækja. Þarna er þörf aukinna rannsókna og prófana.

Þá má nefna basalt, en eins og flestir vita er stærsti hluti lands okkar gerður úr basalti. Basalt gæti verið hráefni til fjölbreytilegrar framleiðslu. Unnt er að bræða basalt og steypa úr því rör og gólfflísar. Gerðar voru nokkrar frumathuganir á þessari notkun basalts af iðnrn. fyrir nokkrum árum. Basalt er aðaluppistaða í steinull, en þar er efnið blandað skeljasandi eða kalki. Notkun á steinull fer stöðugt vaxandi víðast hvar erlendis og jafnvel hér einnig, þótt steinull sé innflutt og því tiltölulega dýr. Flutt eru til landsins nú um 1000 tonn af plasthráefnum sem notuð eru til einangrunarframleiðslu. Efni þessi eru tiltölulega dýr og kosta sennilega yfir 400 millj. kr. í erlendum gjaldeyri á ári hverju. Til viðbótar er innflutningur á steinull og glerull vaxandi.

Gert er ráð fyrir að byggingaryfirvöld muni á næstu árum gera auknar kröfur um eldþol þeirra efna sem til bygginga fara, og má því telja líklegt að steinull eða glerull, sem einnig er unnt að framleiða hér, komi í sviðsljósið aftur. Benda má á að steinull var framleidd hér á landi áður fyrr, en það fyrirtæki hætti framleiðslu, e.t.v. vegna þess að vélar og tæki hafa ekki verið eins og best varð á kosið og einnig vegna þess að þá var skortur á raforku og orkan tiltölulega dýr á þeim tíma. Gera má ráð fyrir að innlent fyrirtæki, sem framleiddi ca. 6–7 þúsund tonn af steinull á ári, mundi hafa góðan rekstrargrundvöll.

Víða á Suðurlandi er títanríkur sandur, og bendir margt til að sandarnir gætu verið gott hráefni til steinullarframleiðslu ásamt basaltgrjóti sem líka er mikið af. Er nauðsynlegt að leggja áherslu á að hraða hagkvæmri könnun á framleiðslu steinullar þér á landi. En basalt er unnt að nota til fjölbreyttari framleiðslu, eins og áður var minnst á. Margt bendir til þess að hagkvæmt gæti verið fyrir okkur að bræða basalt ásamt öðrum efnum til framleiðslu á sementi. Eins og flestir vita, er sement framleitt þannig að kalk og líparít er malað og blandað í vatni og dælt inn í langan snúningsofn þar sem efnið er þurrkað fremst í ofninum, en í enda ofnsins glæðast efnin saman og myndast þar sementsgjall. Í gjallið er síðan blandað gifsi og gifsið og gjallið malað og er þá komið sement. Sé bráefnunum í sement blandað í bræðsluofn, t.d. rafbræðsluofn, má bræða efnin saman og myndast þá, að því er talið er, meira af þeim efnasamböndum en nauðsynleg eru fyrir herslu sementsins við glæðingu.

Til landsins eru flutt 25–40 þús. tonn af sementsgjalli árlega vegna þess að Sementsverksmiðja ríkisins annar ekki eftirspurninni. Meðalstærð af bræðsluofni annar um 25–30 þús. tonnum og því líklegt að slík framleiðsla gæti verið hagkvæm þér á landi. Þegar er hafin framleiðsla á sementi með rafbræðslu erlendis, t.d. í Sovétríkjunum, og tilraunir með slíka framleiðslu eru gerðar víða erlendis, m.a. í Skotlandi. Veruleg raforkuþörf er við bræðslu á basalti til sementsframleiðslu og ætti því samkeppnisaðstaða hér á landi að vera tiltölulega góð.

Erlendis er unnið að tilraunum með framleiðslu á trefjum úr basalti, þ.e.a.s. án kalkblöndunar, sem ætlaðar eru til styrktar á sementsefnum og til ýmiss konar sérnota. Flestum mun vera kunnugt að asbestþræðir hafa verið notaðir til framleiðslu á svonefndum asbestplötum og rörum, en einmitt um þessar mundir er verið að banna notkun asbests vegna heilsuspillandi áhrifa í mörgum nágrannalöndum. Meðal þeirra trefja, sem talið er að geti komið í stað asbests, eru basalttrefjar og steinullartrefjar. Voru niðurstöður þessara erlendu afhugana þær, að basalttrefjar koma til álita sem styrktarefni í stað asbests. Mjög stór markaður er fyrir þessar trefjar og því vert að gefa athugunum á þessu sviði verulegan gaum. Hér gæti verið verkefni fyrir íslenskt iðnfyrirtæki að framleiða vöru til útflutnings. Hér er tiltölulega ódýr raforka til bræðslu á basalti til trefjagerðarinnar og efnið er tiltölulega dýrt. Flutningskostnaður frá landinu þyrfti því ekki að vera þröskuldur í vegi fyrir því að útflutningur gæti orðið að veruleika.

