20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

1. mál, fjárlög 1977

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna síðustu brtt. á síðustu bls. á þskj. 253. Þessari breytingu fagna ég vegna þess að orðalag hennar er svo hljóðandi — hún er við heimildagrein: „Að taka lán allt að 25 millj. kr. til framkvæmda við legurými geðdeildar á landsspítalalóð á árinu 1977.“ Þetta þýðir að fjvn. gerir ráð fyrir því að þessi upphæð ásamt öðrum fjárveitingum dugi til þess að hægt sé að ráðast bæði í byggingu göngudeildar og sjúkradeildar í næsta útboðsáfanga byggingarinnar.

Nú tæki það, herra forseti, nokkuð langan tíma ef við einstakir þm. stæðum upp til að fagna hvert og eitt okkar einstökum till. eða einstökum liðum í þessu stóra máli sem við erum hér að ræða. Ástæðan er ekki einvörðungu sú, heldur hin, að ég tel einnig nauðsynlegt að fá fram vissar upplýsingar hjá hv. formanni fjvn. Ég hygg að honum hafi raunar láðst í framsöguræðu sinni í dag að gefa þær. En í till. hv. fjvn., þar sem segir að n. leggi til að gjaldfærður stofnkostnaður Landsspítalans hækki úr 292 millj. í 370 millj. kr., kemur hvergi fram hvernig n. ætlast til að sú upphæð skiptist. Nauðsynlegt er að fá fram hvernig ætlast er til að sú upphæð skiptist. Að því er varðar aðrar fjárveitingar til Landsspítalans segir í aths. við frv. hvernig þær eiga að skiptast. Það er einnig nauðsynlegt að því er þetta varðar.

En úr því að ég minnist á aths. við frv., þá vil ég benda á eitt í sambandi við það mál sem ég er hér að ræða. Að að því er vikið með hætti, sem verður að vekja athygli á, í þeim kafla aths. við fjárlagafrv, þar sem fjallað er um fjárveitingar til Háskóla Íslands, að gert sé ráð fyrir að 48 millj. greiðist til Háskóla Íslands af fjárveitingu geðdeildar Landsspítalans árið 1977. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt, að þarna sé um að ræða skuldagreiðslur. Það gengu engar 48 millj. af fé Háskólans til byggingar geðdeildar á síðasta ári, og þess vegna er útilokað að geðdeildin skuldi þær Háskólanum né öðrum og útilokað að taka megi þær af fjárveitingum geðdeildar. Þetta vildi ég aðeins undirstrika vegna þess að þetta liggur fyrir í hinu prentaða skjali okkar, frv. til fjárl. Hitt er svo annað mál, að mér er ljóst og hef það raunar eftir upplýsingum hv. formanns fjvn., að til muni vera frá því í fyrra af framkvæmdafé geðdeildar Landsspítalans 15 millj., sem að sjálfsögðu er eðlilegt að gert sé ráð fyrir að nýtist á næsta ári. Því verð ég að ætla að afgreiðsla fjvn. á þessari brtt. byggist á því, að heimildarfjárhæðin að víðbættum þessum 15 millj. og að viðbættum þeim hluta gjaldfærðs stofnkostnaðar Landsspítalans, — þessar þrjár upphæðir nemi samtals þeirri fjárhæð sem þarf til þess að báðir þessir þættir, sem ég áðan nefndi, göngudeild og sjúkrarými, geti innifalist í sama byggingaráfanga á næsta ári.

Herra forseti. Það var aðeins til þess að fá fram upplýsingar um skiptingu á þessu fé frá hv. formanni fjvn. sem ég vildi kveðja mér hljóðs, jafnframt því sem ég fagna þessari tillögugerð fjvn.