20.12.1976
Neðri deild: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

66. mál, vegalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. samgn. hef ég skrifað þar undir með fyrirvara, og ég tel rétt að fara örfáum orðum um ástæður fyrir því. En það er ljóst af því nál. og ekki síður af þeim umr. sem áttu sér stað í samgn., að talsverðar ókyrrðar gætti hjá ýmsum þar varðandi það, hvað hér væri í raun og veru verið að gera eða kannske fyrst og fremst hvað hér væri ætlast til að gert yrði. Það er enginn vafi á því, að meiri hl., líklega mikill meiri hl. í samgn. virtist hafa það á tilfinningunni að þær breytingar, sem þetta frv. leggur til að gerðar verði, kunni að verða framkvæmdar með þeim hætti að þær skili ekki þeim árangri sem mjög hefur verið talað um, bæði hér á Alþ. og víðar, þ. e. a. s. að leggja höfuðáherslu á að bæta vegakerfið í þeim landshlutum þar sem engir eða svo til engir vegir eru fyrir, aðeins troðningar. Nm. í samgn. margir óttuðust að áfram yrði haldið á sömu braut og verið hefur, þ. e. a. s. að leggja höfuðáherslu á hinar svonefndu hraðbrautir. Það hefur verið svo á undanförnum árum, og t. d. á árinu í ár er um eða yfir helmingi alls þess fjár, sem varið er til framkvæmda í vegum, varið til hinna svokölluðu hraðbrauta, og allir vita hvar þær er helst að finna hér á landi. Það er hér í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Við þessa stefnu hefur gætt vaxandi andúðar og komið upp vaxandi raddir um að hér yrði breytt um stefnu.

Þetta frv., sem hér er til umr., það má segja að það sé kannske fyrst og fremst tvennt sem séð verður að gerist við það að þetta frv. verður að lögum. Það er í fyrsta lagi breyting á flokkun vega á þann hátt að þjóðbrautir og hraðbrautir, sem nú eru í veglögum, munu samkv. þessu frv. verða að stofnbrautum og landsbrautir í gildandi lögum að þjóðbrautum. Nú er út af fyrir sig gott, svo langt sem það nær, að breyta á þennan hátt. En það, sem mér og sjálfsagt mörgum fleiri finnst á skorta, er fullvissa um að breyting verði í reynd að því er varðar framkvæmdir í sambandi við vegamál, þ. e. a. s. að ekki verði haldið áfram þeirri stefnu, sem verið hefur, að leggja höfuðáhersluna á að setja bundið slitlag á þá á þá vegi sem nú flokkast undir hraðbrautaframkvæmdirnar, heldur verði meiri gaumur gefinn að því að byggja upp vegi úti á landsbyggðinni, þar sem annaðhvort er ekki að finna nema troðninga, niðurgrafna, og á sumum stöðum alls enga vegi. Álit um þetta mál skiptist ekki í samgn. eftir stjórnarandstæðingum og stjórnarsinnum, og það er enginn vari á því að sumir hverjir hv. þm. stjórnarflokkanna vilja gjalda varhuga við þeirri breytingu sem hér er lögð til, vegna þess að það er ekkert, sem hönd er á festandi, sem sýnir að hér eigi að verða breyting frá því sem nú er í sambandi við vegaframkvæmdir.

Hinu skal ekki neitað, að verði þessi breyting á gerð varðandi það, að þjóðbrautir og hraðbrautir, sem nú er í lögum, verði einu nafni stofnbrautir, þá gefst möguleiki á því að taka stærri verkefni til framkvæmda en verið hefur og má segja að út af fyrir sig sé það gott. En eigi að síður er ég mjög tortrygginn á að meining þeirra, sem að þessu frv. standa, sé fyrst og fremst að breyta hér um í reynd, heldur sé meira verið að færa hér á pappírinn orð til þess að gera tilraun til þess að gera hina óánægðu, þ. á. m. mig, ánægðari og sætta sig frekar við það sem verið hefur að gerast, heldur en ég er sem sagt spurningin um hvaða stefnu eigi að marka, hvort á að halda áfram óbreyttri stefnu varðandi framkvæmdir í hinum svokölluðu hraðbrautum eða hvort á að fara að breyta til og taka upp hina skynsamlegri stefnu, a. m. k. eins og er, og leggja meiri áherslu á að byggja upp vegakerfið þar sem fyrst og fremst er á því þörf.

Í 3. gr. þessa frv., þ. e. a. s. 13. gr. gildandi vegalaga, segir m. a.:

„Stefnt skal að því að leggja bundið slitlag á þá vegarkafla, þar sem innan 10 ára má búast við 1000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina.“

Þetta er svo til nákvæmlega það sama og er í gildandi vegalögum. Það á að stefna að þessu, að leggja bundið slitlag, og ég skil orðalag svo, að þetta verkefni, þetta sjónarmið eigi í raun og veru að hafa forgang, eins og það hefur haft með svo til sams konar orðalagi í gildandi vegalögum. Ef þetta er ekki meint, þá væri gott að fá það fram og auðvitað sjálfsagt að breyta þessu orðalagi, ef menn meina ekki það sem þarna verður lesið út úr og á engan hátt annan. Þess vegna væri nauðsynlegt að fá þarna inn miklu skýrara orðalag hver stefnan eigi að vera.