Víða erlendis eru þegar framleiddar plötur úr basalti sem eru þannig gerðar, að basalti og leir og/eða vikri og fleiri efnum er blandað saman og þau glædd við 1000–1400 gráðu hita. Bendir margt til að slík framleiðsla gæti orðið hagkvæm hér á landi.

Á suðurströnd Íslands er mikið af títanríkum sandi. Nokkrar athuganir hafa farið fram á nýtingu hans. Er nauðsynlegt að halda þeim athugunum áfram. Komið hefur í ljós að í sandinum eru 4–6% af járni, en í Bandaríkjunum hefur járn verið unnið í námu sem ekki hafði yfir 4% járninnihald. Jón Jónsson jarðfræðingur skrifaði athyglisverða grein í Suðurlandi 12. júní s.l. Greinin fjallaði um notkun innlendra jarðefna, m.a. um íslensku sandana. Í niðurlagsorðum þessarar greinar segir Jón Jónsson:

„Af því, sem hér hefur veríð sagt, er ljóst að enda þótt sandarnir íslensku hafi inni að halda athyglisvert magn af bæði járni og títan, þá mun þurfa talsverðar rannsóknir og væntanlega miklar tilraunir áður en hægt verður að snúa sér að málmvinnslu úr þeim.“

Þetta eru orð að sönnu. Það þarf rannsóknir áður en hugsanlegt er að vinna málm úr íslensku söndunum. En þetta eru athyglisverð orð hjá þessum fróða manni. E.t.v. eigum við þarna mikilsverðar námur sem hægt er að nýta í framtíðinni.

Leir finnst hér í tiltölulega miklu magni víða á landinu. Nokkrar athuganir hafa þegar farið fram, en aðallega með tilliti til notkunar í múrsteina og hugsanlega til framleiðslu á hreinlætistækjum. Íslenskur leir hefur lítillega verið notaður hér til leirmunagerðar, en nýtingarmöguleikar eru fleiri og þyrfti að athuga þá. Forathuganir hafa farið fram á að nýta leir, svonefndan Búðardalsleir, til þess að búa til úr honum háhitaeinangrun með rafbræðslu. Þarna er e.t.v. möguleiki sem vert væri að athuga.

Kísilútfellingar úr hveravatni verða við nýtingu jarðvarma. T.d. í Svartsengi mun falla til verulegt magn af kísiloxýði. Þetta kísiloxýð má hugsanlega nýta á ýmsa vegu, m.a. við gerð á plötum bundnum með sementi til þess að auka styrkleika sementsins. Fleiri nýtingarmöguleikar munu einnig koma til álita.

Ég hef haft samband við Iðnþróunarstofnun Íslands og fengið miklar upplýsingar þar um það mál sem þér er rætt um. Í Iðnþróunarstofnuninni eru starfandi áhugamenn, fróðir um þessa hluti, menn sem vilja fá tækifæri til þess að hefja rannsóknir á innlendum jarðefnum í ríkari mæli en enn hefur mátt verða. Það er örugglega mikið verk og vandasamt að rannsaka til hlítar það sem hér hefur verið nefnt. En það þolir ekki bið að úr því fáist skorið hvort arðvænlegt er að efna til iðnaðarframleiðslu úr íslenskum jarðefnum. Líkurnar eru miklar fyrir því að jarðefnin séu mikill auður sem þjóðin geti notfært sér á næstu árum og um langa framtíð. Athuga ber að hve miklu leyti er unnt að hafa not af langri reynslu og þekkingu annarra þjóða við vinnslu margs konar jarðefna í fjölbreytilegum iðnaði. Flestum mun vera ljóst að iðnaðurinn verður á næstu árum að taka við fjölda ungmenna sem koma á vinnumarkað. Er því þörf á að nýta þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi til þess að koma upp nýjum iðngreinum. Það er mikilsvert ef hráefnið er innlent og orkan er heimafengin.

Hliðstæð jarðefni og hér hafa verið nefnd eru mjög verðmæt iðnaðarhráefni víða erlendis. Mikilsverður iðnaður hefur byggst á því að vinna úr þeim á undanförnum áratugum. En nú eru þessi jarðefni víða til þurrðar gengin. Þess vegna er líklegt, að erlendir markaðir geti opnast fyrir íslenskar iðnaðarvörur úr innlendum jarðefnum í þeim löndum sem ekki hafa lengur hráefni fyrir framleiðsluna. Í landinu eru stofnanir og sérfræðingar sem í meginatriðum geta rannsakað það sem till. gerir ráð fyrir. Er ætlast til að hæstv. ríkisstj. notfæri sér þá þekkingu sem íslenskir vísindamenn hafa nú þegar og gætu aflað sér erlendis í þessum greinum.

Hæstv. forseti. Ég lýk máli mínu með því að leggja til að umr. verði frestað og till. verði vísað til atvmn.