20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

1. mál, fjárlög 1977

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Við 1. umr. fjárlagafrv. vék ég að gerð lánsfjáráætlunar 1977. Þá var að því stefnt að síðari hluta nóvembermánaðar yrði unnt að gera Alþ. grein fyrri áætlun þeirri sem nú er lögð fram. Lánsfjáráætlun hefur nú verið samin öðru sinni, en því miður hefur ekki tekist að hafa hana fyrr á ferðinni en í fyrra. Þessu veldur annars vegar að allt kapp hefur verið lagt á að vanda sem mest til verksins, ekki síst með því að áætlunin væri í samræmi við fjárlagatill. og till. ríkisstj. um fjáröflun með lántökum, og hins vegar hefur það tafið áætlunina að ákvarðanir um einstakar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra hljóta ætið að taka nokkurn tíma.

Lánsfjáráætlunin fyrir árið 1976 var hin fyrsta sem tók til allrar lánastarfsemi í landinu. Í henni voru settar fram hugmyndir um þróun í lánamálum sem væri í samræmi við og stefndi að yfirlýstum markmiðum ríkisstj. í efnahags- og fjármálum. Eins og eðlilegt má telja við hverja frumraun hefur ýmislegt farið öðruvísi en ætlað var. Í heild má þó fullyrða að lánsfjáráætlunin 1976 hafi gefið gagnlegt yfirlit yfir starfsemi allra lánastofnana í landinu og auðveldað stjórn lánamála. Nokkuð skortir enn á að lánskjör og ýmis atriði önnur, sem áhrif hafa á lánahreyfingar, séu ákveðin með samræmdum hætti. Að þessu verður hugað sérstaklega við framkvæmd lánsfjáráætlunar næsta árs sem hér er lögð fram.

Lánsfjáráætlunin fyrir árið 1977 er samin eins og áður í samvinnu stofnana: fjmrn., Seðlabanka Íslands, Framkvæmdastofnunar ríkisins, Þjóðhagsstofnunar, Sambands ísl. viðskiptabanka, félmrn., Húsnæðismálastofnunar og viðskrn. Efni um opinberar framkvæmdir og fjáröflun til þeirra var unnið í fjárlaga- og hagsýslustofnun. Undirbúningsvinna að því er tekur til lánamála var að meginhluta unnin í hagfræðideild Seðlabankans. Áætlunin er reist á þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar, dags. 7. des. s. l., og spá Seðlabankans um þróun greiðslujafnaðar 1977.

Í skýrslunni er fyrst fjallað um efnahagsmarkmið ríkisstj. og efnahagshorfur áætlunarinnar. Þá er fjallað um meginniðurstöður lánsfjáráætlunar fyrir lánamarkaðinn í heild og hvað varðar banka, fjárfestingarlánasjóði og lífeyrissjóði. Þá er gerð grein fyrir áætlun ríkisstj. um opinberar framkvæmdir, sem fjár er aflað til með lánum, svo og áformum um erlendar lántökur. Loks er fjallað um fjármunamyndunarspá fyrir árið 1977. Niðurstöður eru sýndar ítarlega í töflum. Í heild gefur skýrslan yfirlit yfir uppruna og ráðstöfun lánsfjár 1976 og skiptingu þess eftir lántakendum og áætlun fyrir 1977.

Meginforsendur lánsfjáráætlunar þessarar eru núverandi staða og horfur í efnahagsmálum og helstu stefnumið ríkisstj. í efnahagsmálum næsta árið. Ríkisstj. hefur lýst þeirri meginstefnu sinni í efnahagsmálum, að á árinu 1977 væri að því stefnt að minnka hallann á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins og draga verulega úr hraða verðbólgunnar, jafnframt því sem full atvinna væri tryggð og hagvöxtur vakinn á ný eftir afturkipp síðustu tveggja ára. Eigi að takast að ná þessum markmiðum öllum í senn þarf samstillingu aðgerða á öllum sviðum efnahagsmála. Lánsfjáráætlunin fyrir árið 1.977 er liður í þessari viðleitni.