Ég heyrði það á sumum hv. þm. í samgn. og ég býst við að hæstv. samgrh. verði hér með einhverjar yfirlýsingar á eftir varðandi þetta, hvernig beri að túlka þessa gr. í frv. Það er út af fyrir sig gott ef yfirlýsing kemur í þá átt að hér sé alls ekki meint það sem sagt er, heldur eigi að framkvæma á annan veg í raun og veru heldur en orðin í raun og veru segja hér. En ég vil þó taka það fram, að það er alls ekki allt fengið með því þó að hæstv. ráðh. gefi yfirlýsingu um þetta. Ég vil á engan hátt fyrirfram gera því skóna að það megi ekki fara eftir yfirlýsingum hæstv. samgrh. En við erum því miður farnir að kannast við það, að sumir hverjir ráðh. hafa gefið hér óþrjótandi yfirlýsingar sem engin hefur staðist. Og það verður því a. m. k. af minni hálfu að gjalda varhuga við að það fari fram eftir þeim yfirlýsingum sem hæstv. ráðh. kunna að gefa.

Þetta var sem sagt eitt atriði sem fyrst og fremst voru skiptar skoðanir um. Það er stefnumörkun í málinu.

Í öðru lagi var mikið rætt um þá ákvörðun, sem er í 1. gr. frv. og er, ef ég man rétt, svo til samhljóða því sem er í 10. gr. gildandi laga þ. e. að samgrh og vegamálastjóri skipti þeim upphæðum sem eiga að koma annars vegar til stofnbrauta og hins vegar til þjóðbrauta, að það liggi fyrir ákveðin hlutfallsskipting frá samgrh. milli þessara tveggja þátta í framkvæmdum.

Í þriðja lagi sýnist mér og ég hygg mörgum fleirum að í þessu frv. sé gert ráð fyrir því að draga úr höndum kjördæmaþm. það áhrifa- eða ákvörðunarvald sem þeir hafa haft til að ráðstafa því fjármagni sem komið hefur í viðkomandi kjördæmi, á hinar einstöku framkvæmdir. Eins og hv. þm. öllum er vafalaust kunnugt, þá hefur það verið svo í framkvæmd á undanförnum árum að fjvn. hefur skipt hlutfallslega upphæðum á kjördæmi, en síðan hafa hinar einstöku kjördæmagrúppur, eins og menn kalla það, ráðstafað fjármagninu, sem í hlut kjördæmisins hefur komið, á einstakar framkvæmdir. Mér sýnist að hér sé breytt til í þá átt að fjvn. eigi að skipta öllu fjármagni á framkvæmdir. Ef það er meiningin, þá lít ég svo á að hér sé í raun og veru verið að draga áhrifavald úr höndum kjördæmaþm. og yfir til fjvn., án þess að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr eða lasta störf fjvn. út af fyrir sig. En það verður þó að líta svo á að þm. viðkomandi kjördæma eigi eðlilega að hafa meira um það að segja, hvernig varið er í einstakar framkvæmdir því fé sem kjördæmið fær, heldur en ef fjvn. ætti að skipta því. Þetta stefnir a. m. k. í mínum huga gegn því, sem ég vildi að hér yrði gert að því er Alþ. varðar og þm., þ. e. a. s. ég tel að það sé óskynsamlegt að draga þetta vald úr höndum kjördæmaþm. og færa það inn í fjvn.

Hitt skal tekið undir, sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði áðan, frsm. n., að í þessu frv. er að finna jákvæða breytingu til þess að styrkja stöðu sýsluvegasjóðanna, þó að mér sýnist að þar þurfi meira að gera til þess að megi við una.

Ég óttast einnig að sá vegflokkur, sem yrði samkv. þessu frv. þjóðbrautir, sá flokkur verði sveltur áfram eins og verið hefur. Ég óttast það mjög. Það er ekkert sem bendir til þess, að það sé ástæða til að ætla annað en sá flokkur vega yrði mjög sveltur, miðað við það sem hér liggur fyrir. Og ég er ekki trúaður á það, því miður, að þessi breyting ein út af fyrir sig, að breyta þjóðbrautum og hraðbrautum í stofnbrautir. leysi þann vanda sem ég og margir fleiri höfum verið að benda á, þ. e. a. s. breyta um stefnu í sambandi við vegamálin. Mér sýnist t. d. að það eigi að leggja áfram mjög aukna áherslu á það sem nú flokkast undir hraðbrautaframkvæmdir. Við vitum allir um Borgarfjarðarbrúna. Það er búið að gefa stefnuna á næsta stórverkefni í slíkum framkvæmdum, þ. e. brúna yfir Ölfusárósa, og við vitum að í þetta fer gífurlegt fjármagn. Hæstv. samgrh. hefur gefið stefnuna. Hann hefur lýst því yfir, að það sé ótvírætt að sínu mati að næsta stórframkvæmd í vegamálum eigi að vera brú yfir Ölfusárósa.

Ég óttast því mjög, að hvað sem hér er sagt eða lagt til í samburði við þetta frv., þá verði í raun og veru engin breyting í reynd varðandi framkvæmdir í þessum málum, og það er m. a. vegna þess sem ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Ég vil a. m. k. fá að heyra hvort hér kemur eitthvað fram sem ég gæti þá tekið til athugunar, sem yrði í þá átt að það, sem ég hef hér verið að segja, væri ekki rétt, þannig að hæstv. samgrh. líklega fyrst og fremst mundi hér gefa yfirlýsingar um hvað í raun og veru felst í fyrsta lagi og kannske nr. eitt í því sem hér er verið að tala um stefnumörkunina varðandi vegamálin.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég bíð átekta og ætla að sjá til hvað hér kemur fram af hálfu hæstv. ráðh. eða annarra þeirra sem að þessu frv. standa.