20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Þegar ég tók til máls hér fyrr í kvöld og gerði grein fyrir brtt. fjvn., þá láðist mér að skýra sérstaklega frá brtt. sem n. flytur varðandi gjaldfærðan stofnkostnað við Landsspítalann. Eins og fram kemur á þskj. er lagt til að fjárveiting til Landsspítalans hækki um 78 millj. kr. 30 millj. af þessari upphæð eru vegna göngudeildar aldraðra að Hátúni 10. Gert er ráð fyrir að hafinn verði rekstur á þessari göngudeild á næsta ári. Mismunurinn að upphæð 48 millj. kr., er til framkvæmda við geðdeildina á landsspítalalóð. Í fjárlagafrv. er fjárveiting að upphæð 125 millj. kr. ætluð til framkvæmda við geðdeildina. Sá áfangi, sem hér um ræðir, er að ljúka frágangi á göngudeild geðdeildar sem nú er í byggingu á landsspítalalóðinni. Verk það, sem hér um ræðir, var gert ráð fyrir að kostaði samkv. útboði um 112–114 millj. kr. Þegar gengið var frá frv. var gert ráð fyrir að þær verðbætur, sem þarna er gert ráð fyrir til viðbótar, mundu nægja, en komið hefur í ljós að svo er ekki. Þessi útboðsáfangi, sem hér um ræðir, mun kosta 138 millj. Þá vantar til þess að ljúka og ganga frá göngudeildinni um 50 millj. kr., þannig að heildarupphæðin verður þá 188 millj. En fyrir hendi er ónotuð fjárveiting frá yfirstandandi ári sem notuð verður til að mæta þessari heildarfjárupphæð varðandi göngudeildina, 15 millj. kr., þannig að talið er að sú fjárveiting, sem hér er lagt til að komi, muni nægja að fullu til þess að ljúka öllum frágangi við göngudeildina. En eitthvað mun þó vanta á, svo að þarna sé allt í lagi, að talið er af sumum, aðrir telja að þetta sé nægilegt, og þá er það sérstaklega í sambandi við lóðina, að ég hygg. Ég geri ráð fyrir því að þó að einhverjar fáar millj. kr. beri þarna á milli, þá verði það ekki látið standa í vegi fyrir því að þessi þýðingarmikla starfsemi við geðdeildina við Landsspítalann geti hafist á komandi ári.

Hér er, eins og ég sagði áðan, að sjálfsögðu aðeins um áfanga að ræða af þessari byggingu. Næst tekur við að ganga frá legurými fyrir sjúka í þessari deild, og til þess er ætluð heimild í 6. gr., að upphæð 25 millj. kr., að tengja saman framkvæmdir sem hér eru hafðar í huga. Með þessu móti ætti að vera unnt að gera víðtækara útboð en ella í sambandi við þessa framkvæmd. Að sjálfsögðu verður um verulega viðbótarfjárveitingu að ræða til þessarar byggingar á fjárlagaárinu 1978. Hér er um byggingarframkvæmd að ræða sem hefur tekið lengri tíma en menn í upphafi gerðu sér vonir um að gæti átt sér stað. En það er eins um þessa framkvæmd og aðrar: kostnaður hefur allur stórhækkað, eins og best má sjá af þessu, að í sumar var ætlað að 125 millj. nægðu, en á þessum stutta tíma er upphæðin komin upp í 138 millj. í þann þátt þessara framkvæmda.

En sem sagt, við í fjvn. gerum ráð fyrir því að með því að taka þessa heimild inn á 6. gr. opnist möguleikar til þess að gera víðtækara útboð, ef það þykir henta, í einu lagi, þegar næsti þáttur verður boðinn út varðandi þessa stofnun eða þessa geðdeild.

Um þetta hef ég svo ekki meira að segja, en bið afsökunar á því að þetta féll niður hjá mér í framsögu fyrir brtt., en vænti að þetta sé fullnaðarskýring sem komið hefur hér fram af minni hálfu.