20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

1. mál, fjárlög 1977

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, flytur till. við fjárl. um heimild til að taka innanlands eða utan allt að 8000 millj. kr. lán, sem notað verði til að gera landið allt að einu rafveitukerfi, tryggja raforku til húshitunar o. s. frv. Framsöguræða hv. þm. var auðvitað með sínu lagi, eins og stundum hefur orðið að undanförnu, og hann notaði tækifærið til að senda mér nokkrar kveðjur. Ég þakka þær kveðjur og hafði hugsað mér að skýra hér örfá atriði í málflutningi hv. þm. En uppistaðan og það, sem byrjað var á, var þetta:

Nú kemur að því að Sigölduvirkjun verði tekin í notkun, og þá er svo ástatt að það er enginn markaður fyrir orkuna frá Sigöldu og það er núv. iðnrh. að kenna. Þetta var fyrsta meginatriðið í ræðu hv. þm. Ég tel mér skylt að gefa hér nokkrar skýringar og leiðréttingar, a. m. k. til handa þeim sem kunna að hafa tekið ræðu hv. þm. alvarlega. Það er í fyrsta lagi að það liggur fyrir samkv. orkuspám, að Sigölduvirkjun, sem er að afli til um 150 mw., mun verða fullnýtt eftir fjögur ár. Þegar hún tekur til starfa, sem verður nú snemma á þessu ári, bætir hún þegar úr þörf almenningsnota af rafmagni, því að nú er komið þannig að þörf er á viðbótarrafmagni á næstunni til almenningsnota. Í öðru lagi tekur Sigölduvirkjun við hinni sívaxandi þörf.

Eins og kunnugt er vex raforkuþörf hér á landi óðfluga á hverju ári. Í þriðja lagi er ætlunin að Sigölduvirkjun framleiði rafmagn fyrir þá verksmiðju á Grundartanga sem hv. þm. hafði undirbúið. Það er ljóst að 1980, í síðasta lagi 1981, er Sigölduvirkjun fullnýtt og þarf þá að mati Landsvirkjunar að vera tilbúin ný virkjun. Þess vegna hefur Landsvirkjun lagt á það áherslu að leyfi fáist hið fyrsta til að bjóða út Hrauneyjarfossvirkjun sem er hönnuð og fullbúin til útboðs af hálfu Landsvirkjunar.

Þessi fyrsta fullyrðing, að ekki sé nein not fyrir þá orku á næstunni sem Sigalda framleiðir, er því alger misskilningur og ranghermi. Hins vegar má vera að á bak við þessa fullyrðingu sé skoðun, sem stundum skýtur upp kollinum og er nauðsynlegt að benda á, og hún er þessi, að þegar rafvirkjun tekur til starfa, þá eigi þegar í stað að vera fullur markaður, þannig að öll orkan seljist strax. Í umr. á þessu ári hefur þessari skoðun, sem er að mínu áliti hin háskalegasta villukenning, hvað eftir annað skotið upp. Ef þessi kenning væri rétt, sem e. t. v. stendur að baki þessum fullyrðingum hv. 3. þm. Reykv., þá þýðir það að það er verið að dæma íslensku þjóðina til orkuskorts að staðaldri. Ef ný virkjun er fullnýtt um leið og hún tekur til starfa, þá býr þjóðin við sífelldan orkuskort næstu árin sem það tekur að byggja nýja virkjun. Þetta kom fyrir hér á fyrri árum, fyrir nokkrum áratugum, en ég hélt að þessi skoðun væri í rauninni búin að vera og menn hefðu sannfærst um að þegar virkjað skal hér á landi, þá verði að virkja með þeirri framsýni að hver rafvirkjun hafi orku og afi til nokkurra ára, meðan verið er að undirbúa hina næstu virkjun, til þess að skapa nýja þróunarmöguleika fyrir atvinnulífið og til þess að mæta hinni sívaxandi þörf almennings. En í ræðu hv. þm. og sem rökstuðningur fyrir þessari fullyrðingu hans kom fram að það hefði skort á að aflað væri markaðs fyrir húshitun hér á landi.

Og þá komum við að öðru atriði sem mér þykir rétt að gera að umtalsefni. Hv. 3. þm. Reykv. hélt því nefnilega löngum fram að í rauninni þyrfti enga stóriðju á Íslandi, hvorki í sambandi við Sigölduvirkjun né aðrar virkjanir, vegna þess að markaður væri svo mikill fyrir rafmagn til húshitunar að það væri fyrst og fremst húshitunin sem leggja ætti megináherslu á. Að vísu kom tvennt þar til: Annars vegar að hv. þm. virtist, meðan hann var iðnrh., ekki hafa gert neinar ráðstafanir til þess að styrkja raflínukerfið um landið eins og þyrfti til þess að hægt væri að koma nægri orku út til húshitunar. En í annan stað virðist hv. þm., skömmu eftir að hann varð ráðh., hafa fallið frá þessari kenningu sinni, að húshitun ætti að taka við rafmagninu frá Sigöldu í stað stóriðju, vegna þess að það voru ekki margir mánuðir liðnir frá því er hann komst í stjórn og þangað til hann skipaði sérstaka viðræðunefnd um orkufrekan iðnað sem samkv. skipunarbréfinu skyldi hafa það hlutverk að ræða við þá erlenda aðila sem hefðu ábuga á því að koma upp stóriðju hér á landi í samvinnu við íslendinga. Þessi viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem er enn starfandi, er skipuð af hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni, á fyrstu mánuðum hans sem iðnrh. Í rauninni var hann þá kominn á þá skoðun að til þess að nýta þessa virkjun mundi húshitun ekki duga. Hins vegar kemur þessi skoðun nú fram hjá honum. En þar er nauðsynlegt að athuga einnig annað atriði.

Ég held að það sé enginn vafi á því, að til húshitunar er jarðvarmi — hitaveitur — hentugasta aðferðin, ódýrasta aðferðin, bæði fyrir einstaklingana, sem eiga að njóta hennar, og fyrir þjóðfélagið í heild, — langhagkvæmasta aðferðin. Næsthagkvæmasta aðferðin er rafhitun, en þó er hún almennt allmiklu dýrari hitunarkostnaður heldur en jarðvarminn. Og þriðja leiðin, sú sem er langdýrust bæði fyrir notendur og fyrir landið í heild og þjóðfélagið, er olíuhitun. Í stað þess að gera húshitun með rafmagni að allsherjarstefnumarki, eins og virtist hjá hv. þm. áður fyrr og kemur nú aftur upp hjá honum í dag, ef þetta ætti að vera aðalstefnumarkið, þá vil ég alvarlega vara við þeirri stefnu, því að þótt sums staðar og kannske alivíða eigi rafhitun víð, þá verðum við íslendingar að leggja megináherslu á jarðvarmann. Það hefur verið gert í tíð núv. stjórnar.

Þessi mál hafa tekið þeim stakkaskiptum, sem áður hefur verið greint frá bæði hér í þingsölum og annars staðar, að frá því að hv. 3. þm. Reykv. setti sér það mark að í fyrirsjáanlegri framtíð gætu 2/3 hlutar landsmanna notið hitaveitna, þá er nú svo komið að það er fyrirsjáanlegt að á allra næstu árum munu yfir 80% landsmanna geta notið hitaveitna. Þetta stafar af því, að strax eftir stjórnarskiptin var hafist handa um að auka stórlega rannsóknir á jarðvarma víðs vegar um land og að kaupa nýja jarðbora, auka borkostinn, og afleiðingarnar af þessari starfsemi allri hafa orðið þessar sem ég hef nú getið um. Margar slíkar framkvæmdir eru nú í gangi. Allir vita um stækkun Hitaveitu Reykjavíkur til nágrannabyggðarlaganna, Hitaveita Suðurnesja er í undirbúningi og að nokkru leyti þegar tekin til starfa. Það, sem hv. 3. þm. Reykv. hafði ekki dreymt um, að Akureyri gæti notið hitaveitu, er nú að verða að veruleika. Í tillögu og skýrslu hv. 3. þm. Reykv., meðan hann var iðnrh., hefur honum ekki dottið það í hug, og hann lagði til að Akureyri yrði hituð með rafmagni og olíu, fyrst og fremst með rafmagni eftir því sem unnt væri.

Þetta verðum við að hafa í huga, að sú stefna að leggja megináherslu á rafmagn til húshitunar, eins og hv. þm. gerði áður og virðist gera nú í dag, sú stefna er röng. Jarðvarminn verður að ganga fyrir. Við verðum að kanna hvort jarðvarmi er finnanlegur og nýtanlegur með hagkvæmum hætti á mörgum þeim stöðum sem menn hafa áður talið að enginn jarðvarmi væri til, en nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að á mörgum slíkum stöðum, þar sem menn voru áður vonlausir um jarðvarma, hefur hann fundist þannig að hann er nýtanlegur. Þar sem hins vegar er ekki möguleiki að nýta jarðvarma eða hann fyrirfinnst ekki, þá verður auðvitað rafmagn að koma til.

Ég tel nauðsynlegt að láta þetta koma fram út af hinum furðulegu fullyrðingum hv. þm. En ég vil út af ummælum hans að öðru leyti taka það fram, að vitanlega þarf að tengja saman landshlutana, enda hefur aldrei verið gert annað eins átak í þeim efnum og nú hin síðustu tvö ár. Norðurlínan úr Borgarfirði til Akureyrar er nú að verða tilbúin, þannig að hún er þegar farin að flytja rafmagn í Húnavatnssýslur, og það er gert ráð fyrir því að upp úr áramótum verði hún tengd Akureyri og geti flutt rafmagn þangað. Lína frá Akureyri að Kröflu er langt komin og verður væntanlega tilbúin um eða upp úr áramótum. Og nú er í till. fjvn. gert ráð fyrir því að á næsta ári verði varið hálfum milljarði til þess að leggja línu frá Kröfluvirkjun til Austurlands.

Varðandi hins vegar þann flöskuháls, sem er á norðurlínunni eða byggðalínunni, þ. e. a. s. frá Geithálsi og upp í Borgarfjörð, þá er vitanlegt að það er Landsvirkjun sem leggur þá línu, sér um þær framkvæmdir. Hún hefur þegar hafið útboð og er gert ráð fyrir því og kemur fram í þeim plöggum, sem menn hafa fyrir sér, að byrjað verði á þeirri línu á næsta ári og henni verði lokið sumarið 1978, nokkru áður en Grundartangaverksmiðjan taki til starfa (StJ: Er það víst að Grundartangaverksmiðjan taki til starfa?) Það er gert ráð fyrir að hún taki til starfa um áramótin 1978–1979. Hins vegar er aldrei hægt að fullyrða slíkt fram í tímann, og náttúrlega getur ýmsa atburði og óhöpp borið að sem valda töfum, eins og t. d. hefur komið fyrir. Grundartangaverksmiðjan, sem Alþ. hefur nú samþ. og lög gilda um, tafðist vegna þess að því félagi, sem iðnrh. Alþb. valdi sér til fylgdar, snerist hugur af einhverjum ástæðum. Hefur raunar ekki komið nógu glögglega fram hvort ástæðan fyrir því, að Union Carbide kippti að sér hendinni, hafi verið sú að því hafi þótt fyrrv. iðnrh. ljúfari í samstarfi heldur en sá sem við tók af honum, eða hvort það eru einhverjar aðrar ástæður, það er mér ekki fullkunnugt um. En sannleikurinn er sá, að það kippti að sér hendinni og var þá valinn annar félagi sem ég vona að reynist betur.

Ég vildi aðeins láta þessar aths. koma fram til leiðréttingar á hinum furðulega málflutningi hv. 3. þm. Reykv.