20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

1. mál, fjárlög 1977

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Eftir nokkrar vikur mun æðistór floti af langferðabílum halda úr Reykjavík austur á bóginn. Í þessum mikla bílaflota verður allverulegur hópur af fyrirfólki þjóðfélagsins, ásamt mökum sínum, og ég vænti þess að við verðum allir í þessum hópi sem hér erum staddir. Leiðin liggur langt austur og norður og bílalestin mun nema staðar við Sigölduvirkjun. Þar verður tekið á móti ferðalöngunum á myndarlegan hátt af Landsvirkjun ef að vanda lætur, og sú móttaka nær hámarki í rafstöðinni nýju sem þar er komin upp, og hámarkið á athöfninni þar verður að sjálfsögðu það, að hæstv. iðnrh. heldur ræðu og verður vafalaust mjög mjúkmáll og sléttmáll eins og hann er yfirleitt fyrir utan veggi þessa húss. Síðan mun hann í lok ræðu sinnar ýta á hnapp og þá fara orkuvélar Sigölduvirkjunar að framleiða raforku. Ég vænti þess að gnýrinn verði ekki of hár til þess að hæstv. ráðh. heyri ekki lófaklappið í kringum sig. En ég er hræddur um að æðimargir, sem þarna eru viðstaddir, hugsi dálítið annað en vænst hafði verið á þessum tímamótum.

Því er nefnilega þannig háttað, að þessi mikla virkjun, Sigölduvirkjun, hefur engan markað á landsvirkjunarsvæðinu eins og er. Við erum svo vel settir hér á landsvirkjunarsvæðinu að við höfum næga raforku enn þá og það er enginn markaður enn sem komið er fyrir þá viðbótarorku sem þarna verður framleidd. Þetta er á mörkunum að vísu, og þessi markaður kemur smátt og smátt, en það er ekki um þann markað að ræða þegar stöðin hefur störf.

Á sama tíma og þannig er hafin stórfelld orkuframleiðsla á landsvirkjunarsvæðinu eru ákaflega miklir erfiðleikar á sviði raforku hvarvetna um landið. Það er neyðarástand á Austfjörðum, þannig ástand á Norðurlandi að það verður að keyra þar olíustöðvar á fullum afköstum, þ. á m. mjög stóra slíka stöð á Akureyri. Það er þannig ástatt á Vestfjörðum að þar verður orkuskortur eftir tvö ár. Það er þannig ástand á Vesturlandi að þar er neyðarástand á norðurhluta Snæfellsness. En landsvirkjunarsvæðið, þar sem þessi mikla nýja orkuframleiðsla kemur í gagnið eftir nokkrar vikur, er ekki tengt við aðra landshluta á neinn hátt og það liggja ekki fyrir neinar till. frá hæstv. iðnrh. um að það skuli gert. Sigölduvirkjun virðist eiga að taka til starfa og framleiða raforku án þess að hafa markað, og er ákaflega illa með peninga farið. Þarna er um að ræða fjárfestingu sem skiptir milljörðum kr., hún kemur ekki að því gagni sem ætlað var vegna þess að það hefur ekki verið undirbúið nægilega vel að orkan kæmi til þeirra nota sem landið hefur að bjóða. Þetta er ákaflega slæm meðferð á fjármálum.

Ég hef fylgst með íslenskum stjórnmálum frá því að ég var krakki vegna þess að ég ólst upp á pólitísku heimili. Ég hef lesið mér sitthvað til um stjórnmálaþróunina eftir að ráðh. fluttust inn í landið. En ég hygg ekki að neinn ráðh. hafi farið með stóra fjármuni á jafnábyrgðarlausan hátt og hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen gerir með þessu máli.

Þegar send var umsókn um lán til Sigölduvirkjunar til Alþjóðabankans á sínum tíma var lánið rökstutt með því að það ætti að nýta þessa orku til þess að tengja saman öll orkuvinnslusvæðin á Íslandi og taka upp rafhitun húsa eftir því sem tiltækilegt væri talið. Það komu hingað eftirlitsmenn frá Alþjóðabankanum að kanna þetta mál. Þeir ræddu m. a. nokkrum sinnum við mig, og þegar þeir fóru komu þeir til mín og kvöddu mig og sögðu að þeir teldu þessar hugmyndir ákaflega skynsamlegar. En hæstv. núv. iðnrh. virðist ekki hafa neina hugmynd um þennan tilgang með Sigölduvirkjun. Það voru gerðar kannanir á því, hvort það væri hagkvæmt að koma upp orkufrekum iðnaði í sambandi við þessa virkjun ef markaðurinn tæki ekki nægilega fljótt við raforkunni. Þetta var kannað, það voru settar um það af minni hálfu ákveðnar grundvallarreglur sem ég hirði ekki að rekja hér, ég hef gert það margsinnis áður. En þetta ástand gerbreyttist á árinu 1973 þegar olíuverð hækkaði um mjög hátt hlutfall. Sú hækkun hefur haldið áfram síðan og hún mun halda áfram vegna þess að við vitum að olíulindum jarðar eru takmörk sett. Það verður hagkvæmara og hagkvæmara fyrir okkur að nýta innlenda orku til eigin þarfa, til húshitunar og annarra slíkra þarfa, en að kaupa olíu. Þetta jafngildir stórfelldum útflutningsiðnaði, og að þessu þurfum við að einbeita okkur.

Ég segi það alveg eins og er, að ég er mjög undrandi að hæstv. iðnrh. skuli ekki flytja till. um að tengja landsvirkjunarsvæðið við byggðalínuna norður þannig að sú tenging geti komið í gagnið, — hún verður ekki komin í gagnið þegar Sigölduvirkjun tekur til starfa, en sem allra fyrst. Til þess þarf línu frá Geithálsi og að Vatnshömrum í Andakíl, og þá er hægt að flytja verulega orku til Norðurlands.

Þetta er inngangur að till. sem ég flyt við frv. til fjárl. sem er víst ekki búið að útbýta hér, svo að ég vil leyfa mér að lesa hana. Hún er á þessa leið:

„Við 6. gr. bætist:

Fjmrh. er heimilt að taka innanlands og utan allt að 8 milljarða kr. lán er notað verði til að gera landið allt að einn rafveitukerfi og tryggja næga raforku til húshitunar, þar sem jarðvarmi er ekki tiltækur eða hagkvæmur. Skulu forgangsverkefni vera þessi:

a)

130 kw. stofnlínur og aðveitustöðvar:

Geitháls—Vatnshamrar

(Andakíll)

800

millj. kr.

Hrútafjörður—Mjólká

1650

Þetta er lína sem mundi

tengja Vestfirði við heildarkerfið.

Krafla—Grímsá

1250

Það er till. frá hæstv. ráðh.

um tengingu til Austfjarða,

en þar er um mun minni till.

að ræða heldur en þarna er

vert ráð fyrir.

Grímsá—Hornafjörður

1100

b)

60 kw. línur og aðveitustöðvar:

Vegamót—Ólafsvík

500

millj. kr.

Dalvík-Ólafsfjörður

300

Lagarfoss—Vopnafjörður

400

c)

Styrking á dreifikerfum samkvæmt

áætlunum sem Orkustofnun

semji og miðist við

sem mestan framkvæmdahraða“

Sú upphæð, sem ég geri þarna till. um að ráðh. sé heimilt að taka lán innanlands og utan nemur samtals 8 milljörðum kr. Það þarf allmiklu hærri upphæð til þess að ljúka þessum verkum. Til að mynda er styrkingin á dreifikerfunum, sem þarna er talað um, talin munu kosta 6–7 milljarða kr. En eins og ég gat um í upphafi er ég þeirrar skoðunar, og ég held að það sé auðvelt að sanna það með óhrekjandi rökum, að við getum ekki ráðist í arðbærari framkvæmd. Sú þróun er nú fram undan í sambandi við verðlag á olíu að þessi framkvæmd verður arðbærari og arðbærari með hverju ári sem líður, og það skiptir óhemjumiklu máli að það sé tekin ákvörðun um þetta nú þegar.

Það var í upphafi, eins og ég rakti áðan, tilgangurinn með Sigölduvirkjun að hún þjónaði landinu öllu, og það verður Sigölduvirkjun að gera. Þess vegna verður fyrsta stofnlínan, sem ég nefndi, Geitháls-Vatnshamrar, að koma í gagnið sem allra fyrst, bæði til að leysa vanda þess fólks, sem býr á Norðurlandi, og til þess að koma orkunni, sem Sigölduvirkjun framleiðir, í verð.

Þetta er að mínu mati mjög mikið stórmál, og ég vil vænta þess að hæstv. iðnrh., sem ekki virðist hafa gert sér neina grein fyrir þessum tilgangi með Sigölduvirkjun, leyfi Alþ. að heyra hvernig hann hugsar sér þróun þessara mála.