Í samræmi við ofangreind markmið og það mat á núverandi stöðu og horfum, sem fram koma í þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar, er að því stefnt að viðskiptahallinn við útlönd verði hálfu minni árið 1977 en árið 1976 eða 1.9% af þjóðarframleiðslu borið saman við 3.6% halla 1976 og 111/2% halla 1975 og 1974. Eigi þessi árangur að nást þarf að stilla aukningu þjóðarútgjalda mjög í hóf. Í þjóðhagsspánni er reiknað með að þjóðarframleiðslan aukist um 11/2%, en raungildi þjóðartekna nokkru meira eða 21/2% vegna heldur betri viðskiptakjara við önnur lönd en á þessu ári. Innan þess ramma er reiknað með 3% vexti einkaneyslu, þ. e. að einkaneysla vaxi líkt og þjóðartekjur, að samneysla aukist um 2%, en fjármunamyndun verði 5–6% minni en 1976. Samdrátt fjármunamyndunar má allan rekja til stórframkvæmda og er því í reynd stefnt að 4% aukningu almennra framkvæmda. Í heild er þannig reiknað með um 1% aukningu þjóðarútgjalda. Með þessum hætti er að því stefnt að verja þriðjungi aukningar þjóðarframleiðslunnar og öllum viðskiptakjarabatanum, sem metinn er sem rúmlega 1% af þjóðarframleiðslunni, til að draga úr viðskiptahallanum við útlönd.

Ríkisstj. leggur mikla áherslu á að takast megi að draga úr verðhækkunum á árinu 1977. Eins og nú stendur má telja að fram til miðs næsta árs hafi verðbreytingum í meginatriðum verið markaður farvegur með ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar. Í árslok 1976 er almennt verðlag í landinu 12% hærra en meðallag ársins og byggingarkostnaður 9% hærri. Fyrstu sex mánuði næsta árs er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir 8–10% hækkun verðlags. Takist, eins og að er stefnt, að koma verðbreytingum frá miðju næsta ári til ársloka niður í 6–7%, þ. e. 12–15% á ári, væru því engu að síður horfur á 23–24% meðalhækkun neysluverðlags og 21% hækkun byggingarkostnaðar 1977. Við þetta er miðað í fyrrgreindri þjóðhagsspá, og svo er einnig í lánsfjáráætluninni. Þó verður peningastærðum hennar yfirleitt skorinn heldur þrengri stakkur en þessi forsenda felur í sér, þannig að lánakerfið vinni ekki gegn viðleitninni til að draga úr verðbólgu, heldur styðja hana.

Samkv. fyrirliggjandi þjóðhagsspá 1977 er reiknað með að á árinu 1977 verði í heild varið um 85.6 milljörðum kr. til fjármunamyndunar í landinu. Er þá annars vegar gert ráð fyrir að byggingarkostnaður verði að meðaltali 21% hærri 1977 en 1976 og hins vegar að raungildi fjármunamyndunar verði um 5–6% minna en á árinu 1976. Meginástæða þess, að reiknað er með samdrætti í fjármunamyndun á árinu 1977, er að á árinu mun að mestu lokið stórframkvæmdum þeim í raforkumálum sem staðið hafa yfir við Sigöldu og Kröflu, án þess að þegar séu á döfinni aðrar framkvæmdir af því tagi. Í spánni er gert ráð fyrir að til Sigöldu- og Kröfluvirkjana verði varið 3.7 milljörðum kr. á árinu 1977, en ætla má að í ár muni framkvæmdakostnaður við þessar virkjanir nema um 10.8 milljörðum kr. Þá er reiknað með að innflutningur skipa og flugvéla 1977 verða meira en helmingi minni í ár og nemi um 3 milljörðum kr. Framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna að Grundartanga eru hins vegar taldar munu vega á móti samdrættinum í stórframkvæmdum og sérstökum innflutningi fjárfestingarvöru að nokkru leyti. Innflutningur til framkvæmdanna að Grundartanga er talinn verða um 2.5 milljarðar, en heildarframkvæmdakostnaðurinn um 5.5 milljarðar kr.

Fjármunamyndun, önnur en með sérstökum framkvæmdum og kaupum skipa og flugvéla, er talin aukast um 4% á næsta ári. Fjármunamyndun atvinnuveganna er í heild talin munu verða e. t. v. 2% meiri en í ár og stafar aukningin nær einvörðungu af framkvæmdum á Grundartanga. Að þeim frátöldum er því búist við að fjármunamyndun atvinnuveganna verði e. t. v. um 12% minni 1977 en á þessu ári. Íbúðabyggingar á árinu 1977 eru taldar verða svipaðar að magni og á þessu ári. Opinber fjárfesting er loks talin dragast saman um 16% á næsta ári vegna minni raforkuframkvæmda en í ár, en hins vegar verða fjárfestingar hitaveitna enn auknar verulega.

Þessar spár um fjármunamyndun á árinu 1977 hafa svo sem unnt hefur reynst verið samdar í samræmi við fjárveitingatillögur fjárlagafrv. og lántökuáform. Þær tillögur og ákvarðanir um opinberar framkvæmdir, sem þar koma fram, gefa til kynna að hreinar ríkisframkvæmdir dragist saman um 39% á árinu 1977, en að frátöldum virkjunarframkvæmdum við Sigöldu og Kröflu aukast hreinar ríkisframkvæmdir um 7%. Sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga eru taldar aukast um 15%. Og loks er reiknað með að framkvæmdir í umsjá sveitarfélaga einna aukist um fimmtung á árinu 1917, einkum vegna aukinna hitaveituframkvæmda.

Að gefnum markmiðum ríkisstj. og horfum fram undan í efnahags- og peningamálum er ljóst að lánsfjárframboð verður að takmarka við nauðsynlegustu framkvæmdir og brýnustu rekstrarfjárþörf atvinnuveganna og að draga verður úr lántökum sem hvetja til innflutnings eða umframeftirspurnar, eftir því sem við verður komið. Sérstaklega er nauðsynlegt að draga úr peningaútstreymi úr Seðlabankanum og lántökum erlendis, því að framboð lánsfjár verður að byggjast á innlendum sparnaði í ríkari mæli en verið hefur. Þetta er meginatriði þessarar lánsfjáráætlunar. En á sama hátt var það meginatriði lánsfjáráætlunar þessa árs að draga að marki úr heildarframboði lánsfjár.Það hefur hins vegar tekist miður en skyldi í ár og því enn brýnna að árangur náist í þessum efnum á næsta ári. Því verður að leggja þunga áherslu á að stefna í lánamálum allra lánastofnana, viðskiptabankanna ekki síður en fjárfestingarlánasjóða, miðist miklu nánar en hingað til við þann ramma sem lánsfjáráætlunin setur. Ég hygg að í þessu sambandi sé hollt að huga nokkru nánar að hversu til hefur tekist í ár.

Í lánsfjáráætlun þessa árs var að því stefnt að hreint framboð lánsfjár, þ.e. veitt ný lán að frádregnum afborgunum, yrði um 161/2% minna en 1975. Reyndin sýnist hins vegar verða sú, að hreint lánsfjárframboð aukist um 10% í ár. Samdrátturinn, sem stefnt var að í fyrra, var við það miðaður að verulega yrði dregið úr skuldaaukningu ríkisins og að skuldir einkaaðila ykjust um svipað hlutfall og árið áður. Þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst í ár í stjórn ríkisfjármála hafa skuldir ríkisins aukist meira en ætlað var eða um rúma 11 milljarða kr., samanborið við þá 7.6 milljarða kr. aukningu sem að var stefnt. Þessu veldur einkum að opinberar framkvæmdir, ekki síst raforkuframkvæmdir, hafa orðið talsvert dýrari en ætla mátti við afgreiðslu fjárlaga þessa árs. Skuldaaukning einkaaðila vegur þó mun þyngra í heildinni, því að í stað þess að hún yrði svipuð og árið áður, eins og að var stefnt, er nú sennilegt að hreinar lántökur einkaaðila verði um 8 milljörðum kr. meiri en 1975.

Í lánsfjáráætluninni fyrir árið 1977 er á ný stefnt að því að hreint lánsfjárframboð dragist saman, alls um 121/2%. Er þá annars vegar reiknað með að lán til opinberra aðila minnki um helming í krónutölu, en hins vegar að lánsfjárnotkun einkaaðila aukist lítið eitt í heild þótt lán til íbúðabyggjenda aukist nokkuð.

Helstu niðurstöður lánsfjáráætlunar hvað varðar einstaka hluta lánakerfisins má setja fram í fáum orðum. Hvað bankakerfið áhrærir er stefnt að því að bæta gjaldeyrisstöðu og lausafjárstöðu innlánsstofnana, einkum með því að dregið verði úr útlánaaukningu bankanna. Útlán innlánsstofnana aukast sennilega um þriðjung á þessu ári og er það mun meira en að var stefnt, en á næsta ári verður leitast við að takmarka útlánaaukningu þeirra við 20%. Ljóst er að breytingin, sem hér er að stefnt, mun ekki nást nema staða ríkissjóðs við Seðlabankann batni á næsta ári, eins og að er stefnt við afgreiðslu fjárlaga. Útlán fjárfestingarlánasjóða aukast sennilega um 22% í ár, sem telja verður fremur hóflega aukningu þótt hún sé meiri en að var stefnt. Á næsta ári er reiknað með að ný útlán sjóðanna verði um 22% meiri en í ár, en þar af aukist útlán atvinnuvegasjóða um rúmlega 16%, en íbúðarlánasjóða um 321/2%, og er það í samræmi við stefnu ríkisstj. um lánveitingar til verkamannabústaða, leigu- og söluíbúða sveitarfélaga og leiguíbúða aldraðra og öryrkja, auk lána til kaupa eldri íbúða.

Í skýrslunni kemur fram að lánsfjárþörf til ríkisframkvæmda 1977 nemur 10 milljörðum 280 millj. kr. þegar allt er talið, og er áformað að þar af verði 3410 millj. kr. aflað innanlands. Þörf fyrir erlendar lántökur ríkisins nemur því 6 milljörðum 870 millj. kr., en auk þess þarf að afla 2 milljarða 862 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs. Frv. til l. um heimild til þessarar erlendu lántöku hefur þegar verið flutt og hef ég hér engu að bæta við framsöguræðu mína fyrir því frv.

Í áætlun um erlendar lántökur á næsta ári er í heild gert ráð fyrir að þær nemi tæpum 20.9 milljörðum kr., en það er lítið eitt hærri fjárhæð í krónum en á þessu ári, en vitaskuld lægri í gjaldeyri reiknað. Í þessu sambandi er og til þess að líta að endurgreiðslur erlendra lána aukast að mun á næsta ári, þannig að hrein aukning langra. erlendra skulda verður 2 milljörðum kr. minni en á þessu ári. Erlendar lántökur verða þó áfram afar miklar. Ég tel því brýnt að hvergi sé gengið lengra í lánveitingum en lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir.

Ég tel engan vafa á að þrátt fyrir byrjunarörðugleika muni lánsfjáráætlunin reynast varanleg framför í íslenskri efnahagsstjórn. Farsæl framvinda efnahagsmála er undir því komin að lánamálin í heild verði tekin föstum tökum. Hér skiptir helst máli að útgjöldum sé þegar til lengdar lætur haldið innan þeirra marka sem þjóðartekjurnar setja og dregið sé úr erlendum lántökum fyrir árið sem fer í hönd. Á komandi ári verður unnið að því að bæta úr þeim göllum sem í ljós komu við framkvæmd síðustu lánsfjáráætlunar.