20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

1. mál, fjárlög 1977

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að þakka hv. formanni fjvn. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf í sambandi við skiptingu landsspítalafjár. Það er ljóst af þessum upplýsingum og lokaorðum hv. 2. þm. Vesturl., formanns fjvn., að nú verður unnt að ráðast í stærri byggingaráfanga heldur en ætlað var í fyrstu, — áfanga sem getur orðið með þeim hætti að þær framkvæmdir, sem um er að ræða, nýtist raunverulega geðsjúklingum svo vel sem verða má. Það gildir jafnt þó svo ekki verði hægt að ljúka þeim áfanga að fullu fyrr en á öndverðu ári 1978. Allt að einu er aðalatriðið að unnt sé að standa með þeim hætti að þessari framkvæmd að ráðist sé samtímis í þá tvo þætti starfseminnar sem ég hef nefnt í fyrri ræðum mínum: göngudeild og sjúkradeild. Held ég að fjármagnið, sem lagt er til nú að veitt verði í þessa framkvæmd, ásamt lánsheimild dugi út af fyrir sig til þess að unnt sé að halda með árangri á þessum málum. Ég held að hinu þáttinn, sem þarf í þetta, þ. e. a. s. viljann, skorti ekki, hann sé fyrir hendi hjá hæstv. ríkisstj. sem höfuðábyrgð ber á þeim framkvæmdum sem verða á árinu. Sem sagt, fjármagnið mun verða fyrir bendi, þá er viljinn allt sem þarf